Mynd: EPA

Bókstafleg túlkun orðsins kyn færir hinsegin fólki mikla réttarbót

Hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp ákvörðun á mánudag sem fer á spjöld réttindasögu hinsegin fólks í landinu. Með bókstaflegum lestri löggjafar frá 1964 komst sex dómara meirihluti að þeirri niðurstöðu að bannað væri að reka fólk á grundvelli kynhneigðar.

Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að óvæntri tímamótaniðurstöðu á mánudaginn, er sex dómara meirihluti kvað upp þann dóm að löggjöf landsins um borgaraleg réttindi (e. Civil Rights Act) frá árinu 1964 tryggði hinsegin fólki vörn gegn því að kynhneigð þeirra eða kyngervi væri notuð til þess að mismuna þeim á vinnustað. 

Tveir íhaldssamir dómarar snerust á sveif með frjálslyndari dómurum réttarins, sem hefur vakið gríðarlega athygli og umtal í Bandaríkjunum, ekki síst sú staðreynd að meirihlutaniðurstaðan var skrifuð af Neil M. Gorsuch, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti skipaði sjálfur í embætti árið 2017.

Niðurstaðan var kveðin upp í máli sem mun fara á spjöld sögunnar sem Bostock v. Clayton County. Hún snýr raunar að fleiri en einu máli, en tekur nafn sitt eftir máli sem Gerald Bostock nokkur, samkynhneigður maður, höfðaði gegn Clayton-sýslu í Georgíuríki. Bostock var rekinn úr starfi sínu fyrir sýsluna eftir að hann byrjaði að verja frítíma sínum í að leika mjúkbolta með í mjúkboltadeild fyrir samkynhneigða.


Auglýsing

Niðurstaðan réttarins nær yfir tvö önnur svipuð mál sem voru tekin fyrir um leið. 

Donald Zarda starfaði fyrir fyrirtækið Altitude Express, en hann var rekinn þaðan nokkrum dögum eftir að hafa minnst á það í vinnunni að hann væri samkynhneigður. 

Aimee Stephens réði sig til starfa hjá útfararstofunni R.G. & G.R. Harris Funeral Homes sem karlmaður, en var síðan rekin eftir að hún tilkynnti vinnuveitendum sínum að hún ætlaði í kynleiðréttingu og lifa sem kvenmaður framvegis.

Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu að þann bút löggjafarinnar um borgaraleg réttindi sem segir til um að bannað sé að mismuna fólki á vegna kyns (e. sex) beri að túlka svo breitt að um ólögmæta mismunun sé að ræða ef fólki er sagt upp vegna kynhneigðar eða kyngervis, sem áður segir.

Þannig er það nú álitin ólögmæt mismunun, ef fólki er sagt upp á grundvelli þess kyns sem það laðast að eða þess kyns sem það upplifir sig sem.

Orðið kyn bókstaflega lesið

Það var ekki viðbúið að dómstóllinn myndi komast að þessari niðurstöðu, enda skipaður fleiri samfélagslega íhaldssömum dómurum en frjálslyndum eftir tvær skipanir Donalds Trump Bandaríkjaforseta í réttinn á kjörtímabilinu. Réttindahópar hinsegin fólks óttuðust hið versta.

Áðurnefndur Gorsuch ritaði meirihlutaálitið og rökstuddi breiða túlkun sína á orðinu kyn með því að ómögulegt væri að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að mismunun gegn samkynhneigðum eða transfólki væri mismunun gagnvart þeim einstaklingi.

„Atvinnurekandi sem segir upp einstaklingi fyrir að vera samkynhneigður eða trans segir upp manneskjunni fyrir eiginleika eða gjörðir sem hann hefði ekki sett spurningamerki við væri téður einstaklingur af öðru kyni,“ segir í meirihlutaálitinu, Þetta er lykilþátturinn í málinu, það sem sex dómarar lögðu nafn sitt við og veitir fjölmörgum Bandaríkjamönnum mikla réttarbót.

Þrír voru á móti og þeir voru ansi myrkir í máli. Samuel A. Alito Jr. og Clarence Thomas sendu inn sameiginlegt minnihlutaálit þar sem þeir fundu þessari bókstaflegu túlkun á orðinu kyn allt til foráttu. „Það er einungis eitt orð sem lýsir því sem þessi dómstóll hefur gert í dag: löggjöf,“ segir í álitinu sem Alito ritar.


Auglýsing

Máli sínu til stuðnings segir hann að þegar ákvæðið um að bannað væri að mismuna gegn kyni var skrifað inn í löggjöfina árið 1964 hafi orðið kyn ekki verið skilið á þann máta að það hefði nokkuð að gera með mismunun gegn samkynhneigðum eða transfólki. „Sú túlkun hefði verið í megnri andstöðu við samfélagsleg viðmið þess tíma,“ ritar Alito einnig. 

En samfélagsleg viðmið hafa breyst hratt, raunar alveg ótrúlega hratt, eins og rakið er í fréttaskýringu í New York Times. Nú er það svo að í nýlegri skoðanakönnun segjast 83 prósent Bandaríkjamanna vera sammála því að ólöglegt ætti að vera að reka fólk úr vinnu á grundvelli kynhneigðar. 90 prósent demókrata eru á þeirri skoðun og 74 prósent repúblikana.

Nú þegar var ólögmætt að reka fólk úr vinnu fyrir kynhneigð eða kyngervi í um það bil helmingi bandarísku ríkjanna, en nú bætast öll hin við.

Samfélög heittrúaðra, sem sum hver vestanhafs líta enn á samkynhneigð sem mikla synd og meina hinsegin fólki að taka þátt í starfi sínu, hafa gagnrýnt ákvörðun réttarins harðlega og samkvæmt frétt New York Times svíður sumum mjög að ákvörðunin skuli hafa komið frá íhaldssömum Hæstarétti, sem reynst hefur bandamaður með ýmisleg önnur efni eins og fóstureyðingar á liðnum árum.

Mun hafa víðtæk áhrif

Afleiðingar þessa dóms um mismunun á atvinnumarkaðnum munu teygja sig yfir á fleiri svið bandarísks samfélags, eiginlega flest, því nú er komið fordæmi frá hæstaréttinum fyrir þessari breiðu skilgreiningu kyns í löggjöfinni um borgaraleg réttindi.

Á vefmiðlinum Axios og víðar er sagt frá því að ákvörðunin muni hafa áhrif á reglur sem Trump-stjórnin er nýlega búin að setja og þrengja að réttindum transfólks til heilbrigðisþjónustu, en í því tilviki var um að ræða afnám reglugerða sem komið var á í forsetatíð Barack Obama.

Einnig er talið líklegt að ákvörðunin hafi áhrif á reglur sem Trump-stjórnin er búin að vera að vinna að, sem myndu gera ættleiðingarstofum auðveldara að sleppa því að þjónusta samkynhneigð pör, væri það vilji þeirra. Slíkar stofur fengju allavega ekki lengur svo mikið sem einn dollara af fjármunum ríkisins.

Samkvæmt umfjöllun Vox um málið er transbannið í bandarískra hernum í raun það eina af þeim þónokkru atriðum sem Trump-stjórnin hefur hrint í framkvæmd til þess að draga úr réttindum hinsegin fólks frá 2017, sem gæti staðið af sér Bostock-ákvörðuna, en það hefur þegar komið til kasta réttarins, sem ákvað að halda því tímabundið í gildi með fimm atkvæðum gegn fjórum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar