Tilkynnt um erlenda fjárfestingu í Samherja nokkrum dögum fyrir Kveiksþáttinn
Samkvæmt lögum um erlenda fjárfestingu eru miklar hömlur á því hvað erlendir aðilar mega kaupa í íslenskum sjávarútvegi. Allar slíkar fjárfestingar þarf að tilkynna sérstaklega til atvinnuvegaráðuneytisins. Ein slík tilkynnt barst 4. nóvember 2019. Hún var vegna þess að erlendur aðili hafði, óbeint, eignast stóran hlut í Samherja.
Þann 4. nóvember 2019 barst atvinnuvegaráðuneytinu tilkynning um að félag í eigu einstaklings sem er skilgreindur erlendur samkvæmt íslenskum lögum ætti 49 prósent hlut í félagi, sem hefði eignast stóran hlut í sjávarútvegsfyrirtækinu Samherja hf.
Átta dögum síðar átti fyrirtækið eftir að vera á allra vörum hérlendis í kjölfar uppljóstrunar nokkurra fjölmiðla á því að Samherji væri grunaður um að hafa greitt mútur, stundað peningaþvætti og skattasniðgöngu í tengslum við starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Forsvarsmönnum Samherja hafði verið gerð grein fyrir því að uppljóstrunin væri í farveginum 19 dögum áður en að tilkynningin var send til ráðuneytisins.
Opinberlega var ekki sagt frá því að eigendaskipti væru að eiga sér stað hjá Samherja fyrr en 15. maí 2020. Þá birtist tilkynning á heimasíðu Samherjasamstæðunnar um að Þorsteinn Már Baldvinsson, Helga S. Guðmundsdóttir og Kristján Vilhelmsson væru að færa næstum allt eignarhald á Samherja hf., sem er eignarhaldsfélag utan um þorra starfsemi samstæðunnar á Íslandi og í Færeyjum, til barna sinna. Þau halda hins vegar áfram að vera eigendur að erlendu starfseminni, og halda á stórum hlut í Eimskip, sem hefur frá 2018 verið vistað inni í öðru eignarhaldsfélagi, Samherja Holding ehf.
Eitt barnanna, Baldvin Þorsteinsson sem er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja, er með lögheimili í Hollandi. Það gerir hann að erlendum aðila í skilningi íslenskra laga og um tilfærslu á eignum yfir til slíks þarf að tilkynna til atvinnuvegaráðuneytisins. Það var gert, líkt og áður sagði, 4. nóvember 2019.
Girt fyrir erlent eignarhald á sjávarútvegi
Í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri er að finna ákvæði um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi. Í lögunum kemur fram að einungis þeir sem eru íslenskir ríkisborgarar, aðrir íslenskir aðilar eða íslenskir lögaðilar sem eru að öllu leyti í eigu íslenskra aðila eða þeirra sem uppfylla ákveðin skilyrði megi stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands.
Þau skilyrði eru að viðkomandi sé undir íslenskum yfirráðum, séu ekki í eigu erlendra aðila að meiri leyti en 25 prósent ef um er að ræða yfir fimm prósent hlutur í lögaðila sem stundar veiðar eða vinnslu í íslenskri efnahagslögsögu. Sé eignarhluturinn undir fimm prósent má viðkomandi erlendur aðili þó eiga allt að 33 prósent hlut.
Þrátt fyrir þessi skýru ákvæði er ekki vandkvæðum bundið að komast framhjá því að færa eignarhald á aflaheimildum til erlends aðila.
Framsal á hlutum og fyrirframgreiddur arfur
Tilkynna ber ráðherra erlenda fjárfestingu á þeim sviðum þar sem sérstakar takmarkanir gilda jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Samkvæmt lögum skal fylgja „afrit eða ljósrit af skjölum eða gögnum sem málið varða og nauðsynleg teljast að mati ráðherra. Sé um að ræða erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnufyrirtæki hvílir tilkynningarskyldan á viðkomandi atvinnufyrirtæki.“
Vegna þessa þurfti K&B ehf., sem er í 2,1 prósent eigu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, 49 prósent eigu Baldvins Þorsteinssonar, sonar hans, og 48,9 prósent eigu Kötlu Þorsteinsdóttur, dóttur Þorsteins Más, að tilkynna um það til ráðuneytis Þórdísar Kolbrúnar þegar félagið eignaðist 43 prósent hlut í Samherja hf. Áður hafði sá hluti verið í eigu foreldra þeirra Baldvins og Kötlu.
Í maí, þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um með hvaða hætti framsal hlutabréfa foreldra til barna hefði átt sér stað, fengust þau svör hjá Björgólfi Jóhannssyni, annars forstjóra Samherja, að annars vegar hefðu börnin fengið fyrirframgreiddan arf, og hins vegar væri um sölu milli félaga að ræða.
Ekki hafa fengist upplýsingar hjá Samherja um virði þess hlutar sem tilkynnt var um að færður hefði verið á milli kynslóða né hvernig tilfærslunni var skipt milli fyrirframgreidds arfs og sölu. Engin skjöl hafa heldur verið send inn til fyrirtækjaskrár vegna viðskiptanna enn sem komið er. Einu upplýsingarnar sem þar er að finna um K&B ehf., fyrir utan eignarhaldið á félaginu og að það hafi verið stofnað í apríl 2019, er að hlutafé þess var aukið um 100 milljónir króna seint í september í fyrra.
Eigið fé Samherja hf. var 446,7 milljónir evra í árslok 2018, en ársreikningur fyrirtækisins fyrir árið 2019 hefur ekki verið skilað til fyrirtækjaskrár, enda frestur til slíks ekki útrunninn. Á gengi þess tíma var eigið féð um 60 milljarðar króna.
Þær 100 milljónir króna sem greiddar hafa verið inn sem hlutafé í K&B ehf. duga vart til að eignast næstum helminginn í því veldi.
Tilkynnt um fjárfestingu rétt áður en stormur skall á
Fjárfesting K&B ehf. í Samherja var tilkynnt til atvinnuvegaráðuneytisins átta dögum áður en að Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera opinberuðu margra mánaða rannsóknarvinnu sem sýndi fram á meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherjasamstæðunnar í tengslum við veiðar hennar í Namibíu.
Í umfjöllun Kveiks, sem sýnd var 12. nóvember 2019, kom fram að fréttaskýringaþátturinn leitaði til Þorsteins Más um viðtal vegna umfjöllunar þáttarins um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja í Namibíu 15. október, tæpum þremur vikum áður en tilkynnt var um að hluturinn í Samherja hefði verið seldur til K&B ehf.
Þorsteinn Már hafnaði að mæta í viðtal en fékk svo skriflega beiðni tíu dögum síðar, 25. október eða níu dögum áður en atvinnuvegaráðuneytinu var tilkynnt um að 43 prósent hluturinn í Samherja hefði verið seldur til barna aðaleigenda félagsins, þar sem Kveikur greindi honum frá því í smáatriðum hvað var verið að fjalla um.
Þrátt fyrir að fjárfesting K&B ehf. í Samherja hafi átt sér stað 4. nóvember 2019 var ekki greint frá henni opinberlega fyrr en 15. maí síðastliðinn, þegar tilkynning um breytt eignarhald á Samherja hf. var birt á heimasíðu samstæðunnar. Samhliða var greint frá því að Dagný Linda, Halldór Örn, Kristján Bjarni og Katrín, börn Kristjáns Vilhelmssonar útgerðarstjóra Samherja, muni héðan í frá fara samanlagt með um 41,5 prósent hlutafjár. Í tilkynningunni sagði að með þessum hætti „vilja stofnendur Samherja treysta og viðhalda þeim mikilvægu fjölskyldutengslum sem félagið hefur ætíð byggst á og hafa verið hornsteinn í rekstrinum.“ Þar kom einnig fram að undirbúningur breytinganna á eignarhaldinu hafi staðið undanfarin tvö ár en áformin og framkvæmd þeirra voru formlega kynnt í stjórn félagsins á miðju ári 2019.
Engin skjöl hafa enn borist til fyrirtækjaskrár sem skjalfesta að þessi viðskipti hafi átt sér stað. Samkvæmt henni eru Þorsteinn Már, Helga S. Guðmundsdóttir fyrrverandi eiginkona hans, og Kristján enn helstu eigendur Samherja hf.
Fáar tilkynningar á áratug
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, lagði fram skriflega fyrirspurn til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í janúar síðastliðnum um eignarhald erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum. Þórdís Kolbrún svaraði fyrirspurn hans síðastliðinn þriðjudag.
Einn liður í fyrirspurn Ólafs sneri að því að fá upplýsingar um hverjir raunverulegir eigendur þeirra erlendu aðila sem eiga óbeinan eignarhlut í fyrirtækjum í sjávarútvegi. Í svari ráðherrans kom fram að á grundvelli tilkynningaskyldu um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hafi ráðuneyti hennar á síðustu tíu árum borist fimm tilkynningar um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi.
Sú fyrsta er barst á árinu 2010 um fjárfestingu Nautilus Fisheries Ltd., Hong Kong, í Storm Seafood ehf. í gegnum einkahlutafélögin Skiphól ehf. og Austmann ehf. Sú næsta árið 2013 þegar tilkynnt var um fjárfestingu Agatha's yard ehf. í Nóntanga ehf. Agatha's yard ehf. er í eigu tveggja erlendra aðila en tilgangur Nóntanga ehf. er m.a. vinnsla sjávarafurða, fiskveiða og skyldur rekstur.
Næstu árin takmörkuðust tilkynningar um fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi við viðskipti erlendra skammtímasjóða í HB Granda, sem er skráð fyrirtæki á markaði. Í svari Þórdísar Kolbrúnar er svo greint frá því að ráðuneytinu hafi verið tilkynnt um það, 4. nóvember 2019, að K&B ehf. hefði fjárfest í Samherja.
Í svari hennar við fyrirspurn Ólafs segir að K&B ehf. sé í 49 prósent eigu erlends aðila, og er þar átt við Baldvin Þorsteinsson, sem hefur nú lögheimili í Hollandi og er skilgreindur erlendur samkvæmt íslenskum lögum vegna þess. Í svarinu segir enn fremur: „Samherji hf. stundar hvorki fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands né rekur fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi í eigin nafni en á að fullu eða að hluta fyrirtæki í slíkri starfsemi.“
Félag á félag sem á félag
Það er rétt að Samherji hf. stundar ekki beinar veiðar eða vinnslu. En dótturfélög og félög sem það á í gera það sannarlega.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja hf, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,02 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 prósent hans. Síldarvinnslan, sem Samherji á beint og óbeint 49,9 prósent hlut í, er svo með 5,2 prósent aflahlutdeild og Bergur-Huginn, í eigu Síldarvinnslunnar, er með 2,3 prósent af heildarkvóta til umráða. Samanlagt er þessi blokk með 16,5 prósent aflahlutdeild.
Baldvin á því hlut í félagi, sem á hlut í félagi sem á félög, að hluta eða öllu leyti, sem halda saman á stærri hluta af úthlutuðum kvóta í íslenskri efnahagslögsögu en nokkur önnur sjávarútvegssamstæða.