Á gjörgæslum dvelja aðeins þeir sem eru alvarlega veikir. Oft mjög alvarlega. Eru jafnvel í lífshættu. Sérhæft starfsfólk sinnir þeim, fólk sem er vant að fást við erfið og flókin verkefni á borð við hópslys. Í kórónuveirufaraldrinum var gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi helguð þeim sem höfðu sýkst af veirunni og veikst af algjörlega nýjum sjúkdómi: COVID-19. Allir þurftu að læra hratt – nýjar upplýsingar bárust nánast daglega. Þeir sem lögðust inn voru hræddir. Höfðu heyrt fréttirnar að utan um örlög margra sem þurftu að fara í öndunarvél.
Nú er töluvert síðan að síðasti sjúklingurinn sem fékk COVID-19 var útskrifaður af deildinni. Í nógu hefur þó áfram verið að snúast – eins og venjan er á gjörgæsludeild.
„Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa þessu,“ segir Þóra Gunnlaugsdóttir, aðstoðardeildarstjóri gjörgæslunnar í Fossvogi, spurð um hvernig ástandið hafi verið á hennar vinnustað er faraldurinn stóð sem hæst. Vinnudagarnir voru langir, oftast vann Þóra sex daga í viku í 10-12 tíma í senn. Hún fór nokkrum sinnum í hlífðarbúninginn mikla og inn á stofur til sjúklinganna en aðallega var hún í skipulagningu á starfi deildarinnar á þessum óvenjulegu tímum. „Ég kom að því að opna í rauninni aðra gjörgæsludeild þegar ákveðið var að fjölga rúmum. Daglega var ég svo í því hlutverki að passa að allir starfsmenn fengju sína hvíld og leysti þá af á meðan.“
Uppúr stendur hvað allir lögðu sig fram. Hvað allir stóðuð saman. Og hvað allir voru ákveðnir í að gera sitt besta og komast í gegnum þetta. „Það voru allir starfsmenn í ákveðnum baráttugír,“ rifjar Þóra upp. „Við stóðum saman í þessu. Fólk mætti tilbúið í slaginn á hverjum degi – tilbúið í hvað sem var. Þannig var stemningin í hópnum. Hún var mjög sérstök.“
Með góðu og öflugu skipulagi tókst að sögn Þóru að manna vaktir þó að nokkra daga hafi deildin verið yfirfull. Á sama tíma var nýtt fólk úr bakvarðasveitinni að hefja störf og þurfti aðlögun og vanir hjúkrunarfræðingar urðu því að vera lengur í hlífðarbúningnum en ákjósanlegt var. „En þessa daga komu læknarnir sterkir inn og leystu hjúkrunarfræðingana, sem alla jafna eru meira við sjúkrarúmin, af þegar þurfti,“ segir Þóra. „Þeir pössuðu líka upp á það að við fengjum næga hvíld. Það voru hreinlega allir samtaka í öllu.“
Þetta var ný veira, nýr sjúkdómur og mikil óvissa. Það þurfti að stækka deildina og bæta við starfsfólki með hraði. En að mati Þóru tókst þetta allt vel. „Allir sem lögðu hönd á plóg stóðu sig vel, hvor sem það voru smiðirnir, rafvirkjarnir, ræstingarfólkið, lyfjatæknarnir og lyfjafræðingarnir, sjúkraþjálfarar, þeir sem sáu um birgðamálin... Allir!“
Örvænting í augum fólks
Þegar síðasti sjúklingurinn var útskrifaður af gjörgæsludeildinni í lok apríl var haldið upp á tímamótin með vöfflukaffi. Þóra stóð þá við vöfflujárnið og fann fyrir töluverðum létti. „En ég held að við séum flest enn á þeim stað að gera okkur grein fyrir að þetta er ekki endilega alveg búið. Það gætu lagst inn fleiri vegna COVID. Auðvitað vona allir að svo verði ekki. Vegna fólksins sem veikist. Þessi sjúkdómur er alvarlegur. Ég sá oft örvæntinguna í augunum á sjúklingunum sem vissu að þeir voru að fara í öndunarvél. Það voru svo hræðilegar fréttir búnar að berast að utan um örlög fólks sem þurfti á þannig meðferð að halda. Eitt af því sem ég minnist sérstaklega þegar ég lít til baka er hvað allir voru hræddir. Það var og er svo mikil óvissa með þennan sjúkdóm.“
Tíu hafa látist hér á landi vegna COVID-19. Sjö þeirra létust á Landspítalanum . 27 voru lagðir inn á gjörgæsludeild með sjúkdóminn og þurftu fimmtán að fara í öndunarvél. „Miðað við þær upplýsingar sem við höfðum fengið frá Kína, Ítalíu og víðar þá undirbjuggum við okkur undir það versta. Við héldum að þetta yrði erfiðara – að fleiri myndu deyja. En svo voru svo margir sjúklingar okkar sem komust í gegnum þetta. Og þeir hafa nokkrir komið að heimsækja okkur.“
Venju samkvæmt eru þeir sem dvalið hafa á gjörgæsludeild boðaðir í viðtöl eftir útskrift. Þeim er þá einnig boðið að skoða deildina. „Og nú höfum við fengið til okkar í heimsókn fólk sem veiktist af COVID, fólk sem var fleiri daga í öndunarvél. Það hefur verið ótrúlegt að sjá þau koma gangandi inn á deildina eftir allt sem á undan er gengið.“
Þóra segir það alltaf tilfinningaþrungna stund þegar fyrrverandi skjólstæðingar koma í heimsókn en núna gekk yfir heimsfaraldur og tilfinningarnar jafnvel enn sterkari en oft áður. „Þetta var svo óvenjulegt – að öllu leyti. Að sjá þetta fólk sem hefur náð sér eftir þessi alvarlegu veikindi... það er bara magnað.“
Í miðjum faraldrinum voru í gangi kjaraviðræður milli ríkisins og hjúkrunarfræðinga. Stéttin fann mikinn meðbyr og stuðning alls staðar að úr samfélaginu enda hlutverk þeirra í framlínusveitinni augljóst. Samningar náðust en þeir voru síðar felldir í atkvæðagreiðslu. Áfram héldu viðræður en til verkfalls var boðað og átti það að hefjast síðasta mánudag. Um helgina samþykktu samninganefndirnar hins vegar miðlunartillögu ríkissáttasemjara og verkfalli var í kjölfarið aflýst. Í tillögunni felst að gerðardómur mun úrskurða um launalið kjarasamningsins. En áður en að til þess kemur þurfa félagsmenn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að greiða atkvæði um tillöguna. Og sú atkvæðagreiðsla stendur nú yfir.
Enn að hugsa málið
Þóra segist enn vera að gera upp við sig hvernig hennar atkvæði muni falla. „Mér finnst augljóst að ríkið vill ekki leiðrétta okkar laun í samræmi við aðrar háskólamenntaðar stéttir sem hjá því vinna,“ segir hún og vísar þar til útreikninga kjararáðs stéttarfélagsins um að laun hjúkrunarfræðinga séu um 10 prósent lægri en annarra stétta með sambærilega menntun. „Þegar birtar eru fréttir um okkar laun eru það oft meðaltalslaun stéttarinnar með öllum aukavöktum og jafnvel stjórnendur hafðir þar með. Það gefur auðvitað ekki skýra mynd af dagvinnulaunum, hjá til dæmis hjúkrunarfræðingum sem vinna á göngudeildum og heilsugæslustöðvum. Hjá fólki sem hefur ekki kost á yfirvinnu. Það á ekki að vera þannig að fólk þurfi að stóla á yfirvinnu til að eiga í sig og á.“
Þóra hefur rætt málið við sína samstarfsmenn og segir skiptar skoðanir á stöðunni sem upp er komin. Hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir lengi. Og vinnufyrirkomulag þeirra er misjafnt. Margir hverjir vinna mikla vaktavinnu – á daginn, kvöldin, nóttunni og um helgar. Það kom glögglega í ljós í faraldrinum.
Hún bendir á að hjúkrunarfræðingar á Norðurlöndunum hafi fyrir talsvert löngu náð fram styttingu vinnuvikunnar en sambærileg kjarabót hafi ekki enn náðst hér á landi. Hún vill að þung vaktavinna á borð við þá sem hjúkrunarfræðingar á mörgum deildum Landspítalans vinna verði endurmetin.
Þó að engir sjúklingar með COVID-19 liggi nú á Landspítalanum eru verkefnin mörg og ærin. „Í umræðunni fyrir verkfallið var fyrst og fremst rætt um sýnatökur. Eins og það væri okkar mikilvægasta starf að taka sýni af ferðamönnum. Það næstum því gleymdist allt hitt sem við gerum.“
Þóra er búsett í Hafnarfirði. Hún lauk námi í hjúkrunarfræði árið 2006 og fór svo í meistaranám í stjórnun í heilbrigðisþjónustu við Háskólann á Bifröst. Því lauk hún árið 2010. Í haust hefur hún starfað á gjörgæsludeildinni í Fossvogi í fjögur ár. „Landspítalinn er mikill lærdómsvinnustaður. Þar er maður aldrei einn í erfiðum aðstæðum. Það leggjast allir á eitt í verkefnunum, hjálpast að við að finna lausnir. Þessi samstaða og samvinna sýndi sig svo vel í faraldrinum. Þá vorum við að læra eitthvað nýtt á hverjum einasta degi.
Núna er ég að komast aðeins yfir þetta og ég var að byrja í sumarfríi. Ég er fegin að vera komin í frí. Þetta hefur verið erfiður vetur. Allt frá janúar til maí var erfitt.“
Hún ætlar að reyna að slaka vel á í fríinu – þótt hún fari ekki til Spánar eins og til stóð. „Gjörgæslan er þung deild,“ útskýrir hún, spurð um álagið á deildinni í sumar. „Það tekur margar vikur fyrir afleysingafólk að koma sér inn í starfið. Föstu starfsmennirnir þurfa því að hlaupa hraðar á meðan samstarfsmenn taka sín frí.“
Vinnuálagið í faraldrinum fór misjafnt í starfsfólkið. Starfsfólkið sem þó er vant að takast á við erfið og flókin verkefni – eins og hópslys og farsóttir á borð við svínaflensu. Sérstakt teymi innan spítalans, stuðnings- og ráðgjafateymið, sem hefur það hlutverk að gæta að líðan starfsmanna, hélt fundi með þeim og einnig var hverjum og einum boðið að koma í einstaklingsviðtal. „Vaktirnar voru miserfiðar og það gat verið erfitt fyrir fólk að vera í hlífðarbúningnum,“ svarar Þóra spurð hvort að hún telji að einhver eftirköst verði af álaginu í kringum hápunkt faraldursins. „Það gæti orðið erfitt fyrir marga að fara aftur í búninginn, ef til þess kemur. Þá gætu vaknað einhverjar tilfinningar. Við höfum vissulega unnið í mjög erfiðum aðstæðum áður en þessar voru svo sérstakar.“
Búningarnir ennþá til taks
Gjörgæslan ber þess enn sýnileg merki að hafa verið þungamiðjan í meðhöndlun sjúklinga með COVID hér á landi. Þar eru enn uppi milliveggir sem notaðir voru til að stúka deildina af. Ekki stendur til að taka þá niður alveg strax. Starfsfólkið er enn undir það búið að taka á móti fleiri sjúklingum með sjúkdóminn. „Við erum ekki búin að pakka öllu saman,“ segir Þóra. „Við erum með hlífðarbúnaðinn allan til taks.“