Mynd: Bára Huld Beck

Íslendingar með tekjur í öðrum gjaldmiðlum geta ekki fengið íslensk húsnæðislán

Á tímum þar sem fjarvinna hefur sannað gildi sitt er unnið markvisst að því að gera Íslendingum og/eða erlendum ríkisborgurum sem vinna alþjóðleg fyrirtæki að setjast að á Íslandi. Einn stór steinn er þó í götu þeirra: þeir sem eru með tekjur í erlendum gjaldmiðlum geta ekki fengið íslensk húsnæðislán.

Íslendingar sem eru með tekjur í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu, eða eru búsettir erlendis, geta ekki fengið húsnæðislán hjá íslenskum bönkum. Ástæðuna er að finna í því að lögum um fasteignalán til neytenda var breytt árið 2017 með þeim hætti að lán tengd erlendum gjaldmiðlum voru skilgreind sérstaklega. Ein skilgreiningin á þeim er að slík lán teljist lán sem eru „bundið öðrum gjaldmiðli en tekjur neytanda og eignir, sem hann ætlar til endurgreiðslu lánsins.“ 

Þessi skilgreining virkar í báðar áttir. Hún meinar þeim sem eru með tekjur í íslenskum krónum að taka húsnæðismál í öðrum gjaldmiðlum, en hún meinar sömuleiðis þeim Íslendingum sem vinna fyrir erlend fyrirtæki, og eru með tekjur í öðrum gjaldmiðlum en krónu, eða öðrum áhugasömum erlendum aðilum með slíkar tekjur, og vilja kaupa sér húsnæði á Íslandi, að fá lán fyrir því í íslenskum krónum.

Lögunum var nýverið breytt á ný til að taka á þessari stöðu. Þær breytingar voru samþykktar 9. júní síðastliðinn. Á meðal þeirra breytinga sem þar voru samþykktar voru á ákvæði um lán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum þannig að neytendum standi til boða að taka lán til kaupa á fasteign hér á landi þótt tekjur þeirra séu í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu.

Auglýsing

Þrátt fyrir þessa breytingu standa slík lán ekki til boða hjá stóru bönkunum þremur. Tveir þeirra eru að athuga hvort þeir muni breyta þeirri afstöðu í ljósi nýlegu lagabreytinganna. Sá þriðji segir hins vegar að eins og staðan sé í dag sé hann ekki „tæknilega tilbúinn“ í að veita slík lán.

Vonast til að lánin verði veitt

Þegar frumvarp um breytingar á lögunum var lagt fram af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, í febrúar síðastliðnum, kom fram í greinargerð að lán tengd erlendum gjaldmiðlum eru ekki hluti af vöruframboði íslenskra viðskiptabanka og lífeyrissjóða. Yrði frumvarpið að lögum stæðu vonir til að sú staða breytist. Að minnsta hvað varði „lán í íslenskum krónum til neytenda til kaupa á fasteignum hér á landi í þeim tilvikum sem tekjur þeirra sem ætlaðar eru til endurgreiðslu lánsins eru í erlendum gjaldmiðli. Einnig er vonast til að tillagaðar breytingar bæti aðgengi neytenda hér á landi með erlendar tekjur, og neytenda sem eru búsettir erlendis, t.d. námsmanna, að neytendalánum í íslenskum krónum.“

Kjarninn leitaði svara hjá Íslandsbanka, Landsbankanum og Arion banka um hvort að til stæði að fara að bjóða fólki með tekjur í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum upp á húsnæðislán, í ljósi þess að ofangreint frumvarp er orðið að lögum og vilji stjórnvalda með samþykkt þess skýr. 

Íslandsbanki telur sig ekki geta uppfyllt nokkrar íþyngjandi skyldur sem krefjist mikillar forritunar og tæknilegrar vinnu.
Mynd: Íslandsbanki

Íslandsbanki, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, segir í sínu svari að þótt lög geri ráð fyrir að hægt sé að veita lán tengd erlendum gjaldmiðlum þá sé bankanum ekki skylt að veita slík lán. „Með nýlegri lagabreytingu var aðeins slakað á kröfunum sem varða lán tengd erlendum gjaldmiðlum og þarf því að uppfylla færri skyldur en áður var. Löggjafinn gekk þó ekki jafn langt og við höfðum óskað eftir. Eftir standa því nokkrar íþyngjandi skyldur sem bankanum er ekki unnt að uppfylla. Þær krefjast mikillar forritunar og tæknilegrar vinnu sem þyrfti að vera lokið áður en slík lán yrðu veitt. Eins og staðan er í dag erum við því ekki tæknilega tilbúin í að veita slík lán.“

Eru með lánin til athugunar

Í svari Landsbankans, sem einnig er í eigu íslenska ríkisins, kemur fram að bankinn hafi hingað til ekki talið sig geta uppfyllt öll ákvæði lagana um veitingu erlendra fasteignalána, svo sem upplýsingaskildu um gengisbreytingar. „Nýlega voru gerðar breytingar á lögum um fasteignalán til neytenda, m.a. á ákvæði sem tengist veitingu erlendra fasteignalána. Í kjölfarið hófst athugun innan bankans á því hvort breytingin valdi því að við getum veitt slík lán.“

Auglýsing

Arion banki, eini stóri bankinn á Íslandi sem keppir á húsnæðislánamarkaði sem er í einkaeigu, segir í sínu svari að almennt sé hann ekki að veita húsnæðislán til einstaklinga sem eru með tekjur í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu. „Við erum hins vegar að skoða að bjóða upp á slík lán. Neytendastofa setur reglurnar varðandi utanumhald og gætu þær orðið íþyngjandi. Bankinn vill því bíða og sjá hvernig regluverkið verður á þessum lánum áður en það verður farið að bjóða upp á þau.“

Vilja lokka sérfræðinga í fjarvinnu til landsins

Málið er áhugavert í öðru samhengi. Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dóttir ferða­mála-, iðn­að­ar- og nýsköp­un­ar­ráð­herra, sagði fyrr í þessum mánuði, í svari við fyrirspurn Kjarnans, að áhuga­verð tæki­færi hafi skap­ast fyrir Íslands veg COVID-19 far­ald­urs­ins og allrar fjar­vinn­unnar sem far­aldr­inum fylg­ir. 

Nú væri unnið að því að gera erlendum rík­is­borg­urum sem starfa fyrir fyr­ir­tæki erlendis auð­veld­ara að setj­ast hér að og vinna fjar­vinnu.

Tækni­fyr­ir­tæki á borð við Twitter, Facebook og fleiri hafa gefið það út að fjar­vinnan hafi gefið svo góða raun í far­aldr­inum að héðan í frá verði starfs­mönnum algjör­lega frjálst að vinna að heim­an. Sem opnar nýja mögu­leika fyrir lönd eins og Ísland að lokka hingað þetta starfsfólk. 

Hugmyndin er sú að sérfræðingarnir myndu halda áfram að starfa fyrir þau alþjóðlegu fyrirtæki sem þeir starfa fyrir í dag, en búa á Íslandi. Hagur íslensks samfélags yrði margskonar. Kristinn Árni L. Hróbjartsson, ritstjóri nýsköpunarvefsins Northstack, benti til að mynda á það í viðtali í Kjarnanum í maí að eitt stærsta vandamál okkar væri að það búi mjög fáir á landinu og til þess að búa til hagkerfi framtíðarinnar þurfi fólk með rétta þekkingu og rétta reynslu. „Það eru tvær leiðir til þess að búa það til, annað hvort að senda það í gegnum háskóla eða flytja það inn. Háskólakerfið annar bara ákveðið miklu á ári og fljótlegasta leiðin væri að flytja inn fullt af fólki. Það er stóra pælingin.“ Með auknum fjölda aðfluttra fjarvinnandi sérfræðinga væri hægt að efla frumkvöðlasamfélagið hér á landi verulega. 

Margar hindranir eru í veginum fyrir því að sérfræðingar, hvort sem þeir eru íslenskir að uppruna eða erlendir, sem vilja búa á Íslandi en starfa áfram fyrir erlendan atvinnurekanda geri slíkt. Ein sú helsta er að sem stendur geta þeir geta ekki tekið húsnæðislán.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar