Bára Huld Beck

„Þetta frumvarp eykur líkur á því að ríkið fremji mannréttindabrot“

Auður Jónsdóttir rithöfundur og Ísold Uggadóttir kvikmyndaleikstjóri fóru á stúfana og kynntu sér frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um breytingu á útlendingalögum. Þær hittu Claudie Ashonie Wilson sem hefur sérhæft sig í mannréttinda- og útlendingalöggjöf en hún segir að ef lokað yrði alfarið fyrir að mál væru endurupptekin væri ljóst að stjórnvöld myndu ná því markmiði að tryggja að 100 prósent þeirra sem fara til kærunefndar eftir ákveðin tímamörk yrði vísað frá.

Und­an­farið hefur verið í skoðun hjá Alþingi svo­kallað útlend­inga­frum­varp. Ófáir aðilar hafa gert við það alvar­legar athuga­semdir en gagn­rýni á frum­varpið hefur meðal ann­ars borist frá Rauða kross­inum, Flótta­manna­stofnun Sam­ein­uðu þjóð­anna og lög­fræði­stof­unni Rétti, svo fáeinir séu til­greind­ir. Við leit­uðum svara um álita­mál í frum­varp­inu hjá Claudie Ashonie Wil­son, lög­manni og með­eig­anda á lög­manns­stof­unni Rétti, en hún hefur sér­hæft sig í mann­rétt­inda­lög­gjöf – og útlend­inga­lög­gjöf.

„Til þess að ákveða hvort ein­hver þurfi á vernd að halda, þarf að skoða mál við­kom­andi efn­is­lega; það er að segja: Skoða hvers vegna mann­eskjan finnur sig knúna til að flýja og hvort ríkið geti verndað hana,“ segir Claudie og bendir á að þær grund­vall­ar­reglur gildi í flótta­manna­rétti að ekki megi vísa fólki á hættu­svæði.

„Hvernig hyggj­ast yfir­völd tryggja að það muni ekki brjóta í bága við þessa grund­vall­ar­reglu, og vita hvort þau séu að vísa mann­eskju á hættu­svæði, ef umsókn er ekki skoðuð efn­is­lega? Frum­varpið gerir slíka fram­kvæmd stjórn­valda mögu­lega.“ Hún segir að þetta stand­ist ekki skoð­un, einkum ef litið sé m.a. til þriðju greinar Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu um skyldu ríkis að um vísa fólki ekki á hættu­svæði.

Að sögn Claudie er brýnt að hafa í huga að fólk sem hefur þegar fengið vernd ann­ars stað­ar, en komi hingað í leit að vernd, falli ekki undir Dyfl­inn­ar­reglu­gerð­ina. Flokka megi mál sem koma inn til Útlend­inga­stofn­unar í þrjá flokka.

  • Mál sem strax fá efn­is­lega með­ferð, þ.e. skoðað sé hvort til að mynda ofsóknir séu fyrir hendi í heima­ríki.
  • Mál sem falla undir Dyfl­inn­ar­reglu­gerð­ina og þá er skoðað hvaða Dyfl­inn­ar­ríki beri ábyrgð á umsókn við­kom­andi.
  • Mál fólks sem þegar hefur fengið vernd í til­teknu Dyfl­inn­ar­ríki, en er ekki lengur í Dyfl­inn­ar­kerfi, þar sem það hefur þegar hlotið vernd.

Auglýsing

„Líkur eru á að fólk sem hefur til að mynda fengið vernd á Grikk­landi fái að vera áfram þar, en þar með eru auknar líkur á að það þurfi að dvelja við ómann­úð­legar og van­virð­andi aðstæð­ur, ef marka má fjölda skýrslna frá virtum mann­rétt­inda­sam­tök­um,“ und­ir­strikar Claudie og segir að hinn hóp­ur­inn, fólk sem ekki hafi fengið vernd, og eigi eftir að fá umsókn sína tekna fyr­ir, standi þá frammi fyrir hættu á að þurfa að dvelja við ómann­úð­legar aðstæður – og verða end­ur­sent til heima­ríkis þar sem þau hafa sætt ofsókn­um, vegna alvar­legra ágalla á hæl­is­kerf­inu í Grikk­land­i. 

„Báðir hópar eiga sam­eig­in­legt að geta verið í við­kvæmri stöðu, en það þarf að skoða slík mál sér­stak­lega. Til dæmis hvort hættu­legt sé að senda við­kom­andi til baka vegna ein­stak­lings­bund­inna aðstæðna í við­kom­andi ríki. Dyfl­inn­ar­reglu­gerðin gerir ráð fyrir að unnt sé að taka umsóknir síð­ar­nefndu til með­ferð­ar. En ef frum­varpið nær fram að ganga, þá vísar íslenska ríkið fólki á brott á þeim for­sendum að það falli undir ákvæða Dyfl­inn­ar­reglu­gerð­ar­innar eða að það sé komið með vernd í við­kom­andi Dyfl­inn­ar­ríki. Það í sjálfu sér er hættu­leg­t,“ segir Claudie og í beinu fram­haldi að nú sé útlit fyrir að veita eigi tveimur hópum sömu með­ferð, þótt aug­ljós­lega sé um að ræða sitt­hvorn hlut­inn. 

„Við erum sífellt að skoða hætt­una á broti á þriðju grein Mann­rétt­inda­sátt­mál­ans, sem felur í sér að vísa ekki fólki á brott á hættu­svæði. Hættan á því verður mikil ef frum­varpið nær í gegn.“   

Skortir sann­fær­andi rök

Claudie telur rétt­láta máls­með­ferð ekki vera tryggða: „Sam­kvæmt frum­varp­inu er fólki bara vísað frá á grund­velli þess að búið sé að veita því vernd ann­ars stað­ar. Þessi rök eru ekki sann­fær­andi. Með þessu móti stytt­ist vissu­lega tími máls­með­ferð­ar, en það tryggir hins vegar ekki að umsækj­and­inn hljóti rétt­láta máls­með­ferð og að málið verði skoðað sem skyldi. Er það boð­leg úrlausn að stjórn­völd geti ein­fald­lega lokið við mál með vísan til við­eig­andi ákvæð­is?“ spyr hún og segir síðan að eina leiðin til að tryggja raun­veru­lega úrlausn sé með því að skoða hvert mál efn­is­lega. 

„Ákvæði frum­varps­ins gera þá skoðun stjórn­valda val­kvæða, enda háð mati stjórn­valda í hverju sinn­i,“ útskýrir hún og kveðst velta því fyrir sér hvert sé hið raun­veru­lega mark­mið með svo þröngum laga­texta – sem hún telji að stand­ist mögu­lega ekki alþjóð­leg lög. „Ég bendi sér­stak­lega á umsögn Flótta­manna­stofn­unar Sam­ein­uðu þjóð­anna, en í henni voru gerðar athuga­semdir við þetta frum­varp, m.a. um hug­taka­skil­grein­ingu, því frum­varpið fer á skjön við leið­bein­ingar stofn­un­ar­innar um túlkun ákvæða flótta­manna­samn­ings­ins. Jafn­framt er gagn­rýnt að verið sé að svipta suma hópa rétti til fjöl­skyldu­sam­ein­ingar og fram­færslu. Í frum­varpið skortir sann­fær­andi rök fyrir því hvers vegna þessi svipt­ing sé talin nauð­syn­leg.“ 

Rauði kross­inn hefur sett fram gagn­rýni á þeim nót­um, en sam­tökin hafa bent á að mögu­leikar flótta­fólks til fjöl­skyldu­sam­ein­ingar séu nú þegar skýrt afmark­að­ir.

Claudie Ashonie Wilson
Bára Huld Beck

Lög­fest­ing ómann­úð­legrar fram­kvæmdar

Claudie ítrekar að hætta sé á að komið verði í veg fyrir að yfir­völd geti kannað hvort mann­eskja telj­ist vera í sér­stak­lega við­kvæmri stöðu og hvort hún sé t.d. við bága lík­am­lega eða and­lega heilsu. 

„Það er ekki hægt að tryggja að þetta ger­ist ekki þegar það er ákvæði í lög­unum sem gerir það að verkum að horft sé aðeins á þetta til­tekna atriði; hvort búið sé að veita við­kom­andi vernd — og að mál­inu sé þá bara vísað frá. Með þessu móti tekur máls­með­ferðin hugs­an­lega bara einn dag, en tryggir ekki að við­kom­andi hljóti rétt­láta máls­með­ferð og að málið verði skoð­að,“ segir hún. 

Claudie er einn helsti sér­fræð­ingur okkar í flótta­manna­rétti svo við fáum hana til að útskýra aðeins mekk­an­ismann í kerf­inu í þessu máli. 

„Það er verið að koma í veg fyrir gagn­rýni á kerfið með lög­fest­ingu ómann­úð­legrar fram­kvæmd­ar,“ segir Claudie. „Lögin myndu þannig vernda kerfið fyrir gagn­rýni. Fólk yrði þá að mót­mæla Alþingi, en ekki gjörðum Útlend­inga­stofn­un­ar. Útlend­inga­stofnun væri þannig ein­ungis að fram­fylgja lög­um.“ 

Hverjar geta verið afleið­ingar þess að ríkið brjóti mögu­lega gegn alþjóð­legum skuld­bind­ingum sín­um, til dæmis Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu? 

„Mann­rétt­inda­sátt­máli Evr­ópu er samn­ingur sem Ísland hefur skrifað undir og lög­fest. Brot gegn ákvæðum sátt­mál­ans hefur afleið­ing­ar, t.d. skaða­bóta­skyldu rík­is­ins. Slíkt er ekki gott fyrir orð­spor okkar út á við, enda ættum við að vera fremst meðal mann­rétt­inda­sinn­aðra þjóða,“ svarar Claudi­e. 

„Þá eru aðrir alþjóð­legar mann­rétt­inda­samn­ingar sem ekki eru full­gildir hér, þ.e. Alþingi hefur ekki inn­leitt og lög­fest þá. Samt sem áður er Ísland bundið af ákvæðum þess­ara samn­inga að þjóð­ar­rétti. Íslandi ber skylda til að sam­ræma sína lög­gjöf við alþjóð­legar skuld­bind­ingar sín­ar.“ 

Auglýsing

Af gagn­rýn­inni að dæma virð­ast íslensk stjórn­völd ekki horfa nægi­lega til til­mæla Flótta­manna­stofn­unar Sam­ein­uðu Þjóð­anna – sem hefur m.a. það hlut­verk að aðstoða við túlkun og skiln­ing rík­is­ins á ákvæðum flótta­manna­samn­inga.

„Til dæmis gagn­rýnir stofn­unin skil­grein­ingu Íslands á því hvað telj­ist til „ber­sýni­legrar til­hæfu­lausrar umsókn­ar“ og segir hana ekki í sam­ræmi við túlkun þeirra og leið­bein­ingar á því hvernig skuli túlka samn­ing­inn, segir Claudie. „Ís­lenska ríkið hefur búið til sína eigin skil­grein­ingu í útlend­inga­lög­unum á því hvað telj­ist til „ber­sýni­legrar til­hæfu­lausar umsókn­ar“. Það blasir við að ef þú ert kom­inn á skjön við leið­bein­ing­ar­reglur Flótta­manna­stofn­unar um hvernig eigi að skil­greina til­tekin hug­tök er alveg hætta á að inn­tak hug­taks í íslensku lög­unum verður frá upp­hafi ekki í sam­ræmi við alþjóð­leg lög. Það þykir mér alvar­leg­t.“ 

Hætta á að umsækj­endur fái ekki rétt­láta máls­með­ferð

Næst bein­ist talið að umsókn­ar­ferl­inu sjálfu.

„Ef þú færð nei hjá Útlend­inga­stofnun áttu rétt á að kæra til Kæru­nefndar Útlend­inga­mála,“ útlistar Claudie þá og segir ekki vera sjálf­sagt að mann­eskjan fái að bíða eftir úrskurði kæru­nefndar til fá úr því skorið hvort  Útlend­inga­stofnun hafi haft rangt eða rétt fyrir sér með því að synja henn­i.  „Hér skiptir máli hvort umsóknin falli undir umsóknir sem lúta að for­gangs­með­ferð og á við í þeim til­vikum þar sem umsækj­andi er frá svoköll­uðu öruggu þriðja ríki, eins og t.d. Alban­íu, Georgíu og svo fram­veg­is.“  

Lög­manna­stofan Réttur bendir á í umsögn sinni að Kæru­nefnd Útlend­inga­mála hafi snúið við 30 pró­sent af ákvörð­unum Útlend­inga­stofn­un­ar, m.a. vegna rangrar túlk­unar laga. 

„Ef þessi var­nagli, að fá að bíða eftir nið­ur­stöðu úrskurðar vegna kæru, sem aðrir umsækj­endur en þeir frá öruggum þriðju ríkjum njóta góðs af, er afnumin eða sætir veru­legum tak­mörk­unum sam­kvæmt frum­varp­inu, hvað er þá eft­ir?“ spyr hún alvar­leg. 

„Einkum þegar ákvörð­unum er svo oft snúið við, sem raun ber vitni. Hægt væri að vísa fólki á brott án þess að það hafi fengið nið­ur­stöðu úr kæru sinn­i,“ segir hún og ítrekar aft­ur: „Sú hætta myndi skap­ast að umsækj­endur fái ekki rétt­láta máls­með­ferð.“  

Getur það mögu­lega leitt til mann­rétt­inda­brota?

„Réttur til rétt­látrar máls­með­ferð­ar, og virk og raun­hæf úrlausn mála, telst vera grund­vall­ar­mann­rétt­ind­i,“ svarar Claudie ákveð­in. „Þetta frum­varp eykur líkur á því að ríkið fremji mann­rétt­inda­brot.“   

Mótmæli hælisleitenda á Austurvelli þann 13. mars 2019.
Bára Huld Beck

Því næst bendir Claudie á töl­fræði vegna ákvarð­ana Útlend­inga­stofn­unar sem felldar voru úr gildi af Kæru­nefnd útlend­inga­mála árið 2019, en alls var 155 ákvörð­unum snúið við af nefnd­inni. Alls hlutu því 531 umsækj­andi alþjóð­lega vernd á árinu, að hennar sögn.

„Þrjá­tíu pró­sent af öllum umsóknum sem hlutu jákvæða nið­ur­stöðu það árið, voru fyrir til­stilli Kæru­nefndar útlend­inga­mála – sem verður að telj­ast afar stór hlut­i,“ tekur hún skýrt fram.

„Ef tek­inn er í burtu réttur fólks til að dvelja hér á meðan kæra er til með­ferðar hjá nefnd­inni, og að vísa megi málum frá á þeim for­sendum að við­kom­andi hafi verið fluttur úr landi, líkt og frum­varpið gerir nú ráð fyr­ir, þá er komin upp hættu­leg mót­sögn.“ 

Hún segir að frum­varpið tak­marki veru­lega rétt fólks til að nýta sér til fulls mögu­legar kæru­leið­ir; sér­stak­lega í ljósi ann­arrar greinar frum­varps­ins um sjálf­krafa kæru til kæru­nefndar og nið­ur­fell­ingar þess­ara mála án efn­is­legrar skoð­un­ar. 

„Þetta er vanda­málið sem flestir sem hafa skrifað umsagnir hafa gagn­rýnt, þar á meðal Flótta­manna­stofnun Sam­ein­uðu Þjóð­anna og Rauði Kross­inn.“      

Tryggja að 100 pró­sent mála verði vísað frá

Claudie nefnir síðan veiga­mikið atriði: „Ástæða þess að mér þykir mik­il­vægt að ekki sé tek­inn burt annar var­naglinn, þ.e. réttur til end­ur­upp­töku máls, er vegna afgreiðslu kæru­nefnd­ar­innar á beiðnum um frestun rétt­ar­á­hrifa. Við lok máls­með­ferð­ar­innar eiga ein­stak­lingar kost á því að biðja ann­ars vegar um frestun á rétt­ar­á­hrif­um, þ.e.a.s. heim­ild til að dvelja hér­lendis á meðan að mál er rekið fyrir dóm­stólum – og hins vegar beiðni um end­ur­upp­töku; þ.e.a.s. að málið verði end­ur­skoðað með til­liti til breyttra aðstæðna eða vegna þess að fyrri ákvörðun stjórn­valda bygg­ist á röngum og ófull­nægj­andi upp­lýs­ingum um máls­at­vik, segir hún hratt og bendir því næst á að á tíma­bil­inu 2015 til 2018 hafi fengið synjun 86 pró­sent þeirra sem ósk­uðu eftir að dvelja hér­lendis á meðan mál þeirra væri rekið fyrir dóm­stól­u­m.“ 

„Ein­ungis 14 pró­sent hafa fengið heim­ild til dvalar á tíma mála­rekstr­ar­ins og þykir merki­legt að flestar þess­ara nið­ur­staðna stjórn­valda hafi verið felldar úr gildi af íslenskum dóm­stól­um. Kæru­nefnd heldur ekki töl­fræði­legum upp­lýs­ingum um þau mál sem sam­þykkt hefur verið að end­ur­skoða – nokkuð sem gerir þessi ferli ógagn­sæ. Aftur á móti hafa mörg mál verið end­ur­skoðuð – og nefndin lagt fyrir Útlend­inga­stofnun að veita annað hvort dval­ar­leyfi eða taka umsókn til með­ferð­ar. En ef lokað er alfarið fyrir að mál séu end­ur­upp­tekin er alveg ljóst að stjórn­völd munu nái því mark­miði að tryggja að 100 pró­sent þeirra mála sem fara til kæru­nefnd­ar, eftir ákveðin tíma­mörk, verði vísað frá,“ segir hún og bætir síðan við að með þessum breyt­ingum sé sú hætta fyrir hendi að skil­virkni verði tekin fram fyrir mannúð og rétt umsækj­enda til raun­hæfrar úrlausnar mála sinna og rétt­látrar máls­með­ferð­ar. 

„Þessu til við­bótar tel ég alvar­legt að verið sé að snið­ganga máls­með­ferð­ar­reglur stjórn­sýslu­laga – en það er almenn regla sem gerir lág­marks­kröfu til stjórn­valda. Nú er verið að nota þessi lög til að veikja gildi máls­með­ferð­ar­reglna stjórn­sýslu­laga í útlend­inga­mál­um. Og ætti það að vera áhyggju­efn­i,“ segir Claudie að lok­um.  

Frumvarpið lokar flestum dyrum

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er þingmaður Viðreisnar, en hún hefur gagnrýnt frumvarpið á Alþingi. Þorbjörg er með meistaragráðu í lögum frá Columbia háskóla í New York og var áður m.a. deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst og saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara.

„Frumvarp ríkisstjórnarinnar fjallar í grunninn um tvennt; möguleika fólks á alþjóðlegri vernd á Íslandi og um hvaða heimildir stjórnvöld hafa til að vísa þessu fólki burt. Í stuttu máli má segja um þetta frumvarp að þar séu möguleikar stjórnvalda á að neita fólki um vernd miklir, en möguleikar fólks á vernd á Íslandi verða litlir,“ segir Þorbjörg.

Hún nefnir hin pólitísku skilaboð og hinar pólitísku afleiðingar: „Alvarlegust er einfaldlega sú niðurstaða að fáir munu geta fengið vernd hér, ef þetta frumvarp verður að lögum,“ segir hún og vekur athygli á að réttarvernd fólks í leit að vernd verði minni. „Þetta frumvarp er enn harðara en fyrra frumvarp um sama efni. Rauði þráðurinn í greinargerðinni er skilvirkni og einfaldari málsmeðferð. Skilvirkt kerfi er gott og það er kostur, þegar kerfin vinna vel. En skilvirkt kerfi leiðir ekki sjálfkrafa til þess að kerfið sé gott, ekki þegar reglurnar sem kerfið vinnur eftir eru vondar.“

Þorbjörg segir að á meðal þýðingarmikilla breytinga á réttarstöðu flóttafólks sé að það fólk sem hafi fengið alþjóðlega vernd annars staðar muni lítið skjól eiga hér. „Það getur kannski við fyrstu sýn hljómað skynsamlega, að einbeita sér að þeim sem enga vernd hafa fengið. Þetta rímar hins vegar ekki vel við veruleikann. Hin ómanneskjulegu skilaboð eru nefnilega þau að það skipti engu máli í hvaða löndum vernd hefur boðist. En það er þó það atriði sem öllu máli skiptir í mínum huga, því við vitum t.d. öll hvaða veruleiki bíður flóttafólks í löndum eins og Grikklandi. Nálgunin er að fólk sem hefur fengið alþjóðlega vernd t.d. í Grikklandi sé ekki flóttafólk sem sé í brýnni þörf fyrir vernd. Við munum eftir átakanlegum sögum fólks sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum, stundum með þeim afleiðingum að þetta fólk fékk að vera hér áfram eftir mótmæli almennings. Þetta frumvarp lokar hins vegar flestum dyrum og þetta fólk hefði ekki átt þess kost að fá að vera hér áfram við það regluverk sem þarna er að finna.“

Ábyrgðin er stjórnvalda

Að mati Þorbjargar þýðir frumvarpið í reynd að fólk verði endursent til landa eins og Grikklands og Ungverjalands og bendir á varnarorð Rauða krossins þess efnis að lítið sé um að fólk sem fengið hafi alþjóðlega vernd í ríkjum norður Evrópu sæki hingað vernd. Stærsti hópurinn komi frá Grikklandi, Ítalíu og Ungverjalandi, þar sem aðstæður flóttafólks þykja óviðunandi að mati Rauða krossins.

Þetta er í huga Þorbjargar eitt stærsta vandamálið við þetta frumvarp, en getur þess að margt í frumvarpinu skerði rétt fólks á flótta sem hingað leitar. „Niðurstaðan verður sú að Ísland telur fáa flóttamenn í reynd þess verðuga að fá hér aðstoð,” útskýrir hún. „Ég er sammála því að fókusinn eigi að vera á þeim sem eru í mestri þörf, en þetta frumvarp lokar hins vegar á margt flóttafólk – sem sannarlega þarf skjól og vernd.“

Þorbjörg segir að þótt auðvitað sé jákvætt að stytta málsmeðferðartíma, þá hafi það ekki verið biðtíminn sem hafi sært almenning mest þegar fréttir hafi verið sagðar af fólki sem senda á úr landi. „Nemendur Hagaskóla voru til dæmis alls ekki að biðla til stjórnvalda um að Zainab Zafari yrði send til Grikklands hratt og örugglega. Mótmælin snerust ekki um hraðann, heldur um svarið. Ákallið var að hún fengi að vera hér áfram. Í þau skipti sem almenningur hefur reiðst hefur reiðin verið sprottin af harkalegri niðurstöðunni. Hraðari afgreiðsla er ekki það sem fólk hefur verið að biðja um,“ segir hún og beinir því næst talinu að umræðunni og segir að í fréttaflutningi heyrum við sorglegar sögur af fólki, og börnum, sem Útlendingastofnun sé að vísa úr landi.

„Ábyrgðin er hins vegar stjórnvalda, bætir hún við. „Þegar allt kemur til alls þá snýst þetta frumvarp um pólitík. Og reglurnar eru smíðaðar í kringum þá pólitík að hingað verði erfitt að sækja vernd. Áhyggjuefnið er að sama skapi hvert stjórnvöld telji boðlegt að endursenda fólk. Greinargerðin segir okkur nefnilega algjörlega við hvað er raunverulega átt þegar talað er um einfaldari málsmeðferð og skilvirkari. Málsmeðferðin er sögð eiga að vera skýrari en áður og gagnsæ. Það er pólitíkin að baki málinu því miður líka: Skýr og gegnsæ. Það er pólitík sem ég get ekki skrifað undir og mun ekki styðja,“ segir Þorbjörg.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Aðsend mynd

Við að heyra og lesa gagnrýni á frumvarpið veltum við fyrir okkur hugsuninni á bak við frumvarpið, hvernig virkni þess sé hugsuð.

Þorbjörg segir að greinargerð með frumvarpi segi oftast hver markmiðin séu og hverju eigi að ná fram. „Greinargerð er oft eins og sögumaðurinn að baki lögunum. Sagan sem ríkisstjórnin er að hér að segja okkur er sagan um skilvirkni,“ útskýrir hún.

„En þegar sagan um skilvirknina er rýnd þá finnst mér pólitíska svarið vera að skilvirkni þýðir í reynd minni möguleikar flóttafólks á að leita skjóls á Íslandi. Það á að afgreiða umsóknir hratt og vel, og það á að þrengja möguleika flóttafólks á að leita hingað. Það er síðan gert með ýmsum leiðum. Það þarf að muna að lagasetning eins og þessi er fyrst og fremst pólitík. Og í mínum huga er þetta harkaleg nálgun stjórnvalda.“

Að lokum spyrjum við út í jákvæðar hliðar frumvarpsins.

„Það er jákvæður kafli í þessu frumvarpi sem fjallar um atvinnuréttindi útlendinga,“ svarar Þorbjörg. „Sá kafli varðar hins vegar réttindi annarra en þeirra sem hingað sækja vernd. Þau atriði snúa að útgáfu dvalarleyfa, t.d. varðandi doktorsnema sem mega þá vera staddir hér á landi þegar þeir sækja um dvalarleyfi í fyrsta skipti og síðan að heimilt verði að veita útlendingi, sem misst hefur starf hér sem krefst sérfræðiþekkingar, dvalarleyfi til þriggja mánaða á meðan hann leitar að öðru starfi á grundvelli sérþekkingar sinnar. Það eru þarna líka önnur atriði varðandi atvinnuréttindi, t.d. varðandi útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa vegna sérstakra ástæðna.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiViðtal