Bára Huld Beck

Kári: Stjórnvöld neituðu sér um þann lúxus að læra af okkar reynslu

Faraldur COVID-19 hefði orðið verri ef hið „furðulega fyrirbrigði sem Íslensk erfðagreining er“ hefði ekki verið til, segir Kári Stefánsson. Fyrirtækið hafi ítrekað verið sniðgengið við skipulagningu landamæraskimana en eigi þó að bera ábyrgðina.

Þetta stendur ennþá þannig að ef ég færi í fýlu í dag þá yrði að loka land­in­u,“ segir Kári Stef­áns­son, for­stjóri Íslenskrar erfða­grein­ing­ar, um skimanir fyrir kór­ónu­veirunni við landa­mæri Íslands. 



En Kári ætlar ekki að fara í fýlu. Honum finnst hins vegar „klaufa­legt“ að ítrekað hafi ekk­ert sam­ráð verið haft við fyr­ir­tækið – þann eina aðila sem hafi reynslu og þann aðbúnað sem þarf til að fram­kvæma verk­ið. Hvert ein­asta sýni frá komu­far­þegum hafi verið greint hjá ÍE. Þar er unnið á vöktum og fram á nótt.



„Og það sem mér finnst mik­il­vægt að velta fyrir sér er að þessi far­aldur er ekki fyrsti kór­ónu­veiru­far­aldur sem gengur yfir. Hann er sá skæð­asti og hefur haft mesta útbreiðslu. En það er mjög lítil ástæða að ætla að þetta verði sá síð­ast­i.“



Kári hefur nú lagt það til við sótt­varna­lækni og land­lækni að sett verði á fót sér­stök stofnun sem hafi það verk­efni að nýta þá reynslu sem til hefur orð­ið, safna gögn­um, greina þau og „búa til skiln­ing“ – eins og hann orðar það – svo hægt sé að vera und­ir­búin í fram­tíð­inni. Hann býður fram hús­næði Íslenskrar erfða­grein­ingar og stuðn­ing frá því vís­inda­sam­fé­lagi sem þar er að finna. Stofn­un­in  ætti hins vegar heima á for­ræði emb­ættis sótt­varna­lækn­is.



„Það sem hvílir á mér núna og veldur mér áhyggjum er hvernig ætlum við að und­ir­búa okkur undir næsta far­ald­ur? Þegar menn halda því fram að við höfum verið vel í stakk búin til að takast á við þennan far­ald­ur, að heil­brigð­is­kerfið hafi verið vel undir það búið, þá er það þvæla. Ástæðan fyrir því að þetta gekk er sú að þetta furðu­lega fyr­ir­brigði sem Íslensk erfða­grein­ing er var til. Þannig að við gátum komið inn og fyllt upp í þau göt sem voru í heil­brigð­is­kerf­in­u.“

Auglýsing

Þegar í byrjun mars, aðeins nokkrum dögum eftir að fyrsta til­felli COVID-19 hafði verið greint hér á landi, bauð Kári fram þekk­ingu og búnað Íslenskrar erfða­grein­ingar við að skima fyrir veirunni í sam­fé­lag­inu. Er verk­efna­hópur um und­ir­bún­ing opnun landamæra Íslands var að störfum lagði Kári það til að þau yrðu opnuð og ski­mað fyrir veirunni.



Er stýri­hópur um fram­kvæmd­ina var í kjöl­farið settur á lagg­irnar átti Íslensk erfða­grein­ing þar engan full­trúa og engra upp­lýs­inga var leitað hjá fyr­ir­tæk­inu. Þetta gagn­rýndi Kári opin­ber­lega og var þá boð­aður á fund hjá Katrínu Jak­obs­dóttur for­sæt­is­ráð­herra. Á þeim fundi sagð­ist Katrín ætla að sjá til þess að sam­ráð yrði haft í fram­tíð­inni en „sá fundur var varla búinn þegar hún setti saman sam­hæf­ing­ar­nefnd og í þeirri  nefnd var nátt­úr­lega eng­inn frá okk­ur,“ segir Kári með nokk­urri kald­hæðni. „Þannig að þegar stjórn­völd ákveða að fara af stað með þetta þá neita þau sér um þann lúxus að fá að læra af okkar reynslu.“



Kári Stefánsson segist „uppgötvanafíkill“ og var andvaka af áhyggjum er faraldurinn braust út. Hann óttaðist hið versta.
Bára Huld Beck

Skrif­stofa Kára Stef­áns­sonar er á þriðju hæð í hús­næði Íslenskrar erfða­grein­ingar í Vatns­mýr­inni. Þaðan er útsýni í tvær áttir og á miðri skrif­stof­unni situr Kári við skrif­borð sitt, umkringdur bunkum af blöðum og bók­um. 



Þetta er skrif­stofa vís­inda­manns. Skrif­stofa vís­inda­manns sem seg­ist „upp­götv­anafík­ill“ og var and­vaka af áhyggjum er far­ald­ur­inn braust út. Hann ótt­að­ist hið versta.



Um tíu þús­und ferða­menn hafa verið skimaðir fyrir veirunni við kom­una til lands­ins á rúmri viku. Hjúkr­un­ar­fræð­ingar frá heilsu­gæsl­unni afla sýn­anna á Kefla­vík­ur­flug­velli en þeim er svo ekið til Íslenskrar erfða­grein­ingar sem greinir þau.



Á mið­viku­dag lýsti sótt­varna­læknir því yfir á upp­lýs­inga­fundi almanna­varna að hann myndi mæl­ast til þess við heil­brigð­is­ráð­herra að landamæra­skimunum yrði haldið áfram, að minnsta kosti út júlí.



Hver er nákvæm­lega aðkoma Íslenskrar erfða­grein­ingar að þessum skimunum og und­ir­bún­ingi þeirra?



 „Á sínum tíma lagði ég til á fundi með nefnd sem vann að til­lögum um opnun landamæra að þau yrðu opnuð strax og að við myndum skima. Og ástæðan fyrir því að ég leyfði mér að koma fram með þessa glæfra­legu til­lögu er sú að mér fannst eins og við yrðum hvort eð er ein­hvern tím­ann að opna landa­mærin og að það væri alveg eins gott að gera það á meðan ágang­ur­inn væri minni heldur en þegar frá lið­i. 



Svo setur heil­brigð­is­mála­ráð­herra saman nefnd sem á að kanna hvort að þetta verði ger­legt og hvað það myndi kosta og í þeirri nefnd var eng­inn full­trúi frá okkur og sú nefnd tal­aði aldrei við okk­ur. Og það er ekki af ill­vilja heldur bara klaufa­skap. Ég end­aði á því að segja: Þetta er bara fínt, þá sjáið þið bara um þetta. 



En það var mat Þór­ólfs [Guðna­sonar sótt­varna­lækn­is] og Ölmu [Möller land­lækn­is] að það væri ekki hægt að gera þetta án okkar aðkomu og það end­aði með því að ég var kall­aður á fund til for­sæt­is­ráð­herra sem sagði að við yrðum að taka þátt í þessu og að þetta yrði gert í náinni sam­vinnu við okk­ur.“



Kári átti fund með sóttvarnalækni og landlækni á fjórða degi eftir að skimun á landamærum hófst. Á þeim fundi sagði Kári að ef starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar yrði ekki settur yfir verkefnið myndi fyrirtækið hætta aðkomu sinni.
Bára Huld Beck

Eins og fram kemur að ofan var eng­inn full­trúi frá ÍE heldur í sam­hæf­ing­ar­nefnd­inni sem Katrín setti á fót. „Þar var farið að setja saman áætlun um hvernig ætti að taka saman sýni úti á flug­velli og svo fram­veg­is. Án okkar aðkomu,” heldur Kári áfram. 



„Þetta endar á því að það eru haldnir fundir og Eva Sveindótt­ir, yfir­maður þjón­ustu­mið­stöðvar okk­ar, sem sá um sýna­tökur á þeim 50 þús­und manns sem við skimuð­um, byrjar á því að leið­rétta vit­leys­urnar sem búið var að setja sam­an.“



Hverjar voru þær?



 „Þær voru til dæmis þær að ætla að láta far­þeg­ana sjálfa merkja glös sem sýna­tökupinn­arnir eru settir í sem er góð leið til þess að beiða út smit sem kynni að vera hjá þessum ein­stak­ling­um. En þetta eru ósköp eðli­legar vit­leysur í sjálfu sér. Okkur urðu á öll þessi mis­tök þegar við vorum að byrja. Þannig að ég er ekki að halda því fram að þetta fólk sé vit­laust – heldur að benda á að þetta eru mis­tök sem engin ástæða var til að láta ger­ast aft­ur.



Svo byrjar skimun­in. Og fyrsta dag­inn þá eru alls konar vit­leysur gerð­ar. Meðal ann­ars hjúkr­un­ar­fræð­ingar að ganga um án þess að vera með sótt­varna­grím­ur. Ganga svo í sótt­varn­ar­fötum inn á svæði sem eiga að vera hrein. Sýna­tökupinn­arnir voru látnir bíða í tvo og hálfan klukku­tíma áður en þeir voru sendir til okkar og svo fram­veg­is. Allt saman eðli­leg mis­tök hjá dug­legu og góðu fólki sem eru að byrja.



Þannig að þetta pirraði okkur tölu­vert. 



Svo var hald­inn fundur dag­inn eftir og ákveðið að láta slík mis­tök ekki ger­ast. En í skimun­inni á mið­viku­deg­inum þá voru sýnin aftur látin bíða og fleiri óþarfa vit­leysur gerð­ar.



Á fimmtu­deg­inum átti ég fund með Þórólfi og Ölmu og sagði að við myndum draga okkur út úr þessu nema Eva yrði sett yfir sýna­tök­una á Kefla­vík­ur­flug­velli. Þetta vildum við gera til að sjá til þess að sá sem hefði reynsl­una myndi vaka yfir þessu.



Og þau sam­þykktu það um leið.“



Auglýsing

Kári segir það mikil for­rétt­indi að vinna með Ölmu, Þórólfi og Víði [Reyn­is­syn­i]. „En vanda­málið varð til þegar þriðji aðil­inn er búinn til, þessi sam­hæf­ing­ar­nefnd sem er allt í einu komin með völd og átti að stjórna fram­kvæmd­inni á flug­vell­in­um.“  



Hvernig sérðu fyrir þér að und­ir­bún­ingi til fram­tíðar þurfi að vera hátt­að?



„Ég held að það sé ekki hægt að takast á við næstu far­aldra öðru­vísi en að það verði sett saman sér­stök stofn­un. Það væri erfitt að hýsa hana inni á Land­spít­ala – hann er með sín eigin vanda­mál.  Það væri eðli­legt að byggja hana upp í kringum emb­ætti sótt­varna­lækn­is. Það er ekki hægt að hafa það sem auka­verk­efni hjá rann­sókn­ar­stofu inni á stærsta sjúkra­húsi lands­ins.“



Og finnst þér tíma­bært að þetta verði að veru­leika strax?



„Ég hugsa að það væri skyn­sam­legt að nýta sér þá reynslu sem er að verða til nún­a.“ 



En hvernig kemur Íslensk erfða­grein­ing inn í þessa hug­mynd?



„Þessi stofnun yrði ekki okkar verk­efni. Hins veg­ar, ef þú ætlar að halda uppi háum stand­ard í svona vinnu verður þú að hafa ákveðið umhverfi, þú verður að hafa sam­fé­lag fólks sem er að vinna við svipuð verk­efni. Og ég hef boðið þeim upp á þann mögu­leika að hýsa þetta í okkar bygg­ingu til að byrja með. Vegna þess að í þess­ari bygg­ingu er fólk sem hugsar um vanda­mál af þess­ari gerð, til­einkar sér öguð vinnu­brögð sem að skiptir feiki­lega miklu máli.“



Verk­efni stofn­un­ar­innar yrðu að halda utan um áfram­hald­andi skimanir og grein­ingu á gögnum sem við þær er afl­að. Kári bendir á að í far­aldri sé hægt að skoða ýmis­legt í veirunni sem getur gefið vís­bend­ingar um fram­hald hans. „Það eru alls konar aðferðir til að grafa ofan í gögn sem verða til. Og til þess þarf aðra nálgun en inni á rann­sókn­ar­stofu sjúkra­húss sem er fyrst og fremst í að greina ein­stak­linga. Það er hægt að lesa miklu meira út úr veiru­próf­unum heldur en bara hvort þú sért nei­kvæður eða jákvæð­ur. Þú getur lesið í þessi próf hvort að mann­eskjan hýsi mikið af veiru eða lít­ið, þú getur spunnið þetta saman við mæl­ingar á mótefn­um. Og svo fram­veg­is.“ 

Starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar tóku yfir 50 þúsund sýni við skimun í samfélaginu.
Íslensk erfðagreining

Finnst þér það þá sóun á upp­lýs­ingum að það séu í dag fyrst og fremst „já“ eða „nei“ svör sem eru fengin úr þeim?



„Nei, þetta er ekki sóun upp­lýs­ingum vegna þess að já eða nei er það sem skiptir ein­stak­ling­inn máli. En það sem skiptir sam­fé­lagið máli, umfram það, er mögu­leik­inn á að geta lesið í hvað segja síð­ustu hund­rað eða þús­und sýni um hvar þessi far­aldur er stadd­ur.“



Og þar kæmi stofn­unin til sög­unn­ar. „Það er svo mikið af hæfi­leik­a­ríku fólki í þessu sam­fé­lagi sem getur unnið svona vinnu vel ef því er útbúið það umhverfi sem þarf. Það sem [Ís­lensk erfða­grein­ing] hefur umfram flesta sem eru að sinna vís­inda­störfum hér á Íslandi er að við erum með til­tölu­lega stóran hóp af fólki sem býr til hvetj­andi umhverfi. Ég held að það væri heilla­skref ef stofn­unin yrði hýst hér til að byrja með. Við höfum hús­næði, við erum með fólk sem getur hjálpað til við að ýta hlutum áfram.”



Með verk­efnið í fang­inu



Fyrsta til­felli COVID-19 greind­ist hér á landi í lok febr­ú­ar. Síðan þá hafa 1.830 manns greinst með veiruna og yfir 72 þús­und sýni verið tek­in.



„Við erum búin að vera með þetta verk­efni í fang­inu í nokkra mán­uði. Og spurn­ingin er ein­fald­lega: Hvað ætlum við að gera við þessa reynslu sem hefur orðið til?  Hvernig ætlum við að nýta hana til að und­ir­búa okkur fyrir næsta far­ald­ur? Við hljótum að þurfa að búa þannig um hnút­ana að það sé hægt að skima fyrir veirum, víða í sam­fé­lag­inu, að það sé aðstaða til að vinna úr þeim gögnum – að reyna að búa til skiln­ing á því sem er að ger­ast. Að hafa til staðar fólk sem er í stakk búið til þess að grafa ofan í gögn til að sækja nýja þekk­ingu.



Því það er ekki hægt að bregð­ast við svona far­aldri eins og hefur hingað til verið gert. Að ríkið setj­ist nið­ur, taki ákvarð­anir að gera þetta, feli fólki skipu­lagn­ing­una sem aldrei hefur gert þetta áður. En heldur þeim eina aðila í sam­fé­lag­inu sem hefur ein­hverja reynslu og ein­hverja getu til að gera þetta utan við skipu­lagn­ing­una. En kemur svo engu að síður til okkar og seg­ir: Við getum ekki gert þetta án ykk­ar!



Það er að segja: Við tókum ekki þátt í skipu­lagn­ing­unni en við eigum að bera ábyrgð á þessu. Það er ótta­lega klaufa­legt. Við erum með feyki­lega góðan heil­brigð­is­mála­ráð­herra og feyki­lega góðan for­sæt­is­ráð­herra og þarna er fullt af fólki sem vill gera vel en ein­hverra hluta vegna klúðrar þessu á þennan hátt.”



Kári: Við tókum ekki þátt í skipulagningunni en við eigum að bera ábyrgð á þessu. Það er óttalega klaufalegt.
Bára Huld Beck

Við hverja hefur þú rætt hug­mynd­ina að þess­ari stofn­un?



„Ég hef rætt hana við Þórólf og Ölmu. Þau tóku ágæt­lega í þetta.“ 



Hefur þú rætt hug­mynd­ina við ráð­herra?



„Nei. Ég ræði ekki mikið við ráð­herra.“ 



Þú skrif­aðir í Face­book-­færslu nýver­ið:  „Við erum upp­götv­anafíklar og nýr sjúk­dómur sem ekk­ert er vitað um er hval­reki fyrir þá fíkn.“ Það getur varla verið það eina sem fyr­ir­tækið Íslensk erfða­grein­ing fær út úr þessu risa­vaxna verk­efni. Þessu fylgir kostn­að­ur. Hver er hann?



„Ég vil sem minnst um hann ræða. Ég hef ekki hug­mynd um hvað þetta verk­efni við að skima á landa­mærum kemur til með að kosta. Yfir­maður sam­hæf­ing­ar­nefnd­ar­innar sagði að það yrði að búa til skiln­ing á kostn­að­inum því þeir ætla að byrja að rukka far­þega á mánu­dag­inn. Eitt er víst, hann hefur ekki leitað neinna upp­lýs­inga hjá okkur um hvað þetta kost­ar. Hjá þeim sem eru þó lík­lega þeir einu sem vita það.



Þetta end­ur­tekur sig. Þetta er alveg ofboðs­lega klaufa­legt. Annað hvort eru þessi stjórn­mála­menn sem eru að skipu­leggja þetta alveg ótrú­lega vit­lausir – sem að ég veit að þeir eru ekki – eða að þeir eru að sýna þessu verk­efni algjört virð­ing­ar­leysi. 



Þetta er svo heimsku­legt, að vera ekki í nán­ari sam­vinnu við okkur – okkur sem allt þetta verk­efni hvílir raun­veru­lega á. Ég veit satt best að segja ekki hvað er að þessu fólki,“ segir Kári. 



Hann breytir svo strax um tón og bætir við:



„Að því sögðu þá eru það nátt­úr­lega bara for­rétt­indi fyrir okkur að fá að hjálpa til við þetta.“ 



Hann hlær. 



„En það má ekki stjórna hlutum á þennan hátt. Þetta er hættu­legt og verið að taka alltof mikla áhætt­u.“

Auglýsing

En aft­ur: Íslensk erfða­grein­ing er fyr­ir­tæki sem þarf að reka...



„Við erum í eigu stórs amer­ísks lyfja­fyr­ir­tæk­is, Amgen. Og lyfja­iðn­að­ur­inn hefur sem aldrei fyrr sýnt af sér tölu­verða sam­fé­lags­lega ábyrgð. Mörg af stærstu lyfja­fyr­ir­tækjum heims hafa gefið út yfir­lýs­ingu um að þau ætli að búa til bólu­efni gegn þess­ari veiru, þau ætla að búa til aðferðir til að lækna sjúk­dóm­inn sem hlýst af þess­ari veiru og án þess að reyna að hafa af því gróða.



Amgen hefur sagt mjög skýrt að þau styðji fylli­lega að við tökum þátt í þessum verk­efnum hér. Og við komum ekki til með að rukka fyrir þessa skimun sem við gerðum í sam­fé­lag­inu almennt og við komum til með að stíga mjög létt til jarðar þegar það kemur að því að rukka fyrir landamæra­skimun­ina.“ 



Er þetta þá gjöf Íslenskrar erfða­grein­ingar til sam­fé­lags­ins? Skimun sem tók fleiri vikur og mik­inn mann­afla?



„Þetta var fram­lag okkar til sam­fé­lags­ins. Ósköp ein­falt. Í sjálfu sér engin gjöf og ekki byggt á neinni fórn­fýsi. Við erum hluti af þessu sam­fé­lagi og það var geysi­lega mik­il­vægt fyrir okkur eins og alla aðra að þessi far­aldur myndi ekki ganga að okkur öllum dauð­u­m.“



Fannst þér stefna í það, að far­ald­ur­inn yrði miklu verri en hann svo varð?



„Ég hafði feiki­legar áhyggjur af því að þetta yrði marg­falt verra. Þetta hélt fyrir mér vöku. Mér fannst þetta mjög ógn­vekj­andi. En mjög fljót­lega þegar maður byrjar að vinna að svona verk­efni þá hættir það að vera ógn­vekj­andi og verður spenn­and­i.“



Kári hlær og heldur svo áfram: „Þetta var skemmti­legur tími hjá okk­ur. Hér var unnið nótt sem nýtan dag. Við fengum að taka þátt í bar­áttu sem tókst vel. Ef það hefði ekki verið til apparat eins og Íslensk erfða­grein­ing hefði þetta farið heldur illa.“



Kári um faraldurinn: Ég hafði feikilegar áhyggjur af því að þetta yrði margfalt verra. Þetta hélt fyrir mér vöku. Mér fannst þetta mjög ógnvekjandi.
Bára Huld Beck

Hefur fyr­ir­tækið fjár­hags­legt svig­rúm til að gera þetta?



Kára finnst spurn­ingin fárán­leg og svarar henni með eft­ir­far­andi hætti: „Ef við hefðum ekki svig­rúm til að gera þetta – hvað værum við að gera þá? Þá værum við ekki að gera þetta.



En við getum ekki haldið mikið lengur áfram að skima á landa­mærum fyrir okkar eigin pen­ing. Þetta verður að lenda á ein­hverjum öðrum fljót­lega. Mín til­laga var sú að við myndum taka inn starfs­fólk  sem myndi byrja að vinna á rann­sókn­ar­stof­unni okkar sem við getum lánað í verk­efn­ið. Og í fram­hald­inu held ég að það væri mjög skyn­sam­legt að fara að þessu ráði mínu að byggja upp stofnun í kringum þetta. Svo sótt­varna­læknir þurfi ekki að fara bón­leið til ann­arra.“ 



Þið Þórólfur gerðuð munn­legt sam­komu­lag varð­andi landamæra­skiman­irn­ar. Er það eðli­legt eða dæmi­gert fyrir þetta óvenju­lega ástand? 



„Ég held því fram að ég hafi ekki gert neitt munn­legt sam­komu­lag við Þórólf. Síður en svo. Ég hins vegar sagði honum að við ætl­uðum að sjá um að skima á landa­mærum til að byrja með. Að við ætl­uðum að leggja að mörkum til sam­fé­lags­ins með þeim hætti. Skortur á samn­ingi við okkur gerir það að verkum að við höfum frelsi til þess að hætta þessu í dag. Við höfðum frelsi til að hætta þessu í fyrra­dag.



Og frelsi til að senda háan reikn­ing...



Kári tekur ekki undir það. „Ef við værum ekki að gera þetta þá væri þetta ekki gert. Það er eng­inn annar sem getur gert þetta. Þannig að Þórólfur getur ekki leitað neitt ann­að. Þegar ég segi að ég vilji ekki skrifa undir neinn skrif­legan samn­ing þá verður hann bara að taka því. Eða ekki. Okkar skylda er aðeins við sam­fé­lagið sem við erum hluti af. Og það á að nægja.“ 



Það virð­ast margir eiga bágt með að trúa því og halda að það búi eitt­hvað að baki.



„Mér er bara nákvæm­lega sama um það. Þeir geta leikið sér að því eins og þeim sýn­ist. En það er ekk­ert annað sem býr að baki. Nákvæm­lega ekk­ert.“ 



Auglýsing

Hafið þið tekið saman vinnu­stund­irnar hjá starfs­fólki Íslenskrar erfða­grein­ingar sem hafa farið í þetta verk­efni allt sam­an?



Nei.



Hafa önnur verk­efni setið á hak­an­um?



Já, þau hafa gert það. En við erum að snúa okkur meira að þeim þessar vik­urn­ar. Að fullu afli.“



Leyfi til hvaða rann­sókna út frá gögnum úr skimunum hafið þið? 



„Við höfum fengið leyfi til að rann­saka hina og þessa hluti. En það má ekki gleyma því að þegar verið er að takast á við sjúk­dóm sem ekk­ert er vitað um þá verða mörkin milli klínískrar þjón­ustu ann­ars vegar og rann­sókna hins vegar mjög óljós.



Eitt dæmi: Hvernig stendur á því að við erum ekki að skima börn sem koma inn í land­ið? Hvers vegna stendur á því að við héldum leik- og grunn­skólum opn­um? Svarið er að til að byrja með byggði ákvörðun um halda skól­unum opnum á allt öðru en skiln­ingi  á þessum far­aldri. Ætli hún hafi ekki byggst á því að til að halda heil­brigð­is­starfs­mönnum í starfi var nauð­syn­legt að hafa stað fyrir börnin þeirra. 



En svo kemur í ljós, þegar við förum að skoða þetta, að það er ólík­legra að börn en full­orðnir sýk­ist.  Og það sem mestu máli skiptir er að börn eru ólík­legri til að sýkja aðra. Það má leiða að því rök að þegar við sýndum fram á þetta hafi verið um rann­sókn að ræða. En ég get líka haldið því fram að þar hafi verið um að ræða skoðun á gögnum til að hægt væri að taka ákvörðun um hvernig við hög­uðum okkur í þess­ari pest.



Við erum í raun ekki að gera neitt annað núna í okkar rann­sóknum en að gera upp þennan far­aldur og hvað við getum lært af honum til að búa okkur undir fram­tíð­ina. Við erum að vinna að grein um hvernig börn smit­ast og hvernig börn smita aðra miðað við full­orðna. Það eru upp­lýs­ingar sem skipta miklu máli um við­brögð við næstu bylgju – ef hún kem­ur. Annað sem við erum að gera er að nota veiru­magn hjá ein­stak­lingnum og stökk­breyt­ingar í veirunni til þess að spá fyrir um hvar við erum stödd í far­aldr­in­um. Við viljum vita hvort að með því einu að skoða veiruna sé hægt að sjá hvort far­ald­ur­inn sé að fær­ast í auk­ana eða sé í rén­un. Svo er verið að skrifa grein um mótefna­svarið í sam­fé­lag­inu. Þetta eru vís­inda­rann­sóknir sem væri eng­inn vandi að flokka sem klíníska vinnu frekar en rann­sókn­ir.“



Kári um rannsóknir ÍE: Við erum í raun ekki að gera neitt annað núna í okkar rannsóknum en að gera upp þennan faraldur og hvað við getum lært af honum til að búa okkur undir framtíðina.
Bára Huld Beck

En að lok­um, aftur að landamæra­skimun­inni. Og nú gjald­tök­unni sem á að hefj­ast eftir helgi.



„Ég myndi ráð­leggja þeim að byrja ekki gjald­töku á mánu­dag­inn. Vegna þess að um leið og þú ferð að taka gjald þá tekur þú í burtu flæðið sem hefur mynd­ast. Ég myndi bíða næstu tvær vik­urnar og sjá hvernig þetta þró­ast. 



En akkúrat núna er þetta að ganga mjög vel. Það er búið að skima í kringum tíu þús­und manns og ekki nema tveir smit­andi ein­stak­lingar fund­ist. Annar þeirra var að vísu sneisa­fullur af veiru og hefði einn og útaf fyrir sig getað komið af stað far­aldri.



Þannig að bara þessir tveir ein­stak­lingar hefðu gert það að verkum að það hefði verið stór­hættu­legt að skima ekki á landa­mær­un­um. Þetta er mik­il­vægt. Og við erum raun­veru­lega að gera til­raun. Þetta er sótt­varna­til­raun.“



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal