Mynd: Bára Huld Beck 7DM_5639_raw_170912.jpg Alþingi 12. september 2017. atkvæðagreiðsla atkvæði

Strembnum þingvetri lauk með átökum um vímuefnamál

Ýmis þingmál runnu í gegn á síðasta þingfundi fyrir sumarfrí. Sum í góðri sátt, en önnur ekki. Samkeppnislögum var breytt, Borgarlína færist nær og ýmsar aðrar stórtækar samgöngubætur eru komnar á áætlun, samþykkt var að geðheilbrigðisþjónusta færðist undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga og flestir þingmenn stjórnarflokkanna lögðust gegn breytingum á vímuefnalöggjöf sem þó er fjallað um í stjórnarsáttmálanum og stefnum bæði Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Einnig var samþykkt að bæta inn refsiákvæði í lög um nýjan Ferðaábyrgðarsjóð, sem á að lána ferðaskrifstofum til að endurgreiða neytendum pakkaferðir.

Þingfundi var frestað á þriðja tímanum í nótt, eftir atkvæðagreiðslur um hin ýmsu mál sem hafa verið til umræðu í þinginu síðustu vikur. Fjöldi frumvarpa urðu að lögum, en önnur ekki, eins og gengur voru sum felld og önnur þurfa að bíða. Næsti þingfundur er áætlaður í lok ágúst.

Ef til vill hefur mesta athygli vakið að tuttugu og átta þingmenn stjórnarflokkanna og Miðflokksins sögðu nei við því að samþykkja þingmannafrumvarp um að hætta að refsa fólki fyrir að vera með í fórum sínum neysluskammta af vímuefnum. Halldóra Mogensen þingmaður Pírata var fyrsti flutningsmaður þess.

Þrátt fyrir það virðist í grunninn meirihlutastuðningur á Alþingi við efni og inntak frumvarpsins og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna. Svipaðar áherslur má finna í stefnuskrám bæði Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins, eins og fjallað var um í fréttaskýringu á Vísi í dag.

Níu þingmenn þessara tveggja flokka sátu hjá við afgreiðslu málsins, þeirra á meðal þrír ráðherrar. Einn þeirra sem sátu hjá var meira að segja á meðal flutningsmanna frumvarpsins í velferðarnefnd, Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður Vinstri grænna. 

Andrés Ingi Jónsson þingmaður utan flokka benti á það á Twitter að svo virðist sem fjöldi þeirra sem sátu hjá hafi verið eins hár og mögulegt var, en þar sem 55 þingmenn voru í salnum þegar atkvæði voru greidd þurfti akkúrat 28 nei til þess að fella málið.

Auglýsing

Samband ungra sjálfstæðismanna harmar aðgerðaleysi þingmanna flokksins í tengslum við frumvarpið. „Frumvarpið sem fellt var í gær var ekki fullkomið, en er samt sem áður skref í rétta átt. Við hvetjum ráðherra Sjálfstæðisflokksins til að nýta sumarfríið vel og leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu fíkniefna sem ríkisstjórnarfrumvarp á haustþingi, til samræmis við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar,“ sagði í færslu ungliðanna á Facebook. Ung vinstri græn hafa sömuleiðis birt áskorun til þingmanna flokksins um að „leiðrétta stöðu mála í takt við samþykkta stefnu hreyfingarinnar.“

Málið hefur vakið upp heitar tilfinningar hjá ýmsum í samfélaginu. Í dag greindi þingmaður Vinstri grænna Kolbeinn Óttarson Proppé frá því á Facebook að hvítu dufti í litlum pokum hefði verið laumað inn um bréfalúguna hjá honum. Virtist þingmaðurinn gefa í skyn í færslu sinni að hann teldi sendinguna pólitíska og tengjast málinu og á mbl.is var haft eftir honum að hann teldi það furðulega tilviljun, ef svo væri ekki.

Samkeppnislögum breytt

Ýmis frumvörp voru samþykkt, sum með góðum samhljómi meirihluta og minnihluta þings en um önnur náðist ekki samstaða. Eitt þeirra var frumvarp Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur ráðherra um samkeppnismál, sem Kjarninn fjallaði nýlega um. Breytingarnar sem felast í frumvarpinu verið gagnrýndar af bæði Samkeppniseftirlitinu sjálfu, þingmönnum minnihlutans, auk annarra en frumvarpið tók þónokkrum breytingum í meðförum þingnefndar.

Málið var samþykkt með 31 einu atkvæði meirihlutans gegn 15 atkvæðum Samfylkingar og Pírata en 9 þingmenn Miðflokksins og Viðreisnar greiddu ekki atkvæði.

Borgarlína og samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir

Mikill tími hefur farið í það undanfarnar vikur að ræða ýmis þingmál tengd samgöngum á þjóðþinginu og hafa þingmenn Miðflokksins leitt þá umræðu með málþófi og aðallega fundið fyrirhugaðri Borgarlínu allt til foráttu.

Í gærkvöldi voru þó samþykkt þingmál sem færa Borgarlínu nær því að verða að veruleika, en 46 þingmenn allra flokka nema Miðflokksins og Flokk fólksins samþykktu lög sem heimila stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu sem verður í sameign ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Einnig voru samgönguáætlanir til fimm og og fimmtán ára samþykktar, auk frumvarps Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, sem gerir Vegagerðinni heimilt að leita samninga við einkaaðila til þess að ráðast í nokkrar stórar samgönguframkvæmdir, raunar sex talsins.

Um er að ræða hringveg norðaustan við Selfoss og brú á Ölfusá, hringveg um Hornafjarðarfljót, Axarveg, tvöföldun Hvalfjarðarganga, hringveg um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli og Sundabraut.

Borgarlínuverkefnið færðist nær því að verða að veruleika með afgreiðslu Alþingis á samgönguáætlunum og fleiri málum.

Málið hefur verið nokkuð umdeilt, sérstaklega þar sem heimilt verður að innheimta veggjöld eins og í „Hvalfjarðargangamódelinu“ þegar fólk fer síðan að aka þessa nýju vegi.

Margir þingmenn minnihlutans sátu hjá við afgreiðslu málsins, en þingmenn Viðreisnar studdu það þó ásamt stjórnarliðum. Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingar var eini þingmaðurinn sem ýtti á rauða hnappinn og lagðist gegn samþykkt frumvarpsins.

Mikil sátt um að færa sálfræðiþjónustu undir Sjúkratryggingar

Allir viðstaddir þingmenn, 54 talsins, samþykktu frumvarp um að nauðsynlegar sálfræðimeðferðir og aðrar gagnreyndar viðtalsmeðferðir yrðu felldar undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Fjölmargir þingmenn þvert á þingflokka standa að frumvarpinu og segir í nefndarálitinu að í því felist skýr vilji „til að sýna það í verki að þingið getur staðið saman að mikilvægum úrbótum og afgreitt góð mál á málefnalegan og faglegan hátt.“

Ekki er ljóst hver árlegur kostnaður ríkisins yrði vegna niðurgreiddrar sálfræðiþjónustu en velferðarnefnd leit svo á að breytingarnar myndu spara ríkissjóði háar fjárhæðir til lengri tíma.

„Árið 2019 eru áætluð heildarframlög ríkisins til bóta vegna andlegrar örorku um 19 milljarðar kr. og talið að þau geti meira en tvöfaldast á næsta áratug. Þótt það nýja fyrirkomulag sem að er stefnt með frumvarpinu kæmi aðeins í veg fyrir lítið hlutfall nýgengis örorku sparast háar fjárhæðir. Þar að auki má ætla að það dragi úr áhrifum andlegra veikinda á atvinnutækifæri fólks, framlegð þess í starfi verði meiri, fjöldi veikindadaga færri o.s.frv.,“ sagði nefndin.

Fjármálaráðherra segir peninga skorta

Ekki er þó útséð með hvernig framhald málsins verður. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði í viðtali á Bítinu á Bylgjunni í morgun að skrefið væri tímabært, en að ríkið ætti ekki fyrir þessum auknu útgjöldum til niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu.

„Vandi okkar í augna­blikinu er að við mættum hafa fleiri krónur í kassanum,“ sagði Bjarni í viðtalinu í morgun.

Sálfræðingafélag Íslands fagnar lagabreytingunum þrátt fyrir þessi orð ráðherra og telur að verið sé að stíga mikilvægt skref í að auka aðgengi almennings, óháð efnahag, að viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Öryrkjabandalag Íslands fagnar niðurstöðunni einnig og hvetur fjármálaráðherra til að útvega það fjármagn sem þarf til Sjúkratrygginga.

Auglýsing

„Þjóðin hefur kallað eftir þessu árum saman og við treystum því að fjármálaráðherra láti nú langtímahagsmuni þjóðarinnar, og þar með ríkisins ráða, og standi ekki í vegi fyrir að Sjúkratryggingar fái fjármagn til þessa. Fyrst og fremst mun þetta stuðla að auknu geðheilbrigði fjölmargra sem er forsenda fyrir því að einstaklingar geti tekið þátt í samfélaginu. Það er árangurinn sem ráðherrann á að fagna, og ekki síður að til lengri tíma mun ríkið spara sér háar fjárhæðir,“ sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður bandalagsins, í tilkynningu frá ÖBÍ.

Hlutdeildarlánin bíða

Frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra um hlutdeildarlánin svokölluðu var ekki afgreitt áður en þingi var frestað, en það var lagt fram skömmu fyrir þinglok. Um stórt mál er að ræða, sem verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á að verði afgreitt, enda málið eitt af þeim atriðum sem stjórnvöld sögðust ætla að koma í framkvæmd eftir að skrifað var undir lífskjarasamningana.

Engin sátt er þó um málið í þeirri mynd sem það var lagt fram og hafa bæði Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokks og Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna, sem bæði leiða þingnefndir, gagnrýnt málið fremur harðlega í ræðustóli Alþingis.

Hlutdeildarlánin eru því ekki orðin að veruleika, þrátt fyrir að haft hafi verið eftir Ásmundi Einari í fréttatilkynningu þegar frumvarpið var kynnt fyrir örfáum vikum að það væri „virkilega ánægjulegt að hlutdeildarlánin séu orðin að veruleika.“

Refsiákvæði bætt við lög um lán til ferðaskrifstofa

Nokkur mál sem varða efnahagsleg viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum voru samþykkt í gær, en eitt þeirra snerist um stofnun nýs Ferðaábyrgðarsjóðs, sem ríkið mun nota til þess að lána ferðaskipuleggjendum eða smásölum fyrir endurgreiðslum til neytenda sem höfðu keypt pakkaferðir sem þurfti eða þarf að aflýsa frá 12. mars - 31. júlí. 

Auglýsing

Alls verður 4,5 milljörðum veitt í að lána ferðaskrifstofunum til þess að endurgreiða neytendum og síðan hafa þær allt að sex ár til að greiða upphæðina til baka til ríkisins. Kröfur eiga að hafa borist Ferðamálastofu, sem hefur umsjón með sjóðnum, fyrir 1. september.

Í meðförum atvinnuveganefndar bættist við frumvarpið refsiákvæði, sem felur í sér að eintaklingar eða fyrirtæki sem brjóti gegn notkunum og misnoti lán úr sjóðnum með einhverjum hætti, til dæmis með því að veita rangar að misvísandi upplýsingar eða nýta lánsfjárhæð á ólögmætan hátt, skuli sæta sektum sektum eða fangelsi allt að sex árum, nema brotið teljist minniháttar.

Þingforseti bað fólk vel að lifa

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis flutti venju samkvæmt ávarp við þingfrestun og fór yfir liðinn vetur. Hann sagði ekki nokkurn hafa órað fyrir því síðasta haust, sem veturinn bar svo í skauti sér.

„Vonskuveður í desember með tilheyrandi rafmagnsleysi og eignatjóni gaf tóninn og í kjölfarið sigldu snjóflóð í byggð á Vestfjörðum, land reis og jörð skalf á Reykjanesi og kórónuveiran stakk sér niður á Íslandi í febrúarlok. Þegar faraldurinn hafði rénað að mestu, a.m.k. í fyrstu umferð, tók sig upp hörð jarðskjálftahrina fyrir norðan land,“ sagði þingforsetinn. 

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.
Bára Huld Beck

Hann þakkaði þríeykinu Víði, Þórólfi og Ölmu fyrir sín störf í yfirstandandi kórónuveirufaraldri, sem hefur mjög litað þingstörfin undanfarna mánuði. 

„Það tókst að halda Alþingi starfhæfu gegnum faraldurinn sem var ekki sjálfgefið. Og það reyndist gríðarlega mikilvægt, samanber þá tugi þingmála sem við í daglegu tali hér höfum nefnt COVID-mál, og náðum að afgreiða, þar á meðal þrenn fjáraukalög,“ sagði Steingrímur, sem hrósaði þingmönnum fyrir störf sín að undanförnu og öllu starfsfólki þingsins sömuleiðis. 

„Margt er um Alþingi skrifað og skrafað eins og eðlilegt er og stundum erum við þingmenn býsna hörð í dómum um okkur sjálf. Það er sjaldnar sem Alþingi er hrósað en það skal nú gert og eins þótt það sé forseti Alþingis sjálfur sem það gerir. Ég tel að Alþingi hafi staðist með ágætum erfitt próf, reyndar mörg próf sem fyrir okkur hafa verið lögð á þessum sérstæða, strembna þingvetri sem nú er að baki og verður væntanlega eftirminnilegur öllum þeim sem hlut áttu að máli,“ sagði Steingrímur.

Þing kemur ekki saman á ný fyrr en 27. ágúst, sem áður segir, og heldur þá 150. löggjafarþing áfram, en setning 151. löggjafarþings verður ekki fyrr en 1. október.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar