Mynd: Bára Huld Beck 7DM_5639_raw_170912.jpg Alþingi 12. september 2017. atkvæðagreiðsla atkvæði
Mynd: Bára Huld Beck

Strembnum þingvetri lauk með átökum um vímuefnamál

Ýmis þingmál runnu í gegn á síðasta þingfundi fyrir sumarfrí. Sum í góðri sátt, en önnur ekki. Samkeppnislögum var breytt, Borgarlína færist nær og ýmsar aðrar stórtækar samgöngubætur eru komnar á áætlun, samþykkt var að geðheilbrigðisþjónusta færðist undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga og flestir þingmenn stjórnarflokkanna lögðust gegn breytingum á vímuefnalöggjöf sem þó er fjallað um í stjórnarsáttmálanum og stefnum bæði Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Einnig var samþykkt að bæta inn refsiákvæði í lög um nýjan Ferðaábyrgðarsjóð, sem á að lána ferðaskrifstofum til að endurgreiða neytendum pakkaferðir.

Þing­fundi var frestað á þriðja tím­anum í nótt, eftir atkvæða­greiðslur um hin ýmsu mál sem hafa verið til umræðu í þing­inu síð­ustu vik­ur. Fjöldi frum­varpa urðu að lög­um, en önnur ekki, eins og gengur voru sum felld og önnur þurfa að bíða. Næsti þing­fundur er áætl­aður í lok ágúst.

Ef til vill hefur mesta athygli vakið að tutt­ugu og átta þing­menn stjórn­ar­flokk­anna og Mið­flokks­ins sögðu nei við því að sam­þykkja þing­manna­frum­varp um að hætta að refsa fólki fyrir að vera með í fórum sínum neyslu­skammta af vímu­efn­um. Hall­dóra Mog­en­sen þing­maður Pírata var fyrsti flutn­ings­maður þess.

Þrátt fyrir það virð­ist í grunn­inn meiri­hluta­stuðn­ingur á Alþingi við efni og inn­tak frum­varps­ins og í stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórn­ar­innar segir að snúa þurfi af braut harðra refs­inga fyrir neyslu fíkni­efna. Svip­aðar áherslur má finna í stefnu­skrám bæði Vinstri grænna og Sjálf­stæð­is­flokks­ins, eins og fjallað var um í frétta­skýr­ingu á Vísi í dag.

Níu þing­menn þess­ara tveggja flokka sátu hjá við afgreiðslu máls­ins, þeirra á meðal þrír ráð­herr­ar. Einn þeirra sem sátu hjá var meira að segja á meðal flutn­ings­manna frum­varps­ins í vel­ferð­ar­nefnd, Ólafur Þór Gunn­ars­son þing­maður Vinstri grænna. 

Andrés Ingi Jóns­son þing­maður utan flokka benti á það á Twitter að svo virð­ist sem fjöldi þeirra sem sátu hjá hafi verið eins hár og mögu­legt var, en þar sem 55 þing­menn voru í salnum þegar atkvæði voru greidd þurfti akkúrat 28 nei til þess að fella mál­ið.

Auglýsing

Sam­band ungra sjálf­stæð­is­manna harmar aðgerða­leysi þing­manna flokks­ins í tengslum við frum­varp­ið. „Frum­varpið sem fellt var í gær var ekki full­kom­ið, en er samt sem áður skref í rétta átt. Við hvetjum ráð­herra Sjálf­stæð­is­flokks­ins til að nýta sum­ar­fríið vel og leggja fram frum­varp um afglæpa­væð­ingu fíkni­efna sem ríkis­stjórn­ar­frum­varp á haust­þingi, til sam­ræmis við stjórn­ar­sátt­mála ríkis­stjórn­ar­inn­ar,“ sagði í færslu ung­lið­anna á Face­book. Ung vinstri græn hafa sömu­leiðis birt áskorun til þing­manna flokks­ins um að „leið­rétta stöðu mála í takt við sam­þykkta stefnu hreyf­ing­ar­inn­ar.“

Málið hefur vakið upp heitar til­finn­ingar hjá ýmsum í sam­fé­lag­inu. Í dag greindi þing­maður Vinstri grænna Kol­beinn Ótt­ar­son Proppé frá því á Face­book að hvítu dufti í litlum pokum hefði verið laumað inn um bréfalúg­una hjá hon­um. Virt­ist þing­mað­ur­inn gefa í skyn í færslu sinni að hann teldi send­ing­una póli­tíska og tengj­ast mál­inu og á mbl.is var haft eftir honum að hann teldi það furðu­lega til­vilj­un, ef svo væri ekki.

Sam­keppn­is­lögum breytt

Ýmis frum­vörp voru sam­þykkt, sum með góðum sam­hljómi meiri­hluta og minni­hluta þings en um önnur náð­ist ekki sam­staða. Eitt þeirra var frum­varp Þór­dísar Kol­brúnar R. Gylfa­dóttur ráð­herra um sam­keppn­is­mál, sem Kjarn­inn fjall­aði nýlega um. Breyt­ing­arnar sem fel­ast í frum­varp­inu verið gagn­rýndar af bæði Sam­keppn­is­eft­ir­lit­inu sjálfu, þing­mönnum minni­hlut­ans, auk ann­arra en frum­varpið tók þónokkrum breyt­ingum í með­förum þing­nefnd­ar.

Málið var sam­þykkt með 31 einu atkvæði meiri­hlut­ans gegn 15 atkvæðum Sam­fylk­ingar og Pírata en 9 þing­menn Mið­flokks­ins og Við­reisnar greiddu ekki atkvæði.

Borg­ar­lína og sam­vinnu­verk­efni um vega­fram­kvæmdir

Mik­ill tími hefur farið í það und­an­farnar vikur að ræða ýmis þing­mál tengd sam­göngum á þjóð­þing­inu og hafa þing­menn Mið­flokks­ins leitt þá umræðu með mál­þófi og aðal­lega fundið fyr­ir­hug­aðri Borg­ar­línu allt til for­áttu.

Í gær­kvöldi voru þó sam­þykkt þing­mál sem færa Borg­ar­línu nær því að verða að veru­leika, en 46 þing­menn allra flokka nema Mið­flokks­ins og Flokk fólks­ins sam­þykktu lög sem heim­ila stofnun opin­bers hluta­fé­lags um upp­bygg­ingu sam­göngu­inn­viða á höf­uð­borg­ar­svæð­inu sem verður í sam­eign rík­is­ins og sveit­ar­fé­lag­anna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

Einnig voru sam­göngu­á­ætl­anir til fimm og og fimmtán ára sam­þykkt­ar, auk frum­varps Sig­urðar Inga Jóhanns­sonar sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra um sam­vinnu­verk­efni um vega­fram­kvæmd­ir, sem gerir Vega­gerð­inni heim­ilt að leita samn­inga við einka­að­ila til þess að ráð­ast í nokkrar stórar sam­göngu­fram­kvæmd­ir, raunar sex tals­ins.

Um er að ræða hring­veg norð­austan við Sel­foss og brú á Ölf­usá, hring­veg um Horna­fjarð­ar­fljót, Axar­veg, tvö­földun Hval­fjarð­ar­ganga, hring­veg um Mýr­dal og jarð­göng í Reyn­is­fjalli og Sunda­braut.

Borgarlínuverkefnið færðist nær því að verða að veruleika með afgreiðslu Alþingis á samgönguáætlunum og fleiri málum.

Málið hefur verið nokkuð umdeilt, sér­stak­lega þar sem heim­ilt verður að inn­heimta veggjöld eins og í „Hval­fjarð­ar­ganga­mód­el­inu“ þegar fólk fer síðan að aka þessa nýju vegi.

Margir þing­menn minni­hlut­ans sátu hjá við afgreiðslu máls­ins, en þing­menn Við­reisnar studdu það þó ásamt stjórn­ar­lið­um. Oddný G. Harð­ar­dóttir þing­maður Sam­fylk­ingar var eini þing­mað­ur­inn sem ýtti á rauða hnapp­inn og lagð­ist gegn sam­þykkt frum­varps­ins.

Mikil sátt um að færa sál­fræði­þjón­ustu undir Sjúkra­trygg­ingar

Allir við­staddir þing­menn, 54 tals­ins, sam­þykktu frum­varp um að nauð­syn­legar sál­fræði­með­ferðir og aðrar gagn­reyndar við­tals­með­ferðir yrðu felldar undir greiðslu­þátt­töku­kerfi Sjúkra­trygg­inga Íslands. Fjöl­margir þing­menn þvert á þing­flokka standa að frum­varp­inu og segir í nefnd­ar­á­lit­inu að í því felist skýr vilji „til að sýna það í verki að þingið getur staðið saman að mik­il­vægum úrbótum og afgreitt góð mál á mál­efna­legan og fag­legan hátt.“

Ekki er ljóst hver árlegur kostn­aður rík­is­ins yrði vegna nið­ur­greiddrar sál­fræði­þjón­ustu en vel­ferð­ar­nefnd leit svo á að breyt­ing­arnar myndu spara rík­is­sjóði háar fjár­hæðir til lengri tíma.

„Árið 2019 eru áætluð heild­ar­fram­lög rík­is­ins til bóta vegna and­legrar örorku um 19 millj­arðar kr. og talið að þau geti meira en tvö­fald­ast á næsta ára­tug. Þótt það nýja fyr­ir­komu­lag sem að er stefnt með frum­varp­inu kæmi aðeins í veg fyrir lítið hlut­fall nýgengis örorku spar­ast háar fjár­hæð­ir. Þar að auki má ætla að það dragi úr áhrifum and­legra veik­inda á atvinnu­tæki­færi fólks, fram­legð þess í starfi verði meiri, fjöldi veik­inda­daga færri o.s.frv.,“ sagði nefnd­in.

Fjár­mála­ráð­herra segir pen­inga skorta

Ekki er þó útséð með hvernig fram­hald máls­ins verð­ur­. ­Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra sagði í við­tali á Bít­inu á Bylgj­unni í morgun að skrefið væri tíma­bært, en að ríkið ætti ekki fyrir þessum auknu útgjöldum til nið­ur­greiðslu sál­fræði­þjón­ustu.

„Vandi okkar í augna­blik­inu er að við mættum hafa fleiri krónur í kass­an­um,“ sagði Bjarni í við­tal­inu í morg­un.

Sál­fræð­inga­fé­lag Íslands fagnar laga­breyt­ing­unum þrátt fyrir þessi orð ráð­herra og telur að verið sé að stíga mik­il­vægt skref í að auka aðgengi almenn­ings, óháð efna­hag, að við­eig­andi geð­heil­brigð­is­þjón­ustu. Öryrkja­banda­lag Íslands fagnar nið­ur­stöð­unni einnig og hvetur fjár­mála­ráð­herra til að útvega það fjár­magn sem þarf til Sjúkra­trygg­inga.

Auglýsing

„Þjóðin hefur kallað eftir þessu árum saman og við treystum því að fjár­mála­ráð­herra láti nú lang­tíma­hags­muni þjóð­ar­inn­ar, og þar með rík­is­ins ráða, og standi ekki í vegi fyrir að Sjúkra­trygg­ingar fái fjár­magn til þessa. ­Fyrst og fremst mun þetta stuðla að auknu geð­heil­brigði fjöl­margra sem er for­senda fyrir því að ein­stak­lingar geti tekið þátt í sam­fé­lag­inu. Það er árang­ur­inn sem ráð­herr­ann á að fagna, og ekki síður að til lengri tíma mun ríkið spara sér háar fjár­hæð­ir,“ sagði Þur­íður Harpa Sig­urð­ar­dóttir for­maður banda­lags­ins, í til­kynn­ingu frá ÖBÍ.

Hlut­deild­ar­lánin bíða

Frum­varp Ásmundar Ein­ars Daða­sonar félags- og barna­mála­ráð­herra um hlut­deild­ar­lánin svoköll­uðu var ekki afgreitt áður en þingi var frestað, en það var lagt fram skömmu fyrir þing­lok. Um stórt mál er að ræða, sem verka­lýðs­hreyf­ingin hefur lagt mikla áherslu á að verði afgreitt, enda málið eitt af þeim atriðum sem stjórn­völd sögð­ust ætla að koma í fram­kvæmd eftir að skrifað var undir lífs­kjara­samn­ing­ana.

Engin sátt er þó um málið í þeirri mynd sem það var lagt fram og hafa bæði Óli Björn Kára­son þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks og Lilja Raf­ney Magn­ús­dóttir þing­maður Vinstri grænna, sem bæði leiða þing­nefnd­ir, gagn­rýnt málið fremur harð­lega í ræðu­stóli Alþing­is.

Hlut­deild­ar­lánin eru því ekki orðin að veru­leika, þrátt fyrir að haft hafi verið eftir Ásmundi Ein­ari í frétta­til­kynn­ingu þegar frum­varpið var kynnt fyrir örfáum vikum að það væri „virki­lega ánægju­legt að hlut­deild­ar­lánin séu orðin að veru­leika.“

Refsi­á­kvæði bætt við lög um lán til ferða­skrif­stofa

Nokkur mál sem varða efna­hags­leg við­brögð við kór­ónu­veiru­far­aldr­inum voru sam­þykkt í gær, en eitt þeirra sner­ist um stofnun nýs Ferða­á­byrgð­ar­sjóðs, sem ríkið mun nota til þess að lána ferða­skipu­leggj­endum eða smá­sölum fyrir end­ur­greiðslum til neyt­enda sem höfðu keypt pakka­ferðir sem þurfti eða þarf að aflýsa frá 12. mars - 31. júlí. 

Auglýsing

Alls verður 4,5 millj­örðum veitt í að lána ferða­skrif­stof­unum til þess að end­ur­greiða neyt­endum og síðan hafa þær allt að sex ár til að greiða upp­hæð­ina til baka til rík­is­ins. Kröfur eiga að hafa borist Ferða­mála­stofu, sem hefur umsjón með sjóðn­um, fyrir 1. sept­em­ber.

Í með­förum atvinnu­vega­nefndar bætt­ist við frum­varpið refsi­á­kvæði, sem felur í sér að ein­tak­lingar eða fyr­ir­tæki sem brjóti gegn notk­unum og mis­noti lán úr sjóðnum með ein­hverjum hætti, til dæmis með því að veita rangar að mis­vísandi upp­lýs­ingar eða nýta láns­fjár­hæð á ólög­mætan hátt, skuli sæta sektum sektum eða fang­elsi allt að sex árum, nema brotið telj­ist minni­hátt­ar.

Þing­for­seti bað fólk vel að lifa

Stein­grímur J. Sig­fús­son for­seti Alþingis flutti venju sam­kvæmt ávarp við þing­frestun og fór yfir lið­inn vet­ur. Hann sagði ekki nokkurn hafa órað fyrir því síð­asta haust, sem vet­ur­inn bar svo í skauti sér.

„Vonsku­veður í des­em­ber með til­heyr­andi raf­magns­leysi og eigna­tjóni gaf tón­inn og í kjöl­farið sigldu snjó­flóð í byggð á Vest­fjörð­um, land reis og jörð skalf á Reykja­nesi og kór­ónu­veiran stakk sér niður á Íslandi í febr­ú­ar­lok. Þegar far­ald­ur­inn hafði rénað að mestu, a.m.k. í fyrstu umferð, tók sig upp hörð jarð­skjálfta­hrina fyrir norðan land,“ sagði þing­for­set­inn. 

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.
Bára Huld Beck

Hann þakk­aði þrí­eyk­inu Víði, Þórólfi og Ölmu fyrir sín störf í yfir­stand­andi kór­ónu­veiru­far­aldri, sem hefur mjög litað þing­störfin und­an­farna mán­uð­i. 

„Það tókst að halda Alþingi starf­hæfu gegnum far­ald­ur­inn sem var ekki sjálf­gef­ið. Og það reynd­ist gríð­ar­lega mik­il­vægt, sam­an­ber þá tugi þing­mála sem við í dag­legu tali hér höfum nefnt COVID-­mál, og náðum að afgreiða, þar á meðal þrenn fjár­auka­lög,“ sagði Stein­grím­ur, sem hrós­aði þing­mönnum fyrir störf sín að und­an­förnu og öllu starfs­fólki þings­ins sömu­leið­is. 

„Margt er um Alþingi skrifað og skrafað eins og eðli­legt er og stundum erum við þing­menn býsna hörð í dómum um okkur sjálf. Það er sjaldnar sem Alþingi er hrósað en það skal nú gert og eins þótt það sé for­seti Alþingis sjálfur sem það ger­ir. Ég tel að Alþingi hafi stað­ist með ágætum erfitt próf, reyndar mörg próf sem fyrir okkur hafa verið lögð á þessum sér­stæða, strembna þing­vetri sem nú er að baki og verður vænt­an­lega eft­ir­minni­legur öllum þeim sem hlut áttu að máli,“ sagði Stein­grím­ur.

Þing kemur ekki saman á ný fyrr en 27. ágúst, sem áður seg­ir, og heldur þá 150. lög­gjaf­ar­þing áfram, en setn­ing 151. lög­gjaf­ar­þings verður ekki fyrr en 1. októ­ber.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar