Verksmiðjurnar sem framleiða kórónuveiruna
Vikum saman hafa sláturhús verið í fréttum vegna hópsýkinga starfsmanna af COVID-19. Skýringarnar eru margvíslegar. Í slíkum verksmiðjum er loftið kalt og rakt og fólk er þétt saman við vinnuna. En oft er starfsfólkið líka fjarri heimalandinu, þekkir illa sinn rétt og býr í ofanálag saman við þröngan húsakost.
Yfir 1.550 starfsmenn Tönnies-sláturhússins greindust með kórónuveirusmit í síðasta mánuði. Í kjölfarið tóku samkomu- og ferðatakmarkanir í borginni Guetersloh aftur gildi. Um 600 þúsund manns þurfa að hlíta þeim.
Tönnies-sláturhúsið er aðeins eitt af mörgum sláturhúsum og kjötvinnslustöðvum í Þýskalandi þar sem umfangsmikil hópsmit hafa komið upp meðal starfsmanna. Og Þýskaland er aðeins eitt af mörgum löndum þar sem kórónuveiran hefur náð mikilli útbreiðslu meðal starfsfólks í kjötiðnaði. Kjarninn hefur þegar fjallað um ástandið í Bandaríkjunum en sífellt fleiri lönd bætast í þennan hóp. Hollendingar hafa fengið sinn skerf og um helgina greindust til dæmis kórónuveirusmit í starfsmönnum þriggja sláturhúsa í Austurríki.
Ef nýja kórónuveiran SARS-CoV-2 mætti velja sér stað til að hreiðra um sig á yrðu sláturhús ofarlega á óskalistanum. Ástæðan er sú að þar er allt til alls svo hún geti lifað, dafnað og fjölgað sér við kjöraðstæður. Í sláturhúsum og kjötvinnslustöðvum er loftið kalt og rakt. Þar standa iðnir verkamenn þétt saman við vinnu sína og svitna jafnvel við erfið störfin. Allt getur þetta orðið til þess að veirur á borð við SARS-CoV-2 eiga auðveldara en ella með að berast frá manni til manns með dropasmiti eða snertingu.
Veirunni skæðu, sem fyrst er talin hafa smitast yfir í menn á blautmarkaði í Kína þar sem verslað er með lifandi og dauð dýr, hefur orðið að ósk sinni. Hún hefur hreiðrað um sig í sláturhúsum. Og hún hefur sýkt marga.
Það eru þó ekki aðeins sláturhúsin sjálf sem geta nánast orðið að verksmiðjum fyrir veiruna ef ekki er farið að öllu með gát og öllum reglum um sóttvarnir – sem eru strangar í matvælaiðnaði – fylgt.
Í Þýskalandi er talið að skýringuna á hópsýkingum meðal starfsmanna sláturhúsa megi líka rekja til fyrirkomulags þessa iðnaðar í landinu þar sem framleiðslufyrirtækin fela oft undirverktökum þennan hluta framleiðslukeðjunnar: Að slátra dýrunum og brytja niður fyrir áhugasama kaupendur.
Undirverktakarnir ráða farandverkamenn frá fátækari löndum til starfsins. Starfsfólk sláturhúsanna er því upp til hópa innflytjendur og farandverkafólk. Inni í samningnum er húsnæði – og akstur á vinnustað. Hljómar kannski ágætlega nema að húsnæðið er þröng verbúð og farartækið sem notað er til að aka fólkinu til vinnu er rúta þar sem þétt er setið. Þannig eru aðstæðurnar að minnsta kosti í mörgum tilfellum eins og rakið er í ítarlegri úttekt Der Spiegel á aðbúnaði og aðstæðum fólksins sem vinnur við að slátra dýrum í Þýskalandi svo að ódýrt kjöt komist á disk neytenda.
Það er því talið að smithættan sé í bæði vinnuumhverfi starfsmannanna, í híbýlum þeirra og á leið í vinnu. Samantekið: Hún er alltumlykjandi í öllu þeirra lífi.
„Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir að starfsfólk í þessum verksmiðjum – og sinnir þessu óvinsæla starfi – er oft farandverkafólk, útlendingar sem búa saman á heimavistum. Og þeir búa og ferðast í mikilli nánd,“ segir James Wood, deildarforseti dýralækningadeildar Cambridge-háskóla.
Heimavist, svefnskáli eða verbúð. Þetta eru líklega þau orð sem komast næst því að lýsa híbýlum verkamannanna. Þangað koma þeir rétt til að halla sér á milli vakta.
Kanadískir og breskir vísindamenn tóku saman höndum og rannsökuðu aðstæður í kjötvinnslustöðvum og sláturhúsum. Þeir komust að því að „járnfletir“ og „lágur hiti“ lengja líftíma veira á borð við SARS-CoV-2. Þeir benda í rannsókninni einnig á að í slíkum verksmiðjum er oft hávaði sem verður til þess að fólk þarf að hækka róminn til að yfirgnæfa lætin. Það gæti, að mati vísindamannanna, aukið enn á smithættuna. Þá er niðurstaða þeirra einnig sú að starfsfólkið finni fyrir þrýstingi frá yfirmönnum að halda áfram að mæta í vinnuna þó að það finni fyrir einkennum sem bent gætu til COVID-19.
Líftíminn lengdur
Ysta lag kórónuveira er skel úr fitu sem verður til þess að þær þrífast vel í köldu lofti. Sýnt hefur verið fram á að nýja kórónuveiran getur lifað í allt að 72 klukkutíma á yfirborði ef hitastigið er 21-23 gráður. Í lægra hitastigi lifa þær enn lengur. Mögulega dögum saman.
Þá berst veiran auðveldar um kalt loft, sérstaklega því sem dælt er með loftræstingu hring eftir hring í sama rými. Þetta getur orðið til þess að aðeins örfáir smitaðir starfsmenn séu nóg til að staðbundið hópsmit verður, hefur Der Spiegel eftir Tom Jefferson, heilsusérfræðingi við Oxford-háskóla. Þeir verða ofursmitberar svokallaðir. „Og ef starfsmennirnir búa svo saman, og taka sama strætisvagninn til vinnu, þá er erfitt að stöðva útbreiðsluna.“
Vísindamenn við smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna hafa rannsakað tilfelli COVID-19 í 114 sláturhúsum þar í landi. Að minnsta kosti 4.900 starfsmanna sýktust og í byrjun apríl höfðu yfir tuttugu látist vegna sjúkdómsins. Stofnunin krafðist grundvallarbreytinga til að lágmarka hættu á smitum, m.a. hólfuð útisvæði fyrir starfsmenn í pásum, strangari þrif og meiri sótthreinsun.
Jefferson telur að miklu frekar ætti að skima rækilega og reglulega fyrir veirunni hjá fólkinu sem vinnur við þessar kjöraðstæður veirunnar.
Svefnskála verkamanna í Münster, vestast í Þýskalandi, er vart hægt að kalla heimili, skrifa blaðamenn Der Spiegel í umfjöllun sinni. Og á síðustu dögum hefur þeim verið breytt í fangelsi. Járnhliðið við bygginguna er harðlæst og enginn má yfirgefa húsið. Inni eru farandverkamenn frá Rúmeníu. Þeir eru í sóttkví – sumir reyndar í einangrun. Allir vinna þeir hjá Tönnies-sláturhúsinu, því stærsta í Þýskalandi.
Fyrir nokkrum dögum bjuggu þeir fimmtán saman í litlu rými. Fimm greindust með smit. Þrír voru fluttir annað en tveir eru enn í húsinu. Blaðamaður Der Spiegel talaði við einn verkamanninn í gegnum hliðið. Sá var ekki smitaður, að minnsta kosti síðast þegar hann vissi. En hann býr í sama húsi og menn sem eru með COVID-19. Og vill gjarnan komast í burtu. Hann hringdi meira að segja í lögregluna sem sagðist ekkert geta gert.
Á hefðbundnum degi er tugum þúsunda svína slátrað í Tönnies-sláturhúsinu. Rúmenarnir komu til Þýskalands til að vinna þar. Starfsöryggið er lítið og launin lág. Það var eins og enginn heimsfaraldur væri í gangi innan veggja. Við starfsmannainnganginn átti að mæla hita starfsmanna. Það var ekki gert fyrr en tveimur dögum áður en allir voru sendir heim í einangrun og sóttkví eftir að ljóst var að upp var komið stærsta hópsmit í allri Evrópu.
Eigandinn – stundum kallaður Kjötbaróninn – hefur í fleiri ár hagrætt í starfseminni til að ná meiri afköstum. Clemens Tönnies er sagður „meistari“ í því að ná sem mestu út úr starfsfólkinu og sömuleiðis af skrokkum dýranna sem það slátrar. Hann selur kjötið ódýrt og er þess vegna eftirlætis birgir lágvöruverslana Þýskalands. Tönnies-veldið er með 30 prósent af svínakjötsmarkaði landsins. Sláturhúsin hans eru, eins og það er orðað í umfjöllun Der Spiegel, „lykilhlekkur í þeirri framleiðslukeðju þar sem dýrum er umbreytt í ódýrt kjöt“.
Með því að lágmarka kostnað, stækka og stækka, hefur Tönnies eitt og sér umbylt kjötiðnaðinum og komið sér fyrir í ráðandi stöðu.
Er skinkusneiðin þess virði?
Hvernig komið er fram við starfsmenn sláturhúsa og kjötvinnsla í Evrópu og Norður-Ameríku er eitt af því sem faraldur COVID-19 hefur afhjúpað síðustu mánuði. Hann hefur einnig afhjúpað hvernig komið er fram við dýrin sem þar er slátrað. „Þetta neyðir okkur ekki aðeins til að spyrja hvers vegna veiran getur breiðst svona hratt út í sláturhúsum,“ segir í grein blaðamanna Der Spiegel. „Þetta setur kastljósið einnig á þennan iðnað í heild: Hvað gengur í raun og veru á í kjötframleiðslunni? Við hvaða aðstæður þarf starfsfólkið að vinna? Og er skinkusneiðin þess virði?“
Stjórnmálamenn eru hættir að mæra Tönnies. Það hafa minni hluthafar í fyrirtæki hans einnig gert. Íbúar borganna tveggja sem þurfa að sæta ferða- og samkomutakmörkunum, eru æfir.
Robert Habeck, varaformaður Græningjaflokksins í Þýskalandi, segir að hópsmitin í kjötiðnaðinum og „Tönnies-krísan“ hafi sýnt að nýrrar nálgunar sé þörf. Breytingar eru þegar í uppsiglingu. Þýska ríkisstjórnin ætlar sér að banna undirverktöku í kjötiðnaðinum með nýrri löggjöf.
Hubertus Heil, atvinnumálaráðherra Þýskalands, hefur sagt kjötbaróninn Tönnies bera mikla ábyrgð. Hann hafi hagnast svívirðilega á slátrun svína. Karl-Josef Laumann, heilbrigðisráðherra í Norðurrín-Vestfalíu, hefur krafist lagabreytinga.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig blandað sér í málið. Ráðherra atvinnu- og félagsmála sambandsins hefur sagt að til skoðunar sé hvort að vinnulöggjöf sambandsins hafi verið brotin.
Svínakjöt frá Tönnies á tilboði
Ein stærsta matvörukeðja Þýskalands hefur líka sagt sína skoðun: Að framleiðslan væri í ekki í samræmi við þá gæðastaðla sem fyrirtækið standi fyrir. Hún selur reyndar enn kjöt frá Tönnies – og á enn meira tilboði þessa vikuna.
Bændurnir sem selja svín sín til Tönnies eru örvæntingarfullir. Engir bílar koma og sækja dýrin og flytja þau til slátrunar. Sláturhúsið er lokað vegna hópsýkingar. En svínin halda áfram að stækka. Sumir hafa gripið til þess ráðs að breyta fóðurgeymslum í svínastíur. Þegar einn hlekkur í framleiðslukeðjunni dettur út þá hrannast vandamálin á svínabúunum upp. Sláturhúsið er veikasti hlekkurinn.
Clemens Tönnies er milljarðamæringur. Margir hafa litið upp til hans en nú er tónninn breyttur. Hann er orðinn að táknmynd þess sem COVID-19 afhjúpaði: Oft á tíðum skelfilegan aðbúnað dýra og fólksins sem slátrar þeim.