Kostnaður vegna vinnu eins manns veigamikill hluti af skaðabótakröfu Samherja

Samherji stefndi Seðlabankanum í fyrra til greiðslu á 316 milljónum króna í skaða- og miskabætur vegna rannsóknar bankans á fyrirtækinu. Hluti af skaðabótakröfunni er vegna vinnu eins manns á tveggja ára tímabili sem ekki fást upplýsingar um hver sé né hvað hann gerði. Í greinargerð lögmanns Seðlabankans er strikað með svörtu yfir öll efnisatriði rannsóknar bankans á hendur Samherja.

Samherji stefndi í fyrra Seðlabanka Íslands til greiðslu skaða- og miskabóta vegna rannsóknar þess síðarnefnda á ýmsum ætluðum brotum fyrirtækisins á meðan að fjármagnshöft voru við lýði á Íslandi. Samherji fór fram á 316 milljónir króna í skaða- og miskabætur vegna rannsóknar Seðlabankans á fyrirtækinu fyrir nokkrum árum auk þess sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, stefndi persónulega og fer einnig fram á 6,5 milljónir króna í bætur.

Skaðabótakrafa Samherja, sem er upp á 306 milljónir króna, byggir meðal annars á kostnaði við einn starfsmann sem starfaði fyrir fyrirtækið um tveggja ára skeið, frá maí 2013 til maí 2015, þegar Samherjamálið var til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Seðlabankinn telur sig ekki geta veitt upplýsingar um hver viðkomandi starfsmaður sé, við hvað hann hafi starfað né hver heildar skaðabótakrafa Samherja vegna starfa hans sé há. Afstaða bankans er að það sé Samherja að upplýsa um það.

Kjarninn hefur sent fyrirspurnir á Samherja um málið en fyrirtækið hefur ekki svarað þeim. 

Vantaði undirskrift ráðherra

Rannsókn á Samherjamálinu hófst 2010 á athugun gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands á því hvort að íslensk útflutningsfyrirtæki væru að standa skil á svokallaðri skilaskyldu á gjaldeyri, sem öll slík þurftu að gera á grundvelli laga um gjaldeyrismál sem fjármagnshöftin, sem voru við lýði á Íslandi frá 2008 til 2017, byggðu á. Ákveðin vending varð í málinu þegar ráðist var í húsleitir 27. mars 2012. Sama dag var sýndur fréttaskýringaþáttur í Kastljósi RÚV þar sem fjallað var um hluta þess sem var til rannsóknar hjá Seðlabankanum. 

Auglýsing

Þann 10. apríl 2013 kærði Seðlabankinn Samherja og tengd félög til sérstaks saksóknara fyrir brot á gjaldeyrismálum og reglum þeim tengdum. Kæran laut að meintum brotum gegn skilaskyldu á erlendum gjaldeyri, fjárfestingum í erlendum gjaldeyri og meintum brotum í tengslum við svokallaða milliverðlagningu.

Mál Samherja kom aldrei til efnislegar umfjöllunar fyrir dómstólum en því var vísað frá sökum þess að þáverandi ráðherra bankamála ritaði ekki undir reglugerð sem veitti gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands þá heimild sem stjórnvöld ætluðu því til að refsa lögaðila eins og Samherja.

Seðlabankinn vísaði þá málatilbúnaði gegn fjórum fyrirsvarsmönnum Samherja til sérstaks saksóknara sem komst á endanum, eftir tveggja ára rannsókn, að þeirri niðurstöðu að líkur á sakfellingu yfir einstaklingunum fyrir hin ætluðu brot væru minni en líkurnar á að þeir yrði sýknaður og felldi málið niður. Þá var lögð stjórnsýslusekt á Samherja upp á 15 milljónir króna til að reyna að ljúka málinu en Seðlabankinn var gerður afturreka af Hæstarétti með þá sekt í nóvember 2018 og hún felld niður í kjölfarið. 

Telja fjártjón ekki sannað

Í fyrrahaust stefndi Samherji og Þorsteinn Már Baldvinsson Seðlabanka Íslands til greiðslu skaða- og miskabóta vegna Samherjamálsins.

Í skaðabótamálinu á hendur Seðlabanka Íslands fer Samherji fram á bætur upp á samtals tæplega 316 milljónir króna. Þær skiptast þannig að fyrirtækið krefst skaðabóta upp á 305,8 milljónir króna og miskabóta upp á tíu milljónir króna.  Auk þess stefndi Þorsteinn Már Seðlabankanum persónulega og fór fram á skaðabætur upp á fimm milljónir króna og miskabætur upp á 1,5 milljón króna. 

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Mynd: Samherji

Kröfuna byggja Samherji og Þorsteinn Már á því að Seðlabanki Íslands hafi með rannsókn sinni og stjórnvaldsákvörðunum í Samherjamálinu svokallaða, valdið sér fjárhagslegu tjóni og miska. 

Í greinargerð Jóhannesar Karls Sveinssonar, lögmanns Seðlabankans í málinu, sem var skilað inn til dómstóla í október 2019 og Kjarninn fékk nýlega afhenta hjá bankanum, eru málavextir raktir og fjárkrafa Samherja útskýrð. 

Bótakrafa fyrirtækisins er sögð vera vegna lögfræði- og sérfræðikostnaðar, vegna innri kostnaðar og svo miskabóta. Fyrri tveir liðirnir eru því útlagður kostnaður og fer Samherji fram á 305,8 milljónir króna frá Seðlabanka Íslands vegna hans. 

Í greinargerðinni segir lögmaður Seðlabankans að þetta tjón sé ósannað. Í stefnu Samherja sé ekki að finna sundurliðun eða nánari tilgreiningu á því tjóni sem krafist sé undir liðnum skaðabætur og eiginleg sönnunargögn ekki lögð fram. „Þannig er ekkert reifað hvenær einstakir kostnaðarliðir féllu til eða af hvaða tilefni var til þeirra stofnað.“

Hvorki kvittanir né greiðslustaðfestingar hafi verið lagðar fram til sönnunar á þessum útlagða kostnaði. Í greinargerðinni segir: „Ekki er skýring á því í stefnunni hvers vegna þetta mál er höfðað til innheimtu rúmlega 300 milljóna króna í skaðabætur án þess að sönnunargögn fyrir því tjóni séu lögð fram eða að reifun eða sundurliðun á því tjóni sé að finna í stefnunni.“

Bætur vegna launa eins starfsmanns

Í greinargerð lögmannsins segir að eðli skaðabótakröfu Samherja sé þannig að um sé að ræða kostnað úr ýmsum áttum, sem bæði geti tengst málsvörnum Samherja, en einnig ýmsu öðru. 

Til viðbótar við þann kostnað sem fallið hefur til vegna svara við fyrirspurnum stjórnvalda, og vegna þess að Samherji hefur haldið uppi vörnum, er líka talinn til „eigin kostnaður“.

Auglýsing

Í honum felst krafa um launakostnað starfsmanna Samherja þann dag sem húsleit stóð yfir hjá fyrirtækinu árið 2012. Til viðbótar er farið fram á „bætur vegna heildarlauna eins starfsmanns um tveggja ára skeið (frá maí 2013 til maí 2015)“. 

Í greinargerðinni segir að engin reifun sé á því hvað umræddur starfsmaður gerði né hvernig Seðlabanki Íslands eigi að bera ábyrgð á því. „Þá verður að taka sérstaklega fram að á þessu tímabili var málið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara en ekki til meðferðar hjá stefnda“.

Upplýsa ekki um hver starfsmaðurinn sé

Kjarninn beindi fyrirspurn til Seðlabanka Íslands um málið og óskaði eftir því að fá upplýsingar um hversu háar bætur Samherji færi fram á að fá vegna heildarlauna þessa eina starfsmanns. 

Seðlabankinn svaraði fyrirspurninni í síðustu viku og sagðist ekki geta upplýst um það. Í svari hans sagði að telja yrði eðlilegt að um það ríkti trúnaður að hálfu Seðlabankans „hvaða rökstuðningi gagnaðili í dómsmáli hyggist beita, og að það sé hans ákvörðun en ekki bankans að upplýsa um það fyrr en málið hefur verið flutt.“

Kjarninn hefur tvívegis beint fyrirspurn til Samherja um sama mál. Þar var meðal annars óskað eftir upplýsingum um sundurliðað meint fjártjón Samherja vegna málsins og sérstaklega á þeim bótum sem fyrirtækið fer fram á vegna heildarlauna eins starfsmanns. Þá óskaði Kjarninn eftir upplýsingum um hvaða störfum viðkomandi starfsmaður gegndi fyrir Samherja og eftir útskýringum á því af hverju Seðlabanki Íslands ætti að bera ábyrgð á kostnaði vegna starfa þessa eina starfsmanns.

Már Guðmundsson var seðlabankastjóri um tíu ára skeið, meðal annars á meðan að rannsókn á Samherja stóð yfir.
Mynd: Bára Huld Beck

Samherji hefur ekki svarað fyrirspurnum Kjarnans um málið en sú síðari var send til fyrirtækisins á miðvikudag í síðustu viku. 

Strikað yfir efnisatriði málsins

Í greinargerð lögmanns Seðlabankans er strikað yfir með svörtu allsstaðar þar sem efnisatriði rannsóknar Seðlabankans á Samherja eru til umfjöllunar. Það er til að mynda gert þar sem farið er yfir efni kæru Seðlabankans til sérstaks saksóknara. Er það gert, samkvæmt svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Kjarnans um málið, vegna þess að þagnarskylda gildi um umrædd gögn.

Kjarninn mun á næstu dögum kæra þá afstöðu Seðlabanka Íslands til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á þeim grundvelli að verið sé að stefna opinberum aðila til greiðslu hárra bóta, og því varði málið almannaheill. 

Auglýsing

Í bréfi sem Már Guð­­munds­­son, þáver­andi seðla­­banka­­stjóri, sendi Katrínu Jak­obs­dóttur for­­sæt­is­ráð­herra 29. jan­úar 2019, vegna máls­ins fjallaði hann meðal annars um þau gögn Samherjamálsins sem hafa ekki verið gerð opinber.

Þar sagði meðal ann­ars að „ýmis helstu gögn máls­ins sem skipta máli varð­andi þá spurn­ingu eru ekki opin­ber, eins og t.d. end­­ur­­send­ing­­ar­bréf sér­­staks sak­­sókn­­ara. Þá gæti það a.m.k. af sumum verið túlkað sem verið væri að halda því fram að Sam­herji væri sekur hvað sem nið­­ur­­stöðum dóm­stóla líð­­ur. Það hefur reyndar þegar verið gert af hálfu tals­­manna Sam­herja þegar ég eftir að dóm­­ur­inn féll tjáði mig í fjöl­miðlum til að útskýra mun­inn á þeirri spurn­ingu hvort Sam­herji sé sekur og þeirri hvort aðgerðir Seðla­­bank­ans hafi verið til­­hæfu­­laus­­ar. Fari Sam­herji hins vegar í skaða­­bóta­­mál verður ekki undan þess­­ari umræðu vik­ist og að a.m.k. ein­hver máls­skjöl yrðu lögð fyrir dóm­inn og yrðu í þeim skiln­ingi opin­ber. Ég hefði reyndar ekk­ert á móti því að öll gögn máls­ins yrðu gerð opin­ber.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar