Aðstæður dýra sem búa við þauleldi „eru forkastanlegar“
Að hafa varphænur í búrum er slæmt en að bregðast við með því að stafla þeim á palla í sama þrönga rýminu er „aumkunarverð tilraun til málamynda,“ segir í athugasemd um áformaða framleiðsluaukningu Stjörnueggja. Sex þauleldisbú eru starfrækt á Kjalarnesi og Reykjavíkurborg íhugar stefnubreytingu.
Stjörnuegg fyrirhugar „mjög umfangsmikla“ framleiðsluaukningu í eggjabúi sínu að Vallá að mati Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og því verði að huga vandlega að umhverfisáhrifum. Dreifing um 3.500 tonna af hænsnaskít árlega á jörðinni Geldingaá í Borgarfirði, skíts sem myndi falla til með auknum fjölda fugla, skapar hættu á mengun sameiginlegs vatnsbóls að mati landeigenda í nágrenninu. Umhverfisstofnun minnir á að óheimilt er að dreifa skít yfir helstu vetrarmánuðina og Reykjavíkurborg segir áformaða framleiðsluaukningu kalla á breytingu á deiliskipulagi og vekur athygli á framkomnum hugmyndum um að skilgreina svæði þar sem svokallað þauleldi er stundað sem iðnaðarsvæði en ekki landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi.
Samtök grænkera á Íslandi benda á að aðstæður dýra sem þurfa að búa við þauleldi séu forkastanlegar. Enn meiri framleiðsla Stjörnueggs myndi auk þess koma litlum bændum, þar sem líf varphæna er bærilegt, illa.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögnum og athugasemdum við tillögu að matsætlun Stjörnueggs hf. sem áformar að uppfæra búnað og auka þannig framleiðslugetu í eggjabúi sínu að Vallá á Kjalarnesi. Í dag er á búinu mögulegt að hýsa 50.000 hænur en með breytingum á búnaði tveggja eldri húsa yrði hægt að auka fjöldann upp í 95.000 hænur. Aukningin fæst með því að setja upp varpkerfi á pöllum, svonefndan Aviary-búnað, og hætta þar með notkun á búrum og lausagöngu á ristum. Húsin eru því ekki stækkuð heldur settir upp pallar og með því móti gerlegt að koma þar fyrir fleiri fuglum.
Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem um er að ræða svokallað þauleldi alifugla. Hugtakið þauleldi er þýðing á hugtakinu „intensive rearing“ og er tilkynningarskylt til Skipulagsstofnunar ef til stendur starfsemi með yfir 85.000 stæðum fyrir kjúklinga eða 60.000 fyrir hænur.
Tillaga að matsáætlun er eitt fyrsta skrefið í umhverfismatsferlinu sem lýkur ekki fyrr en Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt á endanlegri matsskýrslu framkvæmdaaðila. Stofnanir og almenningur hefur næst aðkomu að ferlinu þegar frummatsskýrsla verður kynnt. Að auki þurfa framkvæmdaaðilar að fá leyfi viðkomandi sveitarfélags, óska eftir breytingum á deili- og aðalskipulagi, ef þörf krefur, og sækja um leyfi fyrir starfseminni hjá viðeigandi stofnunum.
Sex bú á Kjalarnesi með þauleldi
Matvælaframleiðsla á Kjalarnesi er í auknum mæli bundin við þauleldi. Starfsleyfisskyld svína- og kjúklingabú eru starfrækt á Móum, Vallá, Melavöllum, Brautarholti, Saltvík og Sætúni. „Breyttar áherslur í landbúnaði, með auknu vægi lífrænnar ræktunar og beinni tengslum framleiðenda og neytenda, getur skapað ný tækifæri í matvælaframleiðslu á Kjalarnesi,“ segir í umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. „Þar nýtur Kjalarnesið nálægðar við stærsta þéttbýlissvæði landsins, þar sem eftirspurn eftir lífrænt vottuðum afurðum beint frá býli eykst sífellt.“
Samtök grænkera á Íslandi leggjast alfarið gegn áætlununum Stjörnueggs um enn meiri fjöldaframleiðslu eggja. Þau segja í athugasemd sinni að einu gildu rökin fyrir því að fara í slíka framkvæmd væru ef Íslendingum stafaði ógn af minnkandi eggjaframleiðslu til manneldis en slíkt sé engan veginn raunin. „Þessi framkvæmd snýst um að viðhalda og auka við hag örfárra á kostnað margra. Fyrir utan fuglana sem þurfa að líða óþolandi aðstæður þá er þessi framkvæmd í beinni samkeppni við smærri framleiðendur og bændur þar sem að líf hænsnanna er mun bærilegra en það sem þekkist í verksmiðjum Stjörnueggs. Það er því til mikils að vinna að þessi áætlun verði ekki að veruleika.“
Benda samtökin á að mun mannúðlegri aðferðir séu til þess að framleiða egg en að auka fjölda fugla í búum þar sem fjöldaframleiðsla fer fram. „Við ættum að stemma stigu við neyslu eggja þar sem stuðst er við þauleldi og stuðla frekar að framleiðsluháttum þar sem er sýndur raunverulegur metnaður til þess að taka tillit til hagsmuna og velferðar fuglanna. Starfsemi Stjörnueggs er skilgreind sem þauleldi og talað um hana sem slíka í tillögunni, en aðstæður dýra sem þurfa að búa við þauleldi eru forkastanlegar og er lítið sem ekkert tillit tekið til hagsmuna dýranna.“
Fá aldrei að fara út
Samtökin vekja einnig athygli á því að eldi á 95 þúsundum varphænum þýði að „farga“ þurfi um 95 þúsund karlkynsungum á 15 mánaða fresti því þeir séu „óþarfir í þessum iðnaði. Restin, þúsundir hæna, hljóta þau örlög að hanga í sama þrönga rýminu; innilokaðar í gluggalausum byggingum, og er mikið af lífsferlum þeirra stjórnað af þar til gerðum ljósakerfum. Þær fá aldrei að fara út. Fara í rykbað.“
Lengi hefur verið bent á hversu slæmur aðbúnaður felist í því fyrir varphænur að alast upp í búrum. Hefur því verið stefnt að því, m.a. með lögum, að notkun búra verði hætt. „En það að hætta að halda hænur margar saman í þröngum búrum og þess í stað að halda þær í þúsundatali í sama þrönga rýminu er aumkunarverð tilraun til málamynda og ætti ekki að vera liðin.“
Hænur, og sér í lagi varphænur, hafa verið rannsakaðar nokkuð ítarlega, benda samtökin ennfremur á. Þeim líði vel þegar þær geta kroppað í jörð og blakað vængjunum. Þær hafi náttúrulega þörf fyrir að fara í rykbað og tylla sér á prik. Þær vilji verpa í friði og finnist best að vera í hóp sem telji færri en hundrað. „Aðstæður á þauleldis verksmiðjubúum eru þannig að hænurnar geta ekki framkvæmt þessi eðlislægu atferli sem stuðla að heilbrigði þeirra og almennri vellíðan. Áætlun um að Stjörnuegg auki framleiðslu sína um 45 þúsund fugla þýðir eingöngu það að á hverri stundu eru hagsmunir 45 þúsund fleiri fugla virtir að vettugi.“
Þessi framkvæmd snýst um að viðhalda og auka við hag örfárra á kostnað margra.
Óttast mengun vatnsbóls
Eigendur og ábúendur á jörðunum Skorholti, Skipanesi, Læk og Lyngholti, sem eru í nágrenni Geldingaár, gera athugasemdir við dreifingu á svo miklu magni af skít við vatnsból og í nálægð við vatnsverndarsvæði. Á það er m.a. bent í athugasemdum frá jarðeigendunum að sameiginlegt vatnsból þeirra sé í landi Geldingaár. Hins vegar séu vatnsból á svæðinu ekki merkt inn á það kort sem sýni svæðið sem til stendur að dreifa á skítnum á. „Það er krafa okkar að gerðar verði þær fyrirbyggjandi ráðstafanir sem þarf til að þau skaðist ekki á nokkurn hátt af umræddri framkvæmd,“ stendur í sameiginlegri athugasemd fjögurra landeigenda. „Eins þarf að ganga úr skugga um að búfjáráburður eða mengun frá honum berist ekki út í ár og læki sem búfé og lífríki stafi hætta af en áin Geldingaá og aðrir lækir renna frá þessu svæði í gegnum beitarlönd okkar og enda í Grunnafirði sem er friðlýst Ramsarsvæði.“
Umhverfisstofnun bendir í umsögn sinni á að í tillögu að matsáætlun sé hvergi minnst á lög um hollustuhætti og mengunarvarnir né reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit þar sem fram kemur starfsleyfisskylda starfseminnar hjá Umhverfisstofnun. Úr þessu þurfi að bæta í frummatsskýrslu.
Hauggeymslur skulu vera lokaðar
Stofnunin áréttar að hún hafi ekki gefið út að fyrirkomulag hauggeymsla á Vallá, sem nú er í opnum gámum, sé fullnægjandi eins og haldið er fram í skýrslu Stjörnueggs. Í eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar á síðasta ári hafi verið tekið fram að þó svo fallið hafi verið frá fráviki á hauggeymslufyrirkomulagi þá geti kröfur verið útfærðar á annan hátt þegar unnið verði að nýju starfsleyfi hjá stofnuninni. Stofnunin tekur fram að hauggeymslur skulu vera lokaðar, vandaðar og þéttar til að koma í veg fyrir jarðvegs-, vatns- og lyktarmengun.
Koma þurfi skýrt fram í frummatsskýrslu hvar og hvernig hænsnaskítur verði geymdur þann hluta árs þegar dreifing hans er óheimil. Stofnunin telur skynsamlegt að nota hænsnaskít sem áburð en einungis þar sem ekki er hætta á mengun lækja, áa eða vatnsbóla. Stofnunin bendir á að landið sem tilgreint er til dreifingar sé á grannsvæði vatnsverndar og að þar sé einnig brunnsvæði að finna.
Vallá er á landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur en samkvæmt deiliskipulagi frá árinu 2014 er gert ráð fyrir um 50 þúsund fuglum að meðaltali á búinu. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur kemur fram að um „mjög umfangsmikla“ aukningu sé að ræða og því þurfi að huga vel að umhverfisáhrifum fyrir nærliggjandi íbúðarhverfi, sérstaklega hvað varðar loftmengun. Núgildandi deiliskipulag geri ekki ráð fyrir þessum fjölda alifugla og því sé þörf á skipulagsbreytingu.
Reykjavíkurborg bendir í sinni umsögn á að í gangi sé vinna við að setja skýrari ákvæði um ræktun og matvælaframleiðslu á landbúnaðarsvæðum innan borgarmarkanna. Leiðarljósið sé að efla landbúnað sem nýti gæði landsins til ræktunar og matvælaframleiðslu. Skýrslu starfshóps um málið sé að vænta en í honum hefur m.a. sá möguleiki verið ræddur að setja ákveðnar takmarkanir á þauleldi, jafnvel þær að ekki yrði heimilt að stofna til slíks búskapar á öðrum jörðum en þeim sem þegar hafa til þess leyfi. Þá hefur einnig verið rætt um að skilgreina svæði sem þauleldi er stundað á sem iðnaðarsvæði en ekki landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi borgarinnar fari umfangið yfir ákveðin mörk. Þauleldisbúum sem fyrir eru yrði gefið eðlilegt svigrúm til þróunar en almennt tryggt að þeim fjölgi ekki.