Umfang vafasamra fjármagnsflutninga um marga stærstu banka Vesturlanda er gríðarlegt. Þetta sýna FinCEN-skjölin svokölluðu fram á. Stjórnmálamenn og ýmsir aðrir aðilar beggja vegna Atlantshafs telja að grípa þurfi til breytinga á regluverkinu um varnir gegn peningaþvætti í kjölfar uppljóstrana fjölmiðla í vikunni.
Stóra myndin sem dregin er upp í umfjöllunum fjölmargra fjölmiðla um FinCEN-skjölin, sem láku frá eftirlitsstofnun í bandaríska fjármálaráðuneytinu, er sú að stórir bankar sem hafa milligöngu um fjármagnshreyfingar í dollurum vita mætavel að þeir eru að hreyfa mikið magn peninga sem eiga misjafnan uppruna. Oft segjast bankarnir ekki einu sinni vita hver uppruninn fjármunanna og benda bandaríska eftirlitsaðilanum á það, eftir að þeir færa peningana. Segjast síðan vera búnir að sinna skyldu sinni.
Þetta gera bankarnir vitandi það að lögum samkvæmt dugir þeim að láta bandarísk yfirvöld vita af þessum grunsamlegu fjármagnsflutningum með tilkynningu eftir á og að yfirvöld eru gríðarlega ólíkleg til þess að gera nokkuð í málunum annað en að slá létt á handarbakið á fjármálastofnunum, láta þau greiða sektir sem eru smáar í stóra samhenginu og lofa bót og betrun, sem síðan á sér ekki stað.
Eins og farið hefur verið yfir í fyrri frétt Kjarnans um FinCEN-skjölin, eru umfjallanir fjölmiðla um þau afrakstur meira en eins árs yfirlegu blaðamanna um allan heim. Skjölin sem um ræðir eru yfir 2.600 talsins, þar af 2.121 svokölluð grunsemdarskýrsla (e. Suspicious Acitivity Report) sem bankar hafa skilað inn til bandarískra stjórnvalda varðandi fjármagnshreyfingar sem þeir sjálfir telja vafasamar. En afgreiða þó í flestum tilfellum, þrátt fyrir að hafa ríkar heimildir til þess að stöðva millifærslurnar að eigin frumkvæði.
Það sem umfjallanir upp úr þessum skjölum sýna fram á er alþjóðlegt eðli vafasamra fjármagnsflutninga. Þrátt fyrir að hér sé einungis um að ræða rúmlega 2.000 grunsemdarskýrslur, flestar frá árunum 2011-2017, en sumar eldri, er umfang þeirra millifærslna sem þar eru undir rúmar tvær billjónir (tvö þúsund milljarðar) bandaríkjadala. Þær teygja anga sína til um 170 landa.
Þetta er það sem blaðamenn náðu að púsla saman upp úr rúmlega tvö þúsund tilkynningum. Bara í fyrra, samkvæmt frétt BuzzFeed News, voru yfir tvær milljónir slíkra tilkynninga sendar inn til FinCEN, þar sem um það bil 270 manns starfa við úrvinnslu þeirra. Og þetta eru bara Bandaríkin. Fjármálastofnanir skila einnig inn svipuðum tilkynningum til stjórnvalda í öðrum ríkjum, en allsstaðar eru slíkar grunsemdarskýrslur háleynilegar og bundnar bankaleynd. Þær hafa aldrei lekið út í því magni sem nú er til umfjöllunar.
Sögurnar sem fjölmiðlar hafa miðlað upp úr þessum skjölum hafa verið margskonar. Sumar draga upp stóru línurnar um umfangið, sem hér hefur verið farið yfir að ofan í grófum dráttum, en aðrar eru með sértækari vinkla, um það hvernig fé frá glæpaklíkum, ríkisstjórnum sem sæta alþjóðlegum viðskiptaþvingunum, hryðjuverkahópum og fleiri misjöfnum aðilum virðast fá að streyma um reikninga stórbanka á Vesturlöndum með þeirra vitund án þess brugðist sé við, hvaða afleiðingar það hefur að stórir bankar leyfi peningaþvætti slíkra aðila að viðgangast og hversu veikt eftirlitsumhverfi bankageirans í Bandaríkjunum er.
Kjarninn tók saman nokkrar áhugaverðar umfjallanir.
HSBC flutti vafasamt fé með eftirlitsaðila á öxlinni
BuzzFeed News segir frá.
HSBC, stærsti banki Evrópu, játaði árið 2012 að hafa þvættað peninga, meira en 880 milljónir bandaríkjadala, fyrir mexíkóska eiturlyfjabaróninn Joquin Guzmá, sem er betur þekktur sem El Chapo. Stjórnendur bankans lofuðu bótum og betrun, borguðu 1,9 milljarða bandaríkjadala í sekt og samþykktu að utanaðkomandi eftirlitsaðilar fengju að fylgjast með því að allt væri með felldu varðandi peningaþvættisvarnirnar hjá bankanum.
Mál HSBC og El Chapo, sem kenndur er við Sinaloa-eiturlyfjahringinn í Mexíkó, var risastórt mál og það stærsta af þessu tagi sem banki hafði staðið frammi fyrir um lengri tíma. En, grunsemdarskýrslur frá regluvörðum bankans sýna að á því fimm ára tímabili sem utanaðkomandi aðili fylgdist með peningaþvættisvörnum innan HSBC hélt bankinn áfram að stunda viðskipti og færa peninga fyrir félög sem regluverðir hans töldu vafasöm.
Umfjöllunin varpar ljósi á það hversu veikt úrræði það er að láta banka samþykkja að sæta utanaðkomandi eftirliti, ef ætlunin er að láta þá koma einhverjum böndum yfir peningaþvætti, en eftirlitsaðilinn sem kom inn í bankann til að fylgjast með fékk greitt frá bankanum sjálfum – ekki bandarísku ríkisstjórninni.
Þeir hafa takmörkuð úrræði, geta óskað eftir skjölum bankans og reynt að taka viðtöl við starfsmenn, en hafa ekki vald til þess að láta neinn vinna með sér. Og bankarnir vita það. BuzzFeed ræðir við fyrrverandi yfirmann á skrifstofu bankans á Manhattan í New York sem segir að litið hafi verið á starfsemi eftirlitsaðilans sem hálfgert grín, innan bankans.
Norður-Kórea þvættaði fé í gegnum banka í New York
Stjórnvöld í Norður-Kóreu virðast hafa þvættað peninga árum saman með flókinni slóð skúffufélaga og hjálp frá kínverskum félögum. Þannig tekst þeim að komast á svig við alþjóðlegar viðskiptaþvinganir, sem eiga að koma í veg fyrir að harðstjórnin í Pjongjang eða aðilar henni tengdir hafi aðgang að alþjóðlega fjármálakerfinu.
Grunsamlegar millifærslur frá aðilum með tengsl við Norður-Kóreu sem fjallað er um í FinCEN-skjölunum námu að minnsta kosti 174 milljónum bandaríkjadala yfir nokkurra ára tímabil og fóru meðal annars í gegnum banka á borð við JPMorgan Chase og Bank of New York Mellon.
Skúffufyrirtæki í Singapúr heimsótt
BuzzFeed News segir frá.
Í FinCEN-skjölunum var að finna fjölda tilkynninga um fyrirtæki sem heitir Ask Trading, sem var sagt til húsa í Singapúr og sagðist á heimasíðu sinni vera með yfir 200 starfsmenn og starfa í viðskiptum og fjárfestingum með áherslu á Rússland og fyrrverandi Sovétlýðveldin.
Þetta fyrirtæki flutti samtals að minnsta kosti 671 milljón bandaríkjadala á árunum 2001-2016 í gegnum bandarísk útibú banka á borð við Deutsche Bank, JPMorgan Chase og Bank of New York Mellon. Féð átti sér óræðan uppruna og tilgangur viðskiptanna var óljós, samkvæmt bönkunum sjálfum.
Einn regluvörður hjá Bank of New York Mellon tiltók sérstaklega í grunsemdartilkynningu sinni að það virtist heldur yfirdrifið hjá fyrirtækinu að vera að kaupa flúorlampa fyrir 27,1 milljón bandaríkjadala á þriggja mánaða tímabili, eins og reikningar sýndu fram á. Í umfjöllun BuzzFeed kemur fram að opinber gögn frá Rússlandi sýni fram á að félagið átti engin raunveruleg viðskipti með flúorlampa þaðan.
BuzzFeed News lagðist í rannsóknarvinnu á störfum þessa fyrirtækis og komst að því að það var alls ekki með 200 manns í vinnu, öllum myndunum af vefsíðu þess var stolið af öðrum vefsíðum og þegar blaðamenn bönkuðu upp á meintri skrifstofu þess í Singapúr sat þar vafasamur skattalögmaður, sem hefur komist í kast við lögin.
BuzzFeed lét sérfræðing í fjármálaglæpum fara yfir skjölin og hann var ekki lengi að draga upp þá mynd að dollaraviðskiptin sem Ask Trading hafði átt í með hjálp bandarískra banka hefðu haft þann tilgang að færa fé með uppruna í ólöglegu athæfi í Rússlandi eða fyrir hönd rússneskra eða úkraínskra aðila sem vildu koma sér undan viðskiptaþvingunum.
Vafasamir viðskiptahættir tyrknesks banka með rík tengsl við stjórnvöld
Viðskipti ýmissa tyrkneskra banka voru tilkynnt til FinCEN, en samkvæmt umfjöllun Deutsche Welle stendur einn þar sérstaklega upp úr. Það er Aktif Bank, sem er í eigu Calik Holding, einnar stærstu fyrirtækjasamstæðu Tyrklands.
Calik Holding er með rík tengsl við stjórnmálaelítu Tyrklands og margar þær millifærslur sem tilkynntar voru til bandarískra yfirvalda vegna gruns um peningaþvætti voru gerðar þegar tengdasonur Erdogans Tyrklandsforseta var forstjóri samstæðunnar.
Samkvæmt umfjöllun Deutsche Welle grunuðu regluverðir bandarískra banka Aktif Bank um vafasama fjármagnsflutninga fyrir ýmsa aðila, meðal annars þýska fjármálafyrirtækið Wirecard sem nú tekst á við sinn eigin svikaskandal, vafasama aðila í klámiðnaðinum og fjölda afganskra aðila, meðal annars gas- og olíufélag að nafni Watan Group, sem bandarísk stjórnvöld saka um að vera í fjármálatengslum við Talíbana.
Bank of America lokaði á frekari viðskipti við Aktif Bank vegna síðastnefnda kúnnans, sem bankinn hafði þá þegar fært að minnsta kosti meira en þrjár milljónir bandaríkjadala fyrir.
Hver verða viðbrögðin?
Stjórnmálamenn bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu hafa tjáð sig um umfjallanirnar upp úr FinCEN-skjölunum í vikunni og sagt þær tilefni til rækilegrar endurskoðunar á þeim vörnum gegn peningaþvætti sem eru í gildi. Öldungardeildarþingmenn demókrata og forsetaframbjóðendur í forvali flokksins, þau Bernie Sanders og Elizabeth Warren, hafa til dæmis bæði sagt að aðgerða sé þörf.
Mel Stride, þingmaður breska Íhaldsflokksins og formaður fjármálanefndar breska þingsins, sendi frá sér yfirlýsingu á miðvikudag og þar sem hann sagði að sumt sem fram hefði komið í umfjöllunum hefði valdið sér miklum áhyggjum. Hann hefur sent formlegar spurningar á ríkisstjórn Boris Johnson um það hvort stjórnin sé að gera nóg til að stöðva peningaþvætti.
Ljóst er að gagnalekinn og umfjallanirnar hafa vakið ýmsa til vitundar um gríðarlegt umfang vafasamra fjármagnsflutninga um bankastofnanir sem njóta trausts á Vesturlöndum og áhugavert verður að fylgjast með því hvernig umræðan um þessi mál þróast á næstu vikum.