Brenglað bragðskyn eftir COVID –„Þetta er bara allt svo steikt!“
Hann finnur myglubragð af papriku og „COVID-lykt“ í miðbænum. Það skrítnasta er þó að hann finnur alls enga skítafýlu. Háskólaneminn Kolbeinn Arnarson fékk COVID-19 síðasta vetur og segir einangrunina, sem stóð í mánuð, hafa tekið verulega á.
Þegar kórónuveirufaraldurinn hófst hér á landi í byrjun mars voru Kolbeinn Arnarson og vinur hans að ræða það í gríni hver í vinahópnum væri líklegastur til að fá COVID-19. „Kolbeinn, þú,“ sagði vinurinn. „Það ert þú sem ert líklegastur til þess.“
Og þar reyndist hann sannspár. Kolbeinn, sem er 23 ára nemandi í stjórnmálafræði með hagfræði sem aukafag í Háskóla Íslands, greindist með sjúkdóminn í byrjun apríl. „Ég hafði verið að gera grín að þessu öllu saman og það kom svo rækilega í bakið á mér,“ segir Kolbeinn þegar hann rifjar þetta upp í samtali við Kjarnann.
Síðan eru liðnir um fimm mánuðir. Kolbeinn hefur jafnað sig að mestu, er í fjarnámi í flestum fögum eins og aðrir háskólanemar og starfar meðfram náminu sem vínþjónn á vínbarnum Port 9.
Í fyrstu bylgju faraldursins í vetur fékk öll fjölskylda Kolbeins, foreldrarnir Bergþóra Njála Guðmundsdóttir og Örn Baldursson og systir hans Auður, COVID-19. Það var fjölskyldufaðirinn sem veiktist fyrst og smitrakning leiddi síðar í ljós að hann hafði smitast á vinnustað sínum.
„Í lok mars fór pabbi að finna fyrir einkennum og mamma sendi hann út í bílskúr í einangrun en við systkinin og hún fórum í sóttkví í húsinu,“ segir Kolbeinn. Bílskúrinn er þó alls ekki óvistlegur, svo því sé haldið til haga, enda dvalarstaður Kolbeins sjálfs alla jafna. „Mamma var auðvitað að vonast til þess að hann hefði ekki náð að smita okkur en fljótlega fóru hún og systir mín að finna fyrir smávægilegum einkennum. Á þessum tíma var pinnaskortur í landinu svo aðeins þeir sem höfðu einkenni komust í sýnatöku. Þær fóru og voru greindar með COVID og ég taldi þá mjög ólíklegt að ég hefði sloppið. Ég fékk svo einhver smá einkenni, fór í sýnatöku og fékk niðurstöðuna: Ég var líka með COVID.“
Kolbeini fannst það reyndar óraunverulegt og efaðist stundum um að greiningin væri rétt. Einkennin voru svo lítil. Í nokkra daga hafði hann óvenjulega tilfinningu í hálsinum og hóstaði annað slagið. „Fyrir tveimur árum hefði ég hiklaust mætt í skólann með þessi einkenni.“
En þegar hann var að bíða eftir niðurstöðum úr sýnatökunni fóru undarlegir hlutir að gerast. „Ég sat heima og var að maula á kexi og fattaði svo allt í einu að ég fann ekkert súkkulaðibragð af því. Mér brá og vildi ekki alveg trúa þessu svo ég endaði á að sprauta rakspíra út í loftið og ganga í gegnum skýið. En ég fann ekki nokkra lykt. Þannig að ég hugsaði með mér að ég hefði líklega smitast af þessari blessuðu veiru.“
Sem reyndist raunin.
Þegar þarna var komið við sögu var Kolbeinn í sóttkví sem breyttist svo í einangrun. Hann hafði misst bæði bragð- og lyktarskyn algjörlega. „Það var rosalega skrítin upplifun að fá sér kaffibolla, finna enga lykt af kaffinu og taka svo sopa og það eina sem ég fann var heitur vökvi á tungunni. Bókstaflega alls ekkert bragð.“
Og þar sem bragðskynið var farið var auðvitað upplagt að borða bara hollt, segir hann og hlær. „Ég fór að velja mat út frá áferð frekar en nokkru öðru. Hvernig áferð mig langaði í þennan daginn frekar en hvaða bragði ég væri að sækjast eftir.“
Pabbi hans flutti inn úr bílskúrnum og einangrun allrar fjölskyldunnar hófst. Kolbeinn segist ekki hafa verið stressaður eftir að greinast með COVID-19. Hann hafi ekki óttast um líf sitt eða verið hræddur. „Ég er ungur og hraustur og vissi að ég væri ekki í áhættuhópi.“ Hins vegar segist hann hafa haft vissar áhyggjur af pabba sínum en hann var sá sem veiktist mest í fjölskyldunni. „En þessar áhyggjur mínar voru aldrei mjög alvarlegar. Og ég var alltaf viss um að þetta myndi allt saman líða hjá og að við myndum öll ná bata.“
Kolbeinn segist ekki hafa verið mjög upptekinn af fréttum af útbreiðslu faraldursins og sjúkdómnum sjálfum. Hann hafi hlakkað mest til að losna úr einangrun. „Ég er mikil félagsvera og var kominn með vott af „cabin fever“ þegar leið á einangrunina. Við vorum öll saman heima í heilan mánuð og ég get alveg upplýst um það núna að við vorum komin með pínu ógeð hvert á öðru á ákveðnum tímapunktum,“ segir hann og skellir upp úr.
Þegar faraldurinn skall á og byggingum framhalds- og háskóla var skellt í lás hófst fjarnám hjá Kolbeini eins og öðrum. „Mér fannst ekkert mál að vera í fjarnámi. Önnin var komin vel af stað þegar það hófst og við tóku verkefnaskil og undirbúningur fyrir lokapróf.“
Hann segist hins vegar hafa átt erfitt með að festa hugann við námið þegar hann var í einangruninni. „Ég var frekar orku- og áhugalaus,“ segir hann en það tengir hann frekar við aðstæðurnar en sjúkdóminn sjálfan. „Ég var einhvern veginn bara búinn á því. Að geta ekki farið út tók á. Ég fór í mesta lagi út í garð með kettinum. Það var nú öll útiveran.“
Einangrunin hafi í einu orði sagt verið erfið. „Þetta var hálf glatað og ég mæli ekki með þessu,“ segir hann. Til að létta sér lífið spilaði hann tölvuleiki á netinu með vinum sínum. „Það fullnægði félagsþörfinni að einhverju leyti. Auðvitað hefði ég átt að lesa meira, tileinka mér eitthvað nýtt eins og að læra á gítar en satt best að segja þá var ég einfaldlega ekki í stuði til þess.“
Þetta er eins og með annað, maður verður að taka hlutum eins og þessum, sem maður hefur enga stjórn á, af æðruleysi.
Smám saman fór Kolbeinn að finna bragð og lykt aftur. En ekki alltaf sama bragð og sömu lykt og fyrir veikindin. Hann segir erfitt að lýsa þessu svo vel sé en gerir eftirfarandi tilraun til þess: „Ýmsir hlutir bragðast og lykta öðruvísi en áður. Sem dæmi þá finn ég eitthvað aukabragð af papriku. Það er alveg sama hvort hún er soðin, steikt eða hrá, ég finn eins og ónáttúrulegt verksmiðjubragð en samt líka einhvers konar myglubragð. Þetta er ekki gott bragð, svo mikið er víst. Og paprika, sem var eitt uppáhalds grænmetið mitt, hefur fallið niður vinsældalistann hjá mér.“
Hann tekur annað dæmi: „Tannkrem. Allt í einu finn ég öðruvísi bragð af því. Það er ekki gott bragð en heldur ekkert vont. Bara nýtt.“
Hvað lyktarskynið varðar segir hann það almennt daufara en áður. Hann tekur dæmi: „Í sumar keyrðum við vinirnir til Hveragerðis. Og eins og vanalega, þegar við vorum á Hellisheiði, þá fer að finnast hveralykt. Og eins og vanalega fóru vinirnir að hlæja og spyrja hver hafi verið að prumpa. En ég tengdi ekki við þetta grín. Fann alls enga lykt.“
Þá segist hann nú finna algjörlega nýja lykt sem kann kallar COVID-lyktina. Hana finnur hann oft núna, t.d. þegar hann er á gangi fram hjá útblæstri eldhúsa veitingastaða í miðbænum. „Þetta er matarlykt sem verður að nýrri lykt. Ég held að það sem komist næst því að lýsa þessu sé rauðlaukur,“ segir Kolbeinn og viðurkennir að hann hafi eytt drjúgum hluta gærdagsins í að þefa af rauðlauk. „Þetta er lyktin,“ segist hann hafa hugsað mér sér. Lykt af rauðlauk er hins vegar ekki sem verst að hans mati, „en þetta er bara allt svo steikt!“
En svo er það eitt það skrítnasta: „Ég finn ekki lengur skítalykt,“ segir Kolbeinn ákveðið. Hvort það er gott eða slæmt skal látið liggja á milli hluta en hann segir sögu af því þegar hann var á ferðalagi á afskekktum stað á Norðurlandi í sumar í námunda við sveitabæ þar sem skólpið er látið fara óhreinsað í sjóinn. „Svo kemur flóð og kúkurinn fer upp á land og þar verður hann eftir þegar það fjarar út,“ segir hann. „Ferðafélagarnir fundu vægast sagt rosalega vonda skítalykt og flúðu undan henni. En ekki ég. Ég fann enga lykt. Og þegar ég hugsa um það þá hef ég bara ekki fundið þess konar lykt frá því að ég fékk COVID.“
Kolbeinn er byrjaður að gera ráð fyrir því að þetta breytta lyktar- og bragðskyn sé komið til að vera. „Þetta er eins og með annað, maður verður að taka hlutum eins og þessum, sem maður hefur enga stjórn á, af æðruleysi. Og þetta er ekki alvarlegt miðað við það sem margir aðrir eru að ganga í gegnum. Þetta brenglaða bragð- og lyktarskyn er ekkert hræðilegt en það er hins vegar ekki ákjósanlegt heldur.“
Spurður hvort að hann finni fyrir skertri einbeitingu eða minnistapi líkt og margir þeir sem fengu COVID-19 hafa upplifað segir hann svo ekki vera. „Nei, ég er bara jafn einbeitingarlaus og venjulega,“ segir hann kíminn. „En að öllu gríni slepptu þá finn ég enga breytingu á hugrænni getu.“
Góðu fréttirnar eru þær að Kolbeinn finnur sömu góðu lyktina af kaffi og áður og bragðið af því líka.
Spurður hvort hann hafi einhverjar ráðleggingar handa ungu fólki sem greinst hefur nýverið með COVID-19 og er í einangrun svarar Kolbeinn að lykilatriði sé að reyna að halda sér í virkni – að missa ekki dampinn. „Þetta er hundleiðinlegt ferli. Ég var stundum orðinn það þreyttur á einangruninni að mig langaði að gefa skít í allt og fara bara út. En auðvitað gerði ég það ekki – það var aldrei inni í myndinni. Maður verður að takast á við þetta af æðruleysi. Ekki missa móðinn, það er það sem ég vil segja fólki sem er í þessum sporum.“
Svo segir hann ekki úr vegi að hvetja fólk til að gera það sem hann gerði ekki: Að næra hugann með lestri eða að læra eitthvað nýtt. „En ég skil það rosalega vel að fólk nenni því ekki. Þetta er auðveldara sagt en gert. Ég þekki það manna best, ég spilaði eiginlega tölvuleiki í mánuð.“
Kolbeinn segir að fjölskyldan hafi reynt að finna jákvæðar hliðar á því að hafa gengið í gegnum þessi veikindi. Að nú gæti hún fengið vottorð um að hafa fengið COVID-19 og ferðast svo saman um heiminn. En Kolbeinn dró stutta stráið í því – engin mótefni mælast í líkama hans svo líklega fær hann ekki slíkt vottorð. „En nei, ég mæli svo sannarlega ekki með því að fá COVID-19. Þó að ég hafi veikst lítið og mín langtímaeinkenni hafi verið vægari en margra þá myndi ég nú gefa mikið til að fá aftur lyktar- og bragðskynið mitt eins og það var áður.“
Sama dag og Kolbeinn losnaði úr einangrun þráði hann að gera eitthvað skemmtilegt og fannst það þjóðráð að ganga á Esjuna með vinum sínum. „Sem var auðvitað galin hugmynd eftir að hafa varla hreyft mig lengra en frá sófanum að ísskápnum í margar vikur.“
Af meira kappi en forsjá lagði hann þó af stað og komst upp að Steini án vandkvæða. En þegar næsti kafli göngunnar hófst bentu vinirnir honum á að hann væri orðinn náfölur í framan og hann ákvað að snúa við. „Þetta var aðeins of bratt svona til að byrja með. Það var helvíti metnaðarfullt að ætla að fara í heila fjallgöngu daginn sem maður losnaði úr einangrun,“ segir hann og hlær. „En eftir langa innilokun er það samt skiljanlegt. Að maður vilji hitta vinina og hlaupa helst á fjöll.“