Ójöfn kreppa
Líklegt er að yfirstandandi efnahagskreppa komi til með að auka ójöfnuð á Íslandi, en hún hefur komið sérstaklega illa niður á tekjuminni hópum í samfélaginu.
Innflytjendur, konur og ungt fólk hafa fundið meira fyrir efnahagsþrengingum síðustu mánaða heldur en aðrir hópar samfélagsins. Hrun í þjónustustörfum og aukin heimavinna hafa leitt til minni atvinnuþátttöku þessara þriggja hópa og aukins atvinnuleysis. Sérfræðingar hafa bent á að kreppan geti aukið ójöfnuð ef ekkert verði að gert, auk þess sem hætta er á félagslegri einangrun á meðal viðkvæmra hópa samfélagsins.
Einangrun og atvinnuleysi innflytjenda
Samhliða uppgangi ferðaþjónustunnar á síðustu tíu árum hefur vægi innflytjenda stóraukist í greininni. Samkvæmt tölum frá Hagstofu voru starfandi innflytjendur þrisvar sinnum líklegri til að starfa í ferðaþjónustu heldur en aðrir Íslendingar sem voru á vinnumarkaði.
Þar sem núverandi kreppa hefur orðið sérstaklega þung fyrir ferðaþjónustuna og öðrum atvinnugreinum þar sem innflytjendur eru líklegri til að vinna hafa þeir því verið í mun viðkvæmari stöðu á vinnumarkaði heldur en aðrir Íslendingar.
Þetta sést glögglega í nýlegum vinnumarkaðstölum Hagstofu. Samkvæmt þeim hefur starfandi innflytjendum fækkað meira en öðrum starfandi Íslendingum, þrátt fyrir að innflytjendur séu aðeins um fimmtungur af vinnumarkaðnum. Ef tekið er tillit til stærðar hópanna beggja hefur innflytjendum á vinnumarkaði fækkað fimm sinnum meira en öðrum Íslendingum.
Í nýlegri skýrslu félagsmálaráðuneytisins er vikið sérstaklega að stöðu innflytjenda, sem hefur versnað töluvert á síðustu mánuðum. Innflytjendur eru nú 40 prósent allra atvinnuleitenda á skrá hjá Vinnumálastofnun, og er atvinnuleysi meðal þeirra nú um 20 prósent. Skýrslan minnist einnig á að mikil hætta stafi af félagslegri einangrun innflytjenda sem misst hafa vinnuna, þar sem þeir hafi jafnan minna tengslanet en aðrir Íslendingar.
Aukin heimavinna gæti komið niður á konum
Kynjahlutfall þjónustustarfa er einnig nokkuð ójafnt, sem leiðir til þess að núverandi kreppa lendi þyngra á konur heldur en karla. Samkvæmt mælingum Hagstofu hefur rúmur helmingur starfsmanna í ferðaþjónustu á síðustu árum verið kvenkyns, þótt hlutfall þeirra á vinnumarkaðnum sé nokkuð undir fimmtíu prósentum.
Til viðbótar við aukið vægi kvenna í þjónustustörfum virðist aukin heimavinna í kjölfar farsóttarinnar hafa slæm áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði, Samkvæmt Herdísi Steingrímsdóttur, hagfræðidósent við Copenhagen Business School.
Í grein sem Herdís skrifaði í Vísbendingu í maí síðastliðnum sagði hún líklegt að aukin heimavinna komi verr niður á framleiðni kvenna heldur en karla, þar sem þær eru líklegri til að eyða meiri tíma í heimilisstörfum. Nýleg rannsókn frá Bandaríkjunum rennir auknum stoðum undir þær grunsemdir, en kynjahalli á vinnutíma jókst þar í landi um 20 til 50 prósent á meðan foreldrar þurftu í auknum mæli að sinna börnunum sínum á vinnutíma í vor.
Herdís bendir einnig á að vísbendingar um þessi áhrif hafa komið fram í fræðasamfélaginu, þar sem greinilega fækkun má sjá í fjölda innsendra fræðigreina sem skrifaðar eru af konum í ár. Á sama tíma hefur innsendum greinum eftir karla fjölgað mikið, ef miðað er við síðasta ár.
Teikn eru á lofti um aukinn kynjahalla á vinnumarkaði í þessari kreppu, ef litið er á vinnumarkastölur Hagstofu. Samkvæmt þeim hefur atvinnuþátttaka kvenna á tímabilinu mars-september minnkað meira en karla, ef miðað er við sama tímabil árið á undan. Sömuleiðis hefur atvinnuleysi aukist meira hjá konum heldur en körlum á sama tímabili.
Þetta eru viðbrigði við síðustu kreppu, þar sem atvinnuleysi jókst mun meira hjá körlum heldur en hjá konum. Myndin hér fyrir ofan sýnir þá breytingu á tímabilinu mars til september, annars vegar á milli áranna 2008 og 2009, en hins vegar á milli áranna 2019 og 2020. Á meðan atvinnuleysi karla jókst næstum því tvöfalt meira en kvenna í hruninu 2008 er staðan þveröfug núna, þar sem atvinnuleysi kvenna hefur vaxið um 2,3 prósent, á meðan atvinnuleysi karla jókst um 1,4 prósent.
Þyngra niður á yngra fólki
Í síðasta tölublaði Vísbendingar benti Friðrik Már Baldursson, hagfræðiprófessor við Háskólann í Reykjavík, svo á að yngri einstaklingar finni einnig mun meira fyrir kreppunni heldur en aðrir. Þessi misskipting á einnig rætur sínar að rekja til samsetningar þjónustustarfa, þar sem ungt fólk er mun líklegra til að vinna í slíkum störfum en aðrir.
Því til stuðnings bendir Friðrik á vinnumarkaðstölur Hagstofu, sem sýna að atvinnuleysi þeirra sem eru yngri en fertugt sé þrefalt á við þá sem eru yfir fimmtugu á milli mars- og ágústmánaðar. Munurinn er svo enn meiri ef aldurshópurinn undir þrítugu er borinn saman við sextuga á eldri.
Ójöfnuður milli aldursbila hefur aukist á undanförnum áratugum á Vesturlöndum og hefur hluti ungs fólks í þjóðartekjum minnkað samhliða því. Samkvæmt Friðriki er líklegt að þessi kreppa styrki þessa þróun enn frekar og breikkar þannig bilið milli yngri og eldri enn frekar. Þetta geti leitt til aukins ójafnaðar þegar litið er til lengri tíma, þar sem líklegt er að lægri tekjur ungs fólks dragi úr skólasókn þeirra.
Ólík síðustu kreppu
Samhliða því að kreppan hefur komið verr niður á tekjulágum þjóðfélagshópum hafa vaxtalækkanir og kjarasamningsbundnar launahækkanir leitt til bættrar efnahagslegrar stöðu annarra hópa vegna aukins kaupmáttar og hækkandi eignaverðs.
Þetta er ólíkt þróuninni í síðustu efnahagskreppu, sem bitnaði verr á tekjuhærri hópum en þeim sem áttu minna á milli handanna. Þá varð einnig hrun á fasteignamarkaði, sem leiddi til þess að eigendur fasteigna urðu fyrir mikilli virðisrýrnun eigna sinna. Samhliða verðlækkun fasteigna og fækkun hátekjustarfa jókst tekju- og eignajöfnuður hér á landi töluvert á árunum 2009 til 2011 og hefur hann haldist mikill síðan þá.
Þar sem núverandi kreppa kemur verr niður á eigna- og tekjuminni hópum á meðan aðrir hópar finna fyrir kjarabótum má þó búast við að ójöfnuður muni aukast aftur á næstu árum, verði ekkert að gert.