Breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar voru formlega kynntar af hálfu borgarinnar í gær. Með þeim breytingum sem samþykktar hafa verið í borgarráði er meginstefna núverandi aðalskipulags sem staðfest var árið 2014 fest í sessi, en umfangsmiklar breytingar gerðar, sérstaklega hvað varðar stefnu borgarinnar um íbúðarbyggð.
Gildistími aðalskipulagsins er líka lengdur – og nú mun það verða leiðarljós við þróun borgarinnar fram til ársins 2040. Kjarninn tók saman nokkra áhugaverða mola um breytingarnar sem verið er að gera og hvernig borgaryfirvöld sjá fyrir sér að höfuðborgin þróist næstu næstu 20 árin.
Allt að 24 þúsund íbúðir til 2040 en ekki þörf á að stækka borgina
Reykjavíkurborg ætlar sér að byggja upp af krafti næstu tvo áratugina og hefur sett sér markmið um að skapa skilyrði til þess að byggðar verði minnst 1.000 nýjar íbúðir á hverju ári fram til 2040 og að 250 þeirra verði byggðar á vegum húsnæðisfélaga sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni.
Þetta eru stórhuga áform, miðað við þróun undanfarinna tveggja áratuga, en samkvæmt tölum frá borginni mun fjöldi byggðra íbúða á árunum 2011 til 2020 rétt svo skríða yfir 5 þúsund íbúðir, sem eru ögn færri en áratugina tvo þar á undan.
Í tillögum borgaryfirvalda segir að það ráðist „vitanlega af stöðu á húsnæðismarkaði, atvinnustigi, efnahagshorfum hverju sinni hvort ofangreind markmið gangi eftir á einstökum árum eða árabilum.“ Eðlilegt sé þó að setja háleit markmið, þar sem stóraukið framboð íbúða sé tryggasta leiðin til að skapa ásættanlegra húsnæðisverð á almennum markaði.
Það sem er hins vegar ljóst er að stefnan er að öll þessi uppbygging íbúðarhúsnæðis á að eiga sér stað innan núverandi vaxtarmarka borgarinnar fram til ársins 2040 og borgaryfirvöld telja sig geta byggt mun meira, án þess að borgin belgist út.
Samkvæmt áætlunum borgarinnar eru sagðir möguleikar á 16 þúsund íbúðum vestan Kringlumýrarbrautar (að Vatnsmýrarsvæðinu meðtöldu) og um 7 þúsund íbúðum austan Kringlumýrarbrautar. Alls eru þetta 23 þúsund íbúðir — bara vestan Elliðaárósa.
Austan Elliðaárósa er möguleg fjölgun íbúða svo áætluð um 13-14 þúsund íbúðir á svæðum sem þegar eru skilgreind í aðalskipulaginu. Alls gætu því rúmast allt að 37 þúsund íbúðir á þegar skilgreindum svæðum innan vaxtarmarka, eða mun fleiri en þær 24 þúsund íbúðir sem settar eru fram í háleitustu markmiðum borgaryfirvalda fram til ársins 2040.
Uppbygging til að þjóna Borgarlínu
Ein af lykilástæðunum fyrir því að borgaryfirvöld eru að endurskoða aðalskipulagið og þá sérstaklega íbúðarbyggðarstefnuna núna er sögð væntanleg uppbygging Borgarlínu. Um 90 prósent nýrra uppbyggingarsvæða í borginni samkvæmt skipulaginu verða í göngufjarlægð frá Borgarlínu eða öðrum góðum almenningssamgöngum.
„Vegna skipulags Borgarlínu er mikilvægt að þétta byggðina ennfrekar í þágu hennar, almennt við biðstöðvar og sérstaklega við skilgreindar kjarnastöðvar. Á næstu árum þarf einkum að forgangsraða uppbyggingu á svæði sem liggja að fyrsta áfanga línunnar. Það er sérlega brýnt að farþegagrunnur þessa fyrsta áfanga verði styrktur með sem skjótustum hætti,“ segir um breytingarnar í tillögum borgaryfirvalda, sem hafa það að markmiði að hlutdeild einkabílsins í öllum ferðum í borginni verði komin undir 50 prósent árið 2040.
Stokkar
Tveir stokkar, grunn jarðgöng undir bílaumferð, eru á döfinni í Reykjavík. Sæbrautarstokkur er kynntur til leiks með breytingunum á skipulaginu, en ráðgert er að hann verði tæpur kílómeter að lengd. Miklubrautarstokkur á síðan að verða um það bil 1,7 kílómetrar að lengd, samkvæmt því sem fram kemur í tillögunum.
Með því að setja þessar stofnbrautir ofan í jörðina er dregið úr umhverfisáhrifum umferðar og borgarbragur bættur í aðliggjandi hverfum, auk þess sem landrými losnar undir uppbyggingu.
Við Miklabrautarstokkinn gæti mögulegt nýtt byggingarland orðið heilir 11 hektarar og þar er skipulagður nýr reitur þar sem í dag eru mislæg gatnamót Snorrabrautar og Hringbrautar. Gert er ráð fyrir verslun og þjónustu, íbúðum og skiptistöð almenningssamgangna á reitnum.
Landrýmið sem losnar við Sæbrautarstokkinn yrði 4 hektarar, í miðju nýja hluta Vogahverfisins þar sem ein af helstu stoppistöðvum Borgarlínu verður.
Endanleg útfærsla stokkalausna er þó háð niðurstöðum hugmyndaleitar sem er í gangi á báðum stöðum og frumhönnun gatnamannvirkja og verða nánar útfærðar síðar.
Allavega fimm nýir grunnskólar til 2040
Samkvæmt áætlunum borgaryfirvalda um fjölgun íbúða miðað við kröftugan vöxt fólksfjölda í borginni er gert ráð fyrir því að nemendum í grunnskólum borgarinnar gæti fjölgað um hátt í 4 þúsund fram til ársins 2040, en gert er ráð fyrir því að ögn færri nemendur búi í hverri íbúð árið 2040 en í dag.
Gert er ráð fyrir að það þurfi að byggja að minnsta kosti 5 nýja grunnskóla í borginni til að þjóna nýjum hverfum og sömuleiðis má gera ráð fyrir því að álag aukist á núverandi skóla vegna þéttingu byggðar.
Eins og Kjarninn sagði frá í gær er gert ráð fyrir að nýtt hverfi á Ártúnshöfðanum, sem gætu orðið allt að 6 þúsund íbúðir, skiptist í þrjú skólahverfi. Einn skóli til viðbótar verður byggður í nýju Vogabyggðinni handan við Elliðaár. Þá er gert ráð fyrir nýjum grunnskóla í Skerjafirði, sem verður fyrsti grunnskólinn í væntanlegum borgarhluta í Vatnsmýri.
Í tillögum borgaryfirvalda segir að mikilvægt sé að hvert uppbyggingarverkefni verði ávallt metið með tilliti til áhrifa á grunn- og leikskóla til bæði skemmri og lengri tíma. Slíkt mat geti bæði haft áhrif á tímasetningar uppbyggingar og gerð og umfang fyrirhugaðrar uppbyggingar.