Síðdegis á föstudag skilaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skýrslu til Alþingis, sem beðið hefur verið í næstum því þrjú ár. Beiðni nokkurra þingmanna um þessa skýrslu var samþykkt í Alþingi í lok janúar árið 2018.
Verkefnið sem stjórnvöldum var falið var að fara í gegnum þrjár rannsóknarskýrslur Alþingis og athuga hvort búið væri að bregðast við ábendingum sem þar komu fram til stjórnsýslunnar.
Skýrslurnar þrjár eru sú stóra, rannsóknarskýrslan með stóra R-inu, um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008 (útg. 2010) og svo tvær aðrar skýrslur, um aðdraganda og orsakir falls sparisjóðanna (útg. 2014) og um Íbúðalánasjóð (útg. 2013).
Um er að ræða skýrslur sem samtals eru rúmlega 5.000 blaðsíður í 20 bindum. Þeim þingmönnum sem báðu um skýrsluna fannst nauðsynlegt að sú mikilvæga greiningarvinna sem rannsóknirnefndirnar unnu nýttist. Því væri nauðsynlegt að hafa yfirsýn yfir ábendingarnar sem fram kæmu í skýrslunum og tryggja að farið væri eftir þeim, svo að sömu mistökin yrðu ekki gerð á ný.
Verkefnið sem framkvæmdavaldið fékk í fangið var því að fara yfir skýrslurnar, koma auga á allar ábendingar sem þar var að finna varðandi stjórnsýsluna, taka þær saman og leggja mat á hvort, og þá hvernig, það hefði verið gert.
Skiptar skoðanir á sínum tíma
Tíu þingmenn stóðu að þessari skýrslubeiðni, úr fimm flokkum af þeim átta sem eiga fulltrúa á þingi. Það voru þau Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Píratar, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Steindór Valdimarsson þingmenn Viðreisnar, Oddný G. Harðardóttir frá Samfylkingu, Inga Sæland úr Flokki fólksins og Kolbeinn Óttarsson Proppé úr Vinstri grænum, sem var eini stjórnarþingmaðurinn í hópi flutningsmanna.
Ekki voru allir á einu máli um það hvort gáfulegt væri að láta gera þessa skýrslu með þessum hætti. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var til dæmis ekki sannfærður um það. „Ég ætla ekki að leggjast gegn því að beiðnin nái fram að ganga. Ég ætla að koma því að að mér finnst býsna langt gengið að þegar þingið hefur látið vinna fyrir sig skýrslu sem út kemur í níu bindum sé því síðan beint til framkvæmdarvaldsins að veiða upp úr skýrslunni allar ábendingar eins og verið er að biðja um hér,“ sagði Bjarni í umræðum um skýrslubeiðnina á sínum tíma.
Í kjölfar þessara orða fjármálaráðherra lýstu nokkrir þingmenn furðu sinni á þeim. „Til hvers er farið af stað ef framkvæmdarvaldið skoðar ekki ábendingarnar og kannar hvort eitthvað hafi verið brugðist við þeim ábendingum sem og þingið sjálft? Þá getum við alveg sleppt því að fara í svona rannsóknir,“ sagði Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar.
Þorsteinn Víglundsson þáverandi þingmaður Viðreisnar lýsti einnig furðu sinni. „Til hvers var þá starfið unnið ef stjórnsýslan hefur öllum þessum árum síðar ekki einu sinni komist svo langt að taka saman hvaða ábendingum var beint til hennar, hvað þá að gera einhverja bragarbót þar á eða fylgja því eftir hvernig úr þeim ábendingum væri unnið? Ég get ekki ímyndað mér að þessi skýrslubeiðni hvað þennan þáttinn varðar feli í sér einhverja viðbótarvinnu fyrir stjórnsýsluna. Hún hlýtur fyrir löngu síðan að vera búin að taka saman þær ábendingar sem til hennar var beint,“ sagði Þorsteinn.
Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata benti á að skýrslubeiðnin fjallaði ekki einfaldlega um að draga eitthvað út úr skýrslum rannsóknanefndar Alþingis sem hefðu verið lagðar fram, heldur að kanna hjá stjórnsýslunni hvernig ábendingunum hefði verið fylgt eftir.
Bjarni steig aftur í pontu að sagðist telja að hann og þessir þingmenn og fleiri sæju hlutina með ólíkum hætti. Hann sagði að honum hefði þótt eðlilegra að Alþingi hefði sjálft tekið saman ábendingarnar úr skýrslunum og spurt framkvæmdavaldið hvort og hvernig búið væri að bregðast við þeim.
„Ókei, það er alveg rétt hjá fjármálaráðherra að þingið hefði alveg getað gert það, en nú erum við að biðja ráðuneytið að taka saman hvernig upplifun ráðuneytisins gagnvart þessum ábendingum hefur verið, hvaða ábendingar ráðuneytið hefur tekið saman og ákveðið að gera það. Er það í samræmi við það sem stendur í skýrslunni? Þetta er mjög eðlilegt eftirlitshlutverk, mjög þarft og það er gott að við ætlum að samþykkja beiðnina,“ sagði Jón Þór Ólafsson Pírati í umræðunni.
Skýrslubeiðnin var samþykkt með 44 atkvæðum á þingi. Tveir þingmenn, þeir Brynjar Níelsson og Ásmundur Friðriksson, greiddu ekki atkvæði um málið og 17 þingmenn voru fjarverandi. Og þá gat vinnan hafist, sem nú er loks lokið.
Ærið verkefni
Orð Þorsteins Víglundssonar, um að hann gæti ekki ímyndað sér að það yrði einhver viðbótarvinna fyrir stjórnsýsluna að taka ábendingarnar í skýrslunni saman, virka eilítið fyndin þegar lýsing á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við ritun skýrslunnar er lesin.
Þar segir að ljóst hafi verið strax frá upphafi að verkefnið yrði stórt. Mikil áskorun yrði annars að fara í gegnum þessar þrjár skýrslur, 5.000 blaðsíður í 20 bindum, og annars vegar greina og afmarka ábendingarnar sem lúta að stjórnsýslunni og hins vegar að draga þær fram á sem óhlutdrægastan hátt, í sem mestu samræmi við efni þeirra og án þess að slíta þær úr samhengi.
„Það er vegna þess að í rannsóknarskýrslunum eru ábendingar að jafnaði settar fram í tengslum við umfjöllun um tiltekna atburði og atvik sem nefndirnar fjalla um. Þannig er almennt ekki að finna afmarkaðar ábendingar sem slíkar heldur eru í lok hvers kafla dregnar saman ályktanir rannsóknarnefndarinnar um þau atriði sem um ræðir hverju sinni. Sem dæmi má taka að nálgun rannsóknarnefndar Alþingis í skýrslu um fall bankanna hefur verið að rekja einstaka atburði í aðdraganda hrunsins án þess að tiltaka sérstaklega hvaða ábendingar hún ætli stjórnsýslunni. Oft eru þá tilteknir atburðir notaðir sem dæmi um stærri kerfislægan vanda án þess að sérstaklega séu dregnar heildstæðari ályktanir af því eða settar fram ákveðnar ábendingar,“ segir í skýrslunni.
339 ábendingar og kannski hefði verið gáfulegra að þingið ritstýrði
En þetta hafðist, í samvinnu fjölmargra ráðuneyta og stofnana og með aðkomu margra sérfræðinga á þeirra snærum, auk utanaðkomandi sérfræðings sem falið var að afmarka ábendingar á fyrstu stigum verksins.
Alls 339 ábendingar sem lúta að stjórnsýslunni voru dregnar fram úr skýrslunum þremur, þar af 249 úr rannsóknarskýrslunni um fall bankanna árið 2008. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni hefur verið brugðist við þeim í yfirgnæfandi hluta tilfella.
Í inngangi skýrslunnar er minnst á að í umræðum um skýrslubeiðnina á Alþingi hafi meðal annars komið fram það sjónarmið að þingið færi sjálft með ritstjórn við skýrslugerðina, frekar en að framkvæmdavaldið annaðist hana. Skýrsluhöfundar segja „ljóst að færa hefði mátt góð rök fyrir þeirri niðurstöðu,“ en niðurstaða Alþingis hafi þó verið önnur.
„Enda þótt í hvívetna hafi verið reynt að gæta hlutleysis í svörum við fyrirspurnum er sjálfsagt og eðlilegt að lesendur hafi ávallt í huga að svörin eru rituð og sett fram af hlutaðeigandi stjórnvöldum í samræmi við beiðni Alþingis,“ segir þar einnig.
Skýrslan um skýrslurnar þrjár og eftirfylgni þeirra hjá framkvæmdavaldinu er sem fyrr segir aðgengileg á vef Alþingis.