Sérfræðingar svara spurningum um bóluefnin: Miklar kröfur gerðar til dropanna dýrmætu
Hvernig getum við verið viss um að bóluefni gegn COVID-19 sé öruggt? Þurfa þeir sem fengið hafa sjúkdóminn að fara í bólusetningu? Getum við hætt að bera grímu um leið og við höfum verið bólusett og ferðast áhyggjulaus um heiminn? Mun nýja kórónuveiran fylgja mannkyninu um ókomna tíð? Kjarninn leitaði svara við þessum spurningum og mörgum til hjá sérfræðingi í smitsjúkdómum og Lyfjastofnun.
Bóluefni þróað og prófað á tíu mánuðum. Hver fréttin á fætur annarri fyllir okkur bjartsýni og von um að faraldur kórónuveirunnar, sem hófst fyrir um ári síðan, sé senn á enda. Faraldur sem hefur kostað meira en eina og hálfa milljón mannslífa og snúið efnahagslífinu á hvolf.
Tugir bóluefna gegn COVID-19 eru í þróun víða um heim. Þegar er ljóst að sum þeirra munu vart koma á markað. Þannig er því t.d. farið með bóluefni sem verið var að þróa í Ástralíu. Í gær sagði sá sem leiddi rannsóknina sig frá verkinu eftir að í ljós kom að þeir sem fengið höfðu bóluefnið í prófunum fengu falska niðurstöðu úr HIV-prófi í kjölfarið. Vísindamenn við Háskólann í Queensland hafa unnið bókstaflega dag og nótt að því að reyna að finna lausn – en til slíkra rannsókna þarf þolinmótt fjármagn og því var ekki til að dreifa lengur. Ríkisstjórnin hefur bakkað út úr samkomulagi um fjármögnun rannsóknanna og það hefur lyfjafyrirtækið CSL einnig gert.
Það ævintýri virðist því úti. Og vísindamennirnir, sem lögðu allt sitt í verkefnið, eru niðurbrotnir.
Það er mun léttari brúnin á þeim sem komið hafa að þróun nokkurra annarra bóluefna síðustu mánuði. Fjögur eru komin til umfjöllunar hjá Lyfjastofnun Evrópu og þegar hefur verið sótt um svokallað skilyrt markaðsleyfi fyrir tvö þeirra; bóluefni Pfizer-BioNtech og Moderna. Efni tveggja annarra fyrirtækja er svo í því sem kallast áfangamati hjá stofnuninni: Bóluefni AstraZeneca, sem unnið er í samstarfi við Oxford-háskóla, og bóluefni Janssen-Cilag International N.V.
Þetta skiptir okkur Íslendinga máli því aðgangur okkar að bóluefni byggir á að Lyfjastofnun Evrópu gefi út miðlægt markaðsleyfi, eitt eða fleiri, eftir mat á umsóknargögnum.
Heilbrigðisyfirvöld á Íslandi hafa sagt að bólusetning muni, ef allt gangi að óskum, hefjast hér á fyrri helmingi næsta árs. Það er stigið varlega til jarðar í tímasetningum og þótt ástæða sé til bjartsýni er brýnt að fara áfram varlega – jafnvel í nokkra mánuði í viðbót.
Kjarninn bar fjölda spurninga um hin væntanlegu bóluefni undir Lyfjastofnun og Magnús Gottfreðsson, prófessor í læknisfræði við Háskóla Íslands og sérfræðing í smitsjúkdómum sem svöruðu eftir bestu getu miðað við þær upplýsingar sem þegar eru tiltækar.
Breska leiðin
Fyrsta spurningin er þessi: Af hverju eru Bretar byrjaðir að bólusetja en ekki við?
Lyfjastofnun: Bólusetning með efni Pfizer-BioNtech í Bretlandi skýrist af því að breska lyfjastofnunin gaf út neyðarheimild sem felur þó eingöngu í sér tímabundna dreifingu bóluefnisins til skilgreindra hópa. Bólusetningin þar í landi er því ekki orðin almenn.
En gæti íslenska Lyfjastofnunin farið sömu leið og sú breska?
Lyfjastofnun: Já, en eins og í öðrum EES-ríkjum telja íslensk yfirvöld hag sínum best borgið í því að fylgja Lyfjastofnun Evrópu að málum. Hún telur útgáfu skilyrtra markaðsleyfa eiga best við þegar kemur að því að samþykkja bóluefni í heimsfaraldri COVID-19. Með því móti fá allir einstaklingar á EES-svæðinu möguleika á bólusetningu og hægt verður að fara í víðtækar aðgerðir í bólusetningu.
Hvað er það sem yfirvöld hér geta lært af reynslu Breta?
Magnús: Mjög mikilvægt er að fylgjast með þeirra reynslu, ekki síst hvað varðar mögulegar sjaldgæfar og ófyrirsjáanlegar aukaverkanir sem geta komið fram þegar mjög mikill fjöldi er bólusettur á skömmum tíma. Einnig verður áhugavert að fylgjast með hvort ráðleggingar um skammtastærðir og tímasetningu bólusetninga breytist, t.d. hvort einn skammtur af sumum þessara bóluefna kunni að vera nóg.
Mismunandi tækni hefur verið beitt við þróun bóluefna sem hvað næst eru komin því að fá markaðsleyfi í Evrópu og þar með á Íslandi. Í hverju felst munurinn á þeim?
Lyfjastofnun: Bóluefni Pfizer-BioNTech og Moderna byggja á svokallaðri mRNA-tækni en slík bóluefni innihalda hluta af erfðaefni SARS-CoV-2 veirunnar. Þetta er í fyrsta skipti sem þessari tækni er beitt við þróun bóluefna.
Bóluefni AstraZeneca/Oxford háskóla og Janssen-Cilag byggja á tækni þar sem svokallaðar adenóveirur eru nýttar sem genaferjur fyrir hluta af erfðaefni veirunnar. Þær veirur geta hins vegar hvorki fjölgað sér né valdið sjúkdómi. Þessari tækni hefur áður verið beitt við þróun bóluefna.
Magnús: Fyrstu niðurstöður benda til að mRNA-bóluefnin veiti 90-95 prósent vörn, en AstraZeneca bóluefnið um 70 prósent. Ekki er þó hægt að bera þessar tölur beint saman því að rannsóknirnar eru ekki gerðar á sama stað og tíma og þýðið er ekki heldur fyllilega sambærilegt.
Í nýbirtri grein í Lancet, þar sem grein er gerð fyrir fyrstu niðurstöðum um virkni AstraZeneca-bóluefnisins, kemur fram að 86,7 prósent hinna bólusettu voru á aldrinum 18-55 ára og því er ljóst að upplýsingar um virkni í elsta aldurshópnum eru enn af skornum skammti. Niðurstöðurnar fyrir mRNA-bóluefnin tvö hafa enn ekki verið birtar opinberlega í nægum smáatriðum og því ekki tímabært að mæla með einu bóluefni frekar en öðru fyrir tiltekna hópa.
Ef að því kemur að þau verði öll aðgengileg hér á landi, getur fólk valið hvaða efni það fær?
Magnús: Sóttvarnalæknir mun væntanlega ákveða þetta þegar þar að kemur en ráðleggingarnar hljóta að taka mið af aðgengi að bóluefnunum og við vitum að það gæti orðið helsta vandamálið.
Vitum við hversu lengi vörnin sem efnin mynda helst?
Magnús: Enn er ekki liðinn nægjanlega langur tími til að fullyrða um þetta en flest bendir til að vörnin haldist nokkuð lengi. Í tilviki Moderna-bóluefnisins er t.d. talað um 119 daga hið minnsta. Einnig er talað um að mótefnamagnið í hinum bólusettu sé hærra en hjá samanburðarhópi sjúklinga sem höfðu fengið COVID-19, þ.e. náttúrulega sýkingu.
Lyfjastofnun: Þar sem um nýja veiru er að ræða er ekki vitað hversu lengi vörn bóluefna gegn veirunni mun endast eftir bólusetningu. Þannig er ekki þekkt hvort þörf verði á endurteknum bólusetningum síðar meir. Langtímagögn úr rannsóknum á ónæmissvari og virkni munu leiða það í ljós og verða að leiðarljósi í ákvörðunartöku síðar meir.
Hafa einhverjar áhyggjur vaknað hjá þér/ykkur varðandi þau bóluefni sem nú nálgast það að komast á markað?
Magnús: Það er alltaf ákveðin óvissa þegar kemur að notkun nýrra lyfja, þ.m.t. bóluefna og mikilvægt að fara ekki fram úr sér eða láta undan þrýstingi. En ég hef ekki persónulegar áhyggjur, mér sýnist vel hafa verið að rannsóknunum staðið í flestu tilliti.
Fram hafa komið sögur af einstaklingum í Bretlandi sem fengu ofnæmisviðbrögð eftir fyrstu bólusetningarnar með Pfizer-BioNTech bóluefninu en í báðum tilvikum virðist hafa verið um að ræða fólk með fyrri sögu um alvarlegt ofnæmi og því hefur verið ráðlagt að þeir sem falli í þann flokk verði ekki bólusettir, að minnsta kosti fyrst um sinn.
Það liggur í hlutarins eðli að við víðtæka notkun á nýjum lyfjum og bóluefnum koma fram viðbótarupplýsingar um aukaverkanir sem ekki er hægt að sjá fyrir, sér í lagi ef þær eru mjög sjaldgæfar.
Lyfjastofnun: Mat á fjórum bóluefnum stendur yfir hjá Lyfjastofnun Evrópu og á þessu stigi er engin ástæða til að hafa af þeim áhyggjur enda hvergi slegið af kröfum um virkni, öryggi eða gæði þeirra.
Hvernig getur fólk verið öruggt um að efnin séu örugg?
Lyfjastofnun: Lyf fá einungis markaðsleyfi ef mat yfirvalda á umsóknargögnum er með þeim hætti að ávinningur af notkun þeirra sé meiri en áhættan af henni. Umsókn um skilyrt markaðsleyfi er studd ítarlegum gögnum sem sýna fram á gæði bóluefnis, virkni þess og öryggi. Þar er um að ræða staðlað og skilvirkt ferli sem tryggir að lyfjagát, gæði framleiðslu og aðrar skyldur eftir leyfisveitingu séu til staðar í samræmi við lög og fylgt eftir af vísindanefndum Lyfjastofnunar Evrópu. Þessi atriði eru nauðsynleg til að tryggja öryggi þegar ráðist er í almennar og víðtækar bólusetningar.
Bóluefni við COVID-19 eru þróuð og metin samkvæmt sömu lagalegu kröfum og gilda fyrir önnur lyf. Hvergi er slegið af kröfum um þessi atriði þegar kemur að bóluefnum við COVID-19. Lyfjastofnun Evrópu notar öll þau úrræði sem stofnunin hefur yfir að ráða til þess að flýta matsferlinu án þess þó að slaka á þeim kröfum sem gerðar eru til lyfja almennt og spilar áfangamatið þar stóran þátt.
Hvenær gæti bólusetning hér á landi hafist?
Lyfjastofnun: Þegar skilyrt markaðsleyfi hefur verið gefið út er ekkert því til fyrirstöðu að bólusetning hefjist hérlendis frá sjónarhóli Lyfjastofnunar. Framkvæmd bólusetninganna er svo á forræði sóttvarnarlæknis.
Hverjir verða/ætti að bólusetja fyrst?
Lyfjastofnun: Heilbrigðisráðherra hefur birt reglugerð þar sem kveðið er á um forgangsröðun hópa. Samkvæmt reglugerðinni verða börn fædd 2006 og síðar ekki bólusett nema að þau teljist í sérstökum áhættuhópi vegna COVID-19.
Magnús: Reynslan af bólusetningum barnshafandi kvenna er enn það takmörkuð að rétt er að ráðleggja ekki bólusetningar þeirra að mínu mati.
Hversu hátt hlutfall þjóðarinnar þarf að bólusetja svo að „hjarðónæmi“ fáist?
Magnús: Komið hefur fram að um 60-70 prósent ónæmi meðal þjóðarinnar sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur. Þessi tala byggir á smitstuðli veirunnar, R0, sem er nálægt 2-3 að jafnaði. Talan R0 lýsir fjölda einstaklinga sem smitast að jafnaði frá hverjum og einum sýktum. Þetta er ekki eðlisfræðilegur fasti heldur endurspeglar talan í reynd okkar atferli, tíðni og tímalengd náinnar snertingar og nálægðar við annað fólk. Af þessum sökum er R0 mishár. Frá stuðlinum er hægt að reikna hversu útbreitt ónæmi þarf að vera til að koma í veg fyrir faraldur. Fyrir t.d. R0 =2,5 þarf ónæmi innan hópsins/meðal þjóðarinnar að vera 60 prósent, en ef R0 = 3 þarf ónæmið að vera 67 prósent og svo framvegis.
Sem dæmi er R0-stuðull mislingaveirunnar gríðarhár eða nálægt 20. Það þýðir að 95 prósent þurfa að vera með mótefni til að koma í veg fyrir faraldur. Þetta er ástæðan fyrir því að upp hafa komið mislingafaraldrar þar sem þátttaka í ungbarnabólusetningum fer undir 90 prósent og t.d. innan sértrúarhópa þar sem þátttakan er nánast engin, með skelfilegum afleiðingum.
Hvað mun taka langan tíma að bólusetja nógu marga til að hjarðónæmi fáist?
Magnús: Það veltur alfarið á því hversu hratt við fáum virkt og öruggt bóluefni í hendurnar – þar liggur aðalþröskuldurinn.
Þurfa þeir sem hafa þegar fengið COVID-19 einnig að fá bólusetningu?
Magnús: Þetta er áhugaverð spurning og svarið er ekki alveg augljóst. Út frá fræðunum er þó hægt að segja að þeir sem hafa smitast og myndað mótefni ættu ekki að þurfa að fá bólusetningu en þó er hugsanlegt að ónæmissvar þeirra sé ekki fullkomið og megi efla með bólusetningu. Þetta er einmitt eitt af því sem verið er að skoða í þriðja fasa yfirstandandi rannsókna.
Frá bólusetningu, hvað líður langur tími þar til full virkni næst?
Magnús: Í tilviki Pfizer-BioNTech bóluefnisins sem gefið er í tveimur skömmtum: Full virkni næst ekki fyrr en viku eftir seinni skammtinn. Í gögnum sem Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna hefur fengið kemur þó fram að vörnin virðist koma fram á um tveimur vikum eftir fyrsta skammt.
Eftir að fólk fær bólusetningu (báða skammta) getur það þá hætt þegar í stað að bera grímu og halda 2 metra fjarlægð?
Magnús: Fræðilega séð, já, en þetta kann að vera vandkvæðum bundið af ýmsum ástæðum meðan smit er enn útbreitt og fólk vart um sig eins og umræðan hér á landi um grímunotkun þeirra sem hafa fengið COVID-19 ber með sér. Þá er vert að geta þess að fræðilega séð er eftir bólusetningu enn til staðar sá möguleiki að bera veiruna á milli með snertismiti, þótt það sé ekki talin sérlega virk smitleið.
Getum við farið til útlanda eftir bólusetningu og verið þess full viss að smitast ekki eða að bera smit í aðra sem ekki hafa fengið bólusetningu?
Magnús: Þeir sem eru bólusettir og hafa svarað bólusetningunni ættu ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur af þessu en ég minni á fyrirvara minn hér að ofan um að bera mögulega snertismit.
Hefur þú einhverjar áhyggjur af því að Íslendingar muni ekki vilja láta bólusetja sig?
Magnús: Nei, mér sýnist afstaða Íslendinga til bólusetninga vera jákvæð og viðhorfskannanir sýna það. Þátttaka í bólusetningum er mikilvæg því ef þekjun bólusetninga er ófullnægjandi erum við dæmd til að lenda ítrekað í hópsýkingum og faröldrum. En það er mikið áhyggjuefni hversu margir eru hikandi víða á Vesturlöndum þegar bólusetningar eru annars vegar.
Lyfjastofnun: Íslendingar eru upp til hópa vel upplýstir og því höfum við ekki áhyggjur af því að svo komnu máli að þátttaka í bólusetningum verði af skornum skammti.
Starfsfólk lyfjastofnana í Evrópu er hins vegar meðvitað um tregðu sumra einstaklinga til að láta bólusetja sig. Að sama skapi er það meðvitað um mikilvægi hlutlausrar og faglegar upplýsingagjafar til að fólk geti tekið vel upplýsta ákvörðun. Lyfjastofnun Evrópu leggur allt kapp á gagnsæi í þeirri vinnu sem nú fer fram í tengslum við COVID-19.
Hvaða skilaboð ertu með til fólks sem er á báðum áttum hvað bólusetningu varðar á þessari stundu?
Magnús: Ég held að eina leiðin til að koma lífi okkar allra í eðlilegt horf sem fyrst byggi á góðri þátttöku í bólusetningum. Það myndi taka mörg ár, með verulegu mannfalli, þjáningum og tilkostnaði að byggja upp „hjarðónæmi“ með því að leyfa fólki að sýkjast og veikjast á „náttúrulegan“ hátt. Því fyrr sem við náum góðri samfélagslegri vörn, því betra. Þarna fara hagsmunir okkar allra saman.
Hefur þú áhyggjur af því að bjartsýni vegna bóluefnis eigi eftir að verða til þess að fólk slaki of mikið á og að fjórða bylgjan herji á okkur eftir áramótin?
Magnús: Já, ég held að mjög margir hafi áhyggjur af því og ég er einn þeirra. Við vitum enn ekki enn hvenær við fáum bóluefni, hversu mikið og hvaða bóluefni kemur fyrst, þótt margt bendi til að það verði Pfizer-BioNTech bóluefnið.
Fjórða bylgjan myndi fyrst og fremst hafa slæm áhrif á þjóðfélagið í heild sinni, auka tíðni smits í samfélaginu með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfi og íþyngjandi takmarkanir af ýmsum toga.
Mun SARS-CoV-2 veiran fylgja okkur í áratugi?
Magnús: Ég hef trú á því að veiran sé komin til að vera, alla vega í nálægri framtíð, enda er vandséð hvernig heimsbyggðin öll muni ná að bólusetja nægjanlega marga til að útrýma veirunni á næstu árum. Hins vegar er viðbúið að ásýnd veikindanna eigi eftir að breytast, ef okkur tekst að tryggja að þeir sem eru í mestri hættu á að veikjast alvarlega og deyja, fái bólusetningu.