Heppni, samvinna, peningar – og meiri peningar

Hingað til hefur tekið mörg ár og stundum áratugi að þróa bóluefni. En innan við ári eftir að sjúkdómur vegna nýrrar kórónuveiru fór að herja á fólk eru fleiri en eitt bóluefni tilbúin. Hvernig í ósköpunum stendur á því?

Litli gaddaboltinn, kórónuveiran sem veldur COVID-19, verður von bráðar afvopnuð.
Litli gaddaboltinn, kórónuveiran sem veldur COVID-19, verður von bráðar afvopnuð.
Auglýsing

Árið 1951 varð Max Theiler fyrsti vísindamaðurinn til að fá Nóbelsverðlaunin fyrir þróun bóluefnis. Enginn annar hefur hlotið þá viðurkenningu fyrir slíkt sambærilegt afrek síðan þá þó að mörg árangursrík bóluefni hafi litið dagsins ljós.


Gulusótt hefur herjað á mannkynið í að minnsta kosti fimm hundruð ár og í lok nítjándu aldar var hún vel þekkt banamein margra. Hins vegar var þá lítið vitað um sjálfan sjúkdóminn og sérfræðingar þess tíma héldu að um bakteríusýkingu væri að ræða og tilraunir voru gerðar til að búa til bóluefni með það í huga.


Árið 1918, sama ár og spænska veikin varð að faraldri, töldu vísindamenn við Rockerfeller-stofnunina sig loks hafa náð að þróa árangursríkt bóluefni gegn gulusótt. Rannsóknir Max Theiler leiddu hins vegar í ljós tæpum áratug síðar að bóluefnið væri ekki að skila árangri og framleiðslu þess var hætt. Enn leið áratugur þar til Theiler náði þeim árangri að þróa virkt og öruggt bóluefni gegn gulusótt og er það notað enn þann dag í dag.

Auglýsing


Þetta er aðeins eitt dæmi um hversu langan tíma hefur tekið að þróa bóluefni við smitsjúkdómum í gegnum tíðina. Þróunarferlið hefur oft spannað mörg ár og jafnvel áratugi. Það þóttu því stórtíðindi þegar það tókst að þróa bóluefni gegn hettusótt á aðeins fjórum árum á sjöunda áratug síðustu aldar. Ekkert annað bóluefni hefur tekið jafn stuttan tíma að þróa.


Þar til nú.


Og það eru margar ástæður fyrir því að bóluefni gegn COVID-19 er tilbúið – um ári eftir að sjúkdómurinn var fyrst greindur í fólki. Tvö lyfjafyrirtæki hafa þegar sótt um markaðsleyfi í nokkrum löndum. Um svokölluð neyðarleyfi verður að ræða, vegna þess hve þörfin er brýn. Annað þessara fyrirtækja, Pfizer í samstarfi við BioNtech, hefur þegar hafið dreifingu á bóluefni sínu í Bretlandi.


Kraftaverk segja sumir. Vísindalegt þrekvirki segja aðrir. Peningar og meiri peningar. Enginn þarf að velkjast í vafa um að þeir hafa skipt sköpum við rannsóknir og þróun bóluefnanna gegn COVID-19.


Í raun má segja að tekist hafi að búa til bóluefni á innan við ári sem undir „venjulegum kringumstæðum“ hefði tekið áratug. Þó var það ekki þannig að lyfjafyrirtækin og þeirra samstarfsaðilar væru að stytta sér leið við þróunina, prófun á bóluefnum sínum eða í framleiðslunni.


Öll dýrin í skóginum eru vinir


Eitt þeirra lykilatriða sem varð til þess að svo hratt var hægt að þróa bóluefni er að vísindamenn, rannsóknarstofur og lyfjafyrirtæki opnuðu aðgang sín á milli að gögnum sem aflað var um veiruna, s.s erfðaefni hennar og ítarlegar raðgreiningar. Það lögðust sem sagt allir, eða að minnsta kosti flestir, á eitt í því sameiginlega verkefni að útrýma faraldri kórónuveirunnar.

Hjón, annað smitað, hittast fyrir utan sjúkrahús í Brasilíu. Mynd: EPA

Hvernig bóluefnið er búið til er annað lykilatriði. Þær aðferðir sem beitt var eru  nýstárlegar og þar til nú hefur ekkert bóluefni byggt á þeim komið á markað.


Aðferðir til að búa til bóluefni eru fjölbreyttar. Við gerð þeirra hafa til dæmis verið notaðar bæklaðar veirur en nokkur þeirra bóluefna gegn COVID-19 sem lengst eru komin í þróun byggja á erfðaefni (kjarnasýru) veirunnar.

Nýjar aðferðir


 Erfðaefni manna er í DNA-formi en erfðaefni veirunnar í RNA-formi. Nýja kórónuveiran er svo í raun ekki sérstaklega flókin. Hún er byggð úr fjórum byggingarpróteinum, fituefnum og tæplega 30 þúsund kirna RNA-sameind. Í RNA-sameindinni er geymd uppskrift að 29 próteinum sem veiran notar bæði sem byggingareiningar en líka sem „vopn í lífsbaráttu sinni þegar hún fer inn í frumur [fólks], sýkir þær og nýtir til að fjölfalda sjálfa sig og síðan komast í aðrar frumur,“ líkt og mannerfðafræðingurinn Agnar Helgason lýsti svo vel á ráðstefnu Íslenskrar erfðagreiningar í maí.  


Tvö þeirra þriggja lyfjafyrirtækja sem komin eru lengst í þróun sinna bóluefna nota svokallaða mRNA-tækni sem felst í því að einangra eitt prótein hennar. En þegar því er svo sprautað í fólk veikist það ekki heldur myndar líkaminn mótefni.


Uppskriftin að erfðaefni veirunnar var fljótt aðgengileg öllum vísindamönnum og það áður en hún var farin að breiðast mikið út fyrir Kína svo vitað sé. Þess vegna gátu vísindamenn hafið undirbúning að gerð bóluefnis fljótlega eftir að veiran uppgötvaðist. Og hin nýja aðferð, að nota erfðaefni veirunnar en ekki veiklaða veiru eða hluta af veiklaðri veiru, hafði einnig verið í þróun lengi.

Peningar og meiri peningarEnn ein skýringin er peningar. Þegar vísindamenn voru að fást við sjúkdóma á borð við ebólu, sem herjaði á á árunum 2014-2015, vantaði peninga til rannsóknanna. Þess vegna gekk þróun lyfja og bóluefnis mjög hægt.


En núna flæða peningarnir inn. Og einn helsti misskilningurinn varðandi þróun bóluefnis gegn COVID-19 er sá að hún hafi hafist daginn sem faraldurinn braust út.

Kórónuveirufaraldurinn hefur sýnt svo ekki er um villst hversu mikilvægt vel menntað heilbrigðisstarfsfólk er. Mynd: EPA


„Heimsbyggðin hefði átt að gera betur,“ segir Sarah Gilbert, prófessor við Oxford-háskóla og arkitektinn að bóluefni því sem skólinn er að þróa í samstarfi við lyfjafyrirtækið Astra Zeneca. Í kjölfar ebólu-faraldursins einsettu vísindamennirnir við Oxford-háskóla sér að gera betur næst þegar faraldur brytist út. Þeir settu saman áætlun um hvernig takast mætti á við „sjúkdóm X“ – sjúkdóm sem myndi spretta upp og herja á fólk að því er virðist fyrirvaralaust.


Sá sjúkdómur reyndist vera COVID-19.


„Við reyndum að undirbúa okkur svo að við gætum brugðist mjög hratt við og haft tilbúið bóluefni á sem skemmstum tíma, segir Gilbert í samtali við BBC. „Undirbúningsvinnunni var ekki lokið en við vorum komin langt á veg.“

Gerðu grunn og bættu við hann


Það sem vísindamennirnir vildu gera var að skapa vísindalegan grunn, byggingareiningu, sem væri sveigjanlegur þegar hinn óþekkti sjúkdómur myndi koma fram á sjónarsviðið.


Oxford-hópurinn notar ekki hefðbundna aðferð við að þróa sitt bóluefni en heldur ekki þá sömu og Pfizer og Moderna nota – þau tvö fyrirtæki sem þegar hafa sótt um markaðsleyfi í Evrópu, í Bandaríkjunum og víðar. Þess í stað bjuggu vísindamenn skólans til það sem þeir kalla hinu mjög svo óþjála nafni: ChAdOx1. Þeir tóku algenga kvefveiru sem sýkti simpansa og gerðu úr henni byggingareiningu fyrir bóluefni gegn næstum því hverju sem er. Áður en COVID-19 faraldurinn braust út höfðu 330 manns fengið bóluefni byggt á ChAdOx1 gegn ýmsum veirusjúkdómum á borð við inflúensu og zika.


Þar sem kvefveiran er upprunnin í simpönsum og hefur verið erfðabreytt getur hún ekki orsakað sýkingu í fólki. Uppskrift hennar er, fræðilega séð, svo hægt að breyta til að kalla fram viðbrögð ónæmiskerfisins. Eða eins og vísindamennirnir segja í stuttu máli: ChAdOx1 er í grunninn eins og smágerður póstburðarmaður. Allt sem þarf svo að gera er að breyta innihaldi pakkans sem hann afhendir.

Sjúkdómur X


„Við vorum að undirbúa okkur fyrir sjúkdóm X, við höfðum verið að bíða eftir sjúkdómi X, og mig grunaði strax að veirusýkingin sem upp kom í Kína gæti verið sá sjúkdómur,“ segir Gilbert en hún og teymi hennar hófust handa í byrjun janúar við að afla gagna og hefja rannsóknir á veirusýkingunni sem komið hafði upp í Wuhan-borg í Kína.


Þau gátu ekki ímyndað sér að sjúkdómurinn yrði að faraldri en þau vildu nota þetta tækifæri til að láta reyna á ChAdOx1-tæknina.


Og vísindamenn voru ekki alveg á byrjunarreit hvað þessa tilteknu veiru varðaði. Þeir segja „heppilegt“ að hún hafi verið úr hinni þekktu kórónuveirufjölskyldu en veirur úr henni höfðu valdið faröldrum árin 2002 (SARS) og árið 2012 (MERS). Það var því vitað töluvert um hvernig veiran kæmi til með að haga sér og einnig var vitað hvert helsta vopn hennar en jafnframt Akkilesarhæll væri: Gadda-próteinið.

Bólusetning mun hefjast í Bretlandi í dag, þriðjudag. Mynd: EPA


„Við vorum með forskot,“ segir Andrew Pollard, annar prófessor í Oxford-teyminu. Kórónuveirur draga nafn sitt af útliti sínu. Þær líta í raun út eins og gaddaboltar. Í kórónunni sem umlykur þær eru gaddar sem þær nota til að komast inn í frumur líkamans. Vísindamenn vissu að fræðilega séð gæti bóluefni byggst á því að fá ónæmiskerfið til að ráðast gegn göddunum. Oxford-teymið hafði þegar notað ChAdOx1-grunninn til að þróa bóluefni gegn MERS.


Í fyrstu vantaði fjármagn til rannsóknanna og það var ekki fyrr en í apríl að peningarnir fóru að streyma inn. Tilraunir á dýrum voru fyrst gerðar og í lok apríl hófust prófanir á bóluefninu í mönnum. Engu skrefi í þróunarferlinu var sleppt en vegna fjármagns var hægt að hefja hvert þeirra á fætur öðru. Á lokastigi rannsókna tóku yfir 30 þúsund manns þátt í prófunum.

Einn stór misskilningur


En fyrst hægt var að þróa bóluefni á svo skömmum tíma, hvers vegna er það ekki oftar gert?


Það er misskilningur að það verði að taka áratug að þróa bóluefni, segir læknirinn Mark Toshner sem hefur tekið þátt í rannsóknum á bóluefnum við Cambridge-háskóla. Á tíu ára þróunartímabili er mikill „dauður tími“ þar sem „ekkert er að gerast“. Biðstaða.


Gríðarlegur tími fer í að sækja um styrki og annars konar fjármögnun. Þeim umsóknum er oft hafnað og það þarf að sækja um aftur eða annars staðar. Þá þarf að sannfæra fólk um að taka þátt í prófunum, semja við lyfjaframleiðendur og þar fram eftir götunum. Toshner segir að þetta allt verði til þess að það geti liðið mörg ár á milli rannsóknarstiga.


„Ferlið er ekki langt af því að það þarf að vera það eða af því að það er öruggasta leiðin, heldur af því að við búum í hinum raunverulega heimi,“ segir hann við BBC.

Auglýsing


Þá hefur leyfis-ferlinu einnig verið hraðað og það svo um munar. Á meðan bóluefni Oxford-teymisins var enn í prófun hófu eftirlitsaðilar að skoða þegar fram komin gögn. Þetta símat á rannsóknargögnunum hefur því stytt ferlið. Umsóknir um leyfi eru svo sannarlega ekki látnar bíða dögum, vikum eða mánuðum saman áður en farið er vandlega yfir þær. Þær fara efst í bunka eftirlitsaðila og eru eflaust merktar: Áríðandi.


„Leitin að bóluefni tók yfir líf mitt,“ viðurkennir Teresa Malbe, rannsakandi við Oxford-háskóla, í samtali við tímaritið Nature. Hún tók þátt í þróun bóluefnisins frá upphafi. „Ég hef aldrei unnið jafn mikið í lífinu. Ef ég gæti farið aftur í tímann og gefið sjálfri mér ráð í byrjun janúar myndi ég segja: Taktu nokkra frídaga.“


Þannig hefur því eflaust verið farið með fjölmarga vísindamenn um heim allan sem hafa lagt gríðarlega mikið á sig til að finna lækningu eða bóluefni gegn COVID-19, sjúkdómnum sem enginn vissi af fyrir ári en mun vonandi láta í minni pokann fyrir vísindunum fljótlega.


Litli gaddaboltinn verður senn afvopnaður.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar