Mynd: Skeljungur

Strengur ætlar að borga fyrir yfirtökuna á Skeljungi með því að selja eignirnar

Tveir kerfislega mikilvægir bankar, Íslandsbanki og Arion banki, ætla að fjármagna yfirtöku Strengs á Skeljungi ef yfirtökutilboði félagsins verður tekið. Strengur ætlar sér að selja eignir Skeljungs til að endurgreiða bönkunum, afskrá félagið og koma á fót bónuskerfi fyrir lykilstarfsmenn.

Hópur fjárfesta, yndir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur og undir merkjum Strengs, reynir nú að taka yfir Skeljung. Hópurinn gerði nýverið yfirtökutilboð sem í felst að hann er tilbúinn að greiða um tíu milljarða króna fyrir hlutafé annarra í félaginu. Hópurinn ætlar að greiða eitthvað eigin fé en meginþorri upphæðarinnar myndi koma að láni frá tveimur kerfislega mikilvægum bönkum, Íslandsbanka og Arion banka. 

Ef yfirtakan gengur eftir ætlar hópurinn að afskrá Skeljung af markaði, selja burt fjölda eigna og nota ágóðann til að endurgreiða bönkunum tveimur. Það sem eftir myndi standa gæti hann svo nýtt í frekari fjárfestingaverkefni í framtíðinni. 

Aðrir hluthafar eru að uppistöðu íslenskir lífeyrissjóðir. Þeir hafa nú til 4. janúar 2021 að ákveða hvort skuldsettar yfirtökur hefji endurinnreið sína inn í íslenskt viðskiptalíf að nýju.

Gamlir samstarfsfélagar

Strengur samanstendur af þekktum leikendum úr íslensku viðskiptalífi. Þrjú félög lögðu eignarhlut sinn í Skeljungi saman og mynduðu streng, en hann er samtals 39 prósent. Þau eru 365 hf., RES 9 og RPF. 

Þegar eignarhlutirnir voru lagðir saman inn í hið nýstofnaða félag Streng myndaðist yfirtökuskylda, en slíkt gerist þegar eignarhlutur tengdra aðila fer yfir 30 prósent í skráðu félagi.

365 og RES 9 eiga sitthvorn 38 prósent hlutinn í Streng og RPF á 24 prósent hlut. 

Auglýsing

365 er fjárfestingafélag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur en Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, er stjórnarformaður Skeljungs. Hann var einna fyrirferðamestur allra Íslendinga í skuldsettum yfirtökum á árunum sem leiddu upp að bankahruninu 2008. Þær fóru að mestu fram í gegnum fjárfestingafélögin Baug og FL Group. 

RES 9 er í eigu hjónanna Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttir, og breska fjárfestingafélagsins No. 9 Investments Limited, í eigu Don McCarthy. Bæði Sigurður og McCarthy eiga langa viðskiptasögu með Jóni Ásgeiri. 

RPF er svo í eigu Þórarins A. Sævarssonar og Gunnars Sverris Harðarsonar, sem eiga einnig fasteignasöluna RE/MAX Senter.

Yfirtökutilboð undir núverandi markaðsvirði

Yfirtökutilboðið hljóðar upp á 8,315 krónur á hlut. Það er töluvert undir gengi bréfa í Skeljungi í dag, en það er 8,66 krónur á hlut. Því myndu aðrir hluthafar gefa Streng um fjögur prósent afslátt á markaðsvirði Skeljungs ef þeir tækju tilboðinu. Heimildir Kjarnans herma að aðrir hluthafar séu að láta vinna óháð verðmat á Skeljungi þar sem tekið verði tillit til virði undirliggjandi eigna. Þeirra sömu og Strengur hyggst selja gangi yfirtakan eftir.

Ingibjörg Pálmadóttir er eigandi 365 og Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður Skeljungs.
Mynd: RÚV/Skjáskot

Markaðsvirði Skeljungs í dag er 17,2 milljarðar króna. Ef allir aðrir hluthafar félagsins myndu taka tilboði Strengs myndi fjárfestingafélagið þurfa að greiða um tíu milljarða króna. 

Samkvæmt opinberu tilboðsyfirliti yrðu þau kaup fjármögnuð með eiginfjárframlagi og lánsfé. Þar stendur orðrétt: „Íslandsbanki og Arion banki veita ábyrgð sem tryggir greiðslu reiðufjár til hluthafa sem samþykkja tilboðið í samræmi við skilmála þess.“ 

Lána í skuldsetta yfirtöku en lítið til atvinnufyrirtækja

Þátttaka Íslandsbanka og Arion banka, sem báðir eru kerfislega mikilvægir bankar, í skuldsettri yfirtökutilraun Strengs á Skeljungi hefur vakið athygli víða í viðskiptalífinu. Sérstaklega vegna þess útlánageta stóru bankanna hefur verið stóraukin með viðbragðsaðgerðum Seðlabanka Íslands vegna COVID-19. Sveiflu­jöfn­un­ar­auki var til að mynda afnumin sem losar veru­lega um það eigið fé sem bank­arnir þurfa að halda á og stýrivextir voru lækk­aðir úr 4,5 pró­sentum niður í 0,75 pró­sent, sem ætti að skila miklu betri kjörum fyrir við­skipta­vini banka. 

Auglýsing

Samt eru bankarnir nánast ekkert að lána til atvinnufyrirtækja í rekstri. Ný útlán banka til atvinnu­fyr­ir­tækja lands­ins, að frá­­­dregnum upp­­greiðslum og umfram­greiðsl­um, námu 2,5 millj­örðum króna á fyrstu tíu mánuðum ársins. Það er ein­ungis 2,2 pró­sent af nýjum útlánum þeirra til fyr­ir­tækja á öllu síð­asta ári og 1,2 pró­sent af þeim nýju útlánum sem veitt voru árið 2018, þegar eftirhrunsmet var sett í útlánum banka til atvinnu­fyr­ir­tækja.

En bankarnir tveir ákváðu að lána nýstofnuðu fjárfestingarfélagi til að taka yfir Skeljung. 

Vilja búta félagið í sundur og selja eignir

Í gærkvöldi birtist í tilkynningakerfi Kauphallar Íslands spurningar frá hluthöfum Skeljungs varðandi þær framtíðaráætlanir sem Strengur hefur fyrir félagið, og svör forsvarsmanna Strengs við þeim spurningum. 

Þar var meðal annars spurt um hvaða áherslubreytingar yrðu ef gengið yrði að yfirtökutilboðinu. Í svari forsvarsmanna Strengs segir að til standi að selja ýmsar eignir félagsins. Um er að ræða valdar rekstrareiningar, fasteignir og lóðir félagsins, en ekki er sérstaklega tilgreinar hvaða. Þá komi til greina að úthýsa einhverjum hluta starfseminnar og að engar rekstrareiningar eða eignir Skeljungs séu undanskildar í skoðun á því.

Meginþorri eignasölunnar á að felast í því að selja lóðir sem bensínstöðvar Skeljungs eru á í Reykjavík og samhliða hætta rekstri stöðvanna. „Í kjölfarið má gera ráð fyrir að félagið verði smærra í sniðum og eignaléttara,“ segir í svörunum. Þetta er gert svo að starfsemin verði betur í stakk búin til að „mæta hröðum breytingum sem fylgja orkuskiptum á næstu árum.“

Þá stefnir Strengur að því að „halda áfram að leita að hagstæðum tækifærum til að víkka tekjugrunn félagsins og skila aukinni arðsemi til lengri tíma. Er þar meðal annars horft til tækifæra á neytendamarkaði með hliðsjón af bættri nýtingu þeirra starfstöðva sem félagið mun ekki leggja af. Í þessu samhengi útilokar tilboðsgjafi ekki að til greina komi að fjárfest verði í félögum eða eignum í óskyldum rekstri, hvort sem er á Íslandi eða erlendis.“ 

Ætla í frekari verslunarrekstur

Skeljungur hefur að undanförnu fjárfest í Brauð&Co og Gló og er hluti af hóp sem boðið hefur í Domino´s á Íslandi. Þá á félagið Wedo, sem rekur meðal annars Heimkaup og ýmsar netverslanir, og keypti nýverið bensínstöðvar Dælunnar og bílaþvottastöðina Löður. Þá á Skeljungur olíufélagið P/F Magn í Færeyjum en tilboðsgjafarnir telja ekki vera mikla samlegð með rekstri þess og annarra hluta Skeljungs. Því má telja sennilegt að reynt verði að selja P/F Magn líka gangi yfirtakan eftir.

Auglýsing

Svo virðist sem að þar liggi framtíðaráform forsvarsmanna Straums: í ýmiskonar verslunarrekstri. Allir lykilleikendur í Strengshópnum hafa enda eytt þorra síns starfsferils þar.

Forstjóri Skeljungs er Árni Pétur Jónsson. Hann var ráðinn í það starf í ágúst í fyrra. Árni Pétur hafði áður unnið náið með, og fyr­ir, félög tengd Jóni Ásgeiri, sem tók sæti í stjórn Skelj­ungs í maí 2019 og er nú, líkt og áður sagði, stjórnarformaður félagsins. Jón Ásgeir var til að mynda for­stjóri og síðar stjórn­ar­for­maður Baugs Group, sem átti Haga og var stærsti hlut­haf­inn í Teymi þegar Árni Pétur stýrði því fyr­ir­tæki. 

Afskráning og innleiðing á bónuskerfi

Nái Strengur að taka yfir Skeljung er stefnt að því að afskrá félagið úr Kauphöll Íslands. Það er rökstutt með því að skráningin sé „hlutfallslega kostnaðarsöm“.

Í svörum við spurningum hluthafa segir að auk þess verði leitast við að „einfalda ákvarðanatöku innan félagsins, einfalda stjórnskipulag, fækka millilögum og koma á kaupaukakerfi fyrir lykilstarfsmenn sem munu koma að framkvæmd áætlana Strengs.“

Hin mikla eignasala sem er boðuð, til að borga fyrir yfirtökuna á Skeljungi, mun samkvæmt forsvarsmönnum Strengs hafa áhrif á starfsmenn samstæðunnar. Þeir munu „ýmist fylgja hinum seldu einingum til kaupenda eða verða lögð niður samhliða aukinni úthýsingu. Tilboðsgjafi mun einnig leitast við að nýta sjálfvirknivæðingu til að auka hagræðingu í rekstri. Umfang slíkra áhrifa á starfsmenn liggur ekki fyrir að svo stöddu en búast má við að störf hjá félaginu muni flytjast með seldum rekstrareiningum.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar