Tíu góð tíðindi á árinu 2020
Við fylltumst stolti, kepptumst um ketti, lásum fleiri bækur og bökuðum sem aldrei fyrr. Við gengum flest í vinnuna – alla leið inn í stofu – þar sem við líka toguðum okkur og teygðum á meðan við biðum eftir heimboði frá Helga Björns. Á ári þar sem við vorum mörg hver hárprúðari en góðu hófi gegnir og bættum sum á okkur fleiri kílóum en við kærum okkur um voru það andans undur, sköpunarverk hugans, sem bæði nærðu best og við söknuðum mest.
Fréttaárið mikla 2020 er senn liðið. Árið sem hefur verið undirlagt af válegum tíðindum innanlands sem utan. Því hefur örsmá veira með gadda og griparma valdið, veira sem tekið hefur sér bólfestu í líkömum milljóna manna en hugum okkar allra.
En árið hefur líka verið gríðarlega lærdómsríkt og ýmsar fréttir, bæði sem tengjast faraldrinum beint og aðrar sem gera það alls ekki, hafa hlýjað okkur um hjartarætur og sýnt mátt mannsins við að takast á við erfiðar aðstæður og flókin verkefni.
Kjarninn tók saman nokkur atriði sem sannarlega er hægt að gleðjast yfir þó að sum þeirra hafi ekki komið til af góðu.
1. Vísindin efla alla dáð
Vísindamenn um allan heim sneru bökum saman og þróuðu bóluefni á methraða gegn farsóttinni sem umlék alla okkar tilveru. Þeir deildu gögnum sínum, unnu dagana langa – brutu heilann sem aldrei fyrr. Árangur þessa erfiðis er sá að þegar er farið að bólusetja gegn COVID-19, sjúkdómnum sem yfir 78 milljónir jarðarbúa hafa fengið í ár og tæplega tvær milljónir látist úr.
2. Saman erum við sterkari
Fréttir af fádæma samstöðu fólks, samfélaga, ríkja og allrar heimsbyggðarinnar, skutu reglulega upp kollinum í ár. Tugþúsundir sjálfboðaliða tóku þátt í prófunum á nýjum bóluefnum en sá hluti lyfjaþróunar er oft ástæða þess að langan tíma tekur að koma þeim á markað. Bæði lyfjafyrirtæki og ríki tóku svo mörg hver höndum saman um að deila dropunum dýrmætu jafnt til sem flestra – óháð stétt og stöðu.
Fjölmörg fyrirtæki um allan heim, sem alla jafna eru í samkeppni, tóku höndum saman við að þróa og framleiða hluti sem brýn þörf var á í faraldrinum, svo sem grímur og öndunarvélar.
Götur voru nær auðar og ferðalög voru sett á bið þegar faraldurinn kom upp. Fólk vann og stundaði nám heima, frestaði útskriftarferðum, afmælis-, fermingar- og brúðkaupsveislum. Íslensk sóttvarnayfirvöld hafa ítrekað sagt að samstaða íslensku þjóðarinnar hafi verið það sem skilaði þeim árangri sem náðist í baráttunni gegn veirunni.
3. Æfingin skapar meistarann
Tónskáldið Hildur Guðnadóttir fyllti okkur ítrekað stolti í upphafi árs er hún hreppti hver stórverðlaunin á fætur öðrum fyrir tónlist sína í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Grammy, Emmy, Golden Globe og Óskarinn sjálfur.
Í lok árs var það svo heill hópur kvenna sem náði árangri fyrir Íslands hönd sem belgdi brjóst okkar enn á ný út af einskæru stolti: Kvennalandslið okkar í knattspyrnu tryggði sér þátttöku á Evrópumótinu árið 2020.
4. Allt fór í hund og kött
Hjarta margra stækkaði á árinu og Facebook-síður troðfylltust af auglýsingum frá fólki sem vildi kettlinga og hvolpa. Þetta varð til þess að ekkert mál var að finna heimili fyrir ferfætlinga, m.a. villiketti og kettlinga þeirra. Rekstrarstjóri Kattholts sagði að í ár hafi verið slegist um ketti. Hann sagði að líklega vildi fólk finna „nýja fjölskyldumeðlimi“ í hinu óvenjulega árferði. „En fólk verður algjörlega að gera sér grein fyrir því að þetta er ekki skammtímalausn fyrir einhvern sem leiðist. Það þarf að passa upp á ketti og gefa þeim mikla ást og hlýju í fimmtán til átján ár.“
5. Ber er hver að baki nema sér bróður eigi
Heilbrigðisstarfsfólk sýndi og sannaði í faraldrinum hvers það er megnugt. Með ósérhlífni og þekkingu að vopni var það í fremstu víglínu baráttunnar gegn COVID-19 um allan heim. Á Landspítala og fleiri sjúkrastofnunum sameinuðust allir í því verkefni að verjast veirunni og veita sýktum þá bestu heilbrigðisþjónustu sem völ var á. Álagið var mikið og vaktirnar margar og langar. Hundruð Íslendinga skráðu sig einnig í bakvarðasveit heilbrigðiskerfisins og buðu fram aðstoð sína.
Sama var upp á teningnum á öðrum stofnunum á borð við öldrunarheimili og á heimilum fatlaðra. Aldrei áður hafa Íslendingar fundið það jafn skýrt hversu mikilvægu hlutverki þeir sem sinna aðhlynningu og hjúkrun gegna í okkar litla samfélagi.
6. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur
Við lærðum að meta margt af því sem við áður tókum sem sjálfsögðum hlut.
Við komumst til dæmis að því í faraldrinum að kennarar eru algjörlega ómissandi. Það er ekki endilega tekið út með sældinni að vera heima að vinna með börn í sóttkví sér við hlið. Þegar verst lét þurftu þúsundir ungmenna að vera í fjarnámi og þótt þau hafi eflaust mörg stundum óskað sér á sinni skólagöngu að þau gætu sofið aðeins lengur fram eftir og sleppt því að mæta í kennslustofur var nýjabrumið fljótt að fara af því að sitja stöðugt heima við námið. Kennarar voru sérstaklega uppfinningasamir við að miðla kennsluefninu í gegnum netið og lögðu margir mikið á sig til að reyna að halda utan um sinn nemendahóp.
Að komast ekki í ræktina, í sund eða á íþróttaæfingu reyndist mörgum mjög erfitt. Þjálfarar voru hins vegar margir hverjir gjafmildir á þekkingu sína og leiðsögn í gegnum netið svo allir sem vildu gátu stundað heimaleikfimi eða útiæfingar af miklum móð.
Við áttuðum okkur á því hversu mikla ánægju við höfum af því að horfa á aðra í íþróttum. Að fagna saman sigrum, að sameinast í aðdáun, hvatningu og ákefð, gefur okkur sem einstaklingum og samfélagi mikið.
Listafólk varð að afbóka tónleika- og sýningarsali en tók sig margt hvert til og bauð annars konar upplifun fyrir sóttþreytta þjóð. Það heimsótti aldraða og aðra sem hvað mest voru einangraðir og léku fyrir þá, sungu og spiluðu. Þá varð persónuleg miðlun listarinnar fyrirferðarmeiri en áður: Fólk gat gefið ástvinum sínum einkasýningu – listgjörning úti á tröppum. Tónlistarfólk varð svo að heimilisvinum í gegnum sjónvarpið og netið og bauð okkur heim í stofu til sín.
7. Guðirnir gefa þeim gleði sem landið sjá
Íbúar stórborga sáu fjöllin í fjarska í fyrsta sinn greinilega og fiskar og fuglar syntu um síkin í Feneyjum. Þó að heimsfaraldur COVID-19 hafi ekki dregið að neinu marki úr þeirri vá sem stafar af loftslagsbreytingum uppgötvuðum við hvernig heimurinn gæti litið út ef dregið yrði verulega úr mengun og rányrkju til langframa. Kjötframleiðsla á heimsvísu dróst saman um 1 prósent enda margir að átta sig á því að hinn stórtæki verksmiðjuiðnaður sem ástundaður er víða til að seðja lyst á dýraafurðum er bæði mengandi og gengur auk þess gegn gildum þess hvað varðar umgengni við náttúruna, þar á meðal aðrar skepnur.
8. Fram í heiðanna ró
Þúsundir Íslendinga lögðu sitt eigið land undir fót í sumar enda höfðu þeir allir sem einn verið hvattir til að ferðast innanlands. Í „veirufríinu“ í júní og júlí fylltust samfélagsmiðlar af myndum af landsmönnum að baða sig í náttúrulaugum, skoða öll náttúruundrin sem erlendir ferðamenn hafa síðustu ár stært sig af að hafa barið augum og uppgötvuðu gististaði á heimsmælikvarða í afskekktum sveitum og sjávarþorpum. Stuðlagil, þar sem önnur tungumál en íslenska hafa síðustu ár bergmálað milli hamraveggja, varð einn vinsælasti viðkomustaður sumarsins og fékk að launum gullhamra og hrósyrði á okkar ástkæra og ylhýra.
9. Geymt en ekki gleymt
Rétt fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum var sendur út sérstakur þáttur af The West Wing, stjórnmáladramanu sem naut gríðarlegra vinsælda á árunum 1999-2006. Þeir sem höfðu saknað að sjá Rob Lowe, Allison Janney og Martin Sheen í Hvíta húsinu fögnuðu endurkomunni og nokkru síðar einnig því að Donald Trump tapaði kosningunum.
Önnur endurkoma kallaði ekki á minni viðbrögð, sérstaklega þeirra sem voru unglingar á níunda áratugnum. Nokkrir leikarar úr hinni stórvinsælu grallaramynd, The Goonies, hittust í netheimum og sendu samkomuna út á YouTube ásamt vel völdum atriðum úr myndinni. Þetta vildu þeir gera til að létta fólki stundirnar í einangrun farsóttarinnar.
Það er ekki hægt að rifja upp endurkomur í öldum ljósvakans öðruvísi en að segja frá einni slíkri sem átti sér stað í sjónvarpsþáttunum gríðarvinsælu Grey‘s Anatomy – nánar til tekið í þætti sem frumsýndur var vestanhafs í nóvember. Aðdáendur þáttanna sem vilja ekki láta spilla hinni óvæntu uppákomu fyrir sér, ættu að hætta að lesa NÚNA.
Í þættinum sem frumsýndur var 13. nóvember, birtist McDreamy, læknirinn Derek Shepherd sem Patrick Dempsey leikur, skyndilega á ný. Grey‘s Anatomy hafa átt mikilli velgengni að fagna víða um heim og hafa nú sautján þáttaraðir verið gerðar. Leikarar og framleiðendur vildu endurspegla álagið á heilbrigðisstarfsfólki í faraldrinum er nýjustu þættirnir voru teknir upp í vor. Og til að gleðja áhorfendur sem saknað hafa McDreamy, sem er í hópi þeirra fjölmörgu persóna sem hafa dáið í þáttunum, var beitt endurliti og draumum.
10. Öll él birtir um síðir
Bestu fréttir ársins 2020 eru líklega að margra mati þær að nú fer því senn að ljúka. Á því höfum við þurft að takast á við algjörlega nýjan og flókinn veruleika og margir átt um sárt að binda vegna ástvinamissis og heimsóknarbanna. Á næstu vikum og mánuðum verður þjóðin bólusett gegn COVID-19 og þá getum við farið að hitta aftur og faðma þá sem okkur þykir vænst um. Við getum því óhikað hlakkað til ársins 2021.