Af Twitter Hjúkrunarfólk ofurhetjur
Af Twitter

Tíu góð tíðindi á árinu 2020

Við fylltumst stolti, kepptumst um ketti, lásum fleiri bækur og bökuðum sem aldrei fyrr. Við gengum flest í vinnuna – alla leið inn í stofu – þar sem við líka toguðum okkur og teygðum á meðan við biðum eftir heimboði frá Helga Björns. Á ári þar sem við vorum mörg hver hárprúðari en góðu hófi gegnir og bættum sum á okkur fleiri kílóum en við kærum okkur um voru það andans undur, sköpunarverk hugans, sem bæði nærðu best og við söknuðum mest.

Frétta­árið mikla 2020 er senn lið­ið. Árið sem hefur verið und­ir­lagt af válegum tíð­indum inn­an­lands sem utan. Því hefur örsmá veira með gadda og griparma vald­ið, veira sem tekið hefur sér ból­festu í lík­ömum millj­óna manna en hugum okkar allra.



En árið hefur líka verið gríð­ar­lega lær­dóms­ríkt og ýmsar frétt­ir, bæði sem tengj­ast far­aldr­inum beint og aðrar sem gera það alls ekki, hafa hlýjað okkur um hjarta­rætur og sýnt mátt manns­ins við að takast á við erf­iðar aðstæður og flókin verk­efni.

Kjarn­inn tók saman nokkur atriði sem sann­ar­lega er hægt að gleðj­ast yfir þó að sum þeirra hafi ekki komið til af góðu.



Auglýsing

1. Vís­indin efla alla dáð



Vís­inda­menn um allan heim sneru bökum saman og þró­uðu bólu­efni á met­hraða gegn far­sótt­inni sem umlék alla okkar til­veru. Þeir deildu gögnum sín­um, unnu dag­ana langa – brutu heil­ann sem aldrei fyrr. Árangur þessa erf­iðis er sá að þegar er farið að bólu­setja gegn COVID-19, sjúk­dómnum sem yfir 78 millj­ónir jarð­ar­búa hafa fengið í ár og tæp­lega tvær millj­ónir lát­ist úr.



2. Saman erum við sterk­ari



 Fréttir af fádæma sam­stöðu fólks, sam­fé­laga, ríkja og allrar heims­byggð­ar­inn­ar, skutu reglu­lega upp koll­inum í ár. Tug­þús­undir sjálf­boða­liða tóku þátt í próf­unum á nýjum bólu­efnum en sá hluti lyfja­þró­unar er oft ástæða þess að langan tíma tekur að koma þeim á mark­að.  Bæði lyfja­fyr­ir­tæki og ríki tóku svo mörg hver höndum saman um að deila drop­unum dýr­mætu jafnt til sem flestra – óháð stétt og stöðu.



Fjöl­mörg fyr­ir­tæki um allan heim, sem alla jafna eru í sam­keppni, tóku höndum saman við að þróa og fram­leiða hluti sem brýn þörf var á í far­aldr­in­um, svo sem grímur og önd­un­ar­vél­ar.



Götur voru nær auðar og ferða­lög voru sett á bið þegar far­ald­ur­inn kom upp. Fólk vann og stund­aði nám heima, frestaði útskrift­ar­ferð­um, afmæl­is-, ferm­ing­ar- og brúð­kaups­veisl­um. Íslensk sótt­varna­yf­ir­völd hafa ítrekað sagt að sam­staða íslensku þjóð­ar­innar hafi verið það sem skil­aði þeim árangri sem náð­ist í bar­átt­unni gegn veirunni.



Starfsfólká gjörgæsludeild Landspítalans í fyrstu bylgju faraldursins
Þorkell Þorkelsson/Landspítali

3. Æfingin skapar meist­ar­ann



Tón­skáldið Hildur Guðna­dóttir fyllti okkur ítrekað stolti í upp­hafi árs er hún hreppti hver stór­verð­launin á fætur öðrum fyrir tón­list sína í kvik­myndum og sjón­varps­þátt­um. Gram­my, Emmy, Golden Globe og Óskar­inn sjálf­ur.



Í lok árs var það svo heill hópur kvenna sem náði árangri fyrir Íslands hönd sem belgdi brjóst okkar enn á ný út af ein­skæru stolti: Kvenna­lands­lið okkar í knatt­spyrnu tryggði sér þátt­töku á Evr­ópu­mót­inu árið 2020.



Hildur Guðnadóttir rakaði inn verðlaunum í byrjun ársins.
EPA

4. Allt fór í hund og kött



Hjarta margra stækk­aði á árinu og Face­book-­síður troð­fyllt­ust af aug­lýs­ingum frá fólki sem vildi kett­linga og hvolpa. Þetta varð til þess að ekk­ert mál var að finna heim­ili fyrir fer­fætlinga, m.a. villi­ketti og kett­linga þeirra. Rekstr­ar­stjóri Katt­holts sagði að í ár hafi verið sleg­ist um ketti. Hann sagði að lík­lega vildi fólk finna „nýja fjöl­skyldu­með­limi“ í hinu óvenju­lega árferði. „En fólk verður algjör­lega að gera sér grein fyrir því að þetta er ekki skamm­tíma­lausn fyrir ein­hvern sem leið­ist. Það þarf að passa upp á ketti og gefa þeim mikla ást og hlýju í fimmtán til átján ár.“



Fjölmargar kisur fengu framtíðarheimili á árinu 2020.

5. Ber er hver að baki nema sér bróður eigi



Heil­brigð­is­starfs­fólk sýndi og sann­aði í far­aldr­inum hvers það er megn­ugt. Með ósér­hlífni og þekk­ingu að vopni var það í fremstu víg­línu bar­átt­unnar gegn COVID-19 um allan heim. Á Land­spít­ala og fleiri sjúkra­stofn­unum sam­ein­uð­ust allir í því verk­efni að verj­ast veirunni og veita sýktum þá bestu heil­brigð­is­þjón­ustu sem völ var á. Álagið var mikið og vakt­irnar margar og lang­ar. Hund­ruð Íslend­inga skráðu sig einnig í bak­varða­sveit heil­brigð­is­kerf­is­ins og buðu fram aðstoð sína. 

Sama var upp á ten­ingnum á öðrum stofn­unum á borð við öldr­un­ar­heim­ili og á heim­ilum fatl­aðra. Aldrei áður hafa Íslend­ingar fundið það jafn skýrt hversu mik­il­vægu hlut­verki þeir sem sinna aðhlynn­ingu og hjúkrun gegna í okkar litla sam­fé­lagi.



Starfsmenn Landspítalans hvöttu okkur til að vera heima.
Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn

6. Eng­inn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur



Við lærðum að meta margt af því sem við áður tókum sem sjálf­sögðum hlut.



Við komumst til dæmis að því í far­aldr­inum að kenn­arar eru algjör­lega ómissandi. Það er ekki endi­lega tekið út með sæld­inni að vera heima að vinna með börn í sótt­kví sér við hlið. Þegar verst lét þurftu þús­undir ung­menna að vera í fjar­námi og þótt þau hafi eflaust mörg stundum óskað sér á sinni skóla­göngu að þau gætu sofið aðeins lengur fram eftir og sleppt því að mæta í kennslu­stofur var nýja­brumið fljótt að fara af því að sitja stöðugt heima við nám­ið. Kenn­arar voru sér­stak­lega upp­finn­inga­samir við að miðla kennslu­efn­inu í gegnum netið og lögðu margir mikið á sig til að reyna að halda utan um sinn nem­enda­hóp.



Að kom­ast ekki í rækt­ina, í sund eða á íþrótta­æf­ingu reynd­ist mörgum mjög erfitt. Þjálf­arar voru hins vegar margir hverjir gjaf­mildir á þekk­ingu sína og leið­sögn í gegnum netið svo allir sem vildu gátu stundað heima­leik­fimi eða úti­æf­ingar af miklum móð.  



Við átt­uðum okkur á því hversu mikla ánægju við höfum af því að horfa á aðra í íþrótt­um. Að fagna saman sigrum, að sam­ein­ast í aðdá­un, hvatn­ingu og ákefð, gefur okkur sem ein­stak­lingum og sam­fé­lagi mik­ið.  



Lista­fólk varð að afbóka tón­leika- og sýn­ing­ar­sali en tók sig margt hvert til og bauð ann­ars konar upp­lifun fyrir sótt­þreytta þjóð. Það heim­sótti aldr­aða og aðra sem hvað mest voru ein­angr­aðir og léku fyrir þá, sungu og spil­uðu. Þá varð per­sónu­leg miðlun list­ar­innar fyr­ir­ferð­ar­meiri en áður: Fólk gat gefið ást­vinum sínum einka­sýn­ingu – list­gjörn­ing úti á tröpp­um. Tón­list­ar­fólk varð svo að heim­il­is­vinum í gegnum sjón­varpið og netið og bauð okkur heim í stofu til sín.



Tónlistarfólk og aðrir listamenn lögðu sín lóð á vogarskálarnar við að létta fólki í einangrun lífið. Sungið var, spilað og leikið við hjúkrunarheimili í samkomubanni.
EPA

7.  Guð­irnir gefa þeim gleði sem landið sjá



Íbúar stór­borga sáu fjöllin í fjarska í fyrsta sinn greini­lega og fiskar og fuglar syntu um síkin í Fen­eyj­um. Þó að heims­far­aldur COVID-19 hafi ekki dregið að neinu marki úr þeirri vá sem stafar af lofts­lags­breyt­ingum upp­götv­uðum við hvernig heim­ur­inn gæti litið út ef dregið yrði veru­lega úr mengun og rányrkju til lang­frama. Kjöt­fram­leiðsla á heims­vísu dróst saman um 1 pró­sent enda margir að átta sig á því að hinn stór­tæki verk­smiðju­iðn­aður sem ástund­aður er víða til að seðja lyst á dýra­af­urðum er bæði meng­andi og gengur auk þess gegn gildum þess hvað varðar umgengni við nátt­úr­una, þar á meðal aðrar skepn­ur.



8. Fram í heið­anna ró



Þús­undir Íslend­inga lögðu sitt eigið land undir fót í sumar enda höfðu þeir allir sem einn verið hvattir til að ferð­ast inn­an­lands. Í „veiru­frí­inu“ í júní og júlí fyllt­ust sam­fé­lags­miðlar af myndum af lands­mönnum að baða sig í nátt­úru­laug­um, skoða öll nátt­úru­undrin sem erlendir ferða­menn hafa síð­ustu ár stært sig af að hafa barið augum og upp­götv­uðu gisti­staði á heims­mæli­kvarða í afskekktum sveitum og sjáv­ar­þorp­um. Stuðla­gil, þar sem önnur tungu­mál en íslenska hafa síð­ustu ár berg­málað milli hamra­veggja, varð einn vin­sæl­asti við­komu­staður sum­ars­ins og fékk að launum gull­hamra og hrósyrði á okkar ást­kæra og ylhýra.



Margir Íslendingar lögðu leið sína að Jökulsárlóni í sumar.
Bára Huld Beck

9. Geymt en ekki gleymt



Rétt fyrir for­seta­kosn­ing­arnar í Banda­ríkj­unum var sendur út sér­stakur þáttur af The West Wing, stjórn­mála­dramanu sem naut gríð­ar­legra vin­sælda á árunum 1999-2006. Þeir sem höfðu saknað að sjá Rob Lowe, All­i­son Janney og Martin Sheen í Hvíta hús­inu fögn­uðu end­ur­kom­unni og nokkru síðar einnig því að Don­ald Trump tap­aði kosn­ing­un­um.



Önnur end­ur­koma kall­aði ekki á minni við­brögð, sér­stak­lega þeirra sem voru ung­lingar á níunda ára­tugn­um. Nokkrir leik­arar úr hinni stór­vin­sælu grall­ara­mynd, The Goon­ies, hitt­ust í netheimum og sendu sam­kom­una út á YouTube ásamt vel völdum atriðum úr mynd­inni. Þetta vildu þeir gera til að létta fólki stund­irnar í ein­angrun far­sótt­ar­inn­ar.



Það er ekki hægt að rifja upp end­ur­komur í öldum ljós­vakans öðru­vísi en að segja frá einni slíkri sem átti sér stað í sjón­varps­þátt­unum gríð­ar­vin­sælu Grey‘s Anatomy – nánar til tekið í þætti sem frum­sýndur var vest­an­hafs í nóv­em­ber. Aðdá­endur þátt­anna sem vilja ekki láta spilla hinni óvæntu upp­á­komu fyrir sér, ættu að hætta að lesa NÚNA.



Auglýsing

Í þætt­inum sem frum­sýndur var 13. nóv­em­ber, birt­ist McDr­ea­my, lækn­ir­inn Derek Shepherd sem Pat­rick Dempsey leik­ur, skyndi­lega á ný. Grey‘s Anatomy hafa átt mik­illi vel­gengni að fagna víða um heim og hafa nú sautján þátt­araðir verið gerð­ar. Leik­arar og fram­leið­endur vildu end­ur­spegla álagið á heil­brigð­is­starfs­fólki í far­aldr­inum er nýj­ustu þætt­irnir voru teknir upp í vor. Og til að gleðja áhorf­endur sem saknað hafa McDr­ea­my, sem er í hópi þeirra fjöl­mörgu per­sóna sem hafa dáið í þátt­un­um, var beitt end­ur­liti og draum­um.  



10. Öll él birtir um síðir



Bestu fréttir árs­ins 2020 eru lík­lega að margra mati þær að nú fer því senn að ljúka. Á því höfum við þurft að takast á við algjör­lega nýjan og flók­inn veru­leika og margir átt um sárt að binda vegna ást­vina­missis og heim­sókn­ar­banna. Á næstu vikum og mán­uðum verður þjóðin bólu­sett gegn COVID-19 og þá getum við farið að hitta aftur og faðma þá sem okkur þykir vænst um. Við getum því óhikað hlakkað til árs­ins 2021.



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar