Eftir að Donald Trump sagði stuðningsmönnum sínum, sem safnast höfðu saman við Hvíta húsið í gær að þeir ættu aldrei að viðurkenna ósigur gengu hundruð þeirra fylktu liði að þinghúsinu, sumir vopnaðir, og brutust þar inn. Margir eru þegar farnir að tala um valdaránstilraun því tilgangurinn var sá að koma í veg fyrir að þingdeildirnar, sem voru á fundi í þinghúsinu, myndu staðfesta úrslit forsetakosninganna frá því í nóvember sem Joe Biden sigraði í.
Lögreglumenn og öryggisverðir, sem stóðu framan við þinghúsið, hörfuðu er múgurinn lét til skarar skríða, veifandi fánum sem margir tengjast hvítum öfgahópum.
Í um klukkustund barði fólk á glugga hússins og dyr og hrópaði: Hleypið okkur inn! Lögreglumenn sem voru inni í húsinu beittu piparúða og reyksprengjum en tókst hins vegar ekki að brjóta uppreisnina á bak aftur.
Og múgnum tókst að komast inn. Alla leið inn í þingsali og á skrifstofur þingmanna sem höfðu leitað skjóls annars staðar í húsinu. Nú er ljóst að atburðir næturinnar hafa kostað fjóra lífið. Á sjötta tug hafa verið handteknir, meirihlutinn fyrir að brjóta útgöngubann sem borgarstjóri Wahsington setti á í gær.
Sífellt fjölgaði svo í hópi stuðningsmanna við þinghúsið og fyrir þá sem á horfðu í beinum útsendingum sjónvarpsstöðva virtist biðin eftir auknum lögreglustuðningi við húsið engan enda ætla að taka.
Lögreglan reyndi að verjast múgnum við austurhlið hússins framan af en gafst svo upp og hörfaði. Æstur hópur stuðningsmanna Trump stóð öskrandi fyrir framan og þegar hann komst inn fyrir varnir lögreglunnar hóf hann að syngja bandaríska þjóðsönginn.
Ein kona var skotin innan veggja þinghússins. Skotið kom úr byssu þinglögreglumanns. Hún var flutt á sjúkrahús þar sem hún lést. Táragasi var beitt á múginn og fyllti það marmaralagða ganga og sali þinghússins.
Þetta var áhlaup. Þetta voru óeirðir. Joe Biden, verðandi forseti, ávarpaði þjóðina og sagði slíkt aldrei áður hafa gerst í nútímasögu landsins. Donald Trump ávarpaði hana einnig, á Twitter, og bað fólk að halda friðinn en hann sagði stuðningsmönnum sínum einnig að muna þennan dag að eilífu. Og hélt áfram að segja að kosningunum hefði „verið stolið“.
Bæði Twitter og Facebook læstu aðgangi Trumps að miðlunum í nótt. Hann gat því ekki lengur skrifað nýjar færslur.
Umræðum um úrslit forsetakosninganna var skiljanlega hætt á meðan öllu þesu stóð. „Haldið ykkur frá gluggum og dyrum. Ef þið eruð úti, leitið skjóls,“ voru skilaboðin sem þingmenn fengu er áhlaupið á þinghúsið hófst.
Þjóðvarðliðið í Washington-borg var virkjað í gærkvöldi. Borgarstjórinn Muriel E. Boswer sagði að vegna útgöngubannsins mætti engir aðrir en framlínustarfsmenn vera á ferli utandyra.
Sá fyrsti sem fór inn í þinghúsið er talinn hafa brotið sér leið inn um glugga. Einnig ruddist múgurinn í gegnum öryggishliðin. Hundruð áttu eftir að fara inn áður en yfir lauk, segir í frétt Washington Post og grunar lögreglu að þeir sem fyrstir komu inn hafi opnað dyr fyrir félögum sínum fyrir utan.
Þegar inn var komið var farið inn í sali og á skrifstofur og margt brotið og bramlað.
„Myrðið fjölmiðla“ stóð á miða sem hengdur var á hurð einnar skrifstofunnar. „Við munum ekki hætta“ sagði á öðrum sem skilinn var eftir á skrifstofu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar þingsins.
Fjórir eru látnir að sögn lögreglunnar eftir atburðina. Einn féll fyrir byssuskoti en þrír létust af öðrum sökum sem enn hefur ekki verið greint ítarlega frá.
Um átta í gærkvöldi að bandarískum tíma, þegar lögreglumönnum hafði loks tekist að fjarlægja alla uppreisnarseggina úr þinghúsinu, fylgdu þeir þingmönnum aftur í þingsalina svo þeir gætu haldið vinnu sinni áfram.