Mynd: EPA

Forseti Bandaríkjanna stýrir fordæmalausri árás á lýðræðið

Mánuðum saman hefur Donald Trump sagt ranglega að svindl hafi leitt til þess að hann tapaði forsetakosningunum í nóvember 2020. Á fundi með stuðningsmönnum fyrr í dag sagði hann: „Við munum aldrei gefast upp.“ Skömmu síðar réðust stuðningsmenn hans inn í bandaríska þinghúsið.

Frá því að Joe Biden var staðfestur sigurvegari í bandarísku forsetakosningunum þann 7. nóvember 2020 hefur Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseti, haldið því fram að svindlað hafi verið til að koma honum frá völdum. 

Fjölmörg dómsmál, yfir 60, hafa verið höfðuð og allar mögulegar leiðir reyndar til að breyta þeirri niðurstöðu að Biden fékk sjö milljón fleiri atkvæði en Trump og alls 306 kjörmenn kjörna á móti 232 sem féllu Trump í skaut. 

Engin lögformleg leið skilaði forsetanum og fylgismönnum hans neinum árangri. Dómarar sem Trump skipaði sjálfur vísuðu málum frá fyrir að vera fjarstæðukennd. Hæstiréttur, sem í sitja þrír dómarar sem Trump skipaði, neitaði að ógilda niðurstöðu kosninganna.

Trump hefur síðustu daga og vikur einbeitt sér að því að þrýsta á kjörna fulltrúa ýmissa ríkja sem tilheyra hinum svokölluðu sveifluríkjum, að snúa niðurstöðunni með einhverjum hætti. Þær tilraunir náðu hámarki um liðna helgi þegar Trump beinlínis bað innanríkisráðherra Georgíu um að „finna“ atkvæði sem myndu nægja honum til sigurs í ríkinu. 

Forsetinn hefur auk þess þrýst á þingmenn í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni að staðfesta ekki niðurstöðu kjósenda eða ríkjanna sem mynda Bandaríkin, og hafa öll staðfest niðurstöður forsetakosninganna, á sérstökum fundi sem átti að fara fram í dag, 6. janúar. Á þeim fundi koma þingmenn beggja deilda saman á fundi sem er stýrt af varaforseta Bandaríkjanna til að ganga frá þeim formlegheitum að staðfesta niðurstöðu kjósenda og ríkja. 

Auglýsing

Vegna þrýstings Trump ákvað hluti þingmanna Repúblikanaflokksins úr báðum deildum að mótmæla staðfestingunni. Sá fjöldi var þó fjarri því sem til þurfti og í ljósi þess hóf Trump að þrýsta á Mike Pence varaforseta að beita valdi til að neita að staðfesta kjör Biden. Pence tilkynntu forsetanum í gær að hann hefði ekki vald til þess. 

Mikilvægur lýðræðisdagur varð svartur blettur í sögunni

Í dag var stór dagur í bandarískum stjórnmálum. Niðurstaða í kosningum í Georgíu, þar sem kosið var um tvö öldundardeildarsæti og yfirráð yfir þeirri deild Bandaríkjaþings, varð kunngjörð. Síðar sama dag átti að staðfesta kjör Biden, tveimur vikum áður en að hann tekur formlega við embætti forseta Bandaríkjanna.

Demókrataflokkurinn vann bæði öldungardeildarsætin sem keppt var um, og nær þar með meirihluta í henni líkt og flokkurinn hefur í fulltrúadeildinni. Þegar við bætist að fulltrúi flokksins verður næsti forseti þá er ljóst að Demókrataflokkurinn er í góðri stöðu með að koma stefnumálum sínum í framkvæmd á næstu tveimur árum hið minnsta.

Repúblikanar, margir hverjir mjög háttsettir, voru mjög skýrir við bandaríska blaðamenn þegar þeir voru spurðir hvað hefði farið úrskeiðis. Svarið var Donald Trump og framferði hans síðustu mánuði, sem hafði klofið flokkinn og ýtt hófsamari kjósendum frá honum með narsissisma sínum. Trump tók eigin tapsærindi fram fyrir hagsmuni flokksins og fyrir það greiddi flokkurinn dýru verði.

Auglýsing

Þegar þessi staða var að opinberast voru stuðningsmenn Donald Trump þegar byrjaðir að safnast saman í Washington til að mótmæla því að hann væri ekki áfram forseti. Hluti þess mikla fjölda Bandaríkjamanna sem hefur flykkt sér í kringum Trump virðist að hafa staðið með forsetanum í þeirri vegferð sem hann ákvað að ráðast í eftir að hann tapaði forsetakosningunum. Því var búist við fjölmenni. 

Líklega átti þó enginn von á því sem gerðist.

„Við munum aldrei gefast upp“

Yfirskrift mótmælanna var „Save America“. Hópurinn safnaðist saman skammt frá Hvíta húsinu. Um svipað leyti og þingmenn hófu að safnast saman í þinghúsinu í Washington til að undirbúa staðfestingu Biden sem forseta ákvað Trump að ávarpa fjöldann. Þar sagði hann meðal annars: „Við munum aldrei gefast upp. Við munum aldrei viðurkenna ósigur.“

Mannfjöldinn – margir með hinar frægu Make America Great Again derhúfur eða Trump-fána, sumir með Suðurríkjafána en sárafáir með grímur – kyrjaði til baka „við munum stöðva stuldinn“.

Skömmu eftir að fundurinn til að staðfesta kjör Biden hófst fór hluti þess hóps sem tekið hafði þátt í Trump-fundinum að færa sig í átt að þinghúsinu. Mikil reiði var á meðal stuðningsmanna Trump. 

Þar hafði Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikaflokksins í öldungadeildinni, haldið áhrifamikla ræðu þar sem hann hvatti til þess að niðurstaða forsetakosninganna yrði virt.

Þegar komið var að þinghúsinu þá óð hluti hópsins í gegnum lögreglu hússins og inn í það. Það er í fyrsta sinn sem það gerist frá því að Bretar réðust inn í þinghúsið árið 1814 og báru eld að því.

Inni í þinghúsinu hafa verið unnin skemmdarverk, skotum hefur verið hleypt af, ráðist hefur verið inn á skrifstofur þingmanna og í sal öldungadeildarinnar. Þingfundinum sem átti að staðfesta kjör Biden var frestað í flýti og þeim sem hann sátu komið í var. Einn stuðningsmaður Trump komst alla leið inn á skrifstofu Nancy Pelosi, leiðtoga Demókrataflokksins í fulltrúadeildinni, og skrifaði á möppu sem lögð var á lyklaborð tölvu hennar: „Við munum ekki gefast upp.“

Mótmælandi á skrifstofu Nancy Pelosi.
Mynd: EPA

Öngþveiti skapaðist. Hægt og rólega fór það að renna upp fyrir fólki sem fylgdist með þessum atburðum í beinni útsendingu, út um allan heim, að einhvers konar tilraun til valdaráns, eða að minnsta kosti ein alvarlegasta tilraun til að stöðva framgang hins lýðræðislega ferils, var að eiga sér stað í Bandaríkjunum.

Olíu hellt á eldinn

Á meðan að á þessu stóð var Trump í vari í Hvíta húsinu og sendi skilaboð til fylgismanna sinna á þann hátt sem hann kann best við, í gegnum Twitter. Í stað þess að draga úr spennunni ákvað Trump að hella olíu á eldinn með því að senda út tíst þar sem hann réðst gegn varaforseta sínum fyrir að hafa ekki gert eins og Trump vildi, og kæmi í veg fyrir staðfestingu Biden. Um svipað leyti var borgarstjórinn í Washington D.C. að lýsa yfir útgöngubanni vegna ástandsins og allt þjóðvarnarlið svæðisins hafði verið kallað út til að takast á við stöðuna.

Auglýsing

Eftir harða gagnrýni víða að ákvað Trump að senda út tvö tíst þar sem hann hvatti fyrst til stuðnings við lögregluna og síðan til þess að ofbeldi yrði ekki beitt. Í hvorugu tístinu bað Trump stuðningsmenn sína að yfirgefa þinghúsið. Ivanka Trump, dóttir forsetans og einn helsti ráðgjafi hans, tísti til mótmælenda og bað þá um að vera friðsama. Í því tísti kallaði hún hópinn „föðurlandsvini“. Ivanka Trump eyddi því tísti nokkrum mínútum eftir að það fór í loftið. Tistið sem Ivanka Trump birti en eyddi svo stuttu síðar.

Trump segist elska fólkið sem réðst inn í þinghúsið

Joe Biden hafði ætlað að ávarpa bandarísku þjóðina í kvöld og ræða um efnahagsmál. Atburðir dagsins breyttu tilgangi og tóni ræðunnar algjörlega. 

„Í þessum töl­uðu orðum er lýð­ræði okkar undir for­dæma­lausri árás, sem er ólík öllu öðru sem við höfum séð í nútím­an­um“ sagði Biden í ræðu sinni.

Hann skor­aði á Don­ald Trump að ávarpa þjóð­ina í beinni sjón­varps­út­send­ingu og for­dæma árás­ina á þingið og gera allt sitt til þess að reyna lægja öld­urn­ar.

Skömmu síðar setti Trump rúmlega eins mínútna langt myndband á Twitter. Þar endurtók hann þau rangindi að hann hefði unnið forsetakosningarnar 3. nóvember, að þeim hefði verið stolið frá honum og sagðist skilja að stuðningsmenn hans væru reiðir. Hann bað mótmælendur þó um að fara heim og að gera það friðsamlega. Trump sagði líka, og beindi þeim orðum til hópsins sem ráðist hefur inn í þinghúsið í Washington: „Við elskum ykk­ur.“

Donald Trump á enn eftir tvær vikur í embætti forseta Bandaríkjanna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar