Viðvaningarnir sem klekktu á vogunarsjóðunum
Áhugafjárfestum er kennt um stærstu dýfu þriggja mánaða í hlutabréfaverði vestanhafs vegna umfangsmikilla kaupa í leikja- og afþreyingarfyrirtæki. Hvernig gerðist þetta?
Spjallborðið Wall Street Bets á Reddit er nú undir smásjá bandaríska fjármálaeftirlitsins vegna áhlaups sem olli gríðarlegri hlutabréfaverðhækkun í völdum fyrirtækjum á nokkrum dögum og sumir miðlarar hafa meinað einkafjárfestum að kaupa í hlutafélög vegna „grunsamlegs athæfis“ . Vogunarsjóðir hafa tapað risastórum fjárhæðum á uppátækinu, en einnig er talið að það hafi leitt til mestu lækkunar á Wall Street í þrjá mánuði. Hvað gerðist?
20-földun hlutabréfaverðs
Í byrjun ársins kostaði einn hlutur í tölvuleikjasalanum GameStop um 18 Bandaríkjadali. Í byrjun þessarar viku var verðið búið að fjórfaldast og stóð þá í 76 Bandaríkjadölum. Í gær var verðið svo komið upp í 400 Bandaríkjadali, rúmlega 20 sinnum meira en fyrir þremur vikum síðan, en fór svo niður í 200 dali í lok dags.
Sömu sögu má segja um hlutabréfaverð í öðrum félögum, líkt og afþreyingarfyrirtækinu AMC sem þrefaldaðist í vikunni en lækkaði svo hratt í gær. Einnig hafði hlutabréfaverð farsímaframleiðendanna BlackBerry og Nokia og fataframleiðandans NA-KD farið sömu leið.
Aukinn áhugi fjárfesta þessum félögum var alls ekki í samræmi við rekstur þeirra. Bæði GameStop og AMC skiluðu tapi á rekstri sínum í síðustu ársfjórðungsuppgjörum sínum, auk þess sem engar nýjar rekstrarupplýsingar sem myndu réttlæta viðlíka hækkun félaganna hafa komið fram á síðustu dögum.
Kveikjan virðist öllu heldur koma frá spjallborðinu r/WallStreetBets, sem er umræðuvettvangur áhugafjárfesta á heimasíðunni Reddit. Fyrir tíu dögum síðan opnaði þar spjallþráður sem bar heitið „The Wreckoning,“ sem mætti íslenska sem „Dómsdagur,” þar sem meðlimir spjallborðsins hvöttu hvern annan til að kaupa í GameStop.
Ástæðan fyrir þessum mikla áhuga á fyrirtækinu virðist hafa kviknað vegna þess að stórir vogunarsjóðir á Wall Street voru búnir að veðja á að verð í félaginu myndi lækka á næstu dögum. Einn af þessum sjóðum, Citron Research, spáði skarpri lækkun hlutabréfaverðsins í GameStop og kallaði félagið „misheppnaðan verslunarkjarnasmásala“ í greiningu sem birtist í síðustu viku.
Þessir sjóðir tóku svokallaða skortstöðu í leikjasalanum, sem þýðir að þeir hafa fengið hluti í félaginu að láni sem þeir áframselja og skuldbinda sig svo til að kaupa þá aftur innan ákveðins tíma. Skortstaða skilar hagnaði þegar hlutabréfaverðið í fyrirtækinu lækkar, þar sem þeir fjárfestar sem taka slíka stöðu myndu kaupa aftur hlutina á lægra verði en þeir seldu þá.
Með auknum áhuga meðlima spjallborðsins á Gamestop hækkaði hins vegar hlutabréfaverð félagsins, þvert á vonir Citron og hinna vogunarsjóðanna. Hlutabréfin héldu svo áfram að hækka í verði, þar sem sjóðirnir voru búnir að skuldbinda sig til að kaupa bréfin aftur, samkvæmt skortstöðusamningnum sínum. Þessi staða er kölluð skortsalaþvingun (e. Short Squeeze) og skapaði sjálfnærandi hringrás sem leiddi til fordæmalausrar hækkunar á verði hlutabréfa leikjasalans á örfáum dögum, líkt og sjá má á mynd hér að ofan. Svipað hefur svo átt sér stað í öðrum félögum.
Gamestonk
Brjálæðið í kringum hlutabréfakaup í GameStop náði svo hámarki á þriðjudaginn þegar Elon Musk, framkvæmdastjóri Tesla, vakti athygli á spjallborðinu með Twitter-færslu þar sem hann hlekkjaði á vefsvæðið og skrifaði „Gamestonk!!“ við hlekkinn. Hugtakið „stonk,“ sem er afbökun á enska orðinu fyrir hlutabréf (e. stock) er víða notað á netinu sem orð fyrir fjárfestingar þeirra sem hafa ekkert vit á hlutabréfamarkaðnum.
Í umfjöllun New York Times um málið segir að milljarðamæringurinn og fjárfestirinn Chamath Palihapitiya hafi einnig hvatt til kaupa á hlutum í Gamestop á þriðjudaginn. Sama dag rúmlega tvöfaldaðist hlutabréfaverðið í leikjasalanum.
Hækkunin hefur leitt til gríðarlegs hagnaðar hjá stærstu fjárfestunum í fyrirtækinu. Ryan Cohen, stærsti einstaki eigandi GameStop með 13 prósenta eignarhlut, sá virði hlutabréfa sinna aukast úr 82 milljónum Bandaríkjadala í 3,4 milljarða dala. Það er hækkun um 3,3 milljarða dala, eða um 426 milljarða íslenskra króna.
Mesta lækkun í þrjá mánuði
Á sama tíma og ýmsir Reddit-fjárfestar högnuðust leiddi misheppnuð skortsala vogunarsjóðanna í GameStop til gríðarlegs taps hjá þeim. Samkvæmt frétt CNBC var samanlagt tap sjóðanna vegna leikjasalans metið á yfir fimm milljarða Bandaríkjadala, eða 646 milljarða íslenskra króna, það sem af er ári.
New York Times telur að þetta tap hafi breitt úr sér, þar sem sjóðirnir hafi þurft að fjármagna tapið sitt með því að selja hluti sína í ýmsum öðrum félögum á hlutabréfamarkaðnum Vestanhafs. Miðillinn segir viðamikla sölu sjóðanna til að fjármagna skortsalaþvingunina geta tengst því að hlutabréfavísitölur S&P, Nasdaq og Dow Jones féllu allar um rúmlega tvö prósent á miðvikudaginn, en það er mesta lækkun á Wall Street hlutabréfamarkaðnum í nokkra mánuði.
Fjármálaeftirlitið fylgist með og miðlarar búnir að loka
Jen Psaki, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins gaf frá sér tilkynningu á miðvikudaginn þar sem hún sagði bandarísk stjórnvöld vera að fylgjast náið með óvenjulegri hækkun hlutabréfaverðs hjá GameStop og öðrum félögum. Fjármálaeftirlit Bandaríkjanna sagðist einnig stunda „virkt eftirlit“ með breytileikanum á afleiðumarkaðnum.
Í gær lokaði svo netmiðlarinn Robinhood, sem leyfir einkafjárfestum að kaupa hlutabréf fyrir lítinn kostnað, fyrir kaup í GameStop, AMC, BlackBerry, auk annarra félaga. Miðlarinn gaf ekki miklar skýringar á lokuninni, en sagðist vilja leggja áherslu á að uppfræða fjárfesta á tímum mikilla markaðssveiflna í nýlegri bloggfærslu á síðunni sinni.
Miðlarinn TD Ameritrade sagðist einnig hafa lokað fyrir ákveðna fjármálagerninga tengdum leikjasalanum, þar sem verðþróunin væri úr takti við grunnlögmál markaðarins.
Skiptar skoðanir um athæfið
Stríð Reddit-fjárfestanna gegn vogunarsjóðunum hefur fengið bæði hrós og gagnrýni úr óvæntum áttum. Fjárfestirinn Michael Burry, sem er frægur fyrir að hafa grætt á fjármálahruninu árið 2008 með umfangsmiklum skortsölumog var umfjöllunarefni Hollywoodmyndarinnar The Big Short, gagnrýndi hlutabréfakaupin í GameStop í færslu sem hann deildi á Twitter á miðvikudaginn, en eyddi svo mínútum seinna. Í færslunni sagði hann kaupin vera „ónáttúruleg, sturluð og hættuleg“ og hvatti hann yfirvöld til að skerast í leikinn.
Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona demókrataflokksins í Bandaríkjunum, sagði það hins vegar vera kaldhæðnislegt að sjá hlutabréfabraskara sem væru vanir að veðja á efnahagslífið kvarta undan spjallborðum þar sem veðjað væri á hlutabréfamarkaðnum, í Twitter-færslu sem hún birti á miðvikudaginn. Í gær fordæmdi hún einnig ákvörðun Robinhood um að loka á allar fjárfestingar í GameStop og krafðist skýringa.