Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, sem sér um að rannsakað meint peningaþvætti, fékk alls 2.033 ábendingar í fyrra. Það er 23,5 prósent fleiri ábendingar en árið áður og 70 prósent fleiri en árið 2018.
Nær allar tilkynningarnar sem bárust í fyrra komu frá fjármálafyrirtækjum, eða 1.959 talsins. Í lok september í fyrra hafði skrifstofa fjármálagreininga lögreglu unnið 78 greiningar árið 2020 byggðar á 326 tilkynningum. Upplýsingar úr 41 greiningu höfðu verið notaðar til að hefja rannsókn eða notaðar sem viðbót inn í rannsókn sem þegar var hafin hjá lögbæru stjórnvaldi.
Það er svipaður fjöldi mála og á árunum 2018 (44) og 2019 (49).
Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um málið á Alþingi.
Innleiðíng á nýju kerfi hefur breytt miklu
Skrifstofa fjármálagreininga hér áður peningaþvættiskrifstofa og var færð frá ríkislögreglustjóra yfir til embættis héraðssaksóknara sumarið 2015. Þá starfaði einn maður á skrifstofunni. Hlutverk skrifstofunnar er að miðla greiningum til lögbærra stjórnvalda á borð við héraðssaksóknara, lögreglu og skattrannsóknarstjóra.
Í kjölfar þess að alþjóðlegu samtökin Financial Action Task Force (FATF) gáfu peningaþvættisvörnum Íslands falleinkunn í úttekt sem var birt í apríl 2018, og skilaði Íslandi á svokallaðan gráan lista samtakanna, var ráðist í miklar umbættur á starfsemi hennar og starfsfólki fjölgað til muna. Fjármunir hafa verið settir í að kaupa upplýsingakerfi til að taka á móti og halda utan um tilkynningar um peningaþvætti og eftirlit með starfsemi innan bankanna sjálfra hefur verið eflt.
Brotalamir hjá öllum bönkum 2019
Kjarninn greindi frá því í byrjun síðasta árs að á árunum 2016 og 2017 hefði Fjármálaeftirlitið birt niðurstöðu athugunar sinnar á peningaþvættisvörnum allra íslensku viðskiptabankanna. Niðurstaðan var að verklag þeirra við að kanna með áreiðanlegum hætti hvort að upplýsingar sem gefnar væru um viðskiptavini bankanna, og uppruna fjármuna þeirra, væri almennt viðunandi. Á heildina litið hafi aðgerðir allra bankanna uppfyllt þær kröfur sem lögin gerðu til þeirra.
Árið 2019 voru birtar niðurstöður nýrra athugana á stöðu peningaþvættisvarna hjá öllum bönkunum fjórum: Íslandsbanka, Landsbanka, Arion banka og Kviku. í millitíðinni hafði Ísland fengið á sig áðurnefndan áfellisdóm FATF fyrir að vera með verulega lakar varnir gegn peningaþvætti, sem leiddi til setningar nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Í þetta sinn sýndi niðurstaða athugana Fjármálaeftirlitsins, sem samkvæmt upplýsingum Kjarnans náði að minnsta kosti í einhverjum tilvikum til sömu tímabila og þær sem framkvæmdar voru fyrir nokkrum árum, fram á ýmiskonar brotalamir. Hjá öllum fjórum viðskiptabönkunum voru brotalamir í peningaþvættisvörnum þeirra, þótt þær séu mismunandi miklar. Innan þeirri allra skorti á að upplýsingar um raunverulega eigendur félaga eða fjármuna hafi almennt verið metnar með sjálfstæðum hætti. Tveir bankar eru sem stendur í ríkiseigu en tveir eru skráðir á hlutabréfamarkað.
Aðrir aðilar farnir að tilkynna miklu meira
Algjör kúvending hefur orðið á fjölda tilkynninga um mögulegt peningaþvætti frá því að málaflokkurinn fluttist yfir til embættis héraðssaksóknara 2015. Á seinni hluta þess árs bárust alls 158 ábendingar um peningaþvætti til yfirvalda, eða rúmlega 26 að meðaltali á mánuði. Í fyrra voru þær rúmlega 169 að meðaltali á mánuði.
Búist var við því að COVID-19 faraldurinn, með sínum fjölmörgu takmörkunum, myndi draga úr fjölda ábendinga á árinu 2020 en svo reyndist ekki vera. Þvert á móti hafa þær aldrei verið jafn margar.
Langstærsti hluti ábendinganna kemur frá fjármálafyrirtækjum, eða 96,3 prósent þeirra sem bárust á síðasta ári.
Ábendingar frá stjórnvöldum drógust saman úr 61 í 39 á síðasta ári en fjöldi þeirra hafði hins vegar þrefaldast milli áranna 2018 og 2019.
Þá vekur athygli að ábendingum frá öðrum tilkynningarskyldum aðilum (bílasölum, endurskoðendum, fasteignasölum, heildsölum, lögmönnum og þeim sem stunda rekstur fjársafnanna eða fjárhættuspila/happdrættis) hefur fjölgað mikið síðastliðin ár. Árið 2018 bárust einungis sex ábendingar frá slíkum aðilum. Ári síðar voru þær 31 og í fyrra voru þær 32.