Sjö fróðleiksmolar um Borgarlínu
Af hverju er aftur verið að ráðast í þetta borgarlínuverkefni? Hvernig líta næstu áfangar þess út? Og hvað vitum við um væntan kostnað? Kjarninn tók saman nokkra mola um sögu og framtíð Borgarlínu.
Í upphafi mánaðarins kom úr frumdragaskýrsla um fyrstu lotu Borgarlínu, sem beðið hafði verið eftir í nokkurn tíma. Skýrslan er rúmar 300 blaðsíður og inniheldur fyllri sýn en áður hefur fengist á verkefnið.
Búið er að teikna upp drög að leiðinni sem á að fara og útfærslu hverra einustu gatnamóta á leiðinni. Kjarninn tók saman nokkra mola um það sem framundan er og dregið er upp í skýrslunni, en einnig um það af hverju ákveðið var að koma á fót hágæða almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu.
1. Ekki bara samgöngumál heldur líka lykill að þróun byggðar
Borgarlína er samvinnuverkefni sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins. Frá sjónarhóli sveitarfélaganna sex er verkefnið ekki einungis samgönguverkefni, heldur líka byggðaþróunarverkefni, en sameiginleg sýn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er að borgarsvæðið hætti að þenjast út og byggist frekar upp inn á við næstu áratugina.
Borgarlínan á að styðja við þessa þróun og sveitarfélögin eru þegar farin að teikna upp hverfi og skipuleggja framtíðaruppbyggingu með þeim hætti að Borgarlínan (og það að fleira fólk kjósi að nota almenningssamgöngur) er í reynd orðin nauðsynleg forsenda uppbyggingarinnar.
Sú er raunin til dæmis á Kársnesinu og Hamraborg í Kópavogi og einnig í nýju íbúðahverfi sem verið er að skipuleggja á Ártúnshöfða og Elliðaárvogi í Reykjavík. Þar er ráðgert að um það bil jafn margar íbúðir verði byggðar á næsta áratug og eru í öllum Grafarvogi í dag.
2. Talin hagkvæmasta leiðin til að koma í veg fyrir að umferðin yrði að stöppu
Borgarlínan er þó líka mikilvæg fyrir umferðina í borginni til framtíðar. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sammæltust um það á síðasta áratug að það væri ekki fýsilegt að halda áfram á þeirri braut að brjóta nýtt land í stórum stíl undir byggð og byggja alla þá fjárfreku innviði fyrir einkabíla sem slík þróun kallaði á, heldur þyrfti að breyta um stefnu og reyna að gera borgarsvæðið hagkvæmara og samgöngurnar umhverfisvænni.
Samgöngusviðsmyndir fyrir höfuðborgarsvæðið voru teiknaðar upp í skýrslu frá verkfræðistofunni Mannviti sem kom út í upphafi árs 2014.
Í ljós kom að óbreytt stefna um uppbyggingu íbúða hjá sveitarfélögunum gæti skilað því að fjöldi bílferða á höfuðborgarsvæðinu myndi aukast um 377 þúsund á sólarhring á milli áranna 2010 og 2040. Einnig var áætlað að íbúar höfuðborgarsvæðisins myndu samanlagt verja 62 þúsund fleiri klukkustundum á bílunum sínum árið 2040 en þeir gerðu árið 2010. Búist var við að þeim myndi fjölga um 70 þúsund á tímabilinu.
Það var líka gerður samanburður á því hvað það gæti kostað að feta mismunandi leiðir í þessum efnum. Að byggja áfram upp borgarsvæðið með því að brjóta mikið nýtt land undir byggð og verja fé til stofnvegaframkvæmda án þess að stórbæta almenningssamgöngur var metinn langsamlega dýrasti kosturinn.
Þjóðhagslegur ábati af því að skipta um kúrs í skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu var þannig metinn á tugi milljarða króna.
Það var því ákveðið að stefna að uppbyggingu hágæða almenningssamgöngukerfis á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar talað er um „hágæða almenningssamgöngukerfi“ er átt við kerfi sem ferðast um með hraða og áreiðanleika, að mestu eða öllu leyti óháð annarri umferð. Ákveðið hefur verið að ráðast í byggingu hraðvagnakerfis í sérrými í stað þess að byggja upp léttlest á teinum, sem er dýrari kostur.
3. Stærstu vagnarnir eiga að geta borið 160 manns í einu
Ekki er enn búið að kaupa vagna Borgarlínunnar eða kynna hverrar gerðar þeir verða. Í frumdragaskýrslunni sem gefin var út í upphafi mánaðar kemur þó fram að þeir verði liðvagnar, ýmist 18 eða 24 metra langir. Lengri vagnarnir verða með tveimur liðum og eiga að geta borið allt að 160 manns.
Venjulegir strætisvagnar á borð við þá sem nýjastir eru í flota Strætó í dag eru um það bil 12 metra langir, til samanburðar. Slíkir vagnar kosta nýir um og yfir 60 milljónir. Vagnakaup eru ekki hluti af þeirri kostnaðaráætlun sem sett hefur verið fram í tengslum við borgarlínuverkefnið.
Fyrir liggur samanburður á mögulegum orkugjöfum fyrir vagnana, en endanlega ákvörðun um orkugjafa á að taka á seinni stigum verkefnisins. Ákveðið hefur verið að þeir keyri um á innlendri, vistvænni orku.
4. Margar strætóleiðir byrja að nota sérrýmið þegar það verður klárt
Borgarlínuleiðirnar verða tvær í upphafi, en þó mun sérrýmið í fyrstu lotunni, sem á að ná frá Hamraborg að miðborg Reykjavíkur og þaðan upp á Ártúnshöfða, nýtast mun fleiri strætisvagnaleiðum. Kort er dregið upp af þessu í frumdragaskýrslunni sem kynnt var í upphafi mánaðar.
5. Ekki bara verið að hanna leiðir fyrir vagna
Auk sérrýmis sem byggja á upp fyrir vagna Borgarlínu verða einnig byggðir upp hjólastígar og göngustígar.
Samhliða uppbyggingu á fyrstu lotu Borgarlínunnar er gert ráð fyrir alls 18 kílómetrum af nýjum hjólastígum og 9 kílómetrum af göngustígum í þeim götumyndum sem teiknaðar hafa verið upp í drögum.
6. Enn 40 prósent óvissa um kostnað
Kostnaður við fyrstu lotu Borgarlínu er áætlaður 24,9 milljarðar króna, samkvæmt frumdragaskýrslunni. Inni í þeirri tölu er kostnaður við gerð sérrýmisins, hjóla- og göngustíga, brúarmannvirkja yfir Fossvog og Elliðaárvog og borgarlínustöðvanna á leiðinni.
Inni í þessari tölu er hins vegar ekki kostnaður við aðrar framkvæmdir eins og vegstokka á Sæbraut og Miklubraut sem þó tengjast borgarlínuverkefninu náið.
Stokkarnir tveir eru rétt eins og aðrar stofnvegaframkvæmdir og borgarlínuverkefnið hluti af alls 120 milljarða samgöngufjárfestingum sem ráðast á í á höfuðborgarsvæðinu á næsta rúma áratug, samkvæmt samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna.
Á þessu stigi hönnunar fyrstu lotu Borgarlínu er enn gefin upp 40 prósent óvissa um heildarkostnaðinn. Hann á að skýrast frekar á næstu hönnunarstigum, en þeir sem að verkefninu standa segja eðlilegt að á frumdragastigi sé óvissa um kostnað 40 prósent.
Óvissan um kostnað er sögð einna mest á þeim kafla sem liggur frá Ártúnshöfða og í gegnum nýtt Vogahverfi, en þar liggur útfærslan og samspilið við Sæbrautarstokk ekki fyllilega fyrir.
7. Fimm lotur í viðbót á áætlun en þessi fyrsta er lengst
Fyrsta framkvæmdalota Borgarlínu hefur nú verið teiknuð upp og kynnt, en það eru fyrstu rúmu 14 kílómetrarnir af sérrýmiskerfinu. Þegar er búið að draga upp fimm framkvæmdalotur til viðbótar innan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem nær fram til ársins 2034 og eru þær lotur í heildina um 29,5 kílómetrar að lengd.
Næstu framkvæmdalotur eru:
- Lota 2 Hamraborg-Lindir, í gegnum Smárann um 4 km
- Lota 3 Mjódd-BSÍ, um Voga og Miklubraut um 4 km
- Lota 4 Fjörður-Miklabraut, um Hamraborg og Kringlumýrarbraut um 8 km
- Lota 5 Ártúnshöfði-Spöng um 5 km
- Lota 6 Ártúnshöfði-Háholt, um Keldur og Blikastaðaland, um 8,5 km
Ekki er þá öllu lokið, samkvæmt því sem fram kemur í frumdragaskýrslunni, því þrátt fyrir að samgöngusáttmáli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu renni út árið 2034 hafa sveitarfélögin markað sér stefnu um enn meiri Borgarlínu.
- Eiðistorg – HÍ um 2,5 km
- Hlemmur – Laugarnes um 2,5 km
- Mjódd – Fell um 2,5 km
- Lindir – Kórar um 4,0 km
- Fjörður – Vellir um 3,0 km
Lestu meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný