Upplýsingafulltrúar ráðuneyta og undirstofnana kosta hátt í 400 milljónir króna á ári
Launakostnaður upplýsingafulltrúa ráðuneyta hefur aukist um 40 prósent á þessu kjörtímabili. Fyrir utan þá eru margar undirstofnarnir ráðuneyta með starfsmenn sem sinna upplýsinga- og kynningarmálum.
Árlegur launakostnaður vegna upplýsingafulltrúa sem störfuðu í ráðuneytum landsins var um 140 milljónir króna í fyrra og kostnaður vegna slíkra sem störfuðu hjá undirstofnunum ráðuneyta var 246 milljónir króna. Það þýðir að heildarkostnaður vegna upplýsingafulltrúa sem starfa hjá ráðuneytum og undirstofnunum þess var um 386 milljónir króna í fyrra.
Þetta má lesa úr svörum sem ráðherrar allra málaflokka hafa tekið saman vegna fyrirspurna Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins, um málið. Kostnaðurinn hefur aukist umtalsvert það sem af er kjörtímabili, en hann var um 100 milljónir króna árið 2017. Það þýðir að kostnaðurinn á síðasta ári var um 40 prósent meiri en hann var á því ári, þegar kosið svar síðast á Íslandi.
Mismunandi var hvort að ráðuneytin gáfu upp kostnað vegna ársins 2020 að öllu leyti eða hvort þau gáfu hann einungis upp að hluta. Í einhverjum tilvikum voru birtar tölur fyrir árið 2019. Í þeim tilfellum þar sem það vantaði kostnað vegna síðasta árs þá var reiknuð hófleg aukning á kostnað, í samræmi við það sem tíðkaðist hjá öðrum ráðuneytum.
Kostnaðurinn í fyrra var mestur hjá forsætisráðuneytinu, 19,9 milljónir króna, og félags- og barnamálaráðuneytinu, eða 15,2 milljónir króna. Ástæða þess að talan var svona há hjá forsætisráðuneytinu er sú að hún nær yfir launagreiðslur vegna starfa upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar og vegna greiddra biðlauna sem féllu til vegna starfsloka upplýsingafulltrúa hennar á tímabilinu. Hjá félags- og barnamálaráðuneytinu voru bæði upplýsingafulltrúi og starfsmaður sem sinnti kynningarmálum og vefstjórn starfandi hjá ráðuneytinu á síðasta ári.
Mikið kostnaður hjá undirstofnunum
Til viðbótar við þetta spurði Þorsteinn um upplýsingafulltrúa sem störfuðu hjá stofnunum sem heyrðu undir viðkomandi ráðuneyti. Samanlagður kostnaður við þá er áætlaður um 246 milljónir króna á ári.
Vert er að taka fram að misjafn var hvernig ráðuneyti svöruðu. Sum skiluðu einungis inn nýjustu tölum fyrir árið 2019 og önnur gáfu ekki tæmandi upplýsingar um nákvæman launakostnað. Í svari mennta- og menningarmálaráðuneytisins sagði til að mynda að kostnaður vegna kynningarmála væri „að meðaltali 7 til 10 millj. kr. á ári hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og Menntamálastofnun.“
Í þeim tilvikum þar sem kostnað vantaði vegna ársins 2020 var reiknuð hófleg hækkun, í takti við aðra hækkun launa hjá stofnunum hins opinbera, á laun ársins 2019 til að finna út þá tölu. Í þeim tveimur tilvikum þar sem gefið var upp bil í kostnaði var meðaltal þess bils haft til hliðsjónar við útreikning á kostnaði hins opinbera. Útreikningar Kjarnans sýna að kostnaður vegna upplýsingafulltrúa og þeirra sem starfa að kynningarmálum hjá undirstofnunum ráðuneyta hefur aukist um 22 prósent frá árinu 2017.
Mestur var kostnaðurinn vegna upplýsingafulltrúa hjá Seðlabanka Íslands, þar sem hann var tæplega 31 milljón króna í fyrra. Þar starfa tveir upplýsingafulltrúar eftir sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins í byrjun síðasta árs. Næst mestur var kostnaðurinn hjá Landspítalanum og Tryggingastofnun, rétt yfir 19 milljónir króna á ári.
Aðstoðarmenn kosta á þriðja hundrað milljónir króna á ári
Til viðbótar við þennan kostnað þá má ríkisstjórn ráða sér allt að 25 aðstoðarmenn. Hver ráðherra má ráða sér tvo og ríkisstjórnin sjálf svo þrjá ofan á það. Einungis er gert ráð fyrir kostnaði vegna eins þeirra aðstoðarmanna, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, í ofangreindum tölum.
Ef horft er á kostnað vegna aðstoðarmanna ráðherra og ríkisstjórnarinnar, að frádregnum kostnaði við upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, var hann um 250 milljónir króna á árinu 2019.
Því má ætla að árlegur kostnaður við upplýsingafulltrúa ráðuneyta og stofnana og aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar sé allt í allt um 636 milljónir króna á ári.
Margir hjá Reykjavíkurborg líka
Næst stærsta stjórnvald landsins, Reykjavíkurborg, heldur einnig úti miklum fjölda upplýsingafulltrúa. Kjarninn greindi frá því í desember í fyrra að alls væru upplýsingafulltrúar í níu stöðugildum hjá Reykjavíkurborg, þar af einn í 80 prósent starfshlutfalli. Þá stóð yfir ferli til að ráða til viðbótar teymisstjóra samskiptateymis borgarinnar, sem tilkynnt var um hver yrði í byrjun þessa mánaðar.
Í svari borgarinnar við fyrirspurn Kjarnans um málið sagði að sex hafi verið í upplýsingadeild/samskiptateymi sem starfi þvert á fagsviðin og tveir hjá umhverfis- og skipulagssvæði, þar af annar í 80 prósent starfi. Þá hafi einn nýlega ráðinn í 100 prósent starf hjá velferðarsviði.
Árlegur launakostnaður við þessi níu stöðugildi var um 102 milljónir. Til viðbótar við það bætist launakostnaður vegna nýráðins teymisstjóra.