Af löstum og dyggðum ríkisstjórnarsamstarfsins – Sitt sýnist hverjum
Í lok hvers þings ræða þingmenn afrek og ófarir stjórnmálanna og var í gær engin undantekning þar á. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar voru ekki á eitt sáttir um ágæti samstarfs Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eins og gefur að skilja.
Eldhúsdagsumræður eru almennar stjórnmálaumræður sem fara fram á Alþingi í lok hvers þings og oft verður samfélagsumræðan fjörug í kjölfar þeirra.
Orðið eldhúsdagur hefur fleiri en eina merkingu, samkvæmt upplýsingum á Vísindavefnum. Það getur í fyrsta lagi merkt „annadagur í eldhúsi“ og er þá átt við að mikið sé um að vera, til dæmis í sláturtíðinni þegar unnið er við að sauma vambir, brytja mör og svo framvegis. Í öðru lagi var áður fyrr talað um að halda sér eldhúsdag um að gera sér glaðan dag, til dæmis þegar sauð var slátrað og menn fengu nýtt kjöt til tilbreytingar, en sú notkun heyrist mjög sjaldan núna. Í þriðja lagi var talað um að taka sér eða gera sér eldhúsdag og var sá dagur þá nýttur til þess að gera hreint í eldhúsinu en einnig annars staðar í vistarverum, ganga frá ýmsu sem dregist hafði að koma fyrir.
Eldhúsdagsumræðurnar fóru fram í gær með heldur öðru sniði en venjulega. Umferðirnar voru tvær í stað þriggja svo tveir þingmenn úr hverjum flokki héldu ræður að þessu sinni. Kjarninn fer yfir það helsta sem bar á góma.
Rauðu fingurnir henta best
Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar reið á vaðið og sagði meðal annars að þau sem störfuðu á vettvangi stjórnmálanna mættu aldrei missa sjónar á litrófi mannlífsins og tilgangi starfa þeirra við að rækta þann jarðveg sem mannlífið vex upp úr.
„Það er talað um að hafa græna fingur þegar rækta á plöntur, en ég er ekki frá því að það séu rauðu fingurnir sem henti best þegar rækta á gróskufullt mannlífið því að þeir taka lit sinn frá hjartanu. Þar finna þeir umhyggju og samkennd. Það þarf að hafa hjarta í stjórnmálum, virkt og opið hjarta til að gera það besta mögulega fyrir íbúa þessa lands og jarðarinnar allrar. Og þrátt fyrir átökin sem birtast almenningi héðan úr þingsal þá bera störf okkar í sameiningu oft árangur. Þá er gott að það var til einhvers að vinna hérna langt fram eftir kvöldum við að reyna að leysa úr verkefnum líðandi stundar,“ sagði hún meðal annars.
Hún benti á að því miður stæðu Íslendingar frammi fyrir því að innviðir hér á landi væru orðnir „býsna lakir“. Hún telur að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, sem gegnt hefur því embætti nánast án hlés frá árinu 2013, beri mikla ábyrgð á því hvernig fjármunum skattgreiðenda hafi verið ráðstafað á þeim tæpu tíu árum og hverjir það séu sem bera þyngstu byrðarnar.
Helga Vala sagði að það væri ekki náttúrulögmál að neyðarástand ríkti í heilbrigðiskerfinu. „Það er pólitísk ákvörðun að setja árum saman umtalsvert lægra hlutfall landsframleiðslu í heilbrigðiskerfið en frændríki okkar á Norðurlöndunum gera. En það að halda því fram að það bitni ekki á nauðsynlegri þjónustu við almenning ber vott um afskaplega lítinn skilning á verkefninu. Við megum heldur ekki gleyma því að sökum fæðar og smæðar þessarar þjóðar þá ætti að kosta hlutfallslega meira að reka þjónustuna hér en á Norðurlöndunum. Fjármálaáætlun næstu fimm ára sýnir að ríkisstjórnin hefur ekki í hyggju að sækja fjármagn þangað sem nóg er af því. Ofurarðgreiðslur stórfyrirtækja verða áfram ósnertar á meðan grunnþjónustan skerðist frá degi til dags.
Breiðu bökin gildna á sama tíma og mönnunarvandi, sem rekja má til vanfjármögnunar og skilningsleysis stjórnvalda á verkefninu, eykst. Framboð heilbrigðisþjónustu er ónógt, biðlistar of langir, verkefnin verða fyrir vikið þyngri og neyðin meiri. Þetta ástand snertir hvert einasta heimili á landinu og hverfur ekkert á meðan við bregðumst ekki við með verulega auknu fjárframlagi, ekki einu sinni heldur til næstu ára. Þegar ríkissjóður er svo í vanda eftir heimsfaraldur þá þurfum við að hafa ríkisstjórn sem þorir að sækja fé þangað sem það er að finna.“
Í lok ræðu sinnar sagði hún að þingmenn þyrftu átak í að auka traust á stjórnmálum. „Það hefur nefnilega ítrekað beðið hnekki eftir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hóf sinn leiðangur og það breytist ekki nema með því að fólk sem fer með völd viðurkenni og skilji eðli þess hlutverks sem það gegnir.“
Íslendingar geta sannarlega þakkað sínum sæla
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins var önnur í röðinni og sagði meðal annars í sinni ræðu að hún hefði heyrt sagt um daginn að „það væri óvænt og ekki gleðilegt að upplifa tíma þar sem orð á borð við heimsfaraldur, hungursneyð og heimsstyrjöld væru farin að skjóta upp kollinum í fréttum með reglulegu millibili“.
„Engu að síður er þetta reyndin. Eftir rúmlega tvö ár þar sem heimsfaraldur kórónuveirunnar drottnaði nánast yfir heimsbyggðinni tók við innrás kjarnorkuvædds stórveldis inn í fullvalda ríki í Evrópu. Gráglettni örlaganna hagaði því þannig að innrásin í Úkraínu átti sér stað daginn eftir að heilbrigðisráðherra tilkynnti um afnám allra takmarkana á Íslandi vegna faraldursins og daginn eftir sprengjuregn Rússa hófst í Úkraínu féllu takmarkanirnar hér úr gildi. Afleiðingar af þessum tveimur skaðvöldum birtast svo í þeirri hryllilegu staðreynd að hundruð milljóna manna, kvenna og barna í heiminum búa nú við þann raunveruleika að næringarskortur og hungur er yfirvofandi,“ sagði ráðherrann.
Að hennar mati eru Íslendingar í þessu samhengi að öllu leyti heppnir. „Eins og sakir standa er það rétt og satt sem segir í ljóðinu og við erum svo þakklát fyrir að við erum sannarlega „langt frá heimsins vígaslóð“, þótt hér á Alþingi sé ekki beinlínis hægt að segja að við „lifum sæl við ást og ljóð“. Hér tökumst við á og þau átök eiga sér jafnan stað hvort sem tilefnið er stórt eða lítið.
Hér ríkir oft dægurþras og rígur og það er sú mynd sem gjarnan blasir við og það er gjarnan svo að miklu auðveldara er að fanga athygli með neikvæðni og sundrungu heldur en með uppbyggilegri og málefnalegri umræðu þar sem gagnkvæm virðing ræður för þrátt fyrir ólík sjónarmið. Vissulega er það þreytt tugga að stjórnmálamenn, einkum þeir sem sitja í meiri hluta, kvarti yfir smámunasemi og þrasgirni stjórnarandstöðunnar og ekki ætla ég að standa hér og þykjast vera alsaklaus af slíku. En við Íslendingar getum þó sannarlega þakkað okkar sæla fyrir að deiluefnin og viðfangsefnin eru oft þess eðlis að þau geta nú trauðla flokkast sem dauðans alvara í hinu stóra samhengi hlutanna,“ sagði hún meðal annars.
Ríkisstjórin vill helst ekki vita af tilvist fátæks fólks, öryrkja, fatlaðra og aldraðs fólks
Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður Flokks fólksins lét sig ekki vanta og sagði í sinni ræðu að nýja ríkisstjórnin væri nauðalík þeirri sem fór frá. „Þessi ríkisstjórn er fulltrúi þeirra sem hafa nóg á milli handanna og vilja helst ekki vita af tilvist fátæks fólks, öryrkja, fatlaðra og aldraðs fólks. Líkt og svo oft áður lofar ríkisstjórnin heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins, betrumbótum í heilbrigðiskerfinu og átaki í húsnæðismálum. En það dugar ekki að lofa öllu fögru. Verkin tala. Vægast sagt.“
Þingmaðurinn sagði jafnframt að heilbrigðiskerfið stæði í dag á brauðfótum. „Mannekla er viðvarandi vandamál og fyrir vikið er meira álag á hverjum og einum starfsmanni. Vaktir eru langar og streitan mikil. Starfsmenn bráðamóttökunnar hafa ítrekað kallað eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við því neyðarástandi sem þar ríkir en lítið er um svör. Ég velti því fyrir mér hvort það væri svo mikil mannekla í heilbrigðiskerfinu ef heilbrigðisstarfsmenn fengju sanngjörn kjör og eðlilegan vinnutíma. Biðlistavandinn er ekki nýr af nálinni en ríkisstjórnin hefur látið hann viðgangast ár eftir ár og jafnvel áratugi.
Í dag eru um 1.000 börn á biðlista eftir nauðsynlegri þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Verst af þessu öllu saman er að börn þurfa að bíða eftir lífsnauðsynlegri þjónustu. Eitt barn á bið er einu barni of mikið. 10 prósent ungmenna á Íslandi hafa íhugað að gera tilraun til sjálfsvígs. Það segir okkur að það er eitthvað rosalega mikið að í þessu meingallaða kerfi okkar. Börn eiga aldrei að þurfa að bíða eftir aðgerðum eða bíða eftir réttlæti. Það má ekki fara í pólitískar skotgrafir þegar hagsmunir barna eru undir. Allt of mörg börn búa við fátækt á Íslandi í dag og það er okkur öllum hér inni til háborinnar skammar,“ sagði Guðmundur Ingi.
Þá sagðist hann vera miður sín yfir því að Íslendingar sem búa í auðugu og gjöfulu landi skyldu leyfa sér að láta þúsundir barna lifa í fátækt og því miður einnig í sárafátækt. „Ég segi fyrir mitt leyti að það er grafalvarlegt mál ef einhver getur ekki leitað sér læknishjálpar vegna fátæktar eða leyst út lyfin sín. Hækkun barnabóta og hækkun skerðingarmarka þeirra dugar engan veginn til. Á barnafólki skella hækkanir á matvælum og hækkanir ýmsum öðrum gjöldum úr öllum áttum, til dæmis fasteignagjöldum, bifreiðagjöldum, sóknargjöldum, útvarpsgjöldum, sorpeyðingargjöldum og fleiri gjöldum og sköttum. Þetta eru gjöld sem ekki bara éta upp þann litla ávinning sem boðaður er í aðgerðum ríkisstjórnarinnar heldur valda þau því að þeir verst stöddu verða að herða fastar sultarólina.“
Hann spurði í lokin hvað væri að hjá ríkisstjórn eftir ríkisstjórn sem nærði þá auðugu á kostnað þeirra sem verst hafa það hér á landi. „Fólkið sem á ekki til hnífs og skeiðar býr einnig á leigumarkaði við óheyrilega háan leigukostnað með tilheyrandi óöryggi. Það er verið að viðhalda fátæktarvíti fyrir þá sem verst hafa það hér á landi. Þeir verst settu í okkar samfélagi líða nauð á meðan þeir ríku fá meiri og meiri auð – við eigum ekki að sætta okkur við slíkt.“
Með samvinnu, samtali og virðingu fyrir ólíkum skoðunum er hægt að komast í gegnum verkefnin saman
Stefán Vagn Stefánsson þingmaður Framsóknarflokksins hóf sína ræðu á því að segja að hann langaði að tala um „að halda áfram“.
„Síðastliðin fjögur og hálft ár hefur miklu verið áorkað þrátt fyrir mikinn öldugang. Ríkisstjórninni hefur tekist að rétta skútuna af og sigla henni í rétta átt þrátt fyrir ólgusjó í formi kórónuveirufaraldursins og nú innrásar Rússa í Úkraínu. En við ætlum að halda áfram. Mörg þjóðþrifamál bíða afgreiðslu okkar og það er okkar á Alþingi að vakta þau, breyta og bæta og að lokum afgreiða þau með besta mögulega hætti. Með samtali og samvinnu að leiðarljósi vinnum við best í þágu samfélagsins alls.“
Hann sagði jafnframt að á landsbyggðinni væru landbúnaður og sjávarútvegur burðarstoðir í atvinnulífi og grunnstoðir fæðuöryggis Íslands. Mikilvægt væri að standa vörð um þessar starfsgreinar, ekki aðeins fyrir þá sem þar vinna heldur einnig í þágu neytenda og fæðuöryggis þjóðarinnar.
„Fæðuöryggi er þjóðaröryggismál og við eigum að horfa þannig á málaflokkinn. Í landbúnaði berjast margir í bökkum við að finna rekstrargrundvöll í núverandi stöðu og ekki hefur stríðið í Úkraínu bætt aðstæður með hækkandi kostnaði á aðföngum. Við megum engan tíma missa við að finna lausnir á þeirri stöðu sem bændur lifa við í dag. Vinna þarf með landbúnaði og sjávarútvegi í sátt í leit að lausnum. Mikilvægi sáttar og samvinnu er óumdeilt og þau sjónarmið verða að vera leiðarljós í nýrri vinnu samráðsnefndar um sjávarútvegsstefnu sem matvælaráðherra hefur nú skipað.
Verkefnin fram undan eru misjöfn að stærð og burðum. Með samvinnu, samtali og virðingu fyrir ólíkum skoðunum munum við komast í gegnum þau saman. Það er verkefnið,“ sagði hann að lokum.
Bandalag um það að viðhalda jafnvægi á „bankabókum lítils minnihluta þjóðarinnar“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata hóf sína ræðu á því að rifja upp að haustið 2017 hefði andi breytinga verið í loftinu á Íslandi.
„Fjórar kjarkaðar konur höfðu hátt og sviptu hulunni af leynimakki forsætisráðherrans Bjarna Benediktssonar utan um aðkomu föður síns að uppreist æru barnaníðings. Ríkisstjórnin sprakk og #metoo bylgjan hófst af fullum krafti hér á Fróni. Boðað var til kosninga og virtist flestum Vinstrihreyfingin – grænt framboð vera með pálmann í höndunum. Þau tefldu fram formanninum Katrínu Jakobsdóttur undir slagorðinu „Gerum betur“.
Hér var kominn leiðtogi sem myndi stunda ný og annars konar stjórnmál en hið gamalkunna stef leyndarhyggju og klíkuskapar sem ráðið hafði ríkjum. Hér var kominn leiðtogi sem leit á Sjálfstæðisflokkinn sem höfuðandstæðing sinn í íslenskri pólitík. Hefði væntanlegur kjósandi VG ratað í tímavél á þessum tíma og skroppið fimm ár fram á við hefði viðkomandi átt erfitt með að trúa eigin augum er hann sæi hverju atkvæði hans hefði skilað,“ sagði hún.
Þingmaðurinn sagði að það væri hins vegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að þakka að fjármagnseigendur hefðu aldrei haft það betra. Á sama tíma neitaði rétt um helmingur landsmanna og rúmlega 80 prósent fatlaðs fólks sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna þess að þau hefðu ekki efni á henni. Nær 7.000 heimili lifðu við skort á efnislegum gæðum, og barnafjölskyldum í þeirri stöðu færi fjölgandi. Fjórðungur launafólks ætti erfitt með að ná endum saman, meira en þriðjungur innflytjenda, meira en helmingur atvinnulausra og einstæðra foreldra og átta af hverjum tíu öryrkjum ættu erfitt með að ná endum saman.
„Þökk sé hagstjórnarmistökum ríkisstjórnarinnar hefur stjarnfræðileg hækkun á húsnæðisverði gert það að verkum að sífellt stærri hópur mun eiga í erfiðleikum með að ná endum saman, og æ færri hafa ráð á að kaupa sína fyrstu íbúð. Verðbólga hefur ekki verið hærri síðan 2010 og leiguverð fer sífellt hækkandi. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru að greiða út 20.000 kr. einskiptisbarnabótaauka og hækka örorku og húsaleigubætur lítillega.
Hver hefði trúað þessu fyrir fimm árum síðan? Hver hefði trúað því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur væri í þessum töluðu orðum að vinna að því að slá Íslandsmet í fjöldabrottvísunum flóttafólks? Að á tímum þegar fjöldi fólks á flótta hefur aldrei verið meiri sé hún að vinna hörðum höndum að því að koma frumvarpi í gegnum þingið sem hefur það helsta hlutverk að auðvelda stjórnvöldum að vísa flóttafólki á götuna, hvort sem það er í Grikklandi eða hér heima? Hver hefði trúað því að neyðarástand ríkti í heilbrigðiskerfinu?“ spurði hún.
Þórhildur Sunna spurði jafnframt í lok ræðu sinnar hvar samhljómurinn væri. „Hvar liggur jafnvægið? Það er í rauninni ekkert ýkja erfitt að sitja á þingi og breyta rétt því við vitum vel hvað almenningur vill. En í stað þess að berjast fyrir breytingum sem yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill gera á samfélaginu sínu hefur Vinstrihreyfingin – grænt framboð myndað bandalag um það að viðhalda jafnvægi á bankabókum lítils minnihluta þjóðarinnar sem inniheldur ríkasta og voldugasta fólk landsins. Og hver hefði trúað því?“
VG sú stjórnmálahreyfing sem hefur kjark til að takast á við áskoranir
Orri Páll Jóhannsson þingmaður Vinstri grænna steig í pontu á eftir Þórhildi Sunnu og sagði meðal annars að að baki væru fjögur viðburðarík ár og hefði ríkisstjórnarflokkarnir þrír sýnt að sjónarmið ólíkra flokka, sem spanna hið pólitíska litróf, gætu sameinast á breiðum grundvelli landi og þjóð til heilla. „Og það sem sameinar okkur öll hér á Alþingi er að við höfum vilja til þess að vinna að betra samfélagi. Grunnstoðir Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs; umhverfisvernd, kvenfrelsi, alþjóðleg friðarhyggja og félagslegt réttlæti, eru góðar stoðir til að byggja framtíðina á. Þessar stoðir eiga alls staðar erindi.“
Hann sagði enn fremur að þrátt fyrir áskoranir væri fullt tilefni til þess að líta björtum augum fram á veginn. „Undirstöðugreinar og atvinnuhorfur hérlendis eru með besta móti og við sjáum að ferðamenn eru komnir á kreik sem aldrei fyrr, ólmir að skoða fjölda nýfriðlýstra svæða um land allt. Við búum nefnilega svo vel að eiga ríflega 40 prósent af þeim ósnortnu víðernum sem eftir eru í Evrópu. Það er auður sem við verðum að gæta vel að, fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir.“
Þá telur hann að þingmönnum beri ærin skylda til þess að standa með fólki í viðkvæmri stöðu. „Það að vera friðarsinni felur síst í sér afskiptaleysi, en því er oft kastað fram sem höggstað á okkur sem aðhyllumst slíka stefnu. Sem friðarsinnum gefst okkur tækifæri til þess að berjast fyrir hugsjónum og friði með samúð og virðingu alls fólks að leiðarljósi. Ég stend fastar á því en fótunum að við vinnum ekki stríð með stríði.“
Taldi hann upp þau mál sem Vinstri græn hefðu náð árangri með og sem væru á dagskrá þingsins sem nú er að ljúka.
Hann sagði að lokum að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefði sannað sig að vera sú stjórnmálahreyfing sem hefði kjark til að takast á við áskoranir og verkefni, stjórnmálahreyfing sem hikaði ekki við samstarf við aðra, sem gæti verið í forystu og gæti vísað veginn.
„Við eigum að treysta íslensku þjóðinni“
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar var með þeim síðustu sem töluðu í eldhúsdagsumræðunum. Hún sagði meðal annars að stjórnmálin í öðrum löndum öxluðu sína ábyrgð og sinntu grundvallarhlutverki sínu alls.
„Stjórnmálaleiðtogar og flokkar líta á það sem hlutverk sitt að leiða samtal um viðbrögð við stöðunni óháð því hver afstaða þeirra er. Þessi umræða hefur ekki farið fram vegna þess að allir séu sammála, en enginn flokkur segir að þessi mál séu ekki á dagskrá, eins og við heyrum því miður hér í þessum sal. Opið og beinskeytt samtal stjórnmálanna um hagsmunamat hefur farið fram og fyrir vikið er stefna þessara ríkja skýrari.
Það heyrist ekki heldur að þjóðaratkvæðagreiðslur séu tóm vandræði, eins og hér hefur verið sagt. Og þá spyr ég: Hvað er svona hættulegt við umræðu um það hvernig við verjum hagsmuni íslensku þjóðarinnar best? Svarið er einfalt: Það er auðvitað ekkert hættulegt við það samtal, það er andstæðan við umræðuna sem er hættuleg; þögnin. Hið lýðræðislega samtal er hinn rétti vettvangur til að rökræða og jafnvel takast harkalega á. Það þroskar umræðuna og skerpir stefnu þjóðarinnar,“ sagði hún.
Þingmaðurinn benti á að á friðartímum reyndi ekki svo mjög á það að ríkisstjórn Íslands væri klofin í utanríkis- og varnarmálum. „Núna er þetta hins vegar augljós veikleiki. Á tímum sem þessum leitar sú spurning á okkur hvort hagsmunum herlausrar smáþjóðar sé betur borgið í virkara samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir. Eftir síðari heimsstyrjöld gerðu lýðræðisþjóðirnar sér grein fyrir því að friðurinn yrðu ekki bara tryggður með hervörnum, heldur einmitt með náinni samvinnu ríkja sem sæju hag sinn í auknu samstarfi.
Þess vegna er Evrópuhugsjónin svo falleg. Evrópusambandið er í grunninn friðarsamband og nágrannaríki okkar eru ekki í neinum vafa um það eða mikilvægi þess. Það eru ekki heldur nágrannaríki Rússlands, sem nú sækjast eftir aðild. Staðan núna kennir okkur hver þörf lýðræðisþjóða er fyrir samvinnu í þágu öryggis en ekki síður fyrir grunngildin, fullveldið, frelsið, lýðræðið og mannréttindin, viðskiptin og efnahaginn. Við eigum allt undir því að alþjóðakerfið og alþjóðalög séu virt. Við erum sterkari saman sem heild. Þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta hagsmunamat sem þjóðin stendur frammi fyrir og umræðan í aðdraganda hennar er frábær leið til að þroska samtalið um hagsmuni Íslands. Það er ekki bara eðlilegt heldur nauðsynlegt að þjóðin fái að taka þessa ákvörðun. Við eigum að treysta íslensku þjóðinni,“ sagði hún að lokum.
„Með þessari stjórn fengum við köttinn í sekknum“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins steig í pontu fyrir flokkinn sinn og í ræðu sinni sagði hann að við eldhúsdagsumræður væri venjan að meta afrakstur ríkisstjórnar. „Nú hefur þessi ríkisstjórn setið í nærri fimm ár ef með eru talin árin tvö þegar ríkisstjórnin fól sérfræðingaveldi stjórn landsins. Það segir sína sögu að það voru bestu árin á ferli þessarar ríkisstjórnar. En nú hefur hún misst COVID-skjólið og tímabært að snúa sér aftur að stjórnmálum en það er reyndar ekki sérsvið þessarar ríkisstjórnar sem var mynduð úr einum vinstri flokki, einum fyrrverandi hægri flokki og einum tækifærissinnaflokki. Lausnin átti að vera sú að starfa sem kerfisstjórn en þótt kerfið hafi að mestu fengið að ráða hafa stjórnarflokkarnir brallað ýmislegt.“
Taldi hann í framhaldinu upp 30 dæmi um „afrakstur ríkisstjórnarinnar“. Hann sagði meðal annars að ríkisstjórnin hefði tekið U-beygju í bankamálum. „Hún skilaði einum banka til vogunarsjóða og einkavæddi annan án þess að nota einstakt tækifæri til að endurskipuleggja fjármálakerfið í þágu almennings og fyrirtækja. Allir viðkomandi ráðherrar vöruðu sjálfan sig við eða enginn þeirra gerði það. Ráðherrarnir eru ósammála um það.“
Sigmundur Davíð sagði jafnframt að umhverfisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, talaði nú fyrir umhverfisstefnu sem hefði þótt of öfgakennd í Vinstri grænum fyrir nokkrum árum og að ríkisstjórnin hefði lagt til bann við vinnslu á olíu og gasi í íslenskri lögsögu og rannsóknum á sama tíma og mikilvægi þess að Vesturlönd yrðu sjálfum sér næg um orku hefði aldrei verið meira.
Ríkisstjórnin hefði enn fremur ákveðið að banna „sjálfsagðar aðgerðir“ sem hefðu bætt lífsgæði barna fyrir lífstíð áratugum saman. Það væri bann við ákveðnum framförum í læknavísindum. Hann benti á að rammaáætlun sæti föst og hefði verið breytt í „verkfæri til að koma í veg fyrir meira og minna allar umhverfisvænar framkvæmdir“.
Hann sagði að báknið stækkaði og stækkaði og hefði aldrei verið stærra.„ Eftir höfðinu dansa limirnir því forsætisráðuneytið hefur þanist út í tíð þessarar ríkisstjórnar, meira en það gerði áður á nokkrum áratugum samanlagt“. Öll met hefðu verið slegin í fjölgun pólitískra aðstoðarmanna ráðherra og ætlaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra að taka á sjávarútvegsmálum en gera það með því að skipa 46 manns í nefndir og ráð.
„Ítrekað er ráðist í lagasetningu um kynrænt sjálfdæmi án þess að líta á þætti eins og réttindi og öryggi kvenna, áhrif á kvennaíþróttir eða annað sem mikið er rætt í öðrum löndum í tengslum við réttindaaukningu,“ sagði hann og bætti því við að upp úr þurru hefði ríkisstjórnin ákveðið að setja heimsmet í hversu lengi mætti eyða fóstri. „Forsætisráðherra sagði svo ítrekað að ganga ætti miklu lengra og leyfa fóstureyðingar fram að fæðingu barns. Hinir flokkarnir létu sig hafa það,“ var meðal punktanna sem formaður Miðflokksins taldi upp.
Síðasta athugasemdin hjá Sigmundi Davíð var að ríkisstjórnin hefði ítrekað slegið Norðurlandamet í hælisumsóknum þrátt fyrir að Ísland væri fjarlægasti áfangastaðurinn. „Það bitnar á getu okkar til að hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálp að halda, meðal annars Úkraínumönnum nú eins og hæstvirtur dómsmálaráðherra viðurkenndi.“
„Hver veit hvaða önnur afrek þessi ríkisstjórn mun ná að klára á þeim stutta tíma sem eftir er af þinginu, svo ekki sé minnst á næstu ár, en með þessari stjórn fengum við köttinn í sekknum. Því má segja um hana eins og sungið var um jólaköttinn: Út með þessa stjórn, hún hefur unnið heljarmikið tjón,“ sagði Sigmundur Davíð í lok ræðu sinnar.