Íslendingar drekka árlega minna magn af áfengi en flestar aðrar Evrópuþjóðir. Óhófleg drykkja er engu að síður algengari á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum. Þetta sýna gögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, um áfengisneyslu og áfengishegðun þjóða heimsins árið 2010.
Aðeins níu Evrópuþjóðir drekka minna magn af áfengi en Íslendingar, af þeim 46 ríkjum sem hér eru borin saman. Landsmenn drekka um helminginn af því magni sem Hvít-Rússar innbyrða, en þeir eru Evrópumethafar samkvæmt gögnum WHO yfir heildarneyslu áfengis.
Íslendingar eru á allt öðrum stað þegar borið er saman hlutfall „óhóflegrar áfengisneyslu“ milli landanna, mælt meðal þeirra sem drekka áfengi yfir höfuð. Þessi mælikvarði kallast á ensku „heavy episodic drinking“, einnig kallað „binge drinking“. Á Íslandi hefur fyrirbærið stundum verið kallað „að fara út og skemmta sér“
Íslendingar eru á allt öðrum stað þegar borið er saman hlutfall „óhóflegrar áfengisneyslu“ milli landanna, mælt meðal þeirra sem drekka áfengi yfir höfuð. Þessi mælikvarði kallast á ensku „heavy episodic drinking“, einnig kallað „binge drinking“. Á Íslandi hefur fyrirbærið stundum verið kallað „að fara út og skemmta sér“. Íslendingar skipa 14. sæti, sé löndunum raðað eftir því hversu algengt það er að áfengis sé neytt óhóflega. Í efsta sæti sitja Litháar.
Drekkum við allt í einum rikk?
Myndin hér fyrir neðan sýnir annars vegar meðaltal áfengisneyslu Evrópuríkjanna, talið í lítrum af hreinu alkóhóli, og hins vegar hversu algengt það er að áfengisneytendur drekki óhóflega. Ísland er fyrir miðja mynd, hver íbúi yfir 15 ára aldri drakk að meðaltali 6,3 lítra af hreinu alkóhóli árið 2010 og um 35 prósent þeirra sem smakka áfengi yfir höfuð drukku óhóflega á síðustu 30 dögum.
Áfengisneysla og óhófleg áfengisneysla Evrópuþjóða 2010.
Samanburður á heildarneyslu og óhóflegri neyslu leiðir margt athyglisvert í ljós. Þannig sést hvernig íbúar Andorra (niðri, hægra megin á grafinu) drekka næst mest allra. Fáar þjóðir eru þó eins hófsamar í neyslu sinni. Hið sama er ekki hægt að segja um Litháa, Austurríkisbúa, Íra og Tékka (uppi, hægra megin) sem drekka bæði mikið og oft úr hófi.
Níu þjóðir drekka minna magn af áfengi en Íslendingar og neytum við svipað mikils magns og íbúar Moldóvíu, Kasakstan, Noregs, Svartfjallalands og Ítalíu. En samband magns og óhófs er síður en svo algilt. Eingöngu þrettán þjóðir drekka oftar úr hófi. Með öðrum orðum eru Íslendingar líklegri en flestar aðrar þjóðir til þess að sturta ofan í sig áfenginu þegar þeir á annað borð fá sér.
Aldurstakmark hæst á Íslandi
Ísland er eina landið þar sem ekki er hægt að kaupa áfengi fyrr en eftir tvítugt. Í flestum löndum Evrópu er aldurstakmarkið 18 ár og í tíu löndum er það einungis 16 ár. Þess utan er Ísland í hópi fimm landa þar sem einokunarmarkaður er um sölu áfengis. Hin löndin eru Moldóvía, Svíþjóð, Finnland og Noregur. Þau tvö síðast nefndu heimila þó frjálsa sölu bjórs, en ekki sterkara áfengis.
Það má velta fram spurningum um hvort aldurstakmark eða frjáls sala á áfengi hafi áhrif á drykkjuvenjur. Á súluritinu er búið að raða löndunum fyrst eftir aldurstakmarki og síðan eftir neyslu.
Áfengisneysla og aldurstakmark til áfengiskaupa 2010.
Súlur landanna fjögurra sem heimila ekki frjálsa sölu eru dökkbláar á litinn. Ísland er síðan lengst til hægri, gult. Að meðaltali er neysla Evrópulands um níu lítrar alkóhóls. Löndin sem heimila ekki frjálsa sölu áfengis, að Finnlandi undanskyldu, neyta áfengis undir meðaltalinu, eða á bilinu 6 til 7,3 alkóhóllítrum á ári.
Óhófleg drykka og aldurstakmark til áfengiskaupa 2010.
Önnur mynd fæst þegar aldurstakmarkinu er stillt upp í samhengi við óhóflega neyslu. Óhófleg neysla er að meðaltali um 27,4 prósent í Evrópu. Ólíkt því sem sást á myndinni á undan, þá eru fjögur af fimm einokunar-ríkjunum yfir meðaltalinu, þar á meðal Ísland. Eingöngu Noregur eru undir meðaltalinu, þar sem óhófleg neysla mælist um 14 prósent. Á Íslandi, Finnlandi, Svíþjóð og Moldóvíu er hlutfallið á bilinu 34,5 til 53,7 prósent.
Önnur mesta bjórþjóðin
Síðasta myndin sýnir hvernig Evrópulöndin skipta neyslu sinni eftir áfengistegundum, þ.e. eftir bjór, léttvíni, sterku áfengi og „öðru áfengi“.
Súlurnar raðast í stafrófsröð og stendur bláa súla Íslands, bjór-súlan, einna hæst allra. Um 62prósent allrar áfengisneyslu Íslendinga er bjórdrykkja. Eina þjóðin sem neytir hlutfallslega meira af bjór eru Tyrkir. Aðrar bjórþjóðir eru Pólverjar (55,1 prósent), Þjóðverjar (53,6 prósent) og Tékkar (53,5 prósent).
Það kemur ef til vill ekki á óvart að hlutfallslega drekka Ítalir mest af léttvíni, eða um 65,6 prósent af heildardrykkju. Næst á eftir koma íbúar Kasakstan, síðan Frakkar, Portúgalir og Georgíumenn. Um eða yfir helmingur allrar áfengisneyslu þessara þjóða er léttvín. Íslendingar neyta langt því frá svo mikils léttvíns í hlutfalli af heildarneyslu, en 21,2 prósent allrar áfengisneyslu landsmanna er léttvín.
Það er ekki ætlunin að draga upp steríótýpíska mynd af áfengisneyslu Evrópuþjóða, en þau ríki sem neyta hlutfallslega mest af sterku áfengi eru Armenía, Bosnía og Herzegóvína, Moldóvía, Azerbaijan og Rússland. Af þessum löndum er neyslan lægst í Rússlandi, ríflega 50 prósent, en hæst í Armeníu þar sem hlutfallið er 84,9 prósent. Ísland er neðarlega á lista, níu lönd drekka minna en við af sterku áfengi, og er hlutfallið hérlendis um 16,5 prósent.
Varlega ályktað
Rétt eins og með áfengið, þá er mikilvægt að nálgast gögnin og ályktanir af þeim varlega. Ýmislegt má lesa úr gögnunum og sýnir fyrsta myndin til að mynda jákvætt samband milli áfengismagns og óhóflegrar neyslu. Engu að síður þá er slíkt samband langt því frá algilt. Ísland er ágætis dæmi um ríki þar sem þetta samband rofnar, innbyrt magn er undir meðaltali en óhófleg neysla er yfir meðaltali.
Ísland er eina landið sem gagnabankinn nær til þar sem ekki er hægt að kaupa áfengi fyrr en eftir tvítugt. Í flestum löndum Evrópu er aldurstakmarkið 18 ár og í tíu löndum er það einungis 16 ár.
Sömu sögu má segja um samanburð á aldurstakmarki ríkjanna og neyslu íbúanna, og einnig samanburði á neyslu og frelsi áfengissölu. Af annarri myndinni má fullyrða að ríkin fimm sem stunda einokun (7,2 lítrar) drekki að meðaltali minna en hin sem leyfa frjálsa sölu (9,3 lítrar). Það er þó ekki hægt að fullyrða að einokunarsala leiði til eða valdi minni neyslu. Þriðja myndin sýnir síðan hvernig áfengis er oftar neytt óhóflega í þeim löndum sem ekki heimila frjálsa sölu. Aftur á móti er ekki hægt að fullyrða um að einokunarsalan leiði til eða valdi því að áfengis sé frekar neytt í óhófi. Fjölmargir þættir aðrir en aldur og aðgengi ákvarða hvernig Evrópuþjóðir fara með áfengi, bæði sögulegir og félagslegir.
Gögnin sem stuðst var við voru fengin úr gagnabanka WHO. Þau eru fyrir árið 2010, nýjustu samanburðarhæfu gögnin sem eru opinber. Áfengi heyrir undir áhættuflokk (risk factor) í starfsemi og gagnaöflun WHO. Aðrir áhættuflokkar eru tóbak, lyf og fíkniefni og geðheilsa.