Sá hluti reksturs Reykjavíkurborgar sem er fjármagnaður með skatttekjum, hinn svokallaði A-hluti, var rekinn með 2,8 milljarða króna halla á síðasta ári. Fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir að sá þessu hluti reksturs borgarinnar myndi skila 488 milljóna króna afgangi. Því var niðurstaðan 3,3 milljörðum krónum verri en lagt var upp með. Þetta kemur fram í ársreikningi Reykjavíkurborgar sem var lagður fram í borgarstjórn í gær.
Rekstarniðurstaða samstæðu borgarinnar var jákvæð um 11,1 milljarða króna. Samstæðan samanstendur af A og B hluta. Sú jákvæða niðurstaða er einvörðungu vegna B-hlutans, en til hans teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meiru eru í eigu borgarinnar. Þar munar lang mest um Orkuveitu Reykjavíkur, sem skilaði 8,9 milljörðum króna í hagnað í fyrra, og þeirra áhrifa sem lækkandi fjármagnsgjöld hafa á rekstur hennar. Auk þess skipti tekjufærsla vegna matsbreytinga fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum töluverðu máli. Þessar tekjufærslur hafa hins vegar ekkert með grunnrekstur Reykjavíkurborgar að gera.
Mikill viðsnúningur
Rekstur A-hlutans hefur verið með ágætum undanfarin tvö ár. Árið 2012 skilaði hann 154 milljóna króna hagnaði og árið 2013 heilum 3,2 milljörðum króna. Því er um gríðarlegan viðsnúning að ræða í því sem mætti kalla grunnrekstri borgarinnar, eða sú starfsemi sem er fjármögnuð með skatttekjum okkar. Undir þá starfsemi falla m.a. öll fagsvið borgarinnar og þar af leiðandi öll þjónusta sem hún veitir þegnum sínum í staðin fyrir útsvarið sem þeir láta af hendi í hverjum mánuði.
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar gerði ráð fyrir því að tekjur borgarinnar yrðu 83,8 milljarðar króna á síðasta ári. Þar munar langmest um skatttekjur, sem áætlaðar voru 64,4 milljarðar króna. Inni í þeim lið eru líka framlög frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga og „aðrar tekjur“. Tekjuáætlunin stóðst að mestu leyti, en tekjur voru um 300 milljónum krónum lægri en lagt var upp með.
Útgjöldin voru hins vegar mun hærri en fjárhagsáætlunin gerði ráð fyrir. Alls eyddi borgin 86,7 milljörðum króna í fyrra, eða 3,4 milljörðum króna meira en áætlunin gerði ráð fyrir. Niðurstaðan er því halli upp á 2,8 milljarða króna. Þann halla verður því að fjármagna með örðum hætti en þeim tekjum sem Reykjavíkurborg innheimti í fyrra. Það verður hins vegar ekki gert með því að hækka útsvar á borgarbúa, enda er það í lögbundnu hámarki.
"Mikilvægt að bregðast við þessum aðstæðum"
Í skýrslu Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar vegna uppgjörsins kemur fram að lakari rekstrarniðurstaða skýrist að mestu vegna launahækkana opinbera starfsmanna sem samið var um í fyrra. Laun og launatengd gjöld voru tæpum milljarði króna hærri en lagt var upp með og lífeyrisskuldbindingar hækkuðu um milljarð króna, einkum vegna mikilla launahækkana.
Auk þess voru tekjur af sölu byggingaréttar mun lægri en áætlað var. Í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að slík sala myndi skila borginni 1,6 milljörðum króna en hún skilaði henni á endanum einungis 407 milljónum króna.
Í tilkynningu Reykjavíkurborgar til Kauphallar vegna uppgjörsins segir: „Að teknu tilliti til ofangreindra frávika er rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 335 mkr.“.
Í skýrslu Fjármálaskrifstofu borgarinnar er orðalagið hins vegar aðeins svartara. Þar segir: „Rekstrarniðurstaða A hluta hefur versnað talsvert milli ára. Laun og annar rekstrarkostnaður var 123% í hlutfalli af skatttekjum en var 120% árið 2013. Niðurstaða fyrir fjármagnsliði versnar um 3,6 makr ef gjaldfærsla lífeyrisskuldbindingar er frá talin. Mikilvægt er að bregðast við þessum aðstæðum.“