Í október síðastliðnum tók Kína fram úr Bandaríkjunum sem stærsta hagkerfi heims. Það finnst varla sá blettur í heiminum þar sem áhrif uppgangs Kína finnast ekki og er Afríka engin undantekning - þvert á móti. Vesturlönd og gömlu nýlenduherrarnir eru ekki lengur stóru strákarnir, heldur Kínverjar. Í flestum löndum Afríku, eru áhrif Kínverja á viðskipti og fjárfestingar gríðarleg og hafa vaxið margfalt frá aldamótum.
Þróun verslunar milli Kína og Afríku
Úr skýrslu Standard Chartered: On the ground, síðan 6. nóvember 2014.
Kína hefur verið stærsta einstaka viðskiptaland Afríku síðan 2009 og nam verðmæti inn- og útflutnings þar á milli nálægt 210 milljörðum dollara árið 2013, sem er um 10 prósent af landsframleiðslu allra landa Afríku samanlagt og 17-föld landsframleiðsla Íslands. Í byrjun 21. aldarinnar voru viðskiptin einungis um 10 milljarðar dollara, svo þau hafa ríflega 20-faldast, samhliða almennt miklum uppgangi í Afríku. Nú kaupa Kínverjar málma, olíu, gas og aðra hrávöru á meðan kínverskur varningur, sem er oft framleiddur úr hrávörum frá Afríku, flæðir um afríska markaði. Einnig hafa fjárfestingar vaxið og útgjöld til þróunarverkefna verið mikil. Mörkin milli þróunaraðstoðar og lána eru oft óljós, en nefndar hafa verið tölur eins in 75 milljarðar dollara í þróunarverkefni síðastliðin áratug, eða 9.500 milljarðar íslenskra króna. Flest bendir til að þessar upphæðir muni hækka enn frekar á næstu árum.
Þúsundir milljarða í innviði og nýtingu náttúruauðlinda
Áhrifin eru vel áþreifanleg, t.d. í Austur-Afríku. Frasinn „It's the Chinese“ kemur ítrekað upp í samræðum þegar rætt er um hina og þessa vegi, flugvelli, verksmiðjur, virkjanir, námur og nánast hvaða fjárfestingar sem er. Í Úganda sést vel að áhrifin hafa aukist á aðeins örfáum árum. Þar er t.d. í byggingu hin 600 megavatta Karuma-virkjun (Kárahnjúkar eru 690 MW) og 60 milljarða króna hraðbraut við höfuðborgina Kampala, hvort tveggja fjármagnað af kínverska ríkisbankanum Exim Bank. Nágrannarnir í Tansaníu fá líka sinn skerf af fjárfestingum Kínverja. Þar eru Kínverjar í þann mund að hefja byggingu á um 1,300 milljarða króna höfn og nýlega sömdu kínversk og tansanísk stjórnvöld um 215 milljarða króna uppbyggingu nýs fjármálahverfis og byggðar í útijaðri Dar es Salaam.
Nærvera Kínverja finnst ekki síður annarsstaðar í álfunni, sérstaklega í löndum sem eru rík af málmum, olíu og gasi, eins og t.d. Ghana, Suður-Afríka, Nígería og Sambía. Bara í þessum mánuði má sjá fréttir af tveggja milljarða dollara láni kínverska þróunarbankans til angólska olíufyrirtækisins Sonangol í miðri olíukrísu og 875 milljóna dollara höfn á Fílabeinsströndinni. Þó að fjárfesting í innviðum sé mikil, eru þó um 55 prósent fjárfestinga Kínverja í olíu, gasi, málmum og nýtingu náttúruauðlinda.
Það eru þó ekki bara fjármagn og ýmiskonar varningur sem flæðir yfir Indlandshafið til Afríku. Í framkvæmdum sem eru fjármagnaðar frá Kína eru flestir yfirmenn, auk margra verkamanna, kínverskir. Margir þeirra verða svo eftir til að setjast að og vinna eða stofna lítil fyrirtæki. Erfitt er að festa tölu á hversu margir þeir eru en heyrst hefur að þeir séu a.m.k. um milljón. Heimamenn eru mishrifnir af þessum nýju gestum og í Tansaníu hefur ríkisstjórnin sagt að Kínverjar sem fjárfestar séu velkomnir en ekki götusalar eða skópússarar.
Ný nýlendustefna?
Það er erfitt að horfa fram hjá því að margt í stefnu og gjörðum Kínverja minnir á nýlendutímann, þegar Frakkland, Þýskaland, Bretland, Belgía og Portúgal réðu yfir og beinlínis arðrændu nánast alla 30 milljón ferkílómetra næststærstu heimsálfu heims. Þá var tilgangurinn einungis að græða á náttúruauðlindum nýlendanna og vilja margir meina að Kínverjar séu í svipuðum hugleiðingum nú. Afríkuríki eru vissulega sjálfstæð og samanburðurinn því ekki sanngjarn, en sívaxandi ítök Kína yfir náttúrauðlindum Afríku kveikja samt óneitanlega viðvörunarljós.
Á meðan er áherslan í þróunarstefnu Kína fyrst og fremst á stórar fjárfestingar og innviði, hvort tveggja eitthvað sem Vesturlönd forðast yfirleitt eins og heitan eld.
Vesturlönd dæla þúsundum milljarða króna í þróunaraðstoð í Afríku, þar sem áherslan er á heilsugæslu, baráttu gegn smitsjúkdómum, menntun, mannréttindi, og baráttu gegn spillingu. Á meðan er áherslan í þróunarstefnu Kína fyrst og fremst á stórar fjárfestingar og innviði, hvort tveggja eitthvað sem Vesturlönd forðast yfirleitt eins og heitan eld. Vesturlönd setja einnig ýmis skilyrði fyrir aðstoð og nýlega stöðvuðu Vestrænar þróunarstofnunir fjárlagastuðning til Tansaníu vegna milljarða króna sem hurfu af reikningi í seðlabanka landsins. Þessu er þveröfugt farið hjá Kínverjum sem setja að öllu jöfnu engin slík skilyrði. Þeir líta ekki á það sem sitt hlutverk að skipta sér af sjálfstæðum ríkisstjórnum enda eru kínversk stjórnvöld ekki beinlínis þekkt fyrir lýðræðishefð, verndun mannréttinda eða skort á spillingu.
Kínverjar hafa einbeitt sér að því að setja fjármagn í afrískt efnahagslíf með iðnaðarframkvæmdum á meðan Vesturlönd halda áfram að veita þróunaraðstoð í „hinu hefðbundna formi“.
Kínverskt fjármagn það sem Afríka þarf?
Þó Vestræna módelið hljómi vel og að þróunaraðstoð sé án nokkurs vafa betur framkvæmd í dag en áður fyrr, er staðreyndin er sú að niðurstöðurnar hafa verið talsverð vonbrigði. Flestum löndum Afríku sárvantar fjárfestingar í samgöngum og rafmagni. Til dæmis framleiða Íslendingar rúmlega þrisvar sinnum meira rafmagn heldur en Eþíópía, þrátt fyrir að Eþíópíubúar séu nærri því 300 sinnum fleiri en við. Það er því, vægt til orða tekið, kærkomið að Kínverjar séu að fjármagna nýja, en þó mjög umdeilda, virkjun sem tvöfaldar rafmagnsframleiðslu í Eþíópíu.
Þess vegna er mjög skiljanlegt að óskilyrt fjármagn frá Kína sé aðlaðandi fyrir afríska ráðamenn. Þróunarlönd öðlast með því betri samningsstöðu gagnvart Vesturlöndum, meira val og annað þróunarmódel, því það sem Vesturlönd hafa lagt til hefur oft virkað hægt og seint. Við undirritun á fyrsta áfanga á nýju neti járnbrautateina í Austur-Afríku sagðist Yoweri Museveni, forseti Úganda, vera glaður að sjá Kína einbeita sér að því sem raunverulega stendur þróun fyrir þrifum. Og hann er ekki einn, margir leiðtogar í Afríku sjá Kína og önnur austur-asísk lönd sem fyrirmynd. Skiljanlega. Kínverjar hafa sýnt hvernig hægt er að brjótast hratt út úr mikilli fátækt enda eru fáeinir áratugir síðan landsframleiðsla á mann í Kína og í Afríku sunnan Sahara var svipuð.
Réttmæt gagnrýni - en málið er flókið
Margir hafa ákveðnar áhyggjur af því hvað innreið Kínverja þýðir í raun. The Ecomomist fjallaði nýverið um að Kínverjar í Afríku blandist illa við heimamenn og að spennan á milli hópanna sé stígvaxandi. Sérstaklega gremst fólki að verkamenn séu fluttir frá Kína í stórum stíl, á meðan atvinnuleysi er víða stórt vandamál. Einnig eru vísbendingar á lofti uppi um að kínverskt fjármagn viðhaldi spillingu eða arðráni afrískra valdastétta. Vissulega er fjármagnið sem slíkt ekki til þess fallið, heldur er það algjör blinda á spillingu og samfélagsleg áhrif sem veldur áhyggjum. Hagstæð lán til spilltra stjórnvalda í Angóla, sem greiðast til baka með olíu, og vopnasala til Súdan í Darfur-stríðinu bera vitni um það. Vesturlönd hafa þó einnig oft og mörgu sinnum mulið undir spillta afríska leiðtoga, t.d. Mobuto í Austur-Kongó (gamla Zaír) og Moi í Kenýa.
Algengt viðhorf er að áhugi Kína á Afríku sé eingöngu tilkominn vegna náttúruauðlinda og viðskipta. Þó eru ekki séu allir sannfærðir og margt er enn óljóst. Í sjálfu sér er það alls ekki vandamál því viðskipti geta frekar en flest annað rifið lönd upp úr fátækt. Þó er mörgum spurningum ósvarað, t.d. varðandi gagnsæi, mannréttindi, áhrif á afríska atvinnuvegi, auðlindabölvunina (e. resource curse) og hvort almennur afrískur borgari fái að njóta kínverskra fjárfestinga til lengri tíma. Enda er eðlilegt að slík svör liggi ekki á reiðum höndum. Kína virðist vera rétt að byrja í Afríku.