Áströlsk stjórnvöld gáfu í október út yfirlýsingu um að ríkið stefndi að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050, en það var í fyrsta sinn sem ríkið setti sér tímasett markmið um hvenær því marki yrði náð. Það þykir þó ansi óljóst hvernig ríkið ætlar að ná þessu markmiði, sem sett var fram einungis rúmri viku áður en COP26-ráðstefnan hófst í Glasgow.
Hafa innlendir sem og erlendir gagnrýnendur ástralskra stjórnvalda sagt að það sé ekki nóg að segjast vera með markmið, það þurfi líka að vera með áætlun. Áætlun verði nefnilega ekki til við það eitt að segjast nógu oft vera með áætlun.
Það sem áströlsk stjórnvöld hafa boðað til þessa er að 20 milljörðum ástralskra dala, jafnvirði rúmlega 1.900 milljarða íslenskra króna, verði varið í tæknilausnir eins og kolefnisbindingu og þróun græns iðnaðar á næstu 20 árum. Á sama tíma er Ástralía þó að auka gasnotkun sína til skamms tíma og hefur ekki sett fram neinar áætlanir um að takmarka notkun jarðefnaeldsneytis eða kola.
Þversagnakenndar fyrirætlanir Ástrala í þessum efnum þurfa ef til vill ekki að koma á óvart, þar sem Ástralía, sem er næst stærsti kolaútflytjandi í heiminum, er fremur alræmdur loftslags-sóði í flestum samanburði og hefur verið það lengi, þrátt fyrir að töluverðar sveiflur hafi orðið á stefnu landsins í málaflokknum við valdaskipti á undanförnum áratugum.
Á meðan að flest önnur þróuð og auðug ríki eru fyrir allnokkru byrjuð að huga að því að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda eru markmið Ástrala um samdrátt fram til ársins 2030 einungis hálfdrættingur í samanburði við fyrirætlanir til dæmis Bretlands, Bandaríkjanna og ríkja ESB. Orðræða æðstu ráðamanna í Ástralíu um loftslagsmál hefur svo á undanförnum árum ratað reglulega í heimsfréttirnar, helst fyrir að þykja fjarstæðukennd.
Keyra sig á gasi út úr COVID-19
Ástralir ætla sér að vera búnir að draga saman losun um 26-28 prósent árið 2030 og segjast á réttri leið með það, en kynntu engin ný markmið í þessum efnum fyrir fundinn í Glasgow. Samkvæmt greiningu á vefnum Climate Action Tracker, sem rýnir í markmið og stefnur ríkja í loftslagsmálum, er Ástralía á vegferð sem er á engan hátt samræmanleg markmiðum Parísarsamkomulagsins frá 2015.
Í umfjöllun á vef Climate Action Tracker er sérstaklega hnýtt í sóknaráætlun Ástrala út úr faraldri COVID-19, sem snýst fyrst og fremst um að vinna meira jarðgas til heimabrúks og útflutnings. „Gas-knúin endurreisn,“ var yfirskrift fréttatilkynningar stjórnvalda um þetta efni frá því í fyrra.
Þyrnum stráð saga í loftslagsmálum
Í fréttaskýringu á vef ástralska miðilsins ABC er saga Ástralíu í loftslagsmálum undanfarna áratugi rakin og rýnt í ástæður þess að sendinefnd Ástrala verði líklega litin hornauga af ýmsum á ráðstefnunni sem nú stendur yfir í Glasgow. Þar segir að slæmt orðspor Ástralíu í þessum málaflokki hafi tekið að myndast þegar árið 1997, er leiðtogar heims hittust og sömdu um Kýótó-bókunina.
Á meðan að flest þróuð ríki hétu því að fara að huga að auknum samdrætti í losun sperrtist Ástralía á móti og sagði að sitt framlag til málanna yrði að auka losun sína um ein 8 prósent. Ástralía staðfesti svo reyndar ekki Kýótó-bókunina fyrr en árið 2007, er valdaskipti urðu og Kevin Rudd leiðtogi Verkamannaflokksins varð forsætisráðherra.
Næsti forsætisráðherra var svo Julia Gillard, einnig fyrir Verkamannaflokkinn, og í hennar stjórnartíð var sett á laggirnar viðskiptakerfi með losunarheimildir, sambærilegt ETS-kerfinu í Evrópu, sem skapaði hvata til þess að draga úr losun. Ástralía virtist á loftslagsvænni leið.
Það kerfi var hins vegar bútað í sundur nánast um leið og Tony Abbott leiðtogi Frjálslynda flokksins varð forsætisráðherra árið 2013. Það þarf ef til vill ekki að koma á óvart, því þetta er sami Tony Abbott og sagði í ræðu árið 2017, eftir að hann hafði látið af embætti forsætisráðherra, að aðgerðir til þess að draga úr loftslagsbreytingum væru svipaðar því er frumstætt fólk „drap geitur til að friðþægja eldfjallaguðina.“
Stærsta eftirsjá Turnbull að draga ekki úr losun
Í kjölfar forsætisráðherratíðar Abbott tók Malcolm Turnbull við völdum, en hann var einnig leiðtogi Frjálslynda flokksins. Hvað loftslagsmálin varðar var hann þó á allt annarri línu en Abbott og lýsti því í viðtali í fyrra að það sem hann sæi mest eftir úr embættistíð sinni hefði verið að koma ekki í gegn löggjöf sem drægi markvert úr losun Ástrala.
Í viðtalinu lýsti Turnbull því einnig að hann hefði tvívegis misst formannsstólinn í Frjálslynda flokknum vegna afstöðu sinnar til loftslagsmála og fyrir að leggja fram stefnumál sem fóru illa í hægri væng flokksins. Þetta gerðist fyrst árið 2009 til er hann missti formannsstólinn til áðurnefnds Abbotts og svo árið 2018 til núverandi leiðtoga flokksins og forsætisráðherra Ástralíu – Scott Morrison.
„Frjálslynda flokknum hefur verið haldið í gíslingu af eitruðu bandalagi innan flokksins sem trúir ekki á loftslagsbreytingar, með stuðningi vina þeirra á fjölmiðlunum,“ er haft eftir Turnbull í þessu sama viðtali, en hvað fjölmiðlana varðaði sagðist hann sérstaklega eiga við fjölmiðlaveldi auðkýfingsins Roberts Murdoch í þessu samhengi.
Scott Morrison, nýjasti fulltrúi þessa bandalags sem Turnbull kallar eitrað, hefur svo sannarlega látið ekki valdið vonbrigðum hjá þeim stuðningsmönnum flokksins sem eru á þeirri línu að það sé ekki þess virði að grípa til aðgerða í loftslagsmálum.
Hann er nefnilega harður talsmaður þess að gera mest lítið í loftslagsmálum og ver kolaiðnaðinn í landinu með kjafti og klóm á hinu pólitíska sviði. Það vakti til dæmis mikla athygli árið 2017 er Morrison kom til þingfundar með kolamola í höndunum. „Þetta eru kol, ekki vera hrædd,“ voru skilaboð Morrison til stjórnarandstöðunnar, sem hann sagði haldna kolafóbíu.
Rúmlega helmingur alls rafmagns í Ástralíu er framleiddur með kolum og um 20 prósent til viðbótar með jarðgasi. Ráðandi öfl í landinu eru ekki að gera mikið til að breyta þessu og lítil áhersla er sömuleiðis á orkuskipti í samgöngum.
Rafbílar sem eyðileggja helgina
Það þarf ekki endilega að koma á óvart, enda hefur forsætisráðherrann Morrison ekki virst hafa mikla trú á að rafbílar séu í þann mund að verða vænlegur kostur fyrir ástralskan almenning.
Árið 2019 sakaði hann stjórnarandstöðuna um að vilja „eyðileggja helgarfríin“ hjá alþýðu manna í Ástralíu, þegar Verkamannaflokkurinn hafði lagt til að hvatar yrðu skapaðir til að rafbílar yrðu 50 prósent af öllum nýjum bílum í Ástralíu árið 2030.
Morrison sagði að rafbílarnir sem stjórnarandstaðan vildi „troða ofan í kokið“ á landsmönnum yrðu bæði dýrir og þeir sem væru það ekki yrðu ófærir um að draga húsbíla og báta og hentuðu ekki til að „koma þér út á uppáhaldstjaldstaðinn með fjölskyldunni þinni.“
„Ástralska leiðin“ að veðja á að vísindin reddi þessu
Í ræðu sinni á COP26 í upphafi mánaðar lagði Morrison mikla áherslu á að tæknilausnir myndu í fyllingu tímans leysa loftslagsvandann – og að það væri „ástralska leiðin“ að veðja á að vísindafólk, frumkvöðlar og fjárfestar myndu feta veginn í átt að kolefnislausu hagkerfi.
Þessu – og ýmsu öðru í ræðu Morrison – var harðlega andmælt af loftslagsráði Ástralíu, Climate Council. Vert er að taka fram að loftslagsráðið er sjálfstætt starfandi og fjármagnað með framlögum almennings – en það var stofnað í kjölfar þess að ríkisstjórn Abbott lagði hið opinbera en sjálfstæða loftslagsráð landsins, Australian Climate Commission, niður árið 2013.
„Ástralska leiðin er ekki að veðja, krossleggja fingur og gera ekkert,“ segir í umfjöllun loftslagsráðsins um ræðu Morrison á ráðstefnunni.