Alþýðusamband Íslands, BSRB og BHM segjast ekki geta stutt frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar félags- og vinnumarkaðsráðherra til starfskjaralaga. Helsta ástæðan, í öllum tilfellum, er útfærsla þess lagaákvæðis sem varðar févíti á atvinnurekendur vegna launaþjófnaðar.
Sú útfærsla, sem birtist í 14. grein frumvarps ráðherra, er málamiðlunartillaga sem er afurð samningaviðræðna á milli Samtaka atvinnulífsins og ASÍ um hvernig skuli taka á brotum atvinnurekenda, en í umsögn til þingsins frá Drífu Snædal forseta ASÍ segir að nokkur aðildarfélög og samtök innan ASÍ hafi á síðari stigum talið of skammt gengið með þeirri málamiðlun – og að hún gæti jafnvel orðið „skaðleg launafólki vegna neitunarvalds atvinnurekenda“.
Drífa segir munnlegt samkomulag hafa verið brotið
Í umsögn sem Drífa ritar fyrir hönd ASÍ til velferðarnefndar þingsins, sem er með frumvarpið til meðferðar, segir frá því að hún hafi gert ráðherra og SA grein fyrir þessari afstöðu aðildarfélaga og að rætt hafi verið um að leggja frumvarpið fram án 14. greinarinnar, sem aðal ágreiningurinn er um.
„Sú umræða fór ekki lengra en munnlegt samkomulag gert um að frumvarpið yrði ekki lagt fram nema að undangengnu samtali. Það samtal hefur ekki átt sér stað en frumvarpið engu að síður lagt fram. Það er því alveg ljóst að djúpstæður ágreiningur er um févítisákvæði laganna og ekki er eining eða sátt innan ASÍ um þá málamiðlun sem reynd var,“ segir í umsögn ASÍ, sem getur sem áður segir ekki stutt frumvarpið eins og það er lagt fram, með 14. greinina inni.
Gagnrýna að sanna þurfi ásetningsbrot
Þessi fjórtánda grein fjallar um févíti vegna svokallaðs launaþjófnaðar, í þeim tilfellum þar sem atvinnurekandi brýtur gegn lágmarkskjörum launamanns. Í tengslum við gerð Lífskjarasamninganna árið 2019 gáfu stjórnvöld út yfirlýsingu þar sem meðal annars kom fram að heimildir til refsinga vegna slíkra mála yrðu auknar, í samráði við aðila vinnumarkaðarins.
Það hefur þó staðið á útfærslunni. ASÍ og aðildarfélög þess vilja koma á hlutlægri bótaábyrgð með lagagrein þess efnis að atvinnurekandi sem brjóti gegn lágmarkskjörum skuli greiða viðkomandi einstaklingi févíti sem nemi 100 prósentum af höfuðstól gjaldfallinnar kröfu, nema málefnalegar réttlætingarástæður séu fyrir hendi og er þá átt við hluti á borð við misskilning, mistúlkun á samningum og fleira þvíumlíkt.
Í stjórnarfrumvarpi Guðmundar Inga er talað um að atvinnurekendur sem „af ásetningi“ greiði launamanni lakari laun en hann eigi rétt á samkvæmt kjarasamningi þurfi að greiða launamanninum févíti. Í umsögnum frá BSRB og BHM eru gerðar miklar athugasemdir orðalag og benda bæði félögin á að erfitt geti reynst að sýna fram á ásetning atvinnurekanda, gegn hans neitun.
„Vel má ímynda sér að atvinnurekandi sé gjarnan í góðri stöðu til að sýna fram á að ekki hafi um ásetning verið að ræða heldur hafi um misskilning eða mistök verið að ræða,“ segir í umsögn BHM, sem telur ákvæðið ekkki nógu vel útfært að það „reynist að óbreyttu gagnslaust með öllu“.
Í umsögn BSRB segir að við fyrstu sýn geti þessi lagagrein „virkað eins og hún sé mikill varnagli fyrir launafólk“ sem verði fyrir launaþjófnaði, en sú leið sem fólk þurfi að leggja upp í til að sækja rétt sinn sé „alltof flókin og matskennd“.
BSRB gerir athugasemd við að talað sé um ásetning. „Það er í raun vandséð hvernig sú ákvörðun að greiða laun undir kjarasamningi getur talist eitthvað annað en ásetningsbrot en á sama tíma er launamaður í vonlausri stöðu að sýna fram á huglæga afstöðu atvinnurekanda ef þar að kemur. Ásetningur er flókið lögfræðilegt hugtak sem erfitt er að sýna fram á nema á grundvelli rannsóknar og með fyrirliggjandi gögnum. Launamaður sem stendur frammi fyrir atvinnurekanda sem ber fyrir sig gáleysi er því í tiltölulega þröngri stöðu til þess að halda því fram að hann eigi rétt til févítis ef greinin helst óbreytt,“ segir í umsögn BSRB.
Samtök atvinnulífsins styðja frumvarpið
Það kveður við allt annan tón í umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarpið. Samtökin segja það málamiðlun „þar sem ólík sjónarmið voru sætt“ og styðja því samþykkt þess, þrátt fyrir að segja að í því séu „mörg ákvæði sem fella mætti á brott eða breyta“ ef samtökin ein ættu að ráða.
Í umsögn SA segir að mikill þrýstingur hafi verið á að ljúka vinnu við frumvarpið vorið 2021 og að á þeim lokaspretti hafi samtökin samþykkt að ákvæðið um févíti yrði tekið inn. Segja SA að með því ákvæði sé gengið „mun lengra en lofað hafði verið af hálfu stjórnvalda í tengslum við gerð Lífskjarasamningsins“ og að samtökin hafi talið eðlilegra að kveða á um opinber viðurlög, en að kröfu ASÍ hafi verið samið um aðra útfærslu sem gerir kröfu um gott samstarf og traust í samstarfi ASÍ og SA.
„Það er því forsenda févítisákvæðis í frumvarpinu að samkomulag um þá útfærslu standi og ekki verði hróflað við forsendum og skilyrðum sem frumvarpið tilgreinir,“ segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins – og því ljóst að þeir aðilar sem áttu í samráði um gerð ákvæðisins eru nú gjörsamlega ósammála um það sem félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur lagt fram í frumvarpi sínu – og samkomulag hafði áður náðst um þeirra á milli.