Ástríðan ólgar enn í blóði Biles
Hún er mætt aftur. Full af einstökum krafti og persónutöfrum. Full ákafa, metnaðar og manngæsku. Simone Biles, fremsta fimleikamanneskja allra tíma, er enn að gera stórkostlegar æfingar sem kalla fram gæsahúð hjá áhorfendum. Í flóði verðlaunagripa og lofs er hennar stærsti sigur ef til vill sá að búa til pláss í heiminum þar sem stúlkur og konur geta ræktað eigin sjálfsmynd á sínum forsendum með gleði og sjálfsöryggi að vopni.
Simone Biles er enn að koma öllum á óvart. Hreyfingar hennar í gólfæfingum og á jafnvægisslánni eru svo óvenjulegar að áhorfendur sitja oft orðlausir af undrun og aðdáun. Biles er líklega vinsælasti íþróttamaður heims í augnablikinu – nýbúin að tryggja sér rétt á Ólympíuleikunum í Tókýó síðar í sumar – leikum sem gætu orðið hennar síðustu.
Og þó.
Nú þegar hún er orðin 24 ára telja sumir að hún eigi enn eftir að ná toppi ferilsins. Ólympíuleikanna í Tókýó er því beðið með gríðarlegri eftirvæntingu.
Hún hefur unnið tugi titla, er dýrkuð og dáð um heimsbyggðina alla, en hún man vel þá daga þegar hún vissi ekki hvenær hún fengi næst að borða. Lífið hefur oft reynst henni erfitt en seigla hennar og dugnaður er það sem kom henni þangað sem hún er í dag.
Þegar Biles var lítil stúlka bjó hún ásamt þremur systkinum sínum hjá móður sem glímdi við bæði alvarlegan áfengis- og fíkniefnavanda. Biles rifjaði nýverið upp að á þessum tíma hafi hún verið meira upptekin af því að leita matar en fullkomnunar í fimleikaæfingunum.
„Við systkinin vorum mjög upptekin af mat því að við höfðum ekki mikið af honum,“ segir Biles. „Ég man að það var flækingsköttur fyrir framan húsið. Og ég man að þessi köttur fékk að borða og þá hugsaði ég: „Hvar er eiginlega maturinn minn?““
Barnaverndaryfirvöld gripu svo inn í eftir ábendingar frá nágrönnum sem höfðu áhyggjur af velferð Biles og systkina hennar. Þau voru öll send á fósturheimili og Biles segist þakklátust fyrir að þeim hafi verið leyft að halda hópinn.
Hún segist þó enn glíma við erfiðar tilfinningar sem vöknuðu sífellt hjá henni sem barni. Að systkinin yrðu einn daginn aðskilin. Eitt sinn segist hún hafa hlaupið inn í herbergi eldri bróður síns um miðja nótt því hún óttaðist að hann yrði horfinn úr lífi hennar daginn eftir.
Minningarnar um dvölina á fósturheimilinu eru þó að öðru leyti ekki skýrar. Biles var ung en segist þó hafa vitað að hún hafi verið tekin frá móður sinni. „Þannig að ég hugsaði stöðugt hvenær ég færi aftur til hennar.“
Að lokum var það móðurafi hennar, Ron Biles, og síðari eiginkona hans, Nellie, sem ættleiddu Biles og yngri systur hennar. Systurnar fóru fljótt að kalla þau „mömmu og pabba“.
Bræður Biles fluttu til Ohio og bjuggu þar hjá frænku þeirra. „Í sumum aðstæðum þá er eins og þú hafi rimlabúr í kringum hjarta þitt,“ segir Biles. „Það eru hlutir sem að þú geymir þar til að tryggja öryggi þitt.“
Nellie Biles, sem gekk systrunum Simone og Adriu í móðurstað, segir hlutverkið hafa reynst sér erfitt í fyrstu. Hún hafi ekki tengst systrunum strax en beðið fyrir því að svo myndi verða. Og hún segist sannarlega hafa verið bænheyrð. „Að segja þeim að þú elskir þau – það eru bara orð,“ segir Nellie, „en að vakna einn daginn og átta þig á því að þú myndir gera hvað sem er fyrir þær, það er annað. Að þú myndir fórna lífi þínu fyrir þær.“ Þegar þær tilfinningar hafi vaknað hafi hún farið að líta á sjálfa sig sem móður þeirra.
Simone Biles fæddist í Ohio-ríki 14. mars árið 1997 og er næst yngst fjögurra systkina. Hún kynntist föður sínum lítið. Hann yfirgaf fjölskylduna á meðan hún var enn á barnsaldri.
Hún var sex ára þegar hún kynntist fimleikum í fyrsta skipti. Þá var hún flutt í úthverfi Houston í Texas. Hún fylgdist með fimleikafólkinu æfa og reyndi að herma eftir því. Þjálfarinn tók eftir þessu og hvatti foreldra hennar, afa hennar og stjúpömmu sem höfðu ættleitt hana, til að skrá hana á fimleikanámskeið. Þegar hún var átta ára fékk hún nýjan þjálfara, Aimee Boorman og hélt hún áfram að þjálfa Biles til ársins 2016.
Það var ekki aftur snúið.
Allan ferilinn hefur Biles lagt mikið á sig. Æft lengi, oft um 35 klukkustundir á viku. Árið 2015 stofnuðu foreldrar hennar æfingastöð í Spring í Texas og þar eyddi hún mest öllum sínum stundum næstu árin. Sú stöð er þegar orðin þekkt fyrir að hlúa sérstaklega að andlegri líðan iðkenda. Eitthvað sem oft hefur orðið útundan í íþróttinni vestanhafs.
Biles tók þátt á sínum fyrstu stórmótum í Bandaríkjunum árið 2011 og var árangur hennar ágætur. Á þessum tíma var hún orðin staðráðin í að setja fimleikana í forgang. Hún hætti í formlegum skóla og fékk kennslu heima. Árið 2012 tryggði hún sér þátttökurétt á bandaríska meistaramótinu og náði þar stórkostlegum árangri sem eftir var tekið. Í kjölfarið var hún tekin inn í fimleikalandslið unglinga.
Síðan þá hefur leiðin legið upp – hátt upp – með hennar einkennandi stökkum; tvöföldu heljarstökki með tvöfaldri skrúfu af slá og tvöföldu heljarstökki með þrefaldri skrúfu í gólfæfingum.
Það er enginn eins og hún.
En það tekur á að ná þessum árangri. Og þegar Simone Biles neyddist til að slaka aðeins á í heimsfaraldri kórónuveirunnar reyndist það henni, eftir á að hyggja, blessun. Hún segist hafa fundið jafnvægi í lífinu – lífi sem hingað til hefur einkennst af fimleikum númer eitt, tvö og þrjú. Hún sagði í ítarlegu viðtali við Glamour á dögunum að hún hafi notið lífsins án hinnar stöðugu keppni. Hún hafi því hafið undirbúning fyrir Ólympíuleikana í Tókýó með nýrri sýn á tilveruna og meiri gleði en áður.
Hún þurfti þennan tíma. Heimsfaraldurinn hafði orðið til þess að fresta varð Ólympíuleikunum um eitt ár eftir allan þann undirbúning sem íþróttafólk heimsins hafði lagt á sig. En það var ekki aðeins það áfall sem kvaldi Biles. Nokkru áður hafði verið afhjúpað hvernig ofbeldi og misnotkun hafði þrifist innan heimsins sem hún ólst upp í. Fimleikaheimsins. Hvernig þjálfurum og öðrum stjórnendum hafði mistekist að vernda iðkendur en þess í stað átt sinn þátt í að þagga óhugnaðinn niður. Talað hefur verið um ofbeldismenningu í þessu sambandi – sem var leyft að viðgangast í áratugi.
Bandaríska fimleikasambandið hefur af þessum sökum verið harðlega gagnrýnt, m.a. af Biles sjálfri. Hún þekkir það sem á gekk af eigin raun, var sjálf beitt kynferðisofbeldi en keppir enn og minnir þannig alla stöðugt á að vandamál sem þessi hverfa ekki. Þau þarf að takast á við. Sjálf segist hún vita að ef hún fari djúpt inn í málið núna gæti það kostað hana einbeitinguna. Hún segist geta „hólfað“ það sem gerðist af og hún reyni að hugsa ekki mikið um það í augnablikinu. „Ef ég læt þá stjórna mér, þá vinna þeir,“ segir hún við Glamour.
Undanfarið ár hefur Biles notað óvæntan frítíma sinn til að búa sér heimili í húsi sem hún festi kaup á í Texas. Koma sér þar fyrir ásamt hundunum sínum tveimur. Og stundum er kærastinn hjá henni. Á meðan samkomutakmarkanir voru í gildi eyddi Biles flestum stundum í þessu húsi. Þar tókst hún á við allar þessar erfiðu hugsanir, ekki aðeins þann möguleika að kannski myndi hún aldrei aftur keppa á ólympíuleikum því þeir sem halda átti 2020 hefðu líklega átt að vera hennar síðustu.
Í útgöngubanni sem sett var á í Texas komst hún ekki í æfingasalinn. Það tók á, andlega og líkamlega. Hún segist hafa farið í gegnum allt tilfinningarófið; orðið reið, pirruð og sorgmædd. Hún varð döpur og íhugaði að hætta. En leyfði sér aldrei að fara langt inn í þá hugsun. Eftir allt sem hún hafði lagt á sig var það, eftir á að hyggja, fjarstæðukennt.
En það þýddi að hún varð að halda sér í formi. Og ekki bara einhverju ágætis formi heldur hörku keppnisformi – að reyna að gæta þess að halda líkamanum á þeim stað að stutt sé í toppafköst – ef vera skyldi að allt félli í ljúfa löð og stórmótin færu að hlaðast inn í stundaskrána á ný. „Ég gerði þetta og ég gerði þetta fyrir sjálfa mig af því að ég hef enn svo mikla ástríðu fyrir íþróttinni.“
Engu að síður, þrátt fyrir miklar æfingar á hinu fordæmalausa ári heimsfaraldursins, segist Biles hafa fundið nýtt jafnvægi. Áður hafi allir dagar snúist um fimleikasalinn. Hún hafi nú komist að því að hún getur einnig verið glöð og hamingjusöm utan hans. „Mér finnst eins og allt sé að verða eins og það á að vera.“
Síðustu mánuði hafi hún einbeitt sér að því að finna áhugamál, njóta þess að gera hluti sem jafnaldrar hennar taka sem sjálfsögðum hlut, „bara virkilega reyna að finna hver ég er“. Þá segist hún hafa komist að því að það sé í góðu lagi að biðja um hjálp þegar á reyni. Það hafi hún lært í sálfræðimeðferð sem hún hafi í fyrstu verið hikandi við að fara í en hafi reynst henni gríðarlega vel.
Móðir hennar, Nellie Biles, segist finna mikinn mun á dóttur sinni núna og þegar hún var að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana í Ríó árið 2016. Hún sé orðin kona í heimi sem tilbiður æsku eins og guð. Sjálf segist Biles ekki lengur vera lítil stelpa. Enginn geti neytt sig til að gera eitthvað sem hún vilji ekki gera. Hún láti ekki lengur ýta sér út í eitthvað í fimleikasalnum gegn vilja sínum.
Jákvæðni Biles og vinalegt fas er einstakt og hefur alltaf verið. Þeir sem til þekkja segja það sjást á henni að hún virkilega njóti sín í æfingunum. Það sé meðal þess sem greini hana frá flestum öðrum keppendum. Þetta sé ekki það sem börn og unglingar sem skari framúr í greininni hafi alist upp við í Bandaríkjunum hingað til. Harkan og samkeppnin sé gríðarleg. Að virkilega njóta var ekki talið neinum til framdráttar.
„Þegar allt kemur til alls þá æfum við svo mikið til að keppa í tvær til þrjár mínútur. Og einhver gæti spurt, hvað er skemmtilegt við það?“ segir Biles. „En ef það er ekki gaman þá er þetta ekki þess virði.“
Biles er staðráðin í að breyta íþróttinni. Eitt af því sem hún mun gera er að fara fyrir ólympíuliði kvenna á ferðalagi um Bandaríkin að leikum loknum. Bandaríska fimleikasambandið hefur hingað til skipulagt svipaða sigurför en nú er komið að Biles. Og hún verður allt öðru vísi en hingað til. „Það verður dansað og leikin tónlist,“ segir hún. Lögð verður áhersla á það að hafa gaman í stað þess að fimleikakonurnar auglýsi yfirburði sína. „Þetta verður kraftmikið,“ segir hún. Ferðin eigi að valdefla konur. Tækifærið til þess sé runnið upp.
Sérfræðingar eru sammála um að Biles hafi aldrei verið betri en núna. Hún sé sterk, bæði andlega og líkamlega. Sjálf segist hún ætla að reyna að ná lengra – ná nýjum hæðum. „Sjá hvað í mér býr.“
Og næsta stökk mun hún taka á Ólympíuleikunum í Tókýó þar sem hún mun alveg örugglega halda áfram að koma öllum á óvart. Ef einhver bjóst við að ferillinn myndi enda að þeim loknum var það misskilningur. Hún segir alls ekki útilokað að hún reyni að vinna sér keppnisrétt á leikunum í París árið 2024.