Innganga í Evrópusambandið og upptaka evru sem gjaldmiðils myndi fela í sér heppilegra umhverfi til losunar hafta með auknum stöðugleika og þrótti íslensks atvinnulífs. Auðveldara yrði að losa fjármagnshöftin hratt og efnahagssveiflur við hraða losun yrðu minni.
Þetta er niðurstaða sviðsmyndagreiningar á losun fjármagnshafta sem KPMG á Íslandi hefur unnið fyrir Félag atvinnurekenda, Samtaka Atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Viðskiptaráð Íslands. Greiningin, sem var kynnt í morgun, ber nafnið "Úr höftum með evru". Hana er hægt að lesa hér.
Meiri hraði þýðir meiri sveiflur
Í sviðsmyndagreiningunni var unnið út frá þeirri forsendu að ákvörðun hafi verið tekin um inngöngu í Evrópusambandið með upptöku evru. Sviðsmyndunum var stillt upp út frá drifkröftunum „hagvöxtur eða samdráttur í helstu viðskiptalöndum“ annars vegar og „hæg eða hröð losun fjármagnshafta“ hins vegar. Sviðmyndunum voru gefin heitin; Íslenski draumurinn, Vonarneisti, Lága drifið og Línudans.
Greiningin leiddi í ljos að hraðara losunarferli hafta hefði í för með sér aunkar sveiflur í efnahahagslífinu, sem myndi að stórum hluta orsakast af þróun krónunnar. Samkvæmt niðurstöðu greiningarinnar yrðu sveiflurnar vægari og síður öfgafullar í umhverfi þar sem upptaka evru væri í farvatninu. „Þannig verði umhverfið stöðugra vegna minni sveiflna í þróun krónunnar, minni verðbólgu og stöðugra vaxtastigs,“ segir í greiningunni.
Þar segir einnig að óvissan um framtíðaráform um losun hafta hafi neikvæð áhrif á viðskiptalífið. Trúverðug áætlun um losun hafta sé því mikilvæg fyrir tiltrú fyrirtækja fyrirtækja og framtíðarsýn þeirra. „Slík áætlun myndi þannig auðvelda fyrirtækjum áætlanagerð og ákvarðanatöku og birtast í aukinni innlendri fjárfestingu, minna brotthvarfi og aukinni nýliðun fyrirtækja. [...]Af niðurstöðum þessarar greiningar og samanburði við fyrri greiningu má draga þá ályktun að ákvörðun um inngöngu í ESB með upptöku evru feli í sér heppilegra umhverfi til losunar hafta með auknum stöðugleika og þrótti íslensks atvinnulífs, hvort sem losun hafta verður hröð eða hæg. Jafnframt virðist auðveldara að losa fjármagnshöftin hratt með upptöku evru í farvatninu og efnahagssveiflur við hraða losun verða minni“.
Gáfu til kynna stærri skref
Bæði Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gáfu það sterklega til kynna í ræðum sínum á aðalfundi Seðlabankans í síðustu viku að stór skref í átt að losun hafta væru framundan. Undanfarin ár hefur losunin fyrst og síðast átt sér stað í gegnum gjaldeyrisútboð Seðlabankans, sem nú hefur verið hætt.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri gaf til kynna í ræðu sinni á aðalfundi Seðlabankans í síðustu viku að stærri skref í átt að losun hafta væru framundan.
Mikið hefur verið rætt um mögulegar leiðir í þeim efnum og sérstaklega þegar kemur að meðhöndlun þrotabúa föllnu bankanna Glitnis, Kaupþings og Landsbankans. Margir stjórnmálamenn eru á þeirri skoðun að setja eigi upp háan útgönguskatt sem kröfuhöfum þeirra verði gert að greiða til að komast út úr íslensku hagkerfi með eignir sínar. Enn sem komið er hafa stjórnvöld hins vegar ekkert sýnt á spilin í þessum efnum.