Bandarískir saksóknarar og bandaríska alríkislögreglan FBI eru að rannsaka Sepp Blatter, forseta alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, og aðild hans að aragrúa spillingarmála sem upplýst hefur verið um að hafi átt sér stað innan sambandsins. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir ónafngreindum heimildarmanni. Talsmaður FBI hefur neitað að tjá sig opinberlega um málið. Svissnesk yfirvöld höfðu áður sagt að Blatter væri ekki til rannsóknar.
Blatter, sem hefur verið forseti FIFA frá árinu 1998, tilkynnti óvænt á blaðamannafundi í gær að hann muni hætta sem forseti sambandsins eftir nokkra mánuði. Yfirlýsingin kom sérstaklega á óvart þar sem Blatter, sem er 79 ára, var endurkjörinn í embættið síðastliðinn föstudag. Hann hafði þá staðið af sér gríðarlegan þrýsting frá mörgum af áhrifamestu mönnum knattspyrnuhreyfingarinnar um að stíga til hliðar.
Verið að undirbyggja mál gegn Blatter
Alls hafa fjórtán manns verið handteknir og ákærðir vegna meintrar spillingar innan FIFA. Þeim er meðal annars gefið að sök að hafa tekið þátt í múturgreiðslum og peningaþvætti. Í bandarískum fjölmiðlum í dag er haft eftir heimildarmönnum innan FBI, sem fer með rannsókn málsins, að mennirnir sem þegar hafa verið handteknir og ákærðir sýni samstarfsvilja og upplýsi um athafnir annarra háttsettra stjórnenda og stjórnarmanna FIFA, meðal annars Blatter.
Það virðist liggja fyrir að rannsakendur eru að safna upplýsingum til að undirbyggja mál gegn Blatter. Það setur afsögn hans í gær í nýtt ljós. Þar sagði Blatter m.a.:„Hagsmunir FIFA eru mér kærir. Þess vegna hef ég tekið þessa ákvörðun. Það sem skiptir mig mestu máli er stofnunin FIFA og fótbolti um allan heim“. Hann tilkynnti sömuleiðis að hann ætlaði að boða til nýs aðalfundar þar sem þarf að kjósa nýjan formann, en það verður ekki gert fyrr en á tímabilinu milli desember á þessu ári og mars á næsta ári.
Skýrist hvað ýtti Blatter til að tilkynna afsögn
Miklar vangaveltur eru um það í vestrænum fjölmiðlum hvað hafi ýtt Blatter til að tilkynna afsögn sína í gær. Flestir virðast sammála um að fréttaflutningur af mögulegri aðkomu Jerome Valcke, framkvæmdastjóra FIFA og eins nánasta samstarfsmanns Blatters, við mútugreiðslur í tengslum við HM í Suður-Afríku, sem fór fram árið 2010, hafi hafi gert útslagið. Blatter sé hins vegar ekki tilbúinn til að stíga til hliðar á meðan að rannsóknin á FIFA sé í hámæli, vegna þess að það geri hann berskjaldaðri að hafa engin völd eða ítök á meðan að á henni stendur. Þess vegna vilji hann ekki hætta fyrr en seint á þessu ári eða snemma á því næsta.
Mál Valcke hefur undið upp á sig undanfarna daga. Bréf stílað á Valcke, frá Molefi Oliphant, forseta knattspyrnusambands Suður-Afríku, hefur verið birt á samskiptavefnum Twitter.
BOMBSHELL: Letter from South Africa FA to FIFA instructing $10m payment to Warner WAS addressed to Jerome Valcke pic.twitter.com/b0yKBPRAcA
— Martyn Ziegler (@martynziegler) June 2, 2015
Í því er að finna fyrirmæli um hverngi eigi að greiða tíu milljónir dala frá FIFA til félagsskapar sem kallast The Diaspora Legacy Programme. Í bréfinu er sérstaklega tekið fram að forseti amerísku knattspyrnusambandanna CONCACAF eigi að ráða því hvernig umræddum peningum verði varið. Þar er um að ræða Jack Warner, fyrrum varaforseta FIFA og einn þeirra fjórtán sem handteknir voru í síðustu viku. FIFA hefur þegar viðurkennt að greiðslan hafi átt sér stað en neitar að Valcke
hafi borið ábyrgð á henni og segir að fyrrum fjármálastjóri sambandsins, Julio Grondona, hafi samþykkt greiðsluna. Auk þess hafi Blatter ekkert vitað af greiðslunni, sem var innt af hendi árið 2008. Grondona er látinn og getur ekki svarað fyrir sakargiftirnar.
Rússland og Katar í óvissu
Ljóst er að heimsmeistarakeppnirnar í bæði Rússlandi og Katar, sem eiga að fara fram 2018 og 2022, eru í uppnámi eftir uppljóstranir síðustu vikna. Svissnesk yfirvöld hafa þegar hafið rannsókn á því hvernig var staðið að því að veita löndunum tveimur réttinn til að halda keppnirnar og hvort að mögulega hafi lófar verið smurðir með peningum til að liðka fyrir því vali. Ólíklegra þykir að Rússar missi möguleikann á að halda mótið 2018. Mun styttra sé í það og knattspyrnulegir innviðir séu þegar til staðar í landinu. Meiri líkur eru taldar á því að keppnin í Katar verði færð og er talið nánast einboðið að hún muni þá fara fram í Englandi, sem lenti í öðru sæti þegar valið var um land til að halda mótið 2022 í.