Það er ekki nóg að vörumerkið sé heimsþekkt og árleg sala skipti milljörðum. Hagnaður er lífæð hvers fyrirtækis og þetta orð, hagnaður, er nokkuð sem stjórnendur Bang og Olufsen, B&O hafa ekki getað státað af um margra ára skeið. Flogið hefur fyrir að fyrirtækið verði jafnvel selt úr landi, margir Danir fá hroll við þá tilhugsun.
Það er á flestra vitorði, að minnsta kosti þeirra sem fylgjast með hvernig vindar viðskiptalífsins blása, að danski hljóm-og sjónvarpstækjaframleiðandinn Bang & Olufsen hefur um langt skeið átt í miklum rekstrarerfiðleikum. Eftir sótsvart uppgjör síðasta rekstrarárs (eins og forstjórinn orðaði það) um mitt ár í fyrra vonuðust stjórnendurnir til að brátt kæmi betri tíð með peningagrös í haga. Þær óskir og vonir rættust ekki og af nýbirtum rekstrartölum má sjá að vandi fyrirtækisins er meiri en nokkru sinni fyrr. Danskir fjölmiðlar hafa jafnvel gengið svo langt að tala um að fyrirtækið hafi lengi barist fyrir tilveru sinni en nú sé fyrirtækið komið fram á brún hengiflugsins og kraftaverk þurfi eigi B&O áfram að vera eitt af höfuðdjásnunum í dönskum iðnaði.
Ekki fyrstu erfiðleikarnir en kannski þeir síðustu
Svona hljóðaði fyrirsögn í einu dönsku blaðanna fyrir nokkrum dögum. Þarna vísar blaðið til þess að frá stofnun B&O árið 1925 (starfsemin hófst reyndar 1924) hefur fyrirtækið margoft lent í miklum erfiðleikum. Undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar brenndu og sprengdu stuðningsmenn nasista verksmiðjuna í Struer á Jótlandi og framleiðslan stöðvaðist um tíma.
Árið 1952 var þriðjungi starfsmanna sagt upp, þá voru um 20 viðtækjaframleiðendur í Danmörku og B&O þóttu gamaldags. Stjórnendur lögðu þó ekki árar í bát og með samstarfi við þekkta hönnuði, fyrst Ib Fabiansen og síðar Jacob Jensen varð fyrirtækið í Struer leiðandi í hönnun hljóm-og sjónvarpstækja. Þeirri forystu hefur B&O ætíð haldið. Árið 1978 var sérstök B&O sýning í MOMA (Museum of Modern Art) í New York. Lengra verður vart náð á hönnunarbrautinni. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og á ýmsu gengið. Undanfarin ár hafa verið B&O mjög erfið og fyrirtækið rekið með tapi ár eftir ár.
Undanfarin ár hafa verið B&O mjög erfið og fyrirtækið rekið með tapi ár eftir ár.
Vörurnar of dýrar fyrir almenning
Þótt flestir séu sammála um að vörurnar frá Bang & Olufsen beri af þegar kemur að útliti og séu í hópi þeirra bestu þegar kemur að mynd-og hljómgæðum er ekki það sama upp á teningnum með verðið. B&O tækin eru með þeim dýrustu sem völ er á og á samdráttartímum, þegar almenningur heldur fast um budduna bitnar það á dýrari vörum. Þar að auki hafa margir aðrir framleiðendur lagt aukna áherslu á útlitshönnun tækja sinna á undanförnum árum og þannig keppt við B&O en selt tækin á mun lægra verði. Einnig átti fyrirtæki erfitt með að fylgja örri tækniþróun, sat eftir.
Play vörulínan, ódýrari tæki
Fyrir um það bil fjórum árum kom á markaðinn ný vörulína, B&O play. Þarna var um að ræða mun ódýrari tæki en áður höfðu sést frá B&O. Play vörurnar hafa selst vel en það hefur ekki dugað til að koma fyrirtækinu á beinu brautina. Þá hefur verið lögð áhersla á samvinnu við bílaframleiðendur um sölu á svonefndum Automotive hljómtækjum. Jafnframt var ákveðið að leggja mikla áherslu á markaðssókn í Asíu, sér í lagi Kína.
Áhugi Kínverja á Dönum og öllu því sem danskt er jókst mjög í kjölfar heimssýningarinnar í Shanghai árið 2010 þar sem Litla hafmeyjan, frá Löngulínu, var til sýnis og vakti mikla athygli. B&O hafa á síðustu þrem árum opnað tugi verslana í Kína, hvort það verður til að auka blóðflæðið um æðakerfi B&O (orð forstjórans) er ókomið í ljós en miklar vonir eru við það bundnar.
Avant sjónvarpið, það flottasta af öllu
Á síðasta ári setti B&O á markaðinn nýtt sjónvarpstæki, Avant. Avant nafnið er ekki nýtt af nálinni, sjónvörp með þessu nafni hafa verið framleidd hjá B&O um árabil. Nýja Avant tækið skyldi taka öllu fram sem áður hafði sést á þessu sviði, bæði varðandi tækni og útlit. Verðið var líka eftir því. Ýmsum þótti hæpið að setja á markaðinn svo dýrt sjónvarpstæki eins og efnahagsástandið var þá og er reyndar enn. Hjá B&O voru menn hinsvegar vissir um að markaður væri fyrir þetta nýja tæki. Það reyndist rétt, tækin seldust eins og heitar lummur, pantanirnar streymdu inn og það virtist bjartara framundan.
En þá kom babb í bátinn. Framleiðendur ýmissa íhluta í Avant tækin gátu ekki annað eftirspurninni og þar að auki komu fram gallar í tækjunum sem reyndar tókst að bæta úr. Þetta varð hinsvegar til þess að tekjurnar, sem B&O þurfti svo mjög á að halda, brugðust . Veltan á síðasta rekstrarári var tæpir 3 milljarðar danskra króna (u.þ.b. 59 milljarðar íslenskir) og hafði aukist um rúmlega 15 prósent frá árinu áður. Það er há upphæð en þessi mikla velta, og söluaukning, hefur ekki náð að rétta af reksturinn.
Á síðasta ári setti B&O á markaðinn nýtt sjónvarpstæki, Avant. Avant nafnið er ekki nýtt af nálinni, sjónvörp með þessu nafni hafa verið framleidd hjá B&O um árabil. Nýja Avant tækið skyldi taka öllu fram sem áður hafði sést á þessu sviði, bæði varðandi tækni og útlit. Verðið var líka eftir því.
Lífróður
Fyrir nokkrum dögum sagði B&O upp 125 manns, flestum í Danmörku og nú eru starfsmenn um það bil 2300. Forstjórinn sagði af þessu tilefni að þótt aldan væri óneitanlega kröpp þessa dagana væri hann sannfærður um að fyrirtækinu tækist að rétta úr kútnum. Hann vildi ekki svara því hvort verið væri að skoða þann möguleika að selja hluta B&O úr landi en sagði að fjárfestingabankinn Carnegie væri nú að kanna möguleikana á að fá nýtt fjármagn inn í fyrirtækið. Slíkt þýðir væntanlega sölu á hluta þess. "Heimurinn setur samasem merki milli Danmerkur og Bang & Olufsen og enginn vill breyta því," sagði forstjórinn. Hvort honum verður að ósk sinni leiðir tíminn í ljós.