Arion banki, Landsbanki og Íslandsbanki keyptu allir nýtt hlutafé í Reitum á mánudag. Þá var hlutafé í þessu stærsta fasteignafélagi landsins aukið um 17 milljarða króna og eldri eigendur félagsins keyptu nýtt hlutafé fyrir fimm milljarða króna. Þeir eru að langstærstu leyti ofangreindir bankar.
Reitir er stærsta fyrirtæki á Íslandi í útleigu á atvinnuhúsnæði. Það á 130 fasteignir sem eru alls um 410 þúsund fermetrara að stærð. Virði fasteignasafnsins er um 100 milljarðar króna. Á meðal þekktra fasteigna í eigu Reita eru Kringlan, Hilton Reykjavík Nordica, Icelandair hótel Reykjavík Natura og Kauphallarhúsið. Stærstu leigutakar félagsins eru smásölurisinn Hagar, Flugleiðahótelin, ríkið og sveitarfélög.
Kringlan er ein þeirra bygginga sem Reitir á.
Félagið endurfjármagnað
Tilkynnt var um það í vikunni að Reitir hefðu lokið alls 68 milljarða króna endurfjármögnun. Í henni fólst að félagið gaf út 25 milljarða króna skuldabréfaflokk, fékk 26 milljarða króna bankalán og jók hlutafé sitt um 17 milljarða króna.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi-lífeyrissjóður og lífeyrissjóðir í eignastýringu hjá Arion banka keyptu nýtt hlutafé fyrir tólf milljarða króna og eignuðust við það 31 prósent í Reitum. Afganginn af hlutafjáraukningunni, sem kostaði fimm milljarða króna, keyptu eldri hluthafar. Þeir eru að langstærstu leyti íslenskir viðskiptabankarnir þrír auk þrotabús Glitnis.
Þrotabú Glitnis keypti og seldi aftur
Kristjana Ósk Jóndóttir, markaðsstjóri Reita, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans um hlutafjáraukninguna að allir eldri hluthafar Reita hafi nýtt sér forkaupsrétt sinn og tekið þátt. Hver og einn keypti því í samhengi við fyrri eign sína. Það þýðir að Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, hafi keypt nýtt hlutafé fyrir 2,1 milljarð króna, Landsbankinn, sem er í eigu íslenska ríkisins, keypti hlutafé fyrir 1,6 milljarð króna og Íslandsbanki keypti fyrir 345 milljónir króna.
Þrotabú Glitnis, sem átti 11,2 prósent hlut í sínu eigin nafni og í nafni Haf Funding Ltd., keypti nýtt hlutafé fyrir um 560 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum frá Glitni var sú þátttaka þó skilyrt því að þrotabúið var búið að selja nýja hlutaféð áfram áður en það keypti það. Því staldraði það stutt við í eigu þess. Ekki fékkst upplýst hver kaupandinn sé.
Landsbankinn á stóran hlut í Reitum. Hann, eins og hinir viðskiptabankarnir, tók þátt í hlutafjáraukningunni.
Yfirlýst markmið að selja félög í óskyldum rekstri
Kaup viðskiptabankanna á nýju hlutafé í Reitum eru athyglisverð í ljósi þess að það er yfirlýst stefna þeirra allra að selja eignir í óskyldum rekstri sem fyrst. Í starfsreglum Eignabjargs segir að félagið skuli „eftir fremsta megni haga því svo að eignahaldstími þess á fyrirtækjum í eigu félagsins vari í eins skamman tíma og hægt er“.
Íslandsbanki hefur gefið það út opinberlega að hann leitist við að selja eignir í óskyldum rekstri enda sé „ekki stefna bankans að eiga slíkar eignir til lengri tíma“. Í útgefinni stefnu Landsbankans um sölu fullnustueigna segir að stefnt sé að því að selja þær „eins fljótt og unnt er að teknu tilliti til markaðsaðstæðna“.
Samkeppniseftirlitið gerir ekki athugasemdir
Reitir er félag sem varð til utan um íslenska hluta starfsemi Landic Property, sem var risavaxið og ofurskuldsett fasteignafélag með umfangmikla starfsemi á Íslandi og erlendis. Félagið rataði í mikil vandræði eftir bankahrun og í nóvember 2009 tóku íslenskir kröfuhafar þess yfir innlendu starfsemi þess og breyttu nafni félagsins í Reiti. Þeir voru ofangreindir bankar.
Til að þetta væri hægt þá þurfti Samkeppniseftirlitið að veita undanþágu frá samkeppnislögum. Sú undanþága var veitt með ýmsum skilyrðum. Það eru því fimm ár síðan að Reitir lentu í höndum bankanna. Allar götur síðan hefur staðið yfir endurskipulagning og síðar endurfjármögnunarferli sem miðar að því að setja félagið á markað.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að stofnunin hafi vitað af þátttöku bankanna í hlutafjáraukningunni hjá Reitum og að hún hafi ekki séð ástæðu til þess að gera athugasemd við hana.
Eftir hlutafjáraukninguna eiga viðskiptabankarnir þrír enn samanlagt 56,2 prósent hlut í Reitum. Eignabjarg á 29,5 prósent, Landsbankinn á 21,9 prósent og Íslandsbanki 4,8 prósent.
Skráning í apríl
Sömu lífeyrissjóðir og tóku þátt í hlutafjáraukningu Reita keyptu 25 milljarða króna skuldabréfaflokkinn sem félagið gaf samhliða út. Íslandsbanki lánaði síðan félaginu 26 milljarða króna verðtryggt til 30 ára.
Í kjölfar þess að búið er að ljúka endurfjármögnuninni stefnir stjórn Reita að því að skrá hlutabréf og skuldabréfaflokk Reita í Kauphöll Íslands í apríl 2015. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka, stærsta einstaka eiganda Reita, mun hafa umsjón með skráningunni. Þegar af henni verður má ætla að bankarnir selji hluta af eignarhlutum sínum í Reitum.