Bíða tillagna stjórnvalda um hvernig stækka eigi biðflokk rammaáætlunar
Landsvirkjun vill á þessu stigi ekki taka afstöðu til þess hvaða einstaka virkjanakostir færist á milli flokka í tillögu að rammaáætlun sem lögð verður fram, enn einu sinni, á Alþingi í mars. Fyrirtækið hefur áður sagt að færa ætti Kjalöldu, efst í Þjórsá, úr vernd í biðflokk.
Þeir virkjanakostir sem Landsvirkjun áformar að virkja næst eru allir í nýtingarflokki samkvæmt núgildandi rammaáætlun. Þetta eru Hvammsvirkjun í Þjórsá (93 MW), virkjanir á veituleið Blöndu (28 MW) og stækkun Þeistareykjavirkjunar.
„Ekki liggja fyrir tillögur stjórnvalda um hvernig eigi að stækka biðflokkinn í rammaáætlun eða færa kosti milli flokka. Landsvirkjun bíður því eftir tillögum stjórnvalda áður en tekin verður afstaða til þess hvaða einstaka virkjanakostir færist milli flokka.“
Þetta kemur fram í svari Landsvirkjunar við fyrirspurn Kjarnans um forgangsröðun þeirra virkjanahugmynda fyrirtækisins sem finna má í þingsályktunartillögu að 3. áfanga rammaáætlunar er verður lögð fram á Alþingi í lok mars í fjórða sinn. Guðlaugur Þór Þórðarson verður fjórði umhverfisráðherrann á rúmlega fimm árum sem leggur tillöguna fram.
Fyrirspurn Kjarnans var send í ljósi þess að búið er að ákveða hvenær tillagan verður lögð fram sem og vegna þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá því í nóvember er að finna loforð um að lokið verði við þriðja áfanga rammaáætlunar. Því er hins vegar bætt við, í sömu setningu, að kostum í biðflokki verði fjölgað. Frekari útskýringar hafa stjórnvöld ekki gefið á hvað standi til og spurningum Kjarnans til umhverfisráðherra hefur enn ekki verið svarað.
En að fjölga kostum í biðflokki tillögunnar getur aðeins þýtt tvennt: Að kostir verði færðir úr annað hvort verndarflokki eða nýtingarflokki í þann flokk. Nema að hvort tveggja sé. Hægt er að hreyfa við flokkuninni svo lengi sem Orkustofnun hafi ekki gefið út virkjanaleyfi fyrir kosti í nýtingarflokki eða svæði í verndarflokki hafi verið friðlýst.
Þar sem næstu áformuðu virkjanir Landsvirkjunar hafa þegar fengið samþykki Alþingis er annar áfangi rammaáætlunar var afgreiddur árið 2013 er að mati fyrirtækisins ekkert sem liggur á varðandi afgreiðslu á næstu áföngum rammaáætlunar. „Mikilvægt er að vanda til verka og taka það einnig inn í myndina að ákveðið hefur verið að endurskoða lögin um verndar- og orkunýtingaráætlun frá grunni og einnig að setja sérstök lög um nýtingu vindorku,“ segir í svari Landsvirkjunar við fyrirspurn Kjarnans.
Meðal þeirra virkjunarkosta Landsvirkjunar sem eru í verndarflokki tillögu að 3. áfanga rammaáætlunar er Kjalalda sem er í efri hluta Þjórsár. Í umsögn fyrirtækisins við tillöguna í fyrra kom fram ósk um að færa Kjalöldu úr verndarflokki í biðflokk.
Verkefnisstjórn rammaáætlunar komst að því á sínum tíma að Kjalölduveita væri í raun breytt útfærsla á Norðlingaölduveitu, og að sama vatnasvið, Þjórsárver, yrði fyrir áhrifum. Norðlingaölduveita er í verndarflokki núgildandi rammaáætlunar.
Í umsögn Landsvirkjunar kom fram sú skoðun fyrirtækisins að við framkvæmd rammaáætlunar hefði ekki verið farið að lögum og að mat verkefnisstjórnar á áhrifum virkjanakosta hafi verið ófullnægjandi. Benti fyrirtækið m.a. á að ekki hefði verið tekið tillit til niðurstaðna allra faghópa rammaáætlunar áður en flokkunin fór fram líkt og lög kveði á um. Þá telur Landsvirkjun afmörkun landsvæða ekki í samræmi við lög og að verkefnisstjórn hafi ekki verið heimilt „að setja heil vatnasvið í verndarflokk“ á grundvelli niðurstöðu tveggja af fjórum faghópum og „setja síðan alla virkjunarkosti á viðkomandi vatnasviði í verndarflokk“.
Fyrirtækið sagði einnig í umsögninni að þrátt fyrir að það sé Orkustofnun sem lögum samkvæmt ákveði hvaða kostir fái umfjöllun hafi verkefnisstjórnin einhliða ákveðið að ekki skildi fjallað um Kjalölduveitu. Henni hafi verið „raðað beint í verndarflokk án umfjöllunar faghópa. Með því má halda því fram að verkefnisstjórn hafi tekið stjórnvaldsákvörðun sem hún er ekki bær að lögum til að taka“.
Með Kjalölduveitu yrði efsti hluti Þjórsár stíflaður og myndað lón, Kjalöldulón vestan Kjalöldu. Vatni yrði dælt úr lóninu yfir í Kvíslaveitu þannig að það nýtist til rafmagnsframleiðslu í þeim virkjunum sem þegar hafa verið reistar á Þjórsársvæðinu ofan Sultartangalóns. Þetta þýðir að rennsli Þjórsár á kaflanum frá Kjalöldulóni að Sultartangalóni myndi rýrna.
Kjalölduveitu er raðað í verndarflokk verkefnisstjórnarinnar með eftirfarandi rökstuðningi: „Að fengnu áliti faghópa 1 og 2 taldi verkefnisstjórn að um væri að ræða breytta útfærslu Norðlingaölduveitu, að sama vatnasvið, Þjórsárver, sé undir í báðum tilvikum og að virkjunarframkvæmdir á þessu landsvæði muni hafa áhrif sem skerði verndargildi svæðisins. Ákvörðun um að setja Norðlingaölduveitu í verndarflokk í verndar- og orkunýtingaráætlun 2013 byggðist fyrst og fremst á sérstöðu og verndargildi svæðisins.
Þrátt fyrir að nafn virkjunarkostsins sé annað, vatnsborð lónsins sé lægra, lónið minna og mannvirki neðar í farveginum hafa framkvæmdirnar áhrif á sama landsvæði og því hefur þessi breytta útfærsla virkjunarkostsins ekki áhrif á þessar grunnforsendur flokkunarinnar.“
Segir grundvallarmun á hugmyndunum
Landsvirkjun telur hins vegar að ákvörðun verkefnisstjórnarinnar hafi verið ólögmæt og óskar eftir að Kjalölduveitu verði raðað í biðflokk, „þannig að hægt verði að leggja virkjunarkostinn fyrir faghópa með lögformlegum hætti“.
Sagði í umsögn fyrirtækisins að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum árið 2017 undirstriki þann „grundvallarmun sem er á Kjalölduveitu og Norðlingaölduveitu“, en mannvirki og lón Kjalölduveitu eru „alfarið utan friðlandsmarkanna“.
Núgildandi rammaáætlun, 2. áfangi, var samþykkt á Alþingi í janúar 2013. Í meðferð umhverfis- og iðnaðarráðherra og Alþingis varð breyting frá þeirri flokkun sem kynnt var í fyrstu drögum að tillögunni. Fimm virkjunarkostir Landsvirkjunar færðust úr orkunýtingarflokki í biðflokk, þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár, Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjun. Af þeim vatnsaflskostum sem Landsvirkjun lagði fram fyrir rammaáætlun röðuðust eingöngu virkjanir á veituleið Blöndu í orkunýtingarflokk. Í biðflokk röðuðust virkjunarmöguleikar í Jökulsám í Skagafirði, í Skjálfandafljóti, í Neðri-Þjórsá og Skrokkölduvirkjun á veituleið Köldukvíslar milli Hágöngulóns og Kvíslaveitu. Einnig röðuðust í biðflokk tvær útfærslur af virkjun Hólmsár. Í verndarflokk Norðlingaölduveita og Tungnárlón auk Bjallavirkjunar.
Af jarðvarmakostum Landsvirkjunar röðuðust virkjanir í Bjarnarflagi, á Kröflusvæðinu og á Þeistareykjum í nýtingarflokk. Hágönguvirkjun og Fremrinámum var raðað í biðflokk en Gjástykki í verndarflokk.
Breyting gerð á flokkun Hvammsvirkjunar
Hinar þrjár áformuðu virkjanir í Þjórsá, Hvammsvirkjun, Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun, sem settar höfðu verið í biðflokk við afgreiðslu Alþingis, voru teknar til sérstakrar umfjöllunar í nýrri verkefnisstjórn þriðja áfanga. Niðurstaðan varð sú að færa eina þeirra, Hvammsvirkjun, í nýtingarflokk sem var og samþykkt af Alþingi.
Í tillögu verkefnisstjórnar 3. áfanga, sem afhent var umhverfisráðherra í ágúst 2016, tillögur sem ráðherrann tók óbreyttar upp og lagði fram til þingsályktunar þá um haustið og verður brátt lögð fram enn einu sinni, eru fjórir nýir virkjanakostir Landsvirkjunar settir í nýtingarflokk: Skrokkölduvirkjun á vatnasviði Köldukvíslar, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun í neðri hluta Þjórsá og vindorkukosturinn Blöndulundur. Ekki var breytt flokkun fjögurra virkjanahugmynda fyrirtækisins í nýtingarflokki: Hvammsvirkjun, virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar, Bjarnarflagsvirkjun og Kröfluvirkjun.
Sex nýir virkjunarkostir Landsvirkjunar sem verkefnsistjórnin hafði til umfjöllunar eru í biðflokki tillögunnar: Tvær útfærslur virkjunar Hólmsár, Stóra-Laxá, Hágönguvirkjun, jarðvarmakosturinn Fremrinámar og vindorkukosturinn Búrfellslundur.
Í verndarflokki tillögunnar eru þrír kostir sem Landsvirkjun lagði fram í Héraðsvötnum: Skatastaðavirkjanir C og D og Villinganesvirkjun. Í þann flokk er ennfremur lagt til að setja fjórar virkjanahugmyndir fyrirtækisins í Skjálfandafljóti: Fljótshnjúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjanir A, B og C. Allir þessir kostir eru flokkaðir í biðflokk í núgildandi rammaáætlun.
Verkefnisstjórn þriðja áfanga lagði svo ekki til breytingar á flokkun fimm kosta sem eru þegar í verndarflokki núgildandi rammaáætlunar. Þar eru hinar fyrrnefndu virkjanir kenndar við Kjalöldu annars vegar og Norðingaöldu hins vegar, báðar á vatnasviði Þjórsár, ein útgáfa Hólmsárvirkjunar, Tungnaárlón og Gjástykki. Ljóst er að ekki verður hróflað við flokkun þriggja þessara virkjanahugmynda þar Guðmundur Ingi Guðbrandsson friðlýsti hluta Hólmsár, Gjástykki og Tungnaá á síðasta kjörtímabili er hann var umhverfisráðherra.