Landvernd

Segja Búlandsvirkjun eiga „fullt erindi í nýtingarflokk“

Að mati HS orku ætti að endurmeta þá þætti sem taldir voru neikvæðir og urðu til þess að Búlandsvirkjun í Skaftá var sett í verndarflokk þingsályktunartillögu að rammaáætlun. Tillagan verður lögð fram á Alþingi í fjórða sinn á næstunni.

Búlands­virkj­un, ein af fáum stórum vatns­afls­kostum ramma­á­ætl­un­ar, ætti fullt erindi í nýt­ing­ar­flokk – alla vega ætti að skoða vand­lega þá þætti sem taldir voru nei­kvæðir og meta á ný. Það eru ekki margir stórir vatns­afls­kostir með góðri miðlun í ramma­á­ætl­unum og full ástæða til að meta sér­stak­lega stöðu þeirra.“

Þetta kemur fram í svörum HS Orku við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um þær virkj­ana­hug­myndir fyr­ir­tæk­is­ins sem voru til umfjöll­unar í þriðja áfanga ramma­á­ætl­unar á árunum 2013-2016. Þeirri vinnu lauk með loka­skýrslu verk­efn­is­stjórnar haustið 2016 og til­lögu að flokkun virkj­ana­kosta sem svo aftur var sett óbreytt fram í til­lögu til þings­á­lykt­unar um áætlun um vernd og orku­nýt­ingu sem Sig­rún Magn­ús­dótt­ir, þáver­andi umhverf­is­ráð­herra, lagði fyrst fram fyrir Alþingi þetta sama haust. Ekki náð­ist að afgreiða hana áður en stjórn­ar­slit urðu í jan­úar 2017. Nýr umhverf­is­ráð­herra, Björt Ólafs­dótt­ir, lagði til­lög­una fram í annað sinn en aftur urðu stjórn­ar­slit og til­lagan enn óaf­greidd.

Þriðji ráð­herr­ann sem lagði til­lög­una fram var Guð­mundur Ingi Guð­brands­son. Hún var fyrst á dag­skrá þings­ins í hans tíð í umhverf­is­ráðu­neyt­inu vorið 2020 og svo aftur á haust­þing­inu það sama ár. En málið bif­að­ist ekki. Nú er komið að fjórða umhverf­is­ráð­herr­an­um, Guð­laugi Þór Þórð­ar­syni, að leggja til­lög­una fram og er hún á dag­skrá þings­ins 31. mars næst­kom­andi.

Það eru því liðin rúm­lega fimm ár frá því að til­lagan að þriðja áfanga ramma­á­ætl­unar var fyrst lögð fram á Alþingi. Núgild­andi ramma­á­ætl­un, 2. áfangi, er orðin níu ára göm­ul, var sam­þykkt á Alþingi í jan­úar árið 2013.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan en ljóst er að ramma­á­ætl­un, sem á að greiða úr ágrein­ingi i sam­fé­lag­inu um virkj­ana- og nátt­úru­vernd­ar­mál, hefur ítrekað strandað í sölum Alþing­is. Stjórn­mála­mönnum hefur ekki lán­ast að afgreiða þriðja áfanga hennar og eftir því sem árin líða vakna spurn­ingar um hvort þeir virkj­ana­kostir sem í henni eru flokk­aðir í ýmist nýt­ing­ar-, bið- eða vernd­ar­flokk, séu yfir­höfuð fýsi­legir í dag, líkt og Skipu­lags­stofnun benti m.a. á í umsögn sinni um til­lög­una fyrir ári síð­an.

Einnig má velta fyrir sér hvort for­gangs­röðun orku­fyr­ir­tækj­anna, sem leggja flesta kost­ina fram til umfjöll­un­ar, hafi breyst á þessum langa tíma. Þá má ekki gleyma að á und­an­förnum árum hafa nátt­úru­vernd­ar­sjón­ar­mið hlotið auk­inn byr í segl­in, ferða­mönnum sem koma hingað til að njóta hinnar sér­ís­lensku nátt­úru fjölg­aði gríð­ar­lega hratt á árunum fyrir heims­far­aldur og lofts­lags­mál, angi umhverf­is­verndar sem fólk telur ýmist kalla á frek­ari virkj­anir eða einmitt ekki, orðin mun fyr­ir­ferð­ar­meiri í allri opin­berri umræðu.

Allir virkjanakostir sem eru í tillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar. Grænn: Nýtingarflokkur. Gulur: Biðflokkur. Rauður: Verndarflokkur.
Skjáskot: Alta.is

Í stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórnar Vinstri grænna, Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks, sem kynntur var síðla síð­asta árs, er að finna lof­orð um að lokið verði við þriðja áfanga ramma­á­ætl­un­ar. Því er hins vegar bætt við, í sömu setn­ingu, að kostum í bið­flokki verði fjölg­að. Frek­ari útskýr­ingar hafa stjórn­völd ekki gefið á hvað standi til og spurn­ingum Kjarn­ans til umhverf­is­ráð­herra hefur enn ekki verið svar­að.

En að fjölga kostum í bið­flokki til­lög­unnar getur aðeins þýtt tvennt: Að kostir verði færðir úr annað hvort vernd­ar­flokki eða nýt­ing­ar­flokki í þann flokk. Nema að hvort tveggja sé. Hægt er að hreyfa við flokk­un­inni svo lengi sem Orku­stofnun hafi ekki gefið út virkj­ana­leyfi fyrir kosti í nýt­ing­ar­flokki eða svæði í vernd­ar­flokki hafi verið frið­lýst.

Horft til suðurs af Hörðubreiðarhálsi á Fjallabaksleið nyrðri og yfir svæðið þar sem áformuð veitumannvirki Búlandsvirkjunar yrðu.
Ingibjörg Eiríksdóttir

Áhrifa­svæði hinnar áform­uðu Búlands­virkj­unar í Skaft­ár­tungu, virkjun Skaft­ár, hefur ekki hlotið slíka frið­lýs­ingu. Mjög var deilt um virkj­un­ar­hug­mynd­ina á sínum tíma og fór þar fremst í flokki Heiða Guðný Ásgeirs­dótt­ir, bóndi á Ljót­ar­stöðum í Skaft­ár­tungu. Stein­unn Sig­urð­ar­dóttir skrif­aði bar­áttu­sögu henn­ar, Heiða – fjall­dala­bónd­inn, sem kom út árið 2016 og vakti athygli jafnt hér á landi og út fyrir land­stein­ana. Heiða á nú sæti í sveit­ar­stjórn Skaft­ár­hrepps og var á síð­asta kjör­tíma­bili vara­þing­maður Vinstri grænna.

Suð­ur­orka, félag sem var og er í helm­ing­seigu HS Orku, stóð að baki áformunum sem miða að því að reisa 150 MW virkjun á vatna­sviði Skaft­ár. Búlands­virkjun myndi fylgja þrjú lón, tvö minni inn­taks- og setlón og 9,3 fer­metra miðl­un­ar­lón á Þor­valdsaur­um. Mesta hæð á stífl­um, sam­kvæmt fram­lögðum til­lögum á sínum tíma, yrði 68 metr­ar. Mann­virki Búlands­virkj­unar yrði í jaðri mið­há­lend­is­lín­unnar og í nágrenni úti­lífsmið­stöðv­ar­innar Hóla­skjóls.

Frá áhrifasvæði Búlandsvirkjunar.
Ingibjörg Eiríksdóttir

Fyr­ir­tækið keypti fyrir mörgum árum rann­sókn­ar­gögn Lands­virkj­unar á svæð­inu og vatns­rétt­indi af mörgum land­eig­end­um, en alls ekki öll­um, líkt og greint var frá í Morg­un­blað­inu árið 2011. „Sumir land­eig­enda hafa lýst því yfir að þeir muni ekki selja þeim land sitt,“ sagði í grein­inni.

Verk­efn­is­stjórn þriðja áfanga ramma­á­ætl­unar rök­studdi þá til­lögu sína að Búlands­virkjun í Skaftá færi í vernd­ar­flokk með eft­ir­far­andi hætti:

Vatna­svið Skaftár er með næst­hæsta verð­mæta­mat allra land­svæða sem fjallað var um í fag­hópi 1 í 3. áfanga. Þá fékk virkj­un­ar­kost­ur­inn hæstu áhrifa­ein­kunn allra virkj­un­ar­kosta sem til umfjöll­unar voru, bæði hjá fag­hópi 1 og fag­hópi 2. Í nið­ur­stöðum fag­hóps 1 kemur fram að Búlands­virkjun mundi hafa í för með sér rof á ein­stæðri jarð­fræði­legri heild og spilla ummerkjum Skaft­ár­elda sem eru ein­stæðar minjar á heims­vísu.

Útsýni frá Fjallabaksvegi yfir fyrirhugað lónsstæði. Mynd: Ingibjörg Eiríksdóttir

Ein­stök linda­svæði gætu raskast, fjöl­breytt búsvæði fiska og smá­dýra mundu eyði­leggj­ast og mikil óvissa er um vatns­rennsli á verð­mæt­ustu búsvæð­un­um. Mikið rask yrði á gróðri og jarð­vegi, auk áhrifa á vist­kerfi og jarð­veg vegna foks úr lón­stæði og far­vegi Skaftár frá inn­takslóni að útfalli. Menn­ing­arminjar væru í hættu, þar á meðal Grana­haugur og Tólfa­hringur sem býður upp á mikla mögu­leika í rann­sókn­um. Einnig yrði mikil skerð­ing á sjón­rænu gildi og fjöl­breytni, auk mik­illa áhrifa á fágætar lands­lags­gerð­ir. Í nið­ur­stöðum fag­hóps 2 kemur fram að nei­kvæð áhrif Búlands­virkj­unar yrðu víð­tæk. Mann­virki fyr­ir­hug­aðrar virkj­unar yrðu rétt við hálend­is­mið­stöð­ina Hóla­skjól en þar er gjarnan upp­haf eða endir göngu­leiða um Fjalla­baks­svæð­ið, svo sem norður til Langa­sjáv­ar, til vest­urs í Þórs­mörk, Heklu eða Land­manna­lauga og að ein­hverju leyti á Laka­svæð­ið.

Búlands­virkjun hefur næst­mest nei­kvæð áhrif á ferða­mennsku og úti­vist af þeim virkj­un­ar­kostum sem til umfjöll­unar eru. Einnig mundi virkj­unin hafa mjög mikil nei­kvæð áhrif á beit­ar­hlunn­indi og umtals­verð nei­kvæð áhrif á veiði, einkum vegna óvissu um áhrif á rennsli um lindir til Gren­lækj­ar, Tungu­lækjar og Eld­vatns. Í þeim eru sér­stakir stofnar sjó­birt­ings sem eru með þeim stærstu hér á landi og gefa umtals­verð veiði­hlunn­indi. Áhrif verða einnig vegna minnk­aðs vatns­rennslis til Tungufljóts.

Í umsögn HS Orku um til­lög­una er hún var lögð fram á Alþingi í annað sinn árið 2017, sagði að telja mætti að til­laga verk­efn­is­stjórnar um að setja Búlands­virkjun í vernd­ar­flokk „byggi á hlut­drægum for­send­um“ fag­hópa. „Bú­lands­virkjun var flokkuð í bið­flokk í ramma­á­ætlun 2 og marg­vís­leg mál­efna­leg rök leiða til þess að í ramma­á­ætlun 3 eigi virkj­un­ar­kost­ur­inn að vera áfram í bið­flokki.“

Þessi afstaða fyr­ir­tæk­is­ins hefur ekki breyst.

Hin ára­langa töf á afgreiðslu Alþingis á til­lögu að ramma­á­ætlun hefur að mati sumra rýrt trú á þetta stjórn­tæki sem átti að nýta til að ná sam­fé­lags­legri sátt um nýt­ingu og vernd nátt­úru lands­ins. Í stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórnar Katrínar Jak­obs­dóttur kemur fram að lög um vernd­ar-og orku­nýt­ing­ar­á­ætl­un, þ.e. ramma­á­ætl­un, verði end­ur­skoðuð frá grunni „til að tryggja ábyrga og skyn­sam­lega nýt­ingu og vernd orku­kosta á Ísland­i“.

Austurengjahver. Virkjunarkosturinn Austurengjar er í nýtingarflokki tillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar.
Ellert Grétarsson

Töfin langa og nú sú stefna rík­is­stjórn­ar­innar að end­ur­skoða lögin frá grunni og fjölga í bið­flokki hefur opnað á marg­vís­legar vanga­veltur um hvaða virkj­ana­kostir í til­lög­unni sem nú verður lögð fram í fjórða sinn af jafn­mörgum ráð­herrum, gætu í með­förum þings­ins færst á milli flokka. Verk­efn­is­stjórnin lagði árið 2016 til átta nýja kosti í nýt­ing­ar­flokk og hreyfði ekki við þeim tíu sem þegar höfðu farið í þann flokk í 2. áfanga. Sam­tals eru því átján kostir í orku­nýt­ing­ar­flokki til­lög­unn­ar, sam­tals 1.421 MW að afli.

Í vernd­ar­flokk bætt­ust við fjögur land­svæði og ekki voru lagðar til breyt­ingar á flokkun sextán kosta sem settir voru í þann flokk í 2. áfanga. Bið­flokk­ur­inn til­lög­unnar telur svo 38 virkj­un­ar­kosti.

Stríðs­yf­ir­lýs­ing

Stjórn Land­verndar segir að um „stríðs­yf­ir­lýs­ingu“ sé að ræða ef ganga eigi gegn áliti fag­að­ila um flokkun í til­lög­unni. Sam­tökin segja að almenn sam­staða hafi verið um að ramma­á­ætlun sé for­senda víð­tæk­ari sáttar um nátt­úru­vernd og virkj­an­ir. „Gangi rík­is­stjórnin gegn þess­ari sátt er sú sátta­við­leitni einskis virð­i,“ var­aði Land­vernd við í yfir­lýs­ingu er stjórn­ar­sátt­mál­inn var kynnt­ur.

Sveifluháls á Krýsuvíkursvæðinu á Reykjanesi er eitt þeirra svæða sem HS Orka áformar að virkja í áföngum og er kosturinn í nýtingarflokki samkvæmt 2. áfanga rammaáætlunar.
Ellert Grétarsson

HS Orka segir í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans að allir virkj­ana­kostir fyr­ir­tæk­is­ins sem finna megi í til­lög­unni séu enn á fram­tíð­ar­á­ætl­unum þess. Eng­inn sé því orð­inn úreltur eða ekki fýsi­legur leng­ur.

Verði til­laga að 3. áfanga ramma­á­ætl­unar „rifin upp“ eins og sumir velta nú fyrir sér, er það von HS Orku að jarð­varma­kost­ur­inn Aust­urengjar á Krýsu­vík­ur­svæð­inu hald­ist í nýt­ing­ar­flokki enda séu mikil sam­legð með því verk­efni og Sveiflu­hálsi sem er í næsta nágrenni og var settur í nýt­ing­ar­flokk 2. áfanga ramma­á­ætl­un­ar. „HS Orka hefði líka viljað sjá Trölla­dyngju í nýt­ing­ar­flokki en ekki bið­flokki, þar sem fyr­ir­tækið hefur þegar borað tvær djúpar rann­sókn­ar­holur og sá fram á borun þriðju hol­unnar áður en verk­efnið var sett í bið­flokk.“

Kjarn­inn mun halda áfram að fjalla um ramma­á­ætlun og þá virkj­ana­kosti sem eru í til­lögu að þriðja áfanga hennar á næst­unni.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar