EPA

Biden reynir að selja Bandaríkjunum að ríkisstjórnin geti gert mikilvæga hluti

Joe Biden hélt fyrstu stefnuræðu sína í gærkvöldi og fagnar 100 dögum í embætti Bandaríkjaforseta í dag. Hann hefur lagt fram tvo nýja efnahagsaðgerðapakka á síðustu vikum sem samanlagt eru verðmetnir á 4 billjónir dollara. Stjórnmálaskýrendur segja sumir að Biden sé að veðja á að Bandaríkjamenn vilji finna meira fyrir ríkisstjórninni í sínu daglega lífi, eftir að hafa notið góðs af stuðningsaðgerðum í faraldrinum.

Í dag eru 100 dagar liðnir frá því að Joe Biden tók við embætti Bandaríkjaforseta. Í gærkvöldi hélt hann sína fyrstu stefnuræðu frammi fyrir Bandaríkjaþingi og fór yfir það sem hann hefur gert hingað til og hvert hann vill stefna.

Ræða Bidens var einnig söluræða, ef svo má segja, fyrir nýjasta efnahagsaðgerðapakkann sem hann vill koma til framkvæmda. Um er að ræða aðgerðir sem stjórn Bidens kallar fjölskylduáætlun, American Families Plan. Útgjöldin sem fjölskylduáætluninni fylgja eru metin á 1,8 billjónir bandaríkjadala, en ein billjón samsvarar þúsund milljörðum.

Auglýsing

Þessi upphæð samsvarar því rúmlega 221 þúsund milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Þessi stjarnfræðilega upphæð bætist ofan á þær áætlanir um innviðauppbyggingu sem Biden kynnti í marsmánuði og eru verðmetnar á 2,3 billjónir dala, sem samsvarar yfir 282 þúsund milljörðum íslenskra króna. New York Times tók í gær saman hvernig útgjöld þessara tveggja áætlana skiptast og má sjá þá greiningu hér.

Vert er að nefna að þessa áætlanir Bidens eru að bætast ofan á þær aðgerðir sem ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur gripið til vegna faraldursins nú þegar, en þar um að ræða meira en 3 billjóna dala aðgerðir sem samþykktar voru í stjórnartíð Donalds Trump og fyrsta stuðningspakka Bidens, sem var verðmetinn á 1,9 billjónir og fól meðal annars í sér 1.400 dala ávísanir sem sendar voru til einstaklinga.

Auglýsing

Ánægja hefur verið með þessar aðgerðir hjá stórum hluta almennings og segja stjórnmálaskýrendur vestanhafs margir hverjir að Biden sé að veðja á að viðhorf Bandaríkjamanna til hlutverks ríkisstjórnarinnar í gangverki efnahagslífsins gæti verið varanlega breytt eftir faraldurinn.

New York Times bendir á í fréttaskýringu sinni um áætlanir Bidens og ræðu gærdagsinskönnun síðasta haust hafi í fyrsta sinn í langan tíma sýnt fram á að fleiri Bandaríkjamenn en færri væru á þeirri skoðun að ríkisstjórnin ætti að gera meira til þess að leysa vandamál landsins. Einnig hafi innviðaáætlun Bidens notið mikils stuðnings á meðal almennings, í skoðanakönnunum.

Fjölskylduáætlun Bidens felur bæði í sér ný útgjöld og skattaafslætti til tekjulægri og drjúgur hluti af fjármagninu á að fara í aðgerðir til þess að auka aðgengi að menntun og umönnun barna.

Stjórnmálaskýrendur Axios segja að þegar umfang áætlana Bidens sé skoðað heildrænt sjáist að hann sé að reyna að láta fólk finna fyrir ríkisstjórninni í lífi sínu, sem björgunarfleyi en ekki bara einhverju óskilvirku apparati sem flæki líf þeirra.

Skattahækkanir á þá ríkustu og hert skattaeftirlit til fjármögnunar

Biden sagði í ræðu sinni í gær að hann ætlaði sér ekki að auka skattbyrðina á millistéttarfólk í Bandaríkjunum. Hann ætli að einbeita sér að því að láta tekjuhæsta fólkið í landinu greiða meira fyrir gangverk samfélagsins.

„Þegar þú heyrir einhvern segja að þeir vilji ekki láta hækka skattana á ríkasta 1 prósentið eða fyrirtæki, spurðu hann: Skattana hjá hverjum ætlar þú að hækka í staðinn?“ sagði Biden í ræðunni.

Á síðustu dögum hafa bandarískir fjölmiðlar greint frá því hvernig Biden ætli sér að fjármagna fjölskylduáætlunina. Eins og Kjarninn fjallaði um síðasta föstudag leggur forsetinn meðal annars til miklar hækkanir á fjármagnstekjuskatti þeirra sem hafa yfir 1 milljón dala í slíkar tekjur og sömuleiðis hækkun á tekjuskattprósentu efsta þreps, þannig að báðar prósentur verði 39,6 prósent.

Einnig leggur forsetinn til að fjárveitingar til bandaríska skattsins, I.R.S. verði auknar verulega og eftirlit með skattabrotum stóraukið í því skyni að fá meira í kassann. Biden horfir til þess að setja 80 milljarða dala fjárfestingu inn í skattinn og áætlanir hans gera ráð fyrir að það skili alríkinu að minnsta kosti 700 milljörðum dala í tekjur, umfram það sem sett er í að bæta skattaeftirlitið.

Auglýsing

Þessar nýjustu áætlanir Biden-stjórnarinnar bætast ofan á áform sem þegar höfðu verið kynnt, meðal annars um að hækka fyrirtækjaskatta úr 21 prósenti upp í 28 prósent og áform sem Bandaríkin standa í stafni fyrir um að ná saman við önnur ríki heims um alþjóðlega fyrirtækjaskatta til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki taki út hagnað sinn á lágskattasvæðum.

„Wall Street byggði ekki þetta land“

Það þarf því ef til vill ekki koma á óvart að í samantekt vefmiðilsins Vox, þar sem álitsgjafar miðilsins lögðu mat á það hverjir væru „sigurvegarar og taparar“ út frá því hvað Biden boðaði í ræðu sinni, var Wall Street talin á meðal tapara.

„Það eru góðir karlar og konur á Wall Street, en Wall Street byggði ekki þetta land. Miðstéttarfólkið byggði upp landið og verkalýðsfélög byggðu upp miðstéttina,“ sagði Biden í ræðunni í gærkvöldi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiErlent