Mynd: 123rf.com

Wall Street græðir á meðan Main Street blæðir

Ef þú ert milljarðamæringur, átt eignir, eða ert bara í góðri vinnu sem þú hélst í yfirstandandi kreppu og getur sinnt í innifötum af heimili þínu eru allar líkur á því að fjárhagur þinn sé að batna í yfirstandandi kreppu. Ef þú vannst í þjónustustörfum, varst á leigumarkaði og áttir lítinn eða engan varasjóð þegar kreppan hófst eru allar líkur á því að þú sért atvinnulaus, að kaupmáttur þinn hafi orðið fyrir verulegu höggi og að leiðin upp úr holunni verði ansi löng og erfið.

Kórónuveirufaraldurinn hefur leitt til mesta samdráttar sem heimurinn hefur upplifað í rúma öld. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í baráttunni við útbreiðslu veiruna, sem fela í sér verulegar takmarkanir á frelsi fólks til vinnu, ferðalaga og annarra athafna sem þóttu áður sjálfsagðar, skila því að ríki heims verða rekin í verulegum halla á þessu ári, og í flestum tilfellum nær örugglega á hinu næsta líka. 

Þessi staða hefur þó mismunandi áhrif á fólk. Í Bandaríkjunum, sem lítur á sig sem leiðtoga hins frjáls heims, átti sér stað verðhrun á mörkuðum í kjölfar þess að forseti landsins, Donald Trump, tilkynnti um að lokað yrði fyrir ferðalög frá Evrópu til Bandaríkjanna þann 12. mars síðastliðinn. Fjórum dögum síðar lækkaði S&P 500 vísitalan bandaríska um tólf prósent innan dags, sem er mesta daglega lækkun hennar frá því í október 1987. Þann dag féll hún um 20 prósent og dagurinn hefur alla tíð síðan verið þekktur sem „Svarti mánudagurinn“.

Þótt markaðurinn hafi verið fyrstur til að bregðast við þá fylgdi restin af efnahagskerfinu í kjölfarið. Fjöldi atvinnulausra í Bandaríkjunum var rétt undir tveimur milljónum í byrjun mars. Þann 9. maí, tveimur mánuðum síðar, var fjöldi þeirra kominn yfir 20 milljónir. 

Auglýsing

Þá hafði hlutabréfamarkaðurinn þegar jafnað sig. Og síðan þá hefur hann að mestu verið á fljúgandi siglingu. Þótt störfum í Bandaríkjunum hafi fjölgað nokkuð síðustu mánuði þá voru enn 12,2 milljónir manna á atvinnuleysisbótum þar í lok september. 

Mismunandi áhrif á „Main Street“ og „Wall Street“

Þessi staða er yfirfæranleg á mörg önnur vestræn samfélög. Launafólk, sérstaklega það sem vinnur í lágt launuðum þjónustustörfum, er að fara verst út út faraldrinum en ríkasta fólkið, og menntaða millistéttin sem hélt vinnunni, tekjunum og getur unnið heima, er að hafa það enn betra en áður í fjárhagslegu tilliti. Þeir hafa sparað sér kostnað við ferðalög, veitingastaði og kaup á annarri vöru eða þjónustu sem þótti kannski hversdagsleg iðja í upphafi árs 2020, en er í dag fjarlægður veruleiki. Vaxtalækkanir og ákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna að lækka vexti niður í lítið sem ekkert og prenta áður óséð magn af peningum sem er síðan dælt aftur inn í efnahagskerfin, hafa skilað þessum hópi, fjárfestum og fjármálafyrirtækjum ódýrara lánsfjármagni og þar með betri kjörum.

Sá munur er þó líka í Bandaríkjunum að þar er ekki jafn sterkt opinbert velferðarkerfi og víða í Evrópu og margir eru með heilbrigðistryggingu í gegnum atvinnuveitanda sinn. Lægra launaði þjónustustarfsmaðurinn sem missir vinnuna er því í mörgum tilvikum líka að missa aðgengi að fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, í miðjum heimsfaraldri. Hann er líka líklegri en aðrir til að vera á leigumarkaði og að lifa frá launaseðli til launaseðils. Finni hann sér ekki fljótt lífsviðurværi á ný er sú staða komin upp að viðkomandi getur ekki greitt fyrir þak yfir höfuðið, og hvað þá fyrir aðrar helstu nauðsynjar.  

Donald Trump mælir ítrekað efnahagslegan árangur Bandaríkjanna eftir gengi hlutabréfamarkaða.
Mynd: EPA

Sama á við um mörg smærri fyrirtæki í Bandaríkjunum, en nýlegar kannanir benda til þess að eitt af hverjum sjö slíkum í landinu hafi lokað fyrir fullt og allt vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta er það sem er kallað „Main Street“ í Bandaríkjunum. Neytendur og lítil fyrirtæki sem hafa mörg hver séð kaupmátt sinn hverfa á síðustu mánuðum. 

Lítill hluti á flest hlutabréfin

Hin hliðin er svo „Wall Street“, stærri fyrirtæki og fjármálaheimurinn sem umlykur þá götu í New York. Kreppan hefur verið góð við „Wall Street“ hingað til, sérstaklega þá sem eiga hlutabréf í tæknifyrirtækjunum sem eru þau verðmætustu í bandarísku kauphöllinni.

Í Bandaríkjunum, líkt og á Íslandi, eiga ríkustu prósentin þorra hlutabréfa, sem hafa verið að hækka. Þar, líkt og hér, er hins vegar stór hluti almennings líka bundinn við gengi hlutabréfa vegna hlutdeildar í lífeyrissjóðum. Því er staðan ekki það einföld að hlutabréfahækkanir gagnist bara þeim ríkustu, þótt þeir taki auðvitað langmest út úr því.

53 prósent af Bandaríkjamönnum eru þátttakendur í hlutabréfamarkaðnum þar, hvort sem það er beint eða í gegnum lífeyrissjóði eða annars konar eftirlauna- eða söfnunarsjóði. Þegar einungis er skoðað eign á hlutabréfum hjá heimilum landsins þá sýna tölur að tíu prósent ríkasta mengið í Bandaríkjunum á 88 prósent þeirra. Ríkasta prósentið á um 50 prósent. Þetta eru afar svipaðar tölur og við sjáum á Íslandi líka þegar eign almennings á verðbréfum er skoðuð.

Milljarðamæringarnir maka krókinn

Milljarðamæringar heimsins hafa einfaldlega orðið ríkari í kreppunni. 

Samkvæmt nýrri úttekt svissneska bankans UBS þá juku þeir einstaklingar sem eiga milljarð dali eða meira eignir sínar um 27,5 prósent frá apríl og fram í júlí, eða þegar kórónuveirufaraldurinn í heiminum var í sinni fyrstu bylgju á vesturlöndum og á sama tíma og tugir milljóna manna var að missa vinnuna eða að reyna að finna leiðir til að draga fram lífið á skertum framlögum úr opinberum úrræðum.

Auglýsing

Eignir þeirra eru nú metnar á 10,2 þúsund milljarði dala, eða rúmlega 1.400 þúsund milljarða íslenskra króna. Til að setja það í samhengi þá eru ætluð útgjöld íslenska ríkisins á ári um þessar mundir um þúsund milljarðar króna. Þessi hópur, sem telur 2.189 manns, á því saman um 1.400 sinnum árleg útgjöld vel efnaðs ríkis með rúmlega 360 þúsund íbúa. 

Fjöldi einstaklinga sem á yfir milljarð dali hefur líka aldrei verið stærri, og telur nú 2.189 einstaklinga. 

V- eða K-laga endurreisn

Þegar mennirnir tveir sem sækjast eftir því að verða næsti forseti Bandaríkjanna, Joe Biden og Donald Trump, voru spurðir út í spár sínar fyrir efnahagslegan viðsnúning í kappræðum þeirra á milli nýverið lýstu þeir nokkuð ólíkum veruleika. Trump, sem hefur haft það að reglu að mæla efnahagslegt heilbrigði eftir stöðu hlutabréfamarkaða, sagði að Bandaríkin væru að fara í gegnum V-laga endurreisn. Í henni felst skörp kreppa (niður) en svo kröftug viðspyrna (upp) þegar botninum væri náð. 

Joe Biden hefur sagt að framundan sé K-laga efnahagsleg endurreisn. Sem er ekki endurreisn fyrir alla.
Mynd: EPA

Biden sagði allt stefna í K-laga endurreisn. Í því felst að hluti landsmanna (þeir sem eiga eignir eða eru í góðri vinnu sem þeir héldu) munu upplifa efnahagslegan upptakt á sama tíma og hinir, sem misstu vinnuna og kaupmáttinn, halda áfram í átt að meira efnahagslegu myrkri. Með öðrum orðum: ef ekki verður gripið í taumana til að stilla af efnahagsbatann þannig að hann dreifist víðar þá muni hann stórauka ójöfnuð. 

Hinir ríku, og þeir sem héldu sinni ágætis vinnu, verða ríkari. En hinir verða mun fátækari. 

Það sem er gott fyrir General Motors...

Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, prófessor í hagfræði við Princeton-háskóla og pistlahöfundur hjá The New York Times, bendir á það í pistli sem birtist á þriðjudag að hlutabréfamarkaðurinn endurspegli ekki endilega efnahagslega velsæld samfélagsins. Þannig hafi Apple til að mynda verið verðmætasta fyrirtæki Bandaríkjanna árið 2019 en, samt unnu einungis um 90 þúsund Bandaríkjamenn hjá því. Virði Apple felst í tækni og markaðsstöðu, ekki í því að vera með marga í vinnu við að búa til hluti. Til samanburðar rifjar Krugman upp að á sjötta áratug síðustu aldar hafi General Motors verið verðmætasta fyrirtæki landsins. Þar hafi unnið um hálf milljón manna, sem myndi vera um 1,5 milljónir manna í dag, og flestir á góðum launum í flestum samanburði. Fullyrðingar um að það sem væri gott fyrir Bandaríkin væri gott fyrir General Motors, og öfugt, átti því betur við þá en um virðismestu fyrirtækin á hlutabréfamarkaði í dag. 

Margt svipað á Íslandi

Margt ofangreint er yfirfæranlegt á Ísland þótt hér sé vitanlega mun öflugra velferðarkerfi rekið til að grípa fólk sem missir heilsu eða vinnu en í Bandaríkjunum. Hér eru yfir 20 þúsund manns án atvinnu og þar af hafa á fjórða þúsund verið á atvinnuleysisskrá í meira en 12 mánuði. Allar spár gera ráð fyrir að atvinnuleysið haldi áfram að vaxa næstu mánuði og færist nær 30 þúsund manns þegar fram líða stundir.

[Sumir hópar verða verr úti en aðrir. Þannig er atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara, sem knúðu áfram hagvöxtinn í ferðaþjónustu hérlendis á síðustu árum með því að ganga í þau þjónustustörf sem þar sköpuðust, nú tæplega 23 prósent. Atvinnuleysi í Reykjanesbæ stefnir í 25 prósent. Alls eru 41 prósent atvinnulausra einungis með grunnskólamenntun að baki og 27 prósent hafa lokið háskólaprófi. Allt þetta fólk þarf að ganga í gegnum þrengingar. Hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta er 456.404 krónur á mánuði. Þegar þeim sleppir taka við grunnatvinnuleysisbætur sem eru 289.510 krónur á mánuði.

Á sama tíma eru þeir sem eiga eignir eða halda vinnu sinni hérlendis að hafa það betra. Auka kaupmátt sinn. Þar spila inn sömu öfl og í Bandaríkjunum. Miklar vaxtalækkanir hafa gert lánsfjármagn ódýrara og því dregið úr fjármagnskostnaði. Á sama tíma hefur húsnæðisverð hækkað, en flestir landsmenn eru með þorra eigna sinna bundnar í húsnæði. Þeir 200 milljarðar króna sem Íslendingar eyddu í útlöndum í fyrra eru nú til notkunar, eða sparnaðar, hérlendis. 

Þá hefur hlutabréfaverð hérlendis jafnað sig verulega frá því sem var í mars, í kjölfar þess að faraldurinn skall af fullum krafti á Íslandi. frá 23. mars og fram til dagsins í dag hefur OMX Iceland 10-vísitalan, sem mælir gengi þeirra tíu félaga í kauphöllinni sem eru með mestan seljanleika á hverjum tíma, hækkað um 38 prósent. 

Meg­in­þorri verð­bréfa sem eru í beinni eigu ein­stak­linga til­heyra þeim tíu pró­sentum lands­manna sem eru rík­ast­ir. Sá hóp­ur, tæp­lega 23 þús­und fjöl­skyld­ur, á 86 pró­sent allra verð­bréfa sem eru í beinni eigu ein­stak­linga. 

Þeim sem lifa á undir 260 krónum á dag fjölgar

Þetta er ekki bara staðan í Bandaríkjunum, Íslandi eða innan ýmissa annarra vestrænna efnahagskerfa. Þetta er líka staðan í alþjóðakerfinu í heild. 

Fyrirliggjandi er að sárafátækt í heiminum mun aukast í ár í fyrsta sinn síðan 1998. 

Kórónuveirufaraldurinn er talin muna, samkvæmt World Bank, ýta um 150 milljón manns til viðbótar í þann flokk þegar næsta ár er liðið, en til að teljast sárafátækur þá þarftu að draga fram lífið fyrir ca. 260 krónur á dag, eða undir átta þúsund krónum á mánuði. Til að setja þá afturför í frekara samhengi má nefna að frá byrjun árs 2015 og út árið 2017 þá komust 52 milljónir manns úr sárri fátækt. Allur sá ávinningur er horfinn aftur undir sárafátækrarmörkin. Og tæplega 100 milljónir manna til víðbótar með honum.

Í stað þess að fjöldi sárafátækra, sem var yfir 35 prósent af heimsbyggðinni í byrjun tíunda áratugarins, færi í fyrsta sinn undir átta prósent íbúa jarðar er búist við því að hann aukist og verði allt að 9,4 prósent.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar