Breska félagið Disruptive Capital, sem hefur lengi unnið að því að leggja sæstreng á milli Bretlands og Íslands, hefur átt í viðræðum við stærsta eiganda orkufyrirtækisins HS Orku um kaup á hlut hans í fyrirtækin. Af kaupunum verður þó líklegast ekki.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa átt sér stað viðræður milli Disruptive Capital og Ross Beaty, aðaleiganda Alterra Power, kanadísks félags sem á tvo þriðju hluta í HS Orku í gegnum sænskt skúffufyrirtæki. Viðræðurnar hafa aldrei verið formlegar, enda Alterra skráð á hlutabréfamarkað í Kanada og þá þyrfti að tilkynna um þær þar til að gæta að jafnræði fjárfesta. Heimildir Kjarnans herma hins vegar að töluverð alvara hafi verið í þeim á tímabili í fyrra en þær síðan dottið upp fyrir. Þráðurinn var tekinn upp í vor og voru þá miklar væntingar um árangur. Nú sé staðan hins vegar sú að litlar líkur séu á því að Disruptive kaupi 66,3 prósent hlut Alterra í HS Orku.
Kjarninn hafði samband við Ross Beaty, starfandi stjórnarformann Alterra Power, vegna málsins. Hann vildi ekki tjá sig um það. Sömu sögu er að segja af fyrirsvarsmönnum Disruptive Capital.
Ross Beaty, starfandi stjórnarformaður Alterra Power, aðaleiganda HS Orku. Hann vill ekki tjá sig um viðræðurnar við Disruptive Capital.
Reyfarakennd saga HS Orku
Miklar væringar hafa verið í kringum eignarhald á HS Orku, sem áður hét Hitaveita Suðurnesja, undanfarin ár. Í upphafi góðærisársins 2007 var fyrirtækið að fullu í eigu sveitarfélaga og íslenska ríkisins. Ríkið ákvað hins vegar að auglýsa 15,2 prósent hlut sinn í fyrirtækinu til sölu í byrjun mars það sama ár. Alls bárust fjögur tilboð. Það langhæsta var frá Geysi Green Energy, orkuútrásarfyrirtæki sem FL Group, Glitnir og Mannvit höfðu þá nýverið stofnað. Aðrir eigendur Hitaveitunnar ákváðu hins vegar að nýta sér forkaupsrétt og reyna þannig að halda fyrirtækinu í opinberra eigu.
Sumarið 2007 náðist málamiðlun í baráttunni um hitaveituna með gerð hluthafasamkomulags. Samkvæmt því áttu Reykjanesbær, Orkuveita Reykjavíkur og Hafnarfjörður að eiga saman aukin meirihluta í fyrirtækinu en Geysir Green Energy 32 prósent. Orkuveitan átti síðan forkaupsrétt á hlut Hafnarfjarðar.
Í október 2007 átti sér svo stað ein umdeildasti viðskiptagjörningur síðari tíma á Íslandi, þegar Geysir Green Energy, orkuútrásarfélag helstu áhættusæknustu fjárfesta á Íslandi sem fjármagnað var að fullu með lánum frá Glitni, átti að sameinast útrásararmi Orkuveitunnar, Reykjavík Energy Invest, betur þekkt sem REI. REI-samruninn gekk hins vegar til baka með látum, eftir að komið hafði í ljós að valdir starfsmenn REI og Orkuveitunnar, sumir með rík tengsl við kjörna borgarfulltrúa, áttu að fá kaupréttarsamninga sem áttu að gera þeim kleift að eignast hluti í sameinuðu félagi á kostakjörum. Málið varð meðal annars til þess að meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur sprakk og Björn Ingi Hrafnsson, sem setið hafði í stjórn REI, myndaði nýjan meirihluta með fyrri minnihluta.
Kanadamennirnir koma
Dramatíkinni og átökunum í kringum Hitaveitu Suðurnesja var hins vegar ekki lokið. Þann 1. janúar 2008 höfðu níu af þeim tíu sveitafélögum sem áttu hlut í félaginu í upphafi árs 2007 annað hvort selt sig út úr fyrirtækinu eða áttu undir eitt prósent hlut. Í desember það ár var ákveðið að skipta Hitaveitunni upp í tvö fyrirtæki, Orku og Veitur. Í millitíðinni varð hrun og allir eigendur Hitaveitunnar urðu fyrir verulegum skakkaföllum. Reykjanesbær, sem átti, og á, í miklum fjárhagskröggum ákvað að selja eignarhlut sinn í HS Orku til Geysis Green Energy. Kanadíska orkufyrirtæki Magma keypti svo, í gegnum sænskt skúffufélag, 10,8 prósent hlut í HS Orku af Geysi Green Energy. Við þau kaup var hlutur í íslensku orkufyrirtæki í fyrsta sinn kominn í eigu erlends aðila. Forstjóri og aðaleigandi Magma var Ross Beaty.
Orkuveita Reykjavíkur, sem var ekki síður í fjárhagskröggum á þessum tíma, seldi líka sinn hlut í HS Orku til Magma haustið 2009, eftir gríðarlegar deilur um sumarið. Ríkisstjórn Íslands reyndi meðal annars að beita sér fyrir því að Magma fengi ekki að kaupa hlutinn. Í maí 2010 keypti Magma svo hlut Geysis Green Energy í HS Orku og átti eftir 98,5 prósent í fyrirtækinu. Geysir Green Energy var þegar þarna var komið við sögu orðið nánast gjaldþrota, enda útrásargleðin liðin, FL Group búið og Glitnir, sem fjármagnaði ævintýrið, farinn kyrfilega á höfuðið ásamt hinum íslensku viðskiptabönkunum. Þegar skiptum á þrotabúi Geysis Green lauk í janúar 2015 kom í ljós að 28,5 milljörðum króna hafði verið lýst í búið. Uppistaða krafnanna var í eigu Íslandsbanka, sem var reistur á grunni Glitnis.
Modum og Stefnir reyna að kaupa
Vorið 2011 keypti Jarðvarmi, félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, 25 prósent hlut í HS Orku. Við það var fyrirtækið ekki lengur að jafn stóru leyti í eigu erlendra aðila. Í febrúar 2012 ákvað Jarðvarmi að auka við hlut sinn í gegnum hlutafjáraukningu og átti eftir það 33,4 prósent hlut. Magma, sem hafði þá breytt nafni sínu í Alterra Power í kjölfar sameiningar við annað félag, og var nú skráð á hlutabréfamarkað í Kanada, átti eftir þetta 66,6 prósent hlut.
Sumarið 2012 reyndi hópur íslenskra fjárfesta, sem samanstóð af Modum Energy og sjóðum í rekstri Stefnis, sjóðsstýringarfyrirtækis Arion banka, að kaupa 66,6 prósent hlut Alterra Power í HS Orku. Ef af kaupunum yrði átti síðan að stefna að því að skrá HS Orku á íslenskan hlutabréfamarkað. Viðræðurnar voru það alvarlegar að tilkynnt var um þær til kauphallarinnar í Toronto, þar sem Alterra er skráð, í júní 2012.
Modum Energy, sem leiddi hópinn, var stofnað í febrúar 2012. Fyrir félaginu fara Alexander K. Guðmundsson og Eldur Ólafsson. Alexander var forstjóri Geysis Green Energy, sem var um nokkurt skeið stærsti eigandi HS Orku, þar til janúar 2012 Unnið hafði verið að hinum mögulegu kaupum frá því í janúar 2012. Í janúar 2013 var hins vegar greint frá því í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipta og efnahagsmál, að viðræðunum væri lokið án árangurs.
Sæstrengsáhugamenn vildu orkufyrirtæki
Síðan að viðræðunum við Modum lauk hefur ekkert heyrst um mögulegar breytingar á eignarhaldi HS Orku. Kjarninn hefur hins vegar heimildir fyrir því að Dispruptive Capital, sem hefur haft lagningu sæstrengs á milli Íslands og Bretlands á teikniborðinu í lengri tíma, hafi átt í viðræðum við Alterra Power um möguleg kaup á eignarhlut þess síðarnefnda í HS Orku.
Disruptive Capital hefur lengi unnið að verkefni sem félagið kallar „Atlantic Superconnection“ og snýst um að leggja eitt þúsund kílómetra langan sæstreng mili Íslands og Bretlands sem á að færa um tveimur milljónum breskra heimila um 1,2 gígavött af sjálfbærri íslenskri orku. Disruptive Capital segist ennfremur geta fjármagnað allt verkefnið ef vilji sé til þess. Þ.e. lagningu strengsins, styrkingu orkuflutningakerfisins, stækkun og byggingu virkjana og svo framvegis. Stjórnarformaður Disruptive Capital er Edmund Truell.
Charles Hendry, fyrrum orkumálaráðherra Bretlands, hefur unnið sem ráðgjafi fyrir þá aðila sem vilja leggja sæstreng til Íslands.
Einn þeirra sem unnið hefur að verkefninu sem ráðgjafi félagsins er Charles Hendry, fyrrum orkumálaráðherra Bretlands. Hann kom meðal annars til Íslands í apríl síðastliðnum og hélt erindi á opnum fundi Kjarnans og Íslenskra verðbréfa um raforkusæstreng milli Bretlands og Íslands. Þar ræddi Hendry um afstöðu Breta til sæstrengs.
Samkvæmt heimildum Kjarnans áttu sér stað viðræður fyrir um tíu mánuðum síðan sem leiddu ekki til niðurstöðu. Ljóst er að viðræðurnar voru ekki komnar á þann stað að Alterra taldi nauðsynlegt að tilkynna um þær til kauphallarinnar í Toronto. Snemma á þessu ári áttu sér síðan stað endurnýjaðar viðræður sem miklar vonir voru bundnar við að myndu skila niðurstöðu. Heimildir Kjarnans herma að svo hafi ekki verið og að viðræðum sé nú að öllu leyti lokið.
HS Orka vill losna undan orkusölusamningi
Það verður að teljast augljóst að áhugi Disruptive Capital á HS Orku tengist lagningu sæstrengs. Það þyrfti enda að auka orkuframleiðslu á Íslandi til að slíkur gæti borið sig.
HS Orka er reyndar bundin af orkusölusamningi sem fyrirtækið gerði við Norðurál í apríl 2007 vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík. HS Orka hefur reynt að losna undan þeim orkusölusamningi, sem er upp á 150 megavött, enda getur fyrirtækið ekki selt þá orku til annars kaupanda á meðan að samningurinn er í gildi. Gerðardómur í Svíþjóð komst nefnilega að þeirri niðurstöðu í desember 2011 að HS Orku væri ekki skuldbundið til að standa við samninginn nema hann skilaði fyrirtækinu viðunandi arðsemi. Það telur HS Orka ekki að hann gerði og neitar því að ráðst í framkvæmdir til að tryggja álverinu umrædda orku.
Þar sem engin sýnileg lausn er á vandanum, og móðurfélag Norðuráls virðist heldur ekki hafa mikinn áhuga á að byggja álver í Helguvík, greip HS Orka til þess ráðs í fyrrasumar að hefja gerðardómsferli til að losna alfarið undan orkusölusamningunum við Norðurál, sem var undirritaður fyrir rúmum átta árum. Samkvæmt nýjasta árshlutareikningi HS Orku er búist við að niðurstaða liggi fyrir í apríl 2016.
Verði hún HS Orku hagstæð gæti það þýtt að fyrirtækið verði mun söluvænlegra, enda ekki bundið í óhagkvæmum orkusölusamningi. Viðmælendur Kjarnans sem þekkja vel til í orkugeiranum segja að Ross Beaty hafi staðið mjög fast í lappirnar við að losa HS Orku undan þessum samningi, og að það gæti orðið mikil gæfa fyrir íslenska orkugeirann gangi það upp.