Það drýpur ekki smjör af hverju strái allra danskra bænda um þessar mundir. Fimmtán prósent þeirra eru í raun gjaldþrota og stór hópur til viðbótar stendur mjög tæpt.
Fyrir nokkrum dögum kom út ný skýrsla Rannsóknaseturs danska landbúnaðarins og þar er dregin upp dökk mynd af efnahagsástandi danskra bænda. 1700 bændur (15.4 prósent) eru í raun gjaldþrota og eru algjörlega upp á náð bankans komnir og 700 til viðbótar eru mjög illa settir og sá hópur sem þannig er ástatt um fer ört stækkandi. Í árslok 2012 námu skuldir danskra bænda hjá viðskiptabönkunum 352 milljörðum danskra króna (u.þ.b.7220 milljörðum ísl) og þótt ekki liggi fyrir endanlegar tölur vegna síðastliðins árs er ljóst að skuldirnar jukust og á þessu ári hefur enn syrt í álinn. 352 milljarðar jafngilda nær fjórföldum árstekjum landbúnaðarins, skuldirnar eru því langtum meiri en búreksturinn getur með nokkru móti staðið undir. Svína-og nautgripabændur, kornframleiðendur og minkabændur eru verst settir.
"Klaus Kaiser höfundur áðurnefndrar skýrslu um danskan landbúnað segir að “ástandið sé svo slæmt að veruleg hætta sé á alvarlegri kreppu í dönskum landbúnaði”. Stór hópur bænda megi ekki við neinum skakkaföllum, svigrúmið ekkert, eins og skýrsluhöfundur orðar það".
Vandamálið ekki nýtt af nálinni
Fjárhagsvandinn í dönskum landbúnaði er ekki nýtilkominn. Á undanförum áratugum hafa bændur margsinnis staðið frammi fyrir miklum erfiðleikum í búrekstrinum, núna er vandinn þó meiri en nokkru sinni fyrr. Skuldabagginn sem bændur burðast nú með má að hluta rekja til fjármálakreppunnar 2008. Í kjölfar hennar lentu margir margir bændur í erfiðleikum, fengu lán til að halda rekstrinum gangandi og skuldirnar tóku að hrannast upp. Síðan hefur jafnt og þétt sigið á ógæfuhliðina, fyrir einu ári var tæplega fimmta hvert bú rekið með halla, í dag stendur þriðja hvert bú ekki undir rekstrinum. Klaus Kaiser höfundur áðurnefndrar skýrslu um danskan landbúnað segir að “ástandið sé svo slæmt að veruleg hætta sé á alvarlegri kreppu í dönskum landbúnaði”. Stór hópur bænda megi ekki við neinum skakkaföllum, svigrúmið ekkert, eins og skýrsluhöfundur orðar það.
Kreppan er ekki eina orsökin
Þótt fjármálakreppan 2008 hafi komið illa við bændur er hún langt í frá eina ástæða þess hvernig komið er. Sú ákvörðun Rússa að stöðva innflutning landbúnaðarvara frá löndum Evrópusambandsins hefur komið mjög illa við danskan landbúnað. Kínverjar, sem nú eiga miklar birgðir matar, hafa dregið úr innkaupum frá Danmörku, aukin matvælaframleiðsla víða um heim veldur verðlækkun og minni eftirspurn.
Snemma á þessu ári hættu margar sænskar verslanir (þar á meðal ICA fyrirtækið sem rekur 1350 verslanir) að kaupa danskt svínakjöt. Ástæður þess að Svíar hættu að miklu leyti innflutningi á dönsku svínakjöti má rekja til frétta um að í Danmörku séu flestir aligrísir halaklipptir (til að koma í veg fyrir sýkingu) og einnig ótta við hina svonefndu MRSA bakteríu (nefnd MOSA á íslensku). Baktería þessi er nokkuð algeng í svínum í Danmörku en er í flestum tilvikum skaðlaus fullhraustu fólki. Danir sjálfir virðast kæra sig kollótta um þetta bakteríutal, stærstur hluti þeirra horfir fyrst og fremst á verðmiðann þegar keypt er inn.
Á næsta ári fellur úr gildi mjólkurframleiðslukvóti Evrópusambandsins og þá má fastlega búast við að verð til bænda lækki, en Danir hafa haft mjög stóran kvóta og notið góðs af. Margir bændur hafa líka lagt í mikinn kostnað vegna endurnýjunar véla-og húsakosts, að hluta til vegna hertra krafna stjórnvalda. Fleira mætti og nefna sem reynst hefur bændum mótdrægt.
Hvað er til ráða?
Þeirri spurningu er ekki svarað í landbúnaðarskýrslunni. Danskir fjölmiðlar hafa hinsvegar rætt við ýmsa sérfræðinga og þeir eru á einu máli um að einhvers konar skuldaniðurfelling eða afskriftir séu eina lausnin. Peningastofnanirnar hafi lánað féð og þeirra sé því ábyrgðin. Þrátt fyrir að slíkar aðgerðir kosti viðkomandi banka stórfé sé það þó skárri kostur en að keyra bændur í þrot. Bæði fyrir banka og bændur.
Ekki allir bændur á kúpunni
Í þessari nýútkomnu skýrsla Rannsóknarstofnunar danska landbúnaðarins er líka ýmislegt jákvætt að finna. Stór hluti bænda virðist hafa mjög þokkalega afkomu og horfa með bjartsýni fram á veginn. Í þeim hópi eru einkum þeir sem rækta grænmeti og ávexti ásamt alifuglabændum. Skýringarnar á betri afkomu í þessum greinum má, að sögn skýrsluhöfundar, rekja til einfaldari rekstrar og minni tilkostnaðar. Líka er bent á að Danmörk sé gott landbúnaðarland, danskar landbúnaðarafurðir séu undantekningalítið í háum gæðaflokki og hafi á sér gott orð (þrátt fyrir MSRA bakteríuna í svínum). Ýmsar þjóðir sækist mjög eftir dönskum matvörum og þar eru Kínverjar sérstaklega nefndir.
Í Kína eykst kjötneysla mjög hratt og danskar kjötvinnslur eiga nú þegar fullt í fangi með að anna eftirspurninni eftir svínakjöti. Í einu útbreiddasta dagblaði Kína var fyrir skömmu löng umfjöllun um danskan landbúnað, þar var dönsku svínakjöti hrósað í hástert. Blaðamaðurinn sagði að danska beikonið bráðnaði hreinlega á tungunni, “tekur öllu fram!”
Sömu sögu er að segja um mjólkina, Kínverjar vilja kaupa alla þá dönsku mjólk sem þeir geta komið höndum yfir og munar um minna. “Danska mjólkin er sú langbesta” var samdóma álit kínverskra sérfræðinga sem prófuðu og rannsökuðu mjólk frá fjölmörgum þjóðum á matvælaráðstefnu sem haldin var í Beijing fyrir nokkru. Hvort þessi aukni áhugi risaþjóðarinnar í austri skili sér á endanum í vasa danskra bænda er hins vegar ósögð saga.