Alls nam stuðningur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar á þessu ári 11,6 milljörðum króna. Það er næstum 1,2 milljarði krónum meira en hann var árið 2021. Af þeirri upphæð sem veitt var í stuðningsgreiðslur í ár voru 10,9 milljarðar króna í formi endurgreiðslna og 715 milljónir króna vegna skuldajöfnunar á móti tekjuskatti. Endurgreiðslurnar voru um 5,2 milljarðar króna árið 2019, 2,1 milljarður króna árið 2016 og 1,3 milljarður króna 2015. Þær hafa því aukist um 6,4 milljarða króna frá 2019, um 9,5 milljarða króna frá 2016 og 10,3 milljarða króna frá árinu 2015.
Þetta kemur fram á heimasíðu Skattsins.
Alls fengu 267 fyrirtæki stuðninginn í ár en þeir voru 264 á síðasta ári. Þeim fjölgar því um þrjú. Alls fengu 36 fyrirtæki bæði skuldajöfnun og endurgreiðslu í álagningu ársins 2022 en þeir voru 44 árið 2021. Þeim fækkar því um átta.
Nýsköpunarverkefni sem hlotið hafa staðfestingu frá Rannís eiga rétt á sérstökum skattfrádrætti vegna rannsókna og þróunar. Með opinberum stuðningi er átt við skattfrádrátt og styrki frá opinberum aðilum, samanlagt. Njóti verkefnið opinberra styrkja hafa þeir áhrif á fjárhæð skattfrádráttar sem fæst endurgreiddur. Endurgreiðsluhlutfallið er 35 prósent í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en 25 prósent í tilviki stórra fyrirtækja. Hámark skattafrádráttar er 385 milljónir króna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og 275 milljónir króna hjá stórum fyrirtækjum.
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gengið út frá því að endurgreiðslu vegna rannsóknar og þróunar verði 11,8 milljarðar króna. Samkvæmt frumvarpi sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram og dreift var á þingi á þriðjudag, á ekki að gera endurgreiðslurnar varanlegar heldur framlengja þær út árið 2025. Þar segir að búast megi við því að kostnaður ríkissjóðs verði 14,5 milljarðar króna árið 2024 og 15,3 milljarðar króna árið 2025.
Stuðningskerfi við nýsköpunarfyrirtæki er til skoðunar og úttektar af Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og er niðurstöðu hennar að vænta á árinu 2023.
Controlant fékk 385 milljónir króna í stuðning
Á heimasíðu Skattsins er birt yfirlit yfir þau fyrirtæki sem fengu stuðning úr ríkissjóði. Þar kemur fram að hæsti einstaki styrkurinn, 385 milljónir króna, hafi farið til Controlant, sem þróar tæknilausnir sem hjálpa til við að viðhalda gæðum viðkvæmra vara í geymslu og flutningi á milli staða.Það er hæsta mögulega greiðsla sem hægt er að fá endurgreitt vegna skattafrádráttar.
Tekjur Controlant hafa margfaldast á örfáum árum. Þær voru 166 milljónir króna árið 2017 og 410 milljónir króna árið 2019. Í fyrra voru þær hins vegar 8,9 milljarðar króna, ef miðað er við gengi Bandaríkjadals í lok árs 2021. Á þessu ári gerir fyrirtækið svo ráð fyrir að ná um 15 milljörðum króna í tekjur.
Þennan gríðarlega tekjuvöxt má að miklu leyti rekja til samninga Controlant við alþjóðleg lyfjafyrirtæki, líkt og Merck, Roach og GlaxoSmithKline. Stærsti bitinn er þó líklega viðskipti félagsins við Pfizer, sem framleiðir eitt af vinsælustu bóluefnunum gegn COVID-19.
CCP fær alls 550 milljónir í tveimur skömmtum
Fyrirtækið Coripharma er í öðru sæti yfir stakar stuðningsgreiðslur úr ríkissjóði vegna endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar með 342 milljónir króna. LS Retail, sem fékk hæsta einstaka styrkinn 2021, er í þriðja sæti með 340 milljónir króna.
Það fyrirtæki sem fær þó mest endurgreitt frá Skattinum vegna rannsóknar- og þróunarstarfa er tölvuleikafyrirtækið CCP. Það hefur fengið tvöfalda endurgreiðslu á undanförnum árum þar sem fyrirtækið skiptir rannsóknar- og þróunarkostnaðinum af starfsemi sinni upp í tvö félög. Hið sama er uppi á teningnum í ár, CCP fær 275 milljóna króna frádrátt í gegnum félagið CCP ehf. og aðra jafnháa upphæð í gegnum félagið CCP Platform ehf. Því fær CCP-samsteypan 550 milljónir króna í endurgreiðslu í ár, sem er sama upphæð og hún fékk í fyrra. CCP flokkast sem stórt fyrirtæki og getur því ekki fengið hærri styrki en þá sem samsteypan fær.
Origo, sem er skráð í Kauphöll Íslands, fékk jafn mikinn skattaafslátt og Controlant ef talinn er með stuðningur til Tempo sem félagið átti tæplega 40 prósent hlut í þar til nýlega, en Origo seldi þann hlut á um 28 milljarða króna i október. Hluthafar Origo hafa þegar samþykkt að greiða sér út 24 milljarða króna vegna þessa, en það verður gert 1. desember næstkomandi samhliða því að hlutafé í Origo verður lækkað um næstum 68 prósent.
Alls fengu 44 fyrirtæki yfir 75 milljónir króna í endurgreiðslu í ár. Það eru sex fleiri en í fyrra.
Af þeim fyrirtækjum sem koma ný inn á listann yfir þau sem fá meira en 75 milljónir króna fær DTE, sem hefur undanfarin ár unnið að þróun lausnar til þess að efnagreina ál í fljótandi formi og gefa niðurstöður í rauntíma, mest eða 191 milljón króna. Þá fær smásölurisinn Festi, sem er skráður á markað og rekur meðal annars N1, Krónuna og ELKO, 105 milljónir króna.
Hægt er að sjá listann yfir þau 44 fyrirtæki sem fengu mestan stuðning úr ríkissjóði hér.
Sögðu ýmsa telja fram rekstrarkostnað sem nýsköpun
Í fyrravor var frumvarp sem Viðreisn lagði fram um að gera endurgreiðslurnar varanlegar til umfjöllunar á þingi. Á meðal þeirra sem skiluðu umsögn um það var Skatturinn. Hann hafði ýmislegt við áformin að athuga. Í umsögninni sagði að framkvæmd sú sem snerti nýsköpunarstyrki væri afar flókin þar sem erfitt geti verið að skilja á milli venjubundins rekstrarkostnaðar og kostnaðar vegna nýsköpunarverkefna. Á stundum þurfi sérhæfða þekkingu til að skilja þar á milli.
Reynslan af úthlutun nýsköpunarstyrkja úr ríkissjóði hafi sýnt „að ekki er vanþörf á eftirliti með þessum málaflokki þar sem nokkur brögð hafa verið að því að við skattskil hafi almennur rekstrarkostnaður og kostnaður sem telja verður að tilheyri frekar eðlilegum endurbótum á fyrirliggjandi afurð sem viðkomandi fyrirtæki hefur tekjur af verið færður undir kostnað vegna staðfestra nýsköpunarverkefna.“
Í ljósi alls þessa taldi Skatturinn „óvarlegt að gera ráðstafanir sem ljóst þykir að muni leiða til aukins umfangs málaflokksins til frambúðar, og aukinna endurgreiðslna úr ríkissjóði, án þess að hugað sé að því hvernig styrkja megi viðeigandi regluverk í því skyni að einfalda og styrkja umrædda framkvæmd. Slíkar breytingar væru jafnframt til þess fallnar að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika gagnvart skattaðilum.“
Frumvarpið hlaut ekki brautargengi á síðasta kjörtímabili.