Rússneskir valdhafar hafa í gegnum tíðina verið sakaðir af vesturveldunum um vantraust og að þola illa gagnrýni. Eftir að Vladimír Pútín forseti landsins hóf að undirbúa innrás í Úkraínu hefur staða þeirra sem áður nutu góðs af fylgi sínu við hann en hafa leyft sér að efast um tilefnið eða ekki stutt hann með ráðum og dáð veikst verulega. Og spurningar hafa vaknað um hvort að dauðsföll auðmanna, svonefndra ólígarka, síðustu mánuði séu aðeins tilviljun. Þetta er ekki einsleitur hópur nýlegra gagnrýnenda Pútíns, svo vitað sé. Sumir voru enn hliðhollir honum, höfðu að minnsta kosti ekki opinberlega gagnrýnt hann. En aðrir höfðu sagt, jafnvel hátt og skýrt og opinberlega, að það væri rangt að ráðast inn í Úkraínu.
Þannig var því farið með Ravil Maganov, stjórnarformann Lukoil, stærsta olíu- og gasfyrirtækis Rússlands sem ekki er lengur í ríkiseigu. Maganov og aðrir stjórnendur fyrirtækisins gagnrýndu innrásina og kröfðust þess opinberlega að endir yrði bundinn á stríðsreksturinn.
Maganov lést í síðustu viku. Tvennum sögum fer af andláti hans. Í yfirlýsingu Lukoil segir að hann hafi látist eftir „alvarleg veikindi“ en ríkisrekna fréttastofan TASS segir hann hafa fallið út um glugga á sjúkrahúsi í Moskvu. Nánar tiltekið af sjöttu hæð. Því var einnig haldið fram að hann hefði hrasað og fallið er hann ætlaði að fá sér sígarettu. Sígarettupakki í gluggakistunni er sagður styðja þá kenningu. Einnig hefur komið fram að lögreglan telji að um sjálfsvíg hafi verið að ræða.
Maganov er áttundi rússneski kaupsýslumaðurinn sem hefur látist við dularfullar kringumstæður frá því í janúar og sjötti valdamaðurinn sem tengdist tveimur stærstu orkufyrirtækjum Rússlands, ríkisfyrirtækið Gazprom, sem miklar spillingarsögur fara af, og Lukoil.
Maganov er ekki fyrsti yfirmaður Lukoil sem hefur dáið nýverið með sviplegum hætti. Aleksandr Subbotin, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins, fannst látinn í kjallara húss í úthverfi Moskvu í maí. Fjölmiðlar sögðu húsið hafa verið í eigu græðara sem kallaði sig Shaman Magua. Magua bauð fólki einhvers konar hreinsunarmeðfeðrir.
Magua, sem heitir réttu nafni Aleksei Pindurin, er samkvæmt fjölmiðlum sagður hafa upplýst við skýrslutökur að Subbotin hefði verið undir áhrifum fíkniefna og áfengis er hann kom að heimili hans og hefði krafist þess að fá hreinsunarmeðferð við þynnku.
Lögreglan sagði að Subbotin, sem var milljarðamæringur og áhrifamaður mikill, hefði látist úr hjartabilun.
#Russian Oligarch Who Died Since 2022
— Saida Zahidova (@Saida_Zahidova) May 2, 2022
1. Leonid Shulman: Gazprom Manager
2. Sergey Protosenya: Gazprom manager
3. Vladislav Avaev: Gazprombank vice-president
4. Vasily Melnikov: Cro-medical firm MedStom
5. Mikhail Watford: Gas&Oil industry
6. Alexander Tyulyakov: Gazprom Manager pic.twitter.com/hv0rTgiWWM
Í lok janúar fannst Leonid Shulman, yfirmaður innviðafjárfestinga hjá Gazprom Invest, örendur á baðherbergisgólfi sveitaseturs í nágrenni St. Pétursborgar. Ríkisrekna fréttastofan RIA sagði lögregluna segja að um sjálfsvíg hefði verið að ræða. Bréf hefði fundist hjá líkinu þar sem Shulman er sagður hafa skrifað að þjáningar vegna meiðsla á fæti hafi orðið honum offviða. Miklar efasemdir hafa vaknað um þessar útskýringar og bent hefur verið á að Shulman hafi vegna starfa sinna fyrir Gazprom búið yfir mikilvægum upplýsingum um vafasama viðskiptahætti fyrirtækisins.
Alexander Tyulakov, fjármálastjóri hjá Gazprom, fannst hengdur í bílskúr við heimili sitt í St. Pétursborg 25. febrúar, daginn eftir að rússneskar hersveitir ruddust inn í Úkraínu. Einkarekna dagblaðið Novaya Gazeta hafði eftir heimildarmönnum innan lögreglunnar að öryggissveit á vegum Gazprom hefði mætt á vettvang á sama tíma og lögreglan.
Morð og sjálfsvíg
Vladislav Avayev, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Gazprom-banka, stærsta einkarekna banka Rússlands og þriðja stærsta banka landsins, fannst látinn í apríl í íbúð sinni í Moskvu ásamt eiginkonu sinni og dóttur. Önnur dóttir Avayev kom að fjölskyldu sinni látinni. Opinberir aðilar héldu því fram að hann hefði myrt mæðgurnar og svo tekið eigið líf og sögðu þeirri kenningu til stuðnings að byssa hefði fundist í hönd Avayev. Um þetta hafa fyrrverandi samstarfsmenn hann efast og minna á að Avayev hafi áður verið ráðgjafi Pútíns.
„Hans starf fólst í einkabankaþjónustu sem þýddi að hann átti í samskiptum við mjög mikilvæga viðskiptavini,“ sagði Igor Volobuev, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Gazprombank við CNN. „Hann var ábyrgur fyrir gríðarlegum peningafjárhæðum. Þannig að, drap hann sig? Ég held ekki. Ég held að hann hafi vitað eitthvað og þess vegna hafi hann verið ógn.“
Sergei Protosenya, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Novatek, stærsta gasframleiðanda Rússlands, fannst látinn í sumarhúsi sínu á Spáni um miðjan apríl. Lík eiginkonu hans og dóttur voru einnig í húsinu. Málið er sannarlega óhugnanlegt því mæðgurnar höfðu verið stungnar til bana og Protosenya var hengdur.
Rússlensk yfirvöld sögðust telja að um morð og sjálfsvíg hafi verið að ræða en því hefur sonur hjónanna og vinir þeirra hafnað og segjast telja að morðvettvangurinn hafi verið sviðsettur.
Lögreglan í Katalóníu er enn að rannsaka dauðsföllin.
Vladimir Lyakishev, eigandi Bratya Karavayevi-veitingahúsakeðjunnar, fannst látinn 4. maí. Rússlenski ríkisfjölmiðillinn RBC segir að hann hafi látist af skotsári úti á svölum íbúðar sinnar.
Júrí Voronov, stofnandi og stjórnarformaður skipafélagsins Astra-Shipping, sem er með rík viðskiptatengsl við Gazprom, fannst látinn í sundlaug. Rússneskir fjölmiðlar segja skotsár hafa verið á líki hans og að byssa hafi fundist á staðnum.
Viðskiptajöfurinn Mikhail Watford, sem fæddur var í Úkraínu, fannst látinn í Surrey í Bretlandi aðeins nokkrum dögum eftir að Rússar gerðu innrásina. Hann stundaði viðskipti með olíu og gas í Rússlandi og hafði einnig komið sér upp veglegu fasteignasafni í London. Yfirvöld sögðu dánarorsök vera hengingu.
Rannsókn á andláti hans stendur enn yfir.
Varhugaverðir gluggar
Eftir lát Maganovs fóru líka margir að velta fyrir sér hvers vegna það gerðist reglulega að rússneskir mektar- og embættismenn féllu til bana út um glugga.
Nokkur dæmi:
Í október í fyrra féll rússneskur erindreki út um glugga á rússneska sendiráðinu í Berlín og lést. Þýskum fjölmiðlum reyndist erfitt að komast að því hver hann var en rannsóknarfjölmiðillinn Bellingcat taldi að um hefði verið að ræða Kirill Zhalo, son Alexei Zhalo sem var yfirmaður hjá FSB, stofnun sem var að miklu leyti arftaki leyniþjónustunnar KGB.
Í desember í fyrra féll Yegor Prosvirnin, sem stofnaði þekktar bloggsíður um rússnesk stjórnmál, til bana út um glugga á fjölbýlishúsi í Moskvu. Prosvirnin hafði stutt Pútín í því að innlima Krímskaga árið 2014 en hóf síðustu ár að gagnrýna hann harðlega og spá því að borgarastyrjöld væri í uppsiglingu í Rússlandi.
Um miðjan ágúst í ár fannst lík Dan Rapoport fyrir framan lúxus-fjölbýlishús í Washington-borg. Hann var lettneskur og bandarískur ríkisborgari, hafði starfað hjá fyrirtækjum í eigu Rússa og verið fjármálaráðgjafi í sameiginlegu olíuverkefni Rússa og Bandaríkjanna í Síberíu.
Rapoport hafði efnast gríðarlega og verið í náum tengslum við stjórnvöld í Kremlin en féll úr náðinni hjá Pútín er hann hóf að styðja stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní.
Lögreglan í Washington er enn að rannsaka andlát hans.
Læknar hrapa
Viðskiptafélagi Rapoports lést einnig eftir fall út um glugga á fjölbýlishúsi í Moskvu árið 2017.
Í COVID-faraldrinum féllu að minnsta kosti fjórir heilbrigðisstarfsmenn, þar af þrír læknar, út um glugga í Rússlandi á stuttu tímabili, frá apríl til maí árið 2020. Aðeins einn þeirra lifði af. Stjórnvöld í Rússlandi héldu þétt að sér spilunum varðandi umfang faraldursins á þessum tíma en líkt og annars staðar í heiminum var fyrsta bylgjan mjög skæð og gríðarlegt álag á öllu heilbrigðisstarfsfólki.
Að endingu má nefna andlát rússneska vísindamannsins Alexander Kaganskí í desember 2020. Á þeim tíma var hann að vinna að þróun bóluefnis gegn COVID-19. Hann er sagður hafa fallið út um glugga á háhýsi sem hann bjó í í St. Pétursborg. Lögreglan hélt því fram að hann hefði stungið sjálfan sig og svo stokkið út um gluggann.
In today’s #ReadingRussia, the “monstrous sentence that aims to scare journalists” (Ivan Safronov sent to prison for 22 years). Plus, what the Russian papers are saying about Britain’s new Prime Minister, Liz Truss? https://t.co/8ObPFDtjY3 @BBCNews @BBCWorld @BBCPolitics pic.twitter.com/LQocl6qJpa
— Steve Rosenberg (@BBCSteveR) September 6, 2022
Að segja frá hvað gengur á í Rússlandi er ekki einfalt fyrir þarlenda blaðamenn. Dæmin sýna að það það getur verið hættulegt að starfa við það fag að segja fréttir eins og þær eru – fréttir sem stjórnvöld vilja síður að séu sagðar. Nýjasta dæmið er um blaðamanninn Ivan Safronov. Hann var nýverið dæmdur til 22 ára vistar í öryggisfangelsi fyrir föðurlandssvik. Hann er sakaður um að hafa lekið ríkisleyndarmálum en gögnin voru hins vegar dómsskjöl sem engin leynd hvíldi yfir, segir fréttaritari BBC í Moskvu. Raunveruleg ástæða þess að hann var dæmdur í fangelsi sé augljós: Hann skrifaði greinar um rússneska herinn. „Þetta er harðasta refsing fyrir landráð í nútímasögu Rússland,“ sagði í leiðara eins rússensks dagblaðs. „Ivan myrti engan. Ef hann hefði gert það hefði hann fengið vægari dóm.“
Greinin er byggð á fréttum og fréttaskýringum nokkurra vestrænna fjölmiðla: BBC, Reuters, AP, Newsweek o.fl.