Ef við værum í Írak yrði þér boðið te,“ segir Abdulrahman Aljouburi um leið og hann hellir sjóðandi vatni yfir Neskaffi-duft í bolla. Bætir svo hlæjandi við: „Þú yrðir ekki einu sinni spurð!“
Það eru rúm átta ár síðan hann lagði á flótta frá Írak, þá nítján ára gamall. Síðan þá hefur hann verið á hrakhólum, farið frá einu landi til annars í leit að því sem hann þráir mest: Öryggi og frið. „Ég fæddist í stríði,“ segir hann. Þær hörmungar sem hann sá og upplifði munu alltaf fylgja honum þótt hann reyni að dvelja ekki stöðugt við þær. Einbeitir sér að því að halda áfram með lífið. Lífið sem hann hefur svo oft óttast um, allt frá unga aldri. „Ég slapp frá dauðanum. Það var kraftaverk.“
Vinir hans kalla hann Abudi. Hann segist í raun ekki kunna sérstaklega vel við það nafn sem honum var gefið við fæðingu. Ef hann gæti myndi hann breyta því en pappírarnir sem hann þarf til að sanna hver hann er og segja til um stöðu hans í samfélagi manna gera honum það ómögulegt eins og sakir standa.
Allir þessir pappírar. Sem veita honum ákveðin réttindi sem flóttamaður en takmarka önnur. Hvar hann megi búa. Hvar hann megi vinna.
Abudi leggur rjúkandi kaffið á borð í stofunni í íbúð sem hann deilir í Reykjavík ásamt öðrum sem eru í svipaðri stöðu. Hún er snyrtileg en getur seint talist heimilisleg. Stólar og borð. Borðbúnaður og nokkrar bækur.
Veggirnir eru eins og ómálaður strigi. Í holinu hangir þó skipulag yfir þrif næstu daga. Það er vart hægt að gera áætlanir langt fram í tímann, hvorki varðandi tiltektir né annað, enda geta íbúarnir flestir búist við því að bankað verði á hurðina hvað úr hverju. Að fyrir utan standi lögreglumenn. Og að komið sé að brottvísun.
Uppnámið
„Ég hef haft fjóra herbergisfélaga síðan ég flutti inn í september,“ segir Abudi. Þeir koma víða að og frá ólíkum löndum. Eiga allir sína sögu. Í íbúðinni er annað herbergi sem tveir deila einnig með sér á hverjum tíma. Abudi er því stöðugt að heilsa nýju fólki.
Fyrir um tveimur mánuðum fengu þeir flestir skilaboð um að nú færi að nálgast brottvísun. Mál þeirra væru komin á endastöð í kerfinu. Við tæki flutningur til Grikklands. Eða Ítalíu. Austurríkis. Þangað sem þeir hefðu áður fengið alþjóðlega vernd og þangað sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að senda þá aftur.
Þá var órói í íbúðinni. Hræðsla. Gengið um gólf. Hringt í lögfræðinga. Reynt að fá svör við spurningum er varða alla þeirra framtíð.
Er þetta virkilega niðurstaðan?
Abudi kom til Íslands í lok febrúar í fyrra. Fyrir 500 dögum. Sextán mánuðum. Hann hélt alltaf í þá von að fá hér vernd. Hún dofnaði vissulega stundum er á leið en þegar hann var hér enn tólf mánuðum eftir komuna varð hann bjartsýnn á ný. Hafði enda tengst fólki, unnið sjálfboðastörf og lagt stund á íslenskunám.
„Ég tala smá íslensku,“ segir hann – á íslensku. „Er enn að læra. Jájájájá.“
Íslendingum er mörgum tamt að segja mörg „já“ í samfelldri runu. Þetta hefur ekki farið framhjá Abudi. Kannski heyrði hann þetta fyrst í íslenskuskólanum sem hann sækir fjórum sinnum í viku. Eða í Rauða kross búðinni í Mjódd þar sem hann vann sem sjálfboðaliði í tæpt ár. Í því starfi kunni hann sérstaklega vel við sig. Og best þegar börn komu því þau ávörpuðu hann alltaf strax á íslensku. Sáu engan mun á honum og öðrum starfsmönnum.
Vill hann ræða það sem gerðist í Írak og varð til þess að hann flúði?
Hann hikar. „Það var svo margt,“ segir hann svo og strýkur hendinni í gegnum hrafnsvart hárið. „Ég fæddist og ólst upp í Mósúl. Það vita allir hvað gerðist í Mósúl.“
Hann fæddist snemma árs 1994. Saddam Hussein, sem hafði verið forseti í árafjöld, hafði nokkrum árum fyrr ráðist inn í nágrannaríkið Kúveit. Innrásinni var svarað af Bandaríkjamönnum og Persaflóastríðið hófst með árásum bæði í Írak og Kúveit. Við tók svo uppreisn vopnaðra sveita Kúrda, með stuðningi Bandaríkjanna, Breta og fleiri, gegn Hussein. Þeir blóðugu bardagar eru taldir hafa kostað um 100 þúsund mannslíf. Ógn af efnavopnun írakska stjórnarhersins vofði stöðugt yfir og viðskiptaþvinganir alþjóða samfélagsins voru hertar.
Í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Tvíburaturnana í New York tvíefldust bandarísk stjórnvöld í þeirri viðleitni að steypa Saddam Hussein af stóli. Innrás Bandaríkjahers og bandalagsþjóða hófst í nóvember 2002. Þessi innrás var allt að því í beinni útsendingu í sjónvarpi víða um heim. Færði heimsbyggðina, þar með talda Íslendinga, nær því sem var að gerast.
Abudi var þá átta ára.
Íraksstríðið stóð til ársins 2011 eða þar til bandarísku hersveitirnar yfirgáfu landið. Tölur um mannfall á þessum tæpa áratug eru á reiki en á bilinu 150 þúsund til 1,2 milljónir Íraka féllu.
Abudi hélt upp á átján ára afmæli sitt nokkrum vikum eftir að Bandaríkjaher hvarf á braut. Stöðugleiki átti að hafa náðst en skærur milli uppreisnarhópa og stjórnarhermanna héldu áfram. Þær mögnuðust í kjölfar arabíska vorsins og í upphafi stríðsins í nágrannaríkinu Sýrlandi.
Mósúl.
Flestir Íslendingar kannast við nafn borgarinnar sem Abudi ólst upp í, Mósúl, vegna þess að þar brutust blóðugir bardagar út á milli stjórnarhersins, skæruliðahópa og sveita hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams (ISIS) árið 2014. Bardagar sem enduðu með því að ISIS náði að ræna völdum í borginni.
Allt breyttist til hins verra.
Þetta ófremdarástand átti sér aðdraganda og Mósúl hafði verið vígvöllur stríðandi fylkinga með hléum í fleiri ár. ISIS hafði verið að gera sig gildandi í norðurhluta Íraks um skeið, náð yfirráðum yfir borgum og bæjum við landamærin að Tyrklandi.
Haustið 2016 hófst orrusta um að koma Mósúl aftur undir stjórn írakskra stjórnvalda. Hún stóð mánuðum saman, allt fram á mitt sumar árið eftir. Þúsundir féllu. Heilu borgarhlutarnir voru lagðir í rúst. Fólk var dregið út úr húsarústum oft dögum eftir að sprengjurnar féllu. Sumt enn á lífi. Flest dáið.
Íbúar urðu innlyksa í borginni, særðust í loftárásum án þess að eiga möguleika á að komast undir læknishendur. Þurftu að horfa upp á ástvini sína deyja – af sárum sem undir öðrum kringumstæðum hefðu ekki þurft að vera banvæn.
Á þessum tíma var Abudi farinn. Flúinn. „Ég á erfitt með að tala um það sem gekk á,“ segir hann lágt. Lítur út um gluggann. „Það voru hræðilegir hlutir.“
Áður en hann flúði segist hann tvisvar hafa lent í fangelsi. Þar varð hann fyrir ofbeldi. Í seinna skiptið var hann handtekinn af vígamönnum ISIS. Varð vitni að pyntingum, sá fólk deyja í sprengjuárásum. Missti vini og kunningja. Var innilokaður með skæruliða á aðra hönd og vígamenn ISIS á hina.
Undan þessu flúði hann. Fyrst til Kúrdistan þar sem hann vann um tíma á veitingahúsi og gat safnað peningum til að flýja til Tyrklands þar sem hann dvaldi í tvö ár. Árið 2017 hélt hann flóttanum áfram og endaði í flóttamannabúðum á grísku eyjunni Lesbos.
„Ég var heppinn að komast frá Írak,“ segir hann. „Ef ég hefði ekki flúið hefði ég verið drepinn í stríðinu. Líf mitt hófst í stríði í Írak en endaði í óvissu í Grikklandi.“
Abudi sótti um alþjóðlega vernd í Grikklandi. Er hann hafði dvalið í flóttamannabúðunum um hríð var honum sagt að fara til meginlandsins og fá pappírana sína. Komið væri að næsta skrefi í því að fá vernd.
Hann hafðist við í húsnæði fyrir hælisleitendur á vegum stjórnvalda á tímabili en er hann fékk loks tímabundið dvalarleyfi missti hann allan þann stuðning sem hann hafði haft sem hælisleitandi. Honum var vísað út úr íbúðinni, hrörlegu húsnæði en húsnæði engu að síður, og sviptur smávægilegum bótum sem hann hafði fengið mánaðarlega.
Allslaus
Hann var á götunni. Peningalaus og atvinnulaus. Án skilríkja til að ferðast út fyrir Grikkland líkt og hann hafði sótt um og átti von á. Á þeim urðu tveggja ára tafir.
Hann reyndi að finna vinnu. En það var ómögulegt, segir hann, enda atvinnuleysi mikið. „Grikkland er vissulega Evrópuland en það er ekki góður staður fyrir flóttafólk.“
Hann var ítrekað áreittur af lögreglunni. Stöðvaður margsinnis og beðinn að sýna skilríki – gögn um að hann mætti dvelja í landinu. Hann vissi aldrei hvað tæki við næsta dag eða daginn þar á eftir. Óvissan var algjör.
Hann flakkaði milli borga og bæja. Svaf þar sem því var viðkomið. Í almenningsgörðum. Úti undir berum himni. Upplýsingar um staði þar sem hægt var að halla höfði gengu á milli flóttafólksins.
Hversu margar voru þessar nætur?
Hann dregur djúpt andann. Hristir hausinn. „Margar. Ég get ekki talið þær.“
Abudi komst í samband við þýsku mannúðarsamtökin IHA sem aðstoða flóttafólk á Grikklandi. Hann vann um hríð sem sjálfboðaliði hjá þeim og einn daginn, er hann sá fram á nótt á götunni, hringdi hann í þau, niðurbrotinn. „Þau spurðu mig hvað væri í gangi og ég sagði þeim: Ég er kominn á götuna. Ég stóð á strætóstoppistöð með bakpokann minn. Þau sögðu mér að hafa ekki áhyggjur, að ég gæti verið hjá þeim þar til ég fengi ferðaskjölin mín.“
Þegar hann sótti um alþjóðlega vernd á Grikklandi segist hann alls ekki hafa vitað hvað biði hans. Að hann yrði atvinnulaus og húsnæðislaus. Á vergangi og í lífshættu.
Um leið og hann loks fékk ferðaskjölin, flóttamannavegabréf, ákvað hann að yfirgefa Grikkland eftir að hafa dvalið þar í þrjú ár. Aðstæður þar höfðu ekkert breyst og hann taldi víst að þær myndu aldrei breytast. Og hann ákvað að fara til Íslands.
En af hverju Íslands?
Hann hafði kynnst Írum á Grikklandi og ræddi við þá um hvar hann gæti hafið nýtt líf. Ísland kom til tals. Írarnir höfðu sagt honum að þar væri nú heldur kalt fyrir mann sem alinn var upp í Írak. „En mér var alveg sama. Veðrið skiptir mig engu. Ég vil bara fá frið.“
Abudi hafði um skeið unnið sjálfboðaliðavinnu fyrir Alþjóða rauða krossinn á Grikklandi. Þar bauðst honum svo launað starf í mánuð. Það dugði til að safna peningum fyrir flugmiða. Hann fann ódýrustu flugleiðina og hún var í raun nokkuð kostuleg: Munchen í Þýskalandi – Malta – Amsterdam – Keflavík.
Á áfangastað lenti hann loks í febrúar árið 2021. Í miðjum heimsfaraldri. Hann gaf sig fram við lögreglu og sótti um alþjóðlega vernd. „Ég var kominn til Íslands og mér var létt.“
Abudi var tilbúinn að leggja allt í sölurnar til að vera á Íslandi. Hann skráði sig fljótlega í íslenskunám og hóf sjálfboðaliðastarfið í Rauða krossbúðinni. Lærði heima alla daga. Æfði sig.
En íslensk yfirvöld voru ekki á því að leyfa honum að búa hér. Þar sem hann væri með vernd í Grikklandi ætti hann, lögum og reglum samkvæmt, að snúa þangað aftur. Sem fyrst. Það var niðurstaða Útlendingastofnunar. Það var niðurstaða kærunefndar útlendingamála. „Ég var alltaf vongóður um að fá að vera á Íslandi,“ segir hann. „Vegna alls sem ég hef gengið í gegnum.“
Það sem hann hafði gengið í gegnum var hins vegar ekki nóg til þess að mál hans yrði tekið til svokallaðrar efnismeðferðar. Það þýðir að yfirvöld hér fara ekki yfir allt mál hans, frásagnir hans frá Írak. Ítarlega yfir allar þær aðstæður sem hann hefur þurft að þola – bæði á flóttanum og fyrir hann. Grikkland sé vissulega ekki fullkomið land fyrir flóttafólk, atvinnu- og húsnæðismarkaðurinn sé sannarlega með þeim hætti sem Abudi lýsi. En að það sé engu að síður í huga yfirvalda öruggt ríki.
„Það er mat Útlendingastofnunar að ekki séu fyrir hendi sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður sem mæla gegn endursendingu í þessu máli,“ segir í niðurstöðu Útlendingastofnunar í máli hans. „Telur stofnunin að ekki hafi verið sýnt fram á að horfur umsækjanda, að því er varðar aðbúnað á Grikklandi eða heilsufar, séu með þeim hætti að raunveruleg hætta geti talist á því að hann mæti erfiðleikum af því alvarleikastigi að falli undir 3. gr. [laga um útlendinga]. Er það því mat stofnunarinnar að einstaklingsbundnar aðstæður í þessu máli séu ekki til staðar þannig að endursending til Grikklands verði talin eða verði jafnað til ómannúðlegrar eða vanvirðandi meðferðar.“
Abudi var heima hjá sér í síðustu viku er það var bankað og inn komu tveir lögreglumenn. Þeir voru með skjal sem þeir vildu að hann skrifaði undir. Það var komið að því að framkvæma brottvísun. „Ég var nývaknaður. Sá þessa tvo lögreglumenn og hélt að eitthvað alvarlegt hefði gerst,“ rifjar hann upp.
Hann sagðist vilja hafa samband við lögfræðing. Og skrifaði ekki undir. „Ég bað þá að senda mig ekki út í dauðann. Þeir sögðust vera að vinna vinnuna sína. En þetta snýst um líf mitt og ég get ekki skrifað undir minn eigin dauðadóm. Það er erfitt fyrir þá sem ekki hafa upplifað þetta að skilja hvað bíður mín. Erfitt fyrir aðra að skilja að ég kem úr allt öðrum raunveruleika. Fyrir einhverjum er þetta fjarlægt eins og kvikmynd. En þetta er lífið mitt.“
Heimsóknin hafði svo mikil áhrif á Abudi að eftir að lögreglumennirnir voru farnir mundi hann fyrst í stað ekki hvað þeir hefðu sagt. Hvað þeir voru að gera þarna inni á gólfi í íbúðinni. Hann fylltist ennþá meira óöryggi. „Ég hef átt mjög erfitt líf. Og get búist við hverju sem er.“ Engu að síður var heimsóknin nokkurt áfall.
Brottvísunin
Yfirvöld segja hann í „ólöglegri dvöl“ á Íslandi. Að hann hafi neitað að fara. Jafnvel þótt engar brottvísanir til Grikklands hafi verið frá því að niðurstaða í máli hans lá fyrir vegna heimsfaraldurs COVID-19. Jafnvel þótt hann hafi dvalið hér mikið lengur en í tólf mánuði sem á að þýða að taka skuli mál hælisleitenda til efnismeðferðar.
Til stóð að hefja framkvæmd á brottvísunum tæplega 200 flóttamanna í vor. Almenningur reis upp, gagnrýndi það harðlega. Í hópnum væri fólk sem hefði dvalið hér lengi og því myndað tengsl við landið. Brottvísununum var frestað á meðan málið var rætt frekar, m.a. á Alþingi.
En nú stendur til að hefja aðgerðir að nýju. Engu virðist eiga að breyta að í september verður tekið fyrir mál í héraðsdómi sem gæti orðið prófmál fyrir allan þennan hóp. Þetta er mál Palestínumanns sem líkt og svo margir hafði fengið vernd í Grikklandi, sagði aðstæður þar óboðlegar og lífshættulegar. Engu að síður átti að senda hann þangað en vegna heimsfaraldursins frestaðist brottvísun mánuðum saman.
Abudi segist eiga erfitt með að skilja af hverju yfirvöld ætli ekki að bíða með brottvísanir þangað til niðurstaða fæst í það mál.
Það sem hann óttist allra mest er að verða sendur frá Grikklandi til Íraks. Hann telur það raunverulegan möguleika þar sem dvalarleyfi hans á Grikklandi sé útrunnið. „Kannski verður mér vísað til Tyrklands. Og hvað tekur þar við?“ segir hann. „Írak.“
Svarthol eða dauði
Hann lýsir því sem hann hefur upplifað eins og að fara úr svartholi og út í dauðann. „Svarthol. Dauði. Svarthol. Dauði. Þannig var þetta. Ég hef alltaf hugsað að einn dag hlyti þetta að verða betra. Að ég muni öðlast frið og öryggi.“
Úti er glaðasólskin. Það er fagur dagur í Reykjavík. Sóleyjabreiður teygja sig til himins í húsagörðum. Og blómstrandi tré. Þetta er annað sumarið hans Abudi á Íslandi. En hann segist lítinn mun sjá á sólardögum og öðrum. Sumri eða vetri. Hugur hans er uppfullur af svo mörgum alvarlegum hlutum. Slæmum minningum. Minningum sem halda fyrir honum vöku og valda honum kvíða.
„Ég reyni auðvitað að vera bjartsýnn,“ segir hann og brosir. „Ég hef enn von. Ég verð að hafa hana. En mér finnst stundum eins og dauðinn elti mig.“
Á morgun gæti verið bankað.