Mynd: EPA Boris Johnson
Mynd: EPA

Boris Johnson segir af sér í dag – Skipan klíparans í háttsett embætti það sem felldi hann

Yfir 50 einstaklingar hafa sagt af sér embætti í Bretlandi á síðustu dögum vegna þess að þeir treysta ekki lengur Boris Johnson til að leiða landið, þar með talið margir ráðherrar. Hann mun gefa út yfirlýsingu síðar í dag um afsögn sína sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Johnson ætlar að reyna að sitja áfram sem forsætisráðherra fram á haust. Það gæti orðið erfitt, sérstaklega vegna þess að hann er ekki með starfhæfa ríkisstjórn.

Boris John­son, for­sæt­is­ráð­herra Bret­lands, mun segja af sér sem leið­togi Íhalds­flokks­ins síðar í dag. Flestir stærstu fjöl­miðlar Bret­lands full­yrða að hann sé búinn að kom­ast að þess­ari nið­ur­stöðu og að John­son muni form­lega til­kynna um afsögn sína með yfir­lýs­ingu síðar í dag. 

John­son ætlar sér hins vegar að sitja áfram sem for­sæt­is­ráð­herra fram á haust, en næsti lands­fundur Íhalds­flokks­ins fer fram í októ­ber og þar verður nýr leið­togi kos­inn. 

Miklar bolla­legg­ingar eru þegar byrj­aðar um hver verði eft­ir­maður John­son í stóli for­sæt­is­ráð­herra. Sú atburða­rás sem leiddi til yfir­vof­andi afsagnar John­son hófst með því að heil­brigð­is­ráð­herr­ann Sajid Javid og fjár­mála­ráð­herr­ann Rishi Sunak sögðu af sér. Javid gagn­rýndi svo John­son í ræðu sem hann hélt í þing­inu en áður hafði Sunak sagt að hann og John­son væru í grund­vall­ar­at­riðum ósam­mála um stefnu í efna­hags­mál­u­m. 

Nad­him Zahawi var skip­aður sem eft­ir­maður Sunak en hann sner­ist gegn John­son í morg­un, tveimur dögum eftir að hafa verið skip­aður og sagði að for­sæt­is­ráð­herr­ann yrði að víkja. Allir þessir þrír eru taldir lík­legir til að sækj­ast eftir því að verða næstu for­menn Íhalds­flokks­ins. Önnur nöfn sem nefnd hafa verið eru Suella Braverman, sem hefur þegar lýst yfir áhuga, Penny Mor­daunt, Tom Tugend­hat og Jer­emy Hunt. 

Hneyksl­is­mál, eftir hneyksl­is­mál eftir hneyksl­is­mál

Afsögn Borisar John­son á sér langan aðdrag­anda. Hann hefur verið ótrú­lega dug­legur við að skapa sér sjálfur ýmis­konar vand­ræði sem hann hefur svo þurft að biðj­ast afsök­unar á. Nær­tæk­ast er að nefna hneyksl­is­mál í kringum umfangs­miklar og kostn­að­ar­samar end­ur­bætur á íbúð­ar­innar sem hann býr í við Down­ingstræti 11 í fyrra eftir að Dom­inic Cumm­ings, fyrr­ver­andi ráð­gjafi John­son, greindi frá því að end­ur­bæt­urnar hefðu verið fjár­magn­aðar með leyni­legum fjár­fram­lögum sem hefðu ekki verið til­kynnt sem stór fjár­fram­lög til stjórn­mála­manna. 

Hið svo­kall­aða Par­tyga­te-hneyksli, þar sem John­son og starfs­menn hans í for­sæt­is­ráðu­neyt­inu urðu ítrekað upp­vísir að því að brjóta reglur um sam­komu­tak­mark­anir sem rík­is­stjórnin hafði gert bresku þjóð­inni að fylgja til að halda drykkju­sam­kvæmi, fór langt með að ýta John­son út af svið­inu. John­son var meðal ann­ars sektaður fyrir að vera við­staddur eina veisl­una, eigin afmæl­is­veislu, og varð með því fyrsti for­sæt­is­ráð­herra Bret­lands frá upp­hafi til að verða sektaður fyrir lög­brot. 

Í kjöl­far þess var boðað til atkvæða­greiðslu um van­­traust­s­til­lögu á hendur John­son eftir að Gra­ham Brady, for­­maður 1922-­­­nefndar Íhalds­­­flokks­ins, sem sér um helstu for­yst­u­­­mál Íhalds­­­­­flokks­ins, greindi John­son frá því að nefnd­inni hefði borist bréf frá yfir 15 pró­­sent þing­­manna flokks­ins sem lýstu yfir van­­trausti á John­son. 54 bréf þurfa að ber­­ast til að ná 15 pró­­sent lág­­mark­inu.

John­son stóð þá van­traust­s­til­lögu af sér 6. júní síð­ast­lið­inn, en ein­ungis með naum­ind­um. Alls 148 þing­menn breska Íhalds­flokk­inn studdu til­lög­una en 211 greiddu atkvæði á móti henni. Það þýddi að ein­ungis um 60 pró­sent þing­manna studdu ráð­herrann, þar með talið þeir sem áttu allt vald sitt innan rík­is­stjórnar undir hon­um. 

John­son var þó víg­reifur eftir þetta og sagð­ist ætla að „leiða flokk­inn aftur til sig­ur­s“. 

Klíp­ar­inn fyllti mæl­inn

Það tók þó ekki langan tíma þangað til að enn eitt hneyksl­is­málið féll til. Það nýjasta snýr að skipun Chris Pincher í emb­ætti vara­for­manns þing­flokks Íhalds­flokks­ins. John­son á að hafa vitað af því að Pincher hafi áreitt menn kyn­ferð­is­lega þegar hann tók þá ákvörðun að skipa hann í emb­ætt­ið. Breskir fjöl­miðl­ar, sem þekktir eru fyrir mikla orða­leiki, hafa ekki látið það tæki­færi fram­hjá sér fara í umfjöllun um málið að tengja það saman að Pincher, sem þýðir á íslensku klíp­ari, hafi verið orðið upp­vís af því að vera „pincher“.

Eftir að þetta varð opin­bert hófst hrina afsagna á meðal ráð­herra rík­is­stjórn­ar­innar og aðstoð­ar­manna innan henn­ar. 

Í fjör­ugum fyr­ir­spurn­ar­tíma í neðri deild breska þings­ins sem hófst á hádegi á mið­viku­dag sagði John­son að hann væri stað­ráð­inn í að sitja áfram sem for­sæt­is­ráð­herra, það væri skylda sem lögð hefði verið á herðar hans í kjöl­far síð­ustu kosn­inga árið 2019. 

Biðstaða er uppi í breskum stjórnmálum eftir að Boris Johnson ákvað að segja af sér formennsku en sitja áfram sem forsætisráðherra fram á haust.
Mynd: EPA

Í fyr­ir­spurna­tím­anum mætti John­son gagn­rýni frá þing­mönnum úr röðum ólíkra flokka þar á meðal þing­mönnum síns eigin flokks, Íhalds­flokks­ins.

Segja má að stemn­ingin í neðri deild­inni hafi sveifl­ast nokkuð í fyr­ir­spurna­tím­an­um. Tölu­vert var um frammíköll, hlátur og baul í þing­sal á meðan for­sæt­is­ráð­herra og þing­menn skipt­ust á orð­um. And­rúms­loftið var aftur á móti alvöru­þrungið þegar Keir Star­mer las upp lýs­ingu manns á meintri kyn­ferð­is­legri áreitni sem hann varð fyrir af hálfu Chris Pincher.

John­son skip­aði Pincher vara­for­mann þing­flokks Íhalds­flokks­ins í febr­úar á þessu ári. Fyrr í þess­ari vik­unni kom það í ljós að for­sæt­is­ráð­herr­ann vissi af hátt­semi Pincher þegar hann skip­aði hann í emb­ætti, líkt og áður seg­ir.

Pincher sagði af sér sem vara­for­maður 30. júní síð­ast­lið­inn eftir að hafa þuklað á tveimur mönnum á sam­komu vina­fé­lags íhalds­manna og Kýp­ur. Eftir að í ljós kom að John­son hafi vitað af sam­bæri­legum eldri málum þar sem Pincher átti í hlut hófu stjórn­mála­menn Íhalds­flokks­ins að segja sig af sér í stórum stíl. 

Yfir 50 sagt af sér

Í morgun var svo ljóst að tími John­son sem leið­togi íhalds­manna væri á enda runn­inn. Atburða­rásin hófst með því að Brandon Lewis, ráð­herra mál­efna Norð­ur­-Ír­lands sagði af sér. Alls sjö aðrir ráð­herrar fylgdu í kjöl­farið og stærsta höggið var áður­nefnd ákvörðun hins nýja fjár­mála­ráð­herra Zahawi, sem hefur ein­ungis gengt emb­ætt­inu í tvo daga, að snú­ast gegn John­son og segja honum að hann verði að fara. Alls hafa yfir 50 ein­stak­lingar sagt af sér emb­ættum á síð­ustu dögum vegna þess að þeir hafa misst trú á John­son sem leið­toga. Einn ráð­herra var rek­inn, Mich­ael Gove, en hann og John­son hafa lengi eldað grátt silfur sam­an. 

Enn sem komið er virð­ist John­son ætla að reyna að sitja áfram sem for­sæt­is­ráð­herra fram á haust. Það eru þó margir innan breskra stjórn­mála sem telja það ómögu­legt. Hann er fyrir það fyrsta ekki með starf­hæfa rík­is­stjórn eftir allar upp­sagn­irnar og röð þeirra sem eru til­búnir til að setj­ast í tíma­bundna rík­is­stjórn for­sæt­is­ráð­herra á útleið, sem er auk þess rúinn öllu trausti, er ekki löng. Nicola Stur­ge­on, fyrsti ráð­herra Skotlands og leið­togi Skoska þjóð­ar­flokks­ins er á meðal þeirra sem á þetta hafa bent. 

Aðrir helstu póli­tísku and­stæð­ingar John­son og Íhalds­flokks­ins munu heldur ekki taka það í mál að hann sitji áfram. Keir Star­mer, leið­togi Verka­manna­flokks­ins, sagði í yfir­lýs­ingu í morgun að það þyrfti ekki að skipta um Íhalds­mann á toppn­um, heldur að skipta um rík­is­stjórn. „Við Þurfum nýtt upp­haf fyrir Bret­land“. Með því er hann að kalla eftir nýjum kosn­ingum en síð­ast var kosið 2019 í Bret­landi.

Ef John­son verður gert að hætta sem for­sæt­is­ráð­herra má búast við því að dóms­mála­ráð­herr­ann Dom­inic Raab, sem er líka aðstoð­ar­for­sæt­isáð­herra, taki við taumunum tíma­bund­ið.

Það er ef ekki verður boðað til nýrra kosn­inga.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar