Mynd: Samsett Festi
Mynd: Samsett

Sundrungin í Festi sem leiddi til þess að kosið verður um hvort félagið eigi að heita Sundrung

Á þessu ári hefur Festi þurft að biðjast afsökunar á að hafa ofrukkað viðskiptavini og samþykkja að endurgreiða þeim. Stjórnarformaður félagsins þurfti að segja af sér vegna ásakana um alvarleg kynferðisbrot í heitum potti. Og loks var forstjóri Festi rekinn en í tilkynningu var ranglega fullyrt að hann hefði sagt upp. Vegna þessa óróa hefur verið boðað til hluthafafundar og stjórnarkjörs í næstu viku, tæpum fjórum mánuðum eftir síðasta aðalfund.

Þann 14. júlí næst­kom­andi fer fram hlut­hafa­fundur í Festi, skráðu félagi á mark­aði sem verð­metið er á um 65 millj­arða króna. Stjórn félags­ins boð­aði til fund­ar­ins í kjöl­far þess að hópur hlut­hafa – líf­eyr­is­sjóðir og einka­fjár­festar – kall­aði eftir því að hann yrði boð­að­ur. Það er óvenju­legt enda ein­ungis þrír og hálfur mán­uður síðan að síð­asti aðal­fundur fór fram. 

Ástæðan er sú að núver­andi stjórn ákvað að reka Egg­ert Þór Krist­ó­fers­son, for­stjóra Festis síð­ustu sjö árin, fyr­ir­vara­laust í byrjun jún­í. 

Í kjöl­farið sendi stjórnin til­kynn­ingu til Kaup­hallar Íslands þar sem sagt var að Egg­ert hefði sagt starfi sínu lausu. Það reynd­ist ekki rétt og Egg­ert sagði þeim hlut­höfum sem sam­band höfðu að þannig væri í pott­inn búið. 

Eftir mikla fjöl­miðlaum­fjöllun ákvað stjórnin að senda frá sér aðra kaup­hall­ar­til­kynn­ingu átta dögum síð­ar, þann 10. júní. Þar við­ur­kenndi hún að stjórnin hefði haft frum­kvæði að því að óska eftir sam­tali við Egg­ert um starfs­lok og að „við þær aðstæður óskaði for­­stjóri eftir að fá að segja upp störfum í stað þess að honum yrði sagt upp, með hags­muni sjálf síns og félags­­ins í huga. Var fall­ist á þá mála­­leit­an.“ Þetta er, sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans, heldur ekki sann­leik­anum sam­kvæmt. Egg­ert hefur sagt við þá hlut­hafa sem óskað hafa eftir að hann ræddi við þá um stöð­una að hann hafi verið rek­inn. Hreint og bein­t. 

Auk þess fékk Egg­ert þær skýr­ingar á upp­sögn­inni að í henni fælist tæki­færi fyrir hann. Sjö ár í for­stjóra­stól væri nægj­an­legur tími, Egg­ert væri enn ungur maður og breyt­inga væri þörf. 

Auk þess fékk Egg­ert þær skýr­ingar á upp­sögn­inni að í henni fælist tæki­færi fyrir hann. Sjö ár í for­stjóra­stól væri nægj­an­legur tími, Egg­ert væri enn ungur maður og breyt­inga væri þörf. 

Í seinni til­kynn­ing­unni var gefin önnur ástæða. Sam­keppni væri að aukast á öllum rekstr­ar­sviðum félags­ins og ólík verk­efni blöstu við. Það kall­aði á „nýja nálgun og nýjar hendur til að vinna verk­in.“

Það má ekki senda rangar til­kynn­ingar

Það er ólög­legt að senda rangar til­kynn­ingar til Kaup­hallar Íslands. Allir hlut­hafar sem eru ekki skil­greindir sem inn­herjar eiga að vera jafn­settir þegar kemur að upp­lýs­ingum sem geta haft áhrif á verð­mæti hluta­bréfa. 

Í ljósi þess að rekstur Fest­i,  eins stærsta smá­­sala lands­ins sem rekur meðal ann­­ars Krón­una, Elko og N1, hefur gengið afar vel undir stjórn Egg­erts er vel hægt að færa sterk rök fyrir því að ákvörðun um að skipta um mann í brúnni geti haft áhrif á verð­mæti félags­ins. Festi hefur auk þess tek­ist að halda mark­aðsvirði sínu á nán­ast sama stað og það var um síð­ustu ára­mót, á sama tíma og flest félög í Kaup­höll­inni hafa verið að síga.  

Ef gefin er út fölsk yfir­­lýs­ing um að æðsta stjórn­­anda hafi verið sagt upp, þegar hann var í raun rek­inn, þá kallar það á rann­­sókn hjá Kaup­höll­inni og eftir atvikum fjár­­­mála­eft­ir­liti Seðla­­banka Íslands. Kjarn­inn hefur þó ekki getað fengið stað­fest enn sem komið er hvort slík rann­sókn sé haf­in. 

Í svari fjár­mála­eft­ir­lits Seðla­banka Íslands við fyr­ir­spurn um málið segir að það geti ekki tjáð okkur um ein­stök mál sem snerta starf­semi þeirra félaga sem stofn­unin hefur eft­ir­lit með og þar með hvort þau séu til athug­unar hjá fjár­mála­eft­ir­lit­inu eða ekki.

Eggert Þór Kristófersson lætur af störfum sem forstjóri Festi í lok júlímánaðar. Búist er við því að ráðning á nýjum forstjóra liggi fyrir áður en Eggert hættir.
Mynd: Festi

Þann 16 júní boð­aði stjórn Festi svo loks til hlut­hafa­fund­ar­ins sem fer fram 14. júlí næst­kom­andi þar sem stjórn­ar­kjör myndi fara fram. 

Alls 21 bár­ust fram­boð í stjórn, þar með talið fram­boð allra núver­andi stjórn­ar­manna. Til­nefn­ing­ar­nefnd fór í kjöl­farið yfir þau fram­boð og komst að þeirri nið­ur­stöðu að ell­efu fram­boð voru talin fremst í flokki, þar með talin fram­boð allra núver­andi stjórn­ar­manna. Fyrir aðra fram­bjóð­end­ur, sem voru sex tals­ins, var lagður sér­stakur spurn­inga­listi. Á meðal þess sem þeir voru spurðir að var hvort þeir hefðu reynslu á sviði sam­fé­lags­legrar ábyrgðar og hvort þeir sem ein­stak­lingar eða félög sem þeir væru í for­svari fyrir ættu í dóms­málum og/eða deilum við eft­ir­lits­að­ila sem gætu haft áhrif á orð­spor og almenn­ings­á­lit að þeirra mat­i? 

Einnig  var rætt við stóra hlut­hafa, bæði líf­eyr­is­sjóði og einka­fjár­festa. Í skýrslu til­nefn­ing­ar­nefndar segir að í þeim við­ræðum hafi komið „skýrt fram að ein­dreg­inn vilji er meðal þeirra til frek­ari breyt­inga. Þó eru mis­mun­andi og óljós­ari skoð­anir á því hvernig stjórnin í heild eigi að vera skip­uð.“ 

Ekki sam­staða um hverjir eigi að vera í stjórn

Líf­eyr­is­sjóð­ir, sem sam­tals eiga rúm 73 pró­sent hluta­fjár, hafi fram til þessa ekki komið með beinar til­lögur um ein­staka stjórn­ar­menn en lýst þeim vilja sínum að í stjórn­inni væru stjórn­ar­menn sem hætta eigin fé. Einka­fjár­festar hafi fremur bent á ákveðna fram­bjóð­end­ur. „Fyrir aðal­fund­inn 2022 komu einka­fjár­festar með slíkar ábend­ingar en ekki var sam­staða í þeirra hópi og hið sama á við nú,“ segir í skýrsl­unni.

Þar sagði að það væri enn fremur mat tveggja óháðra nefnd­ar­manna (einn full­trúi núver­andi stjórnar situr einnig í nefnd­inni) ​​að yrði ekki brugð­ist við þeirri óánægju og óskum um breyt­ingar sem hlut­hafar hafi lýst í við­ræðum við okk­ur, væri við­búið að málin yrðu áfram óút­kljáð „með til­heyr­andi nei­kvæðni og óvissu fyrir félagið og að hún raun­ger­ist eigi síðar en á næsta aðal­fundi. Það er óvið­un­andi staða fyrir Festi ekki síst í ljósi þess að framundan er að ráða nýjan for­stjóra sem þarf að vinna þétt með stjórn félags­ins til langs tíma lit­ið.“

Óháðir nefnd­ar­menn voru ein­huga um að til­nefna níu af þessum ell­efu til stjórn­ar­kjörs á hlut­hafa­fundi. Þeir eru Ást­valdur Jóhanns­son, Björgólfur Jóhanns­son, Guð­jón Reyn­is­son, Magnús Júl­í­us­son, Mar­grét Guð­munds­dótt­ir, Sig­rún Hjart­ar­dótt­ir, Sig­ur­lína Ingv­ars­dótt­ir, Þór­dís Jóna Sig­urð­ar­dóttir og Þórey Guð­munds­dótt­ir. 

Ekki er greint frá því hvaða tveir fram­bjóð­endur af þeim ell­efu sem talin voru fremst í flokki, hafi ekki hlotið náð fyrir augum henn­ar. Þar segir ein­fald­lega að nefndin hefði „leit­aði sér­fræði­að­stoðar lög­manna Festi til að kanna mögu­lega hags­muna­á­rekstra nokk­urra fram­bjóð­enda m.t.t. sáttar Festi við Sam­keppn­is­eft­ir­lit­ið. Sú könnun leiddi í ljós ann­marka á hæfi tveggja þeirra sem nefndin hafði áður metið í hópi hæf­ustu fram­bjóð­enda og komu þeir því ekki til greina.“ Sú sátt sem vísað er til er meðal ann­ars gerð á grund­velli þess að stærstu eig­endur Festi, stærstu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins, eru líka stærstu eig­endur helsta sam­keppn­is­að­ila félags­ins, Haga. 

Heim­ildir Kjarn­ans herma að annar þeirra fram­bjóð­enda sem hafn­að  hafi verið hefði verið á vegum eins af stærstu líf­eyr­is­sjóðum lands­ins, og eins stærsta eig­anda Festi. Ekki sé úti­lokað að við­kom­andi verði boð­inn fram á hlut­hafa­fund­inum þrátt fyrir að til­nefn­ing­ar­nefndin hafi hafnað hon­um. 

Stór hneyksl­is­mál

Það hefur gustað um Festi und­an­farna mán­uði. Fyrst greindi Stundin frá því í lok síð­asta árs að dótt­ur­fé­lag Festi, N1 Raf­magn, sem hafði verið útnefnt sem svo­kall­aður orku­sali til þraut­ar­vara hefði rukkað neyt­endur sem fær­­ast óaf­vit­andi í við­­skipti við félagi hærra verð fyrir raf­­orku en almennum við­­skipta­vinum stendur til boða. Eftir mikla gagn­rýni baðst N1 Raf­magn afsök­unar og í byrjun febr­úar 2022 var greint frá því að allir við­skipta­vinir sem hefðu komið til félags­ins í gegnum þrauta­vara­leið stjórn­valda myndu fá end­ur­greitt mis­mun­inn sem var á aug­lýstum taxta og þrauta­vara­­taxta frá upp­­hafi.

Síðar lagði kona, Vítalía Laz­areva, fram ásak­anir um alvar­leg kyn­ferð­is­brot tveggja af stærstu einka­hlut­höfum Festi, Hregg­viðs Jóns­sonar og Þórðar Más Jóhann­es­son­ar, gagn­vart sér í heitum potti í félagi við Ara Edwald, fyrr­ver­andi for­stjóra Mjólk­ur­sam­söl­unn­ar, haustið 2020. Þórður Már neydd­ist á end­­anum til að segja af sér stjórn­­­ar­­for­­mennsku í Festi vegna máls­ins. Það gerð­ist 6. jan­úar síð­­ast­lið­inn. Menn­irnir þrír kærðu Vítalíu nýverið til lög­reglu fyrir fjár­kúg­un. 

Marga hlut­hafa grunar að Þórður Már og Hregg­viður hafði þrýst á upp­­­sögn Egg­erts vegna fram­göngu hans í Vítal­íu-­mál­inu og við­­mæl­endur Kjarn­ans segja að auk þess hafi Guð­jón Reyn­is­son, núver­andi stjórn­ar­for­maður viljað fá Jón Björns­­son, for­­stjóra Origo, til að stýra Festi. Hags­munir hefðu því farið sam­­an.

Þórður Már Jóhannesson sagði af sér sem stjórnarformaður Festi í byrjun árs.
Mynd: Festi

Flestir við­mæl­endur Kjarn­ans eru sam­mála um að Guð­jón ætli sér enn að reyna að ráða Jón. 

„Sterk sam­fé­lags­vit­und“ Björg­ólfs

Bæði þessi atvik eru nefnd í skýrslu til­nefn­ing­ar­nefndar sem rök­stuðn­ingur fyrir því að hversu mik­il­væg krafan um sið­ferði og sam­fé­lags­vit­und væri 

Núver­andi stjórn er skipuð Guð­jóni, sem er for­mað­ur, Mar­gréti, sem er vara­for­mað­ur, Þóreyju, Sig­rúnu og Ást­vald­i. 

Af hinum fjórum sem sækj­ast eftir stjórn­ar­setu hefur fram­boð Björg­ólfs Jóhanns­sonar og Magn­úsar Júl­í­us­sonar vakið mesta athygli. Björgólf­ur, sem er fyrr­ver­andi for­stjóri Icelandair Group og Sam­herja auk þess sem hann er stjórn­ar­for­maður Sjó­vá, er einn eig­enda fjár­fest­inga­fé­lags­ins Kjálka­nes sem á 1,92 pró­sent hlut í Festi og er auk þess annar stærsti eig­andi Síld­ar­vinnsl­unn­ar. Þá á Kjálka­nes hlut í stærsta eig­anda Sjóvar. 

Björgólfur hefur verið fyr­ir­ferða­mik­ill á und­an­förnum árum vegna starfa sinna fyrir Sam­herja, en hann var afar sýni­legur í málsvörn félags­ins og árásum á nafn­greinda fjöl­miðla­menn í kjöl­far þess að Sam­herj­a­málið svo­kall­aða komst í hámæli síðla árs 2019. Það mál er nú í rann­sókn íslenskra yfir­valda vegna gruns um mútu­brot, pen­inga­þvætti og skatta­snið­göngu. Björgólfur sat áður í stjórn Festi, en sagði sig úr henni í nóv­em­ber 2019 þegar hann gerð­ist tíma­bund­inn for­stjóri Sam­herj­a. 

Björgólfur tók við sem tímabundinn forstjóri Samherja þegar Þorsteinn Már Baldvinsson vék um tíma úr stólnum vegna Samherjamálsins. Þeir sátu svo saman sem forstjórar þegar Þorsteinn Már kom tilbaka.
Mynd: Samherji

Í umsögn til­nefn­ing­ar­nefndar um fram­bjóð­endur til stjórnar segir meðal ann­ars um Björgólf að á meðal kosta hans sem nýt­ist í stjórn­ar­störfum sé „sterk sam­fé­lags­vit­und“. Heim­ildir Kjarn­ans herma að Björgólfur sé studdur af stærstu einka­fjár­fest­unum í Festi, meðal ann­ars áður­nefndum Hregg­viði og Þórði Má. Auk þess nýtur hann vit­an­lega stuðn­ings Kjálka­ness. 

Aðstoð­ar­maður ráð­herra vill í stjórn

Magnús stofn­aði á sínum tíma, ásamt fjár­­­fest­inum Bjarna Ármanns­­syni, félagið Íslensk orku­miðlun sem byrj­­aði að selja íslenskum neyt­endum raf­­orku árið 2017. Ásamt Bjarna og Magn­úsi voru hlut­hafar Kaup­­fé­lag Skag­­firð­inga og Ísfé­lag Vest­­manna­eyja og síðar Festi. Festi keypti félagið síðan að fullu undir lok árs 2020 og greiddi 722,5 millj­­ónir króna fyrir félag­ið, sem síðar féll undir N1 og fékk síðla árs 2021 nafnið N1 Raf­­­magn.

Verð­matið á félag­inu á þeim tíma er það var selt var alls 850 millj­­ónir króna, sem vakti nokkra athygli, enda var hátt í 70 pró­­sent af bók­­færðu virði félags­­ins óefn­is­­legar eignir í formi við­­skipta­vild­­ar. Ekki lá fyrir í hverju nákvæm­­lega þessu verð­­mæta við­­skipta­vild fælist.

Magnús var um tíma deild­­ar­­stjóri orku­sviðs N1 eftir kaup Festis á Íslenskri orku­mið­l­un. Hann hætti störfum í lok síð­­asta árs og tók við sem aðstoð­­ar­­maður Áslaugar Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur, háskóla-, iðn­­að­­ar- og nýsköp­un­­ar­ráð­herra, fyrr á þessu ári. Hann stað­festi við Kjarn­ann í vik­unni að hann myndi hætta sem aðstoð­ar­maður ráð­herra nái hann kjöri í stjórn Festi, enda sam­rým­ist slíkt starf ekki nýlegum lögum um varnir gegn hags­muna­á­rekstrum í Stjórn­ar­ráði Íslands.

Heim­ildir Kjarn­ans herma að fram­boð Magn­úsar sé meðal ann­ars stutt af Ísfé­lagi Vest­manna, sem er á meðal eig­enda Fest­i.  

Aðrir fram­bjóð­endur eru Sig­ur­lína Ingv­ars­dóttir og Þór­dís Jóna Sig­urð­ar­dótt­ir. Við­mæl­endur Kjarn­ans eru sam­mála um að þær þurfi stuðn­ing líf­eyr­is­sjóða til að ná inn í stjórn því hann verði ekki að finna á meðal stærstu einka­fjár­festa. Flestir eru þó sam­mála um að mestar líkur séu á að sitj­andi stjórn sitji áfram, með þeirri mögu­legri und­an­tekn­ingu að Björgólfur setj­ist aftur í hana á kostnað ein­hvers hinna þriggja almennu stjórn­ar­manna. 

Prestur leggur til að félagið heiti Sundr­ung

Fyrir utan stjórn­ar­kjörið er eitt dag­skrár­sett mál á dag­skrá hlut­hafa­fund­ar­ins, til­laga um breyt­ingu á sam­þykktum félags­ins sem felur það í sér að nafni þess verði breytt í Sundr­ung.

Sú til­laga er lögð fram af Pétri Þor­steins­syni, presti Óháða safn­að­ar­ins, sem á lít­inn hlut í Festi. Pétur sagði í sam­tali við mbl.is í gær að til­lagan hafi verið lögð fram til að vekja athygli á aðferð­inni sem beitt var við upp­sögn for­stjóra félags­ins. Hann leggi ekki endi­lega til að til­lagan verði sam­þykkt. 

Það kemur svo í ljós á fimmtu­dag í næstu viku, þann 14. júlí, hvort sundr­ungin í Festi leiði til þess að þetta risa­stóra smá­sölu­veldi á Íslandi, sem flestir Íslend­ingar eiga reglu­lega snert­ingu við með ein­hverjum hætti, verði skrá­sett sem Sundr­ung hf., til áminn­ingar um þær þá drama­tík sem átti sér stað innan þess á árinu 2022. 

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar