Mynd: Samsett Festi
Mynd: Samsett

Sundrungin í Festi sem leiddi til þess að kosið verður um hvort félagið eigi að heita Sundrung

Á þessu ári hefur Festi þurft að biðjast afsökunar á að hafa ofrukkað viðskiptavini og samþykkja að endurgreiða þeim. Stjórnarformaður félagsins þurfti að segja af sér vegna ásakana um alvarleg kynferðisbrot í heitum potti. Og loks var forstjóri Festi rekinn en í tilkynningu var ranglega fullyrt að hann hefði sagt upp. Vegna þessa óróa hefur verið boðað til hluthafafundar og stjórnarkjörs í næstu viku, tæpum fjórum mánuðum eftir síðasta aðalfund.

Þann 14. júlí næst­kom­andi fer fram hlut­hafa­fundur í Festi, skráðu félagi á mark­aði sem verð­metið er á um 65 millj­arða króna. Stjórn félags­ins boð­aði til fund­ar­ins í kjöl­far þess að hópur hlut­hafa – líf­eyr­is­sjóðir og einka­fjár­festar – kall­aði eftir því að hann yrði boð­að­ur. Það er óvenju­legt enda ein­ungis þrír og hálfur mán­uður síðan að síð­asti aðal­fundur fór fram. 

Ástæðan er sú að núver­andi stjórn ákvað að reka Egg­ert Þór Krist­ó­fers­son, for­stjóra Festis síð­ustu sjö árin, fyr­ir­vara­laust í byrjun jún­í. 

Í kjöl­farið sendi stjórnin til­kynn­ingu til Kaup­hallar Íslands þar sem sagt var að Egg­ert hefði sagt starfi sínu lausu. Það reynd­ist ekki rétt og Egg­ert sagði þeim hlut­höfum sem sam­band höfðu að þannig væri í pott­inn búið. 

Eftir mikla fjöl­miðlaum­fjöllun ákvað stjórnin að senda frá sér aðra kaup­hall­ar­til­kynn­ingu átta dögum síð­ar, þann 10. júní. Þar við­ur­kenndi hún að stjórnin hefði haft frum­kvæði að því að óska eftir sam­tali við Egg­ert um starfs­lok og að „við þær aðstæður óskaði for­­stjóri eftir að fá að segja upp störfum í stað þess að honum yrði sagt upp, með hags­muni sjálf síns og félags­­ins í huga. Var fall­ist á þá mála­­leit­an.“ Þetta er, sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans, heldur ekki sann­leik­anum sam­kvæmt. Egg­ert hefur sagt við þá hlut­hafa sem óskað hafa eftir að hann ræddi við þá um stöð­una að hann hafi verið rek­inn. Hreint og bein­t. 

Auk þess fékk Egg­ert þær skýr­ingar á upp­sögn­inni að í henni fælist tæki­færi fyrir hann. Sjö ár í for­stjóra­stól væri nægj­an­legur tími, Egg­ert væri enn ungur maður og breyt­inga væri þörf. 

Auk þess fékk Egg­ert þær skýr­ingar á upp­sögn­inni að í henni fælist tæki­færi fyrir hann. Sjö ár í for­stjóra­stól væri nægj­an­legur tími, Egg­ert væri enn ungur maður og breyt­inga væri þörf. 

Í seinni til­kynn­ing­unni var gefin önnur ástæða. Sam­keppni væri að aukast á öllum rekstr­ar­sviðum félags­ins og ólík verk­efni blöstu við. Það kall­aði á „nýja nálgun og nýjar hendur til að vinna verk­in.“

Það má ekki senda rangar til­kynn­ingar

Það er ólög­legt að senda rangar til­kynn­ingar til Kaup­hallar Íslands. Allir hlut­hafar sem eru ekki skil­greindir sem inn­herjar eiga að vera jafn­settir þegar kemur að upp­lýs­ingum sem geta haft áhrif á verð­mæti hluta­bréfa. 

Í ljósi þess að rekstur Fest­i,  eins stærsta smá­­sala lands­ins sem rekur meðal ann­­ars Krón­una, Elko og N1, hefur gengið afar vel undir stjórn Egg­erts er vel hægt að færa sterk rök fyrir því að ákvörðun um að skipta um mann í brúnni geti haft áhrif á verð­mæti félags­ins. Festi hefur auk þess tek­ist að halda mark­aðsvirði sínu á nán­ast sama stað og það var um síð­ustu ára­mót, á sama tíma og flest félög í Kaup­höll­inni hafa verið að síga.  

Ef gefin er út fölsk yfir­­lýs­ing um að æðsta stjórn­­anda hafi verið sagt upp, þegar hann var í raun rek­inn, þá kallar það á rann­­sókn hjá Kaup­höll­inni og eftir atvikum fjár­­­mála­eft­ir­liti Seðla­­banka Íslands. Kjarn­inn hefur þó ekki getað fengið stað­fest enn sem komið er hvort slík rann­sókn sé haf­in. 

Í svari fjár­mála­eft­ir­lits Seðla­banka Íslands við fyr­ir­spurn um málið segir að það geti ekki tjáð okkur um ein­stök mál sem snerta starf­semi þeirra félaga sem stofn­unin hefur eft­ir­lit með og þar með hvort þau séu til athug­unar hjá fjár­mála­eft­ir­lit­inu eða ekki.

Eggert Þór Kristófersson lætur af störfum sem forstjóri Festi í lok júlímánaðar. Búist er við því að ráðning á nýjum forstjóra liggi fyrir áður en Eggert hættir.
Mynd: Festi

Þann 16 júní boð­aði stjórn Festi svo loks til hlut­hafa­fund­ar­ins sem fer fram 14. júlí næst­kom­andi þar sem stjórn­ar­kjör myndi fara fram. 

Alls 21 bár­ust fram­boð í stjórn, þar með talið fram­boð allra núver­andi stjórn­ar­manna. Til­nefn­ing­ar­nefnd fór í kjöl­farið yfir þau fram­boð og komst að þeirri nið­ur­stöðu að ell­efu fram­boð voru talin fremst í flokki, þar með talin fram­boð allra núver­andi stjórn­ar­manna. Fyrir aðra fram­bjóð­end­ur, sem voru sex tals­ins, var lagður sér­stakur spurn­inga­listi. Á meðal þess sem þeir voru spurðir að var hvort þeir hefðu reynslu á sviði sam­fé­lags­legrar ábyrgðar og hvort þeir sem ein­stak­lingar eða félög sem þeir væru í for­svari fyrir ættu í dóms­málum og/eða deilum við eft­ir­lits­að­ila sem gætu haft áhrif á orð­spor og almenn­ings­á­lit að þeirra mat­i? 

Einnig  var rætt við stóra hlut­hafa, bæði líf­eyr­is­sjóði og einka­fjár­festa. Í skýrslu til­nefn­ing­ar­nefndar segir að í þeim við­ræðum hafi komið „skýrt fram að ein­dreg­inn vilji er meðal þeirra til frek­ari breyt­inga. Þó eru mis­mun­andi og óljós­ari skoð­anir á því hvernig stjórnin í heild eigi að vera skip­uð.“ 

Ekki sam­staða um hverjir eigi að vera í stjórn

Líf­eyr­is­sjóð­ir, sem sam­tals eiga rúm 73 pró­sent hluta­fjár, hafi fram til þessa ekki komið með beinar til­lögur um ein­staka stjórn­ar­menn en lýst þeim vilja sínum að í stjórn­inni væru stjórn­ar­menn sem hætta eigin fé. Einka­fjár­festar hafi fremur bent á ákveðna fram­bjóð­end­ur. „Fyrir aðal­fund­inn 2022 komu einka­fjár­festar með slíkar ábend­ingar en ekki var sam­staða í þeirra hópi og hið sama á við nú,“ segir í skýrsl­unni.

Þar sagði að það væri enn fremur mat tveggja óháðra nefnd­ar­manna (einn full­trúi núver­andi stjórnar situr einnig í nefnd­inni) ​​að yrði ekki brugð­ist við þeirri óánægju og óskum um breyt­ingar sem hlut­hafar hafi lýst í við­ræðum við okk­ur, væri við­búið að málin yrðu áfram óút­kljáð „með til­heyr­andi nei­kvæðni og óvissu fyrir félagið og að hún raun­ger­ist eigi síðar en á næsta aðal­fundi. Það er óvið­un­andi staða fyrir Festi ekki síst í ljósi þess að framundan er að ráða nýjan for­stjóra sem þarf að vinna þétt með stjórn félags­ins til langs tíma lit­ið.“

Óháðir nefnd­ar­menn voru ein­huga um að til­nefna níu af þessum ell­efu til stjórn­ar­kjörs á hlut­hafa­fundi. Þeir eru Ást­valdur Jóhanns­son, Björgólfur Jóhanns­son, Guð­jón Reyn­is­son, Magnús Júl­í­us­son, Mar­grét Guð­munds­dótt­ir, Sig­rún Hjart­ar­dótt­ir, Sig­ur­lína Ingv­ars­dótt­ir, Þór­dís Jóna Sig­urð­ar­dóttir og Þórey Guð­munds­dótt­ir. 

Ekki er greint frá því hvaða tveir fram­bjóð­endur af þeim ell­efu sem talin voru fremst í flokki, hafi ekki hlotið náð fyrir augum henn­ar. Þar segir ein­fald­lega að nefndin hefði „leit­aði sér­fræði­að­stoðar lög­manna Festi til að kanna mögu­lega hags­muna­á­rekstra nokk­urra fram­bjóð­enda m.t.t. sáttar Festi við Sam­keppn­is­eft­ir­lit­ið. Sú könnun leiddi í ljós ann­marka á hæfi tveggja þeirra sem nefndin hafði áður metið í hópi hæf­ustu fram­bjóð­enda og komu þeir því ekki til greina.“ Sú sátt sem vísað er til er meðal ann­ars gerð á grund­velli þess að stærstu eig­endur Festi, stærstu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins, eru líka stærstu eig­endur helsta sam­keppn­is­að­ila félags­ins, Haga. 

Heim­ildir Kjarn­ans herma að annar þeirra fram­bjóð­enda sem hafn­að  hafi verið hefði verið á vegum eins af stærstu líf­eyr­is­sjóðum lands­ins, og eins stærsta eig­anda Festi. Ekki sé úti­lokað að við­kom­andi verði boð­inn fram á hlut­hafa­fund­inum þrátt fyrir að til­nefn­ing­ar­nefndin hafi hafnað hon­um. 

Stór hneyksl­is­mál

Það hefur gustað um Festi und­an­farna mán­uði. Fyrst greindi Stundin frá því í lok síð­asta árs að dótt­ur­fé­lag Festi, N1 Raf­magn, sem hafði verið útnefnt sem svo­kall­aður orku­sali til þraut­ar­vara hefði rukkað neyt­endur sem fær­­ast óaf­vit­andi í við­­skipti við félagi hærra verð fyrir raf­­orku en almennum við­­skipta­vinum stendur til boða. Eftir mikla gagn­rýni baðst N1 Raf­magn afsök­unar og í byrjun febr­úar 2022 var greint frá því að allir við­skipta­vinir sem hefðu komið til félags­ins í gegnum þrauta­vara­leið stjórn­valda myndu fá end­ur­greitt mis­mun­inn sem var á aug­lýstum taxta og þrauta­vara­­taxta frá upp­­hafi.

Síðar lagði kona, Vítalía Laz­areva, fram ásak­anir um alvar­leg kyn­ferð­is­brot tveggja af stærstu einka­hlut­höfum Festi, Hregg­viðs Jóns­sonar og Þórðar Más Jóhann­es­son­ar, gagn­vart sér í heitum potti í félagi við Ara Edwald, fyrr­ver­andi for­stjóra Mjólk­ur­sam­söl­unn­ar, haustið 2020. Þórður Már neydd­ist á end­­anum til að segja af sér stjórn­­­ar­­for­­mennsku í Festi vegna máls­ins. Það gerð­ist 6. jan­úar síð­­ast­lið­inn. Menn­irnir þrír kærðu Vítalíu nýverið til lög­reglu fyrir fjár­kúg­un. 

Marga hlut­hafa grunar að Þórður Már og Hregg­viður hafði þrýst á upp­­­sögn Egg­erts vegna fram­göngu hans í Vítal­íu-­mál­inu og við­­mæl­endur Kjarn­ans segja að auk þess hafi Guð­jón Reyn­is­son, núver­andi stjórn­ar­for­maður viljað fá Jón Björns­­son, for­­stjóra Origo, til að stýra Festi. Hags­munir hefðu því farið sam­­an.

Þórður Már Jóhannesson sagði af sér sem stjórnarformaður Festi í byrjun árs.
Mynd: Festi

Flestir við­mæl­endur Kjarn­ans eru sam­mála um að Guð­jón ætli sér enn að reyna að ráða Jón. 

„Sterk sam­fé­lags­vit­und“ Björg­ólfs

Bæði þessi atvik eru nefnd í skýrslu til­nefn­ing­ar­nefndar sem rök­stuðn­ingur fyrir því að hversu mik­il­væg krafan um sið­ferði og sam­fé­lags­vit­und væri 

Núver­andi stjórn er skipuð Guð­jóni, sem er for­mað­ur, Mar­gréti, sem er vara­for­mað­ur, Þóreyju, Sig­rúnu og Ást­vald­i. 

Af hinum fjórum sem sækj­ast eftir stjórn­ar­setu hefur fram­boð Björg­ólfs Jóhanns­sonar og Magn­úsar Júl­í­us­sonar vakið mesta athygli. Björgólf­ur, sem er fyrr­ver­andi for­stjóri Icelandair Group og Sam­herja auk þess sem hann er stjórn­ar­for­maður Sjó­vá, er einn eig­enda fjár­fest­inga­fé­lags­ins Kjálka­nes sem á 1,92 pró­sent hlut í Festi og er auk þess annar stærsti eig­andi Síld­ar­vinnsl­unn­ar. Þá á Kjálka­nes hlut í stærsta eig­anda Sjóvar. 

Björgólfur hefur verið fyr­ir­ferða­mik­ill á und­an­förnum árum vegna starfa sinna fyrir Sam­herja, en hann var afar sýni­legur í málsvörn félags­ins og árásum á nafn­greinda fjöl­miðla­menn í kjöl­far þess að Sam­herj­a­málið svo­kall­aða komst í hámæli síðla árs 2019. Það mál er nú í rann­sókn íslenskra yfir­valda vegna gruns um mútu­brot, pen­inga­þvætti og skatta­snið­göngu. Björgólfur sat áður í stjórn Festi, en sagði sig úr henni í nóv­em­ber 2019 þegar hann gerð­ist tíma­bund­inn for­stjóri Sam­herj­a. 

Björgólfur tók við sem tímabundinn forstjóri Samherja þegar Þorsteinn Már Baldvinsson vék um tíma úr stólnum vegna Samherjamálsins. Þeir sátu svo saman sem forstjórar þegar Þorsteinn Már kom tilbaka.
Mynd: Samherji

Í umsögn til­nefn­ing­ar­nefndar um fram­bjóð­endur til stjórnar segir meðal ann­ars um Björgólf að á meðal kosta hans sem nýt­ist í stjórn­ar­störfum sé „sterk sam­fé­lags­vit­und“. Heim­ildir Kjarn­ans herma að Björgólfur sé studdur af stærstu einka­fjár­fest­unum í Festi, meðal ann­ars áður­nefndum Hregg­viði og Þórði Má. Auk þess nýtur hann vit­an­lega stuðn­ings Kjálka­ness. 

Aðstoð­ar­maður ráð­herra vill í stjórn

Magnús stofn­aði á sínum tíma, ásamt fjár­­­fest­inum Bjarna Ármanns­­syni, félagið Íslensk orku­miðlun sem byrj­­aði að selja íslenskum neyt­endum raf­­orku árið 2017. Ásamt Bjarna og Magn­úsi voru hlut­hafar Kaup­­fé­lag Skag­­firð­inga og Ísfé­lag Vest­­manna­eyja og síðar Festi. Festi keypti félagið síðan að fullu undir lok árs 2020 og greiddi 722,5 millj­­ónir króna fyrir félag­ið, sem síðar féll undir N1 og fékk síðla árs 2021 nafnið N1 Raf­­­magn.

Verð­matið á félag­inu á þeim tíma er það var selt var alls 850 millj­­ónir króna, sem vakti nokkra athygli, enda var hátt í 70 pró­­sent af bók­­færðu virði félags­­ins óefn­is­­legar eignir í formi við­­skipta­vild­­ar. Ekki lá fyrir í hverju nákvæm­­lega þessu verð­­mæta við­­skipta­vild fælist.

Magnús var um tíma deild­­ar­­stjóri orku­sviðs N1 eftir kaup Festis á Íslenskri orku­mið­l­un. Hann hætti störfum í lok síð­­asta árs og tók við sem aðstoð­­ar­­maður Áslaugar Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur, háskóla-, iðn­­að­­ar- og nýsköp­un­­ar­ráð­herra, fyrr á þessu ári. Hann stað­festi við Kjarn­ann í vik­unni að hann myndi hætta sem aðstoð­ar­maður ráð­herra nái hann kjöri í stjórn Festi, enda sam­rým­ist slíkt starf ekki nýlegum lögum um varnir gegn hags­muna­á­rekstrum í Stjórn­ar­ráði Íslands.

Heim­ildir Kjarn­ans herma að fram­boð Magn­úsar sé meðal ann­ars stutt af Ísfé­lagi Vest­manna, sem er á meðal eig­enda Fest­i.  

Aðrir fram­bjóð­endur eru Sig­ur­lína Ingv­ars­dóttir og Þór­dís Jóna Sig­urð­ar­dótt­ir. Við­mæl­endur Kjarn­ans eru sam­mála um að þær þurfi stuðn­ing líf­eyr­is­sjóða til að ná inn í stjórn því hann verði ekki að finna á meðal stærstu einka­fjár­festa. Flestir eru þó sam­mála um að mestar líkur séu á að sitj­andi stjórn sitji áfram, með þeirri mögu­legri und­an­tekn­ingu að Björgólfur setj­ist aftur í hana á kostnað ein­hvers hinna þriggja almennu stjórn­ar­manna. 

Prestur leggur til að félagið heiti Sundr­ung

Fyrir utan stjórn­ar­kjörið er eitt dag­skrár­sett mál á dag­skrá hlut­hafa­fund­ar­ins, til­laga um breyt­ingu á sam­þykktum félags­ins sem felur það í sér að nafni þess verði breytt í Sundr­ung.

Sú til­laga er lögð fram af Pétri Þor­steins­syni, presti Óháða safn­að­ar­ins, sem á lít­inn hlut í Festi. Pétur sagði í sam­tali við mbl.is í gær að til­lagan hafi verið lögð fram til að vekja athygli á aðferð­inni sem beitt var við upp­sögn for­stjóra félags­ins. Hann leggi ekki endi­lega til að til­lagan verði sam­þykkt. 

Það kemur svo í ljós á fimmtu­dag í næstu viku, þann 14. júlí, hvort sundr­ungin í Festi leiði til þess að þetta risa­stóra smá­sölu­veldi á Íslandi, sem flestir Íslend­ingar eiga reglu­lega snert­ingu við með ein­hverjum hætti, verði skrá­sett sem Sundr­ung hf., til áminn­ingar um þær þá drama­tík sem átti sér stað innan þess á árinu 2022. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar