Golli

Barón og eigendur Ófeigsfjarðar sýknaðir í landamerkjamáli

Ítalskur barón. Landanáma og Jarðabók Árna og Páls. Þrælskleif, Drangaskörð og Hrollleifsborg. Vörður og vatnaskil. Allt þetta og fleira kúnstugt kemur við sögu í dómi sem féll í Reykjavík í gær. Dómi sem tengist harðvítugum deilum um áformaða virkjun í víðernum Vestfjarða.

Hvaða jörðum til­heyrir vatnið sem nýtt yrði til að knýja túrbínur Hval­ár­virkj­unar ef af henni yrði? Um þetta sner­ist í grunn­inn dóms­mál sem meiri­hluti eig­enda eyði­jarðar í Árnes­hreppi á Ströndum höfð­aði og nið­ur­staða er nú komin í. Og hún er þeim ekki í vil. Ítalskur bar­ón, Felix Von Lon­go-Lieb­en­stein, getur hins vegar fagnað og þá jafn­vel skálað í víni úr smiðju fjöl­skyldu sinn­ar.

Deilt var um landa­merki á sögu­legum slóð­um. Fjarða, víka, heiða, áa, fossa og heið­ar­vatna – jarða sem koma við sögu í sjálfri Land­námu. Jarða undan Dranga­jökli sem bræð­urnir Eyvind­ur, Ingólfur og Ófeigur Her­röð­ar­synir námu við upp­haf Íslands­byggðar og kenndar eru við þá.

En það voru eig­endur ann­arrar land­náms­jarð­ar, Dranga­vík­ur, sem tóku sig saman og höfð­uðu málið enda töldu þeir land for­feðra sinna annað en það sem birt var á kortum sem stuðst var við á skipu­lags­upp­dráttum Árnes­hrepps og í áætl­unum um virkjun á Ófeigs­fjarð­ar­heiði: Hval­ár­virkj­un.

Sá sem nam land í Dranga­vík var Þor­valdur Ásvalds­son. Síð­ustu ábú­endur pökk­uðu saman föggum sínum árið 1947 og lagð­ist jörðin þá í eyði. Hún hefur síð­ustu ára­tugi verið nytjuð til reka, sel­veiða og dún­tekju. Ekk­ert íveru­hæft hús er lengur á tak­mörk­uðu lág­lend­inu undir Dranga­vík­ur­fjalli. Einu hús­in, ef hús má kalla, eru skjól­húsin smáu yfir hreiðrum æðar­koll­anna á skerj­unum undir hinum hrika­legu Dranga­skörðum sem rísa eins og víg­tennur upp úr Norð­ur­-Ís­haf­inu.

Norðan Dranga­skarða eru Drang­ar, jörð sem nú hefur verið frið­lýst, en næstu jarðir sunnan Dranga­víkur eru Engja­nes í Eyvind­ar­firði og Ófeigs­fjörð­ur. Á þeirri síð­ar­nefndu er enn búið á sumrin og það er á heið­inni ofan henn­ar, Ófeigs­fjarð­ar­heiði, sem áformað er að virkja þrjár ár sem myndi hafa áhrif á rennsli í fossum er bera nöfn á borð við Rjúk­andi og Drynj­andi.

Minni­hlut­inn stendur með barón

En rennur ein þess­ara áa, Eyvind­ará, um land Engja­ness, jörð ítalska bar­óns­ins, eða Dranga­vík?

Dranga­vík, segja 74,5 pró­sent eig­end­anna, tólf manns, sem vildu fá það við­ur­kennt fyrir dóm­stólum að landa­merki Dranga­víkur væru eins og þeir túlka lýs­ingar í landa­merkja­bréfum frá árinu 1890. 25,5 pró­sent eig­end­anna, þrjár systur og ein kona til, voru hins vegar á öðru máli og tóku undir gagn­kröfur bar­óns­ins. Um að mörk jarð­anna séu eins og þau eru dregin upp á skipu­lags­upp­dráttum sveit­ar­fé­lags­ins í seinni tíð. Þessi ósam­staða eig­end­anna flækir mál­in, líkt og Kristrún Krist­ins­dótt­ir, dóm­ari við Hér­aðs­dóm Reykja­vík­ur, fjallar um í nið­ur­stöðu sinni. Því ef kröfur eig­enda óskiptrar eignar eru ósam­rým­an­legar verða þeir sem málið höfða að sýna fram á með óyggj­andi hætti að krafa gagn­að­ila, bar­óns­ins í þessu til­viki, sé röng. Og það tókst þeim ekki að mati dóm­ar­ans.

Drangaskörð eru stórkostleg náttúrusmíð á milli jarðanna Dranga og Drangavíkur í Árneshreppi á Ströndum.
Ólafur Már Björnsson

Meiri­hluti eig­enda Dranga­víkur telja að þegar jörðin hafi ásamt Dröngum verið numin á land­náms­öld hafi land­námið náð til vatna­skila á Dranga­jökli. Engar vís­bend­ingar eða skrif­legar heim­ildir séu um ann­að. Í þeim til­vikum sem öðrum heim­ildum sé ekki til að dreifa hafi almennt verið litið svo á að land hafi verið numið milli fjalls og fjöru. Því megi álykta að lönd land­náms­manna á Ströndum hafi náð frá hábungu á vatna­skilum í vestri og til sjáv­ar.

Hóp­ur­inn benti á að Engja­nes hafi verið eyði­jörð um ald­ir, sé ekki eig­in­leg land­náms­jörð heldur hafi fengið land frá Dranga­vík og Eyvind­ar­firði. Þeir lögðu fram marg­vís­leg gögn, sum mörg hund­ruð ára göm­ul, máli sínu til stuðn­ings. Þannig bentu þeir á ummæli í Jarða­bók Árna Magn­ús­sonar og Páls Vídalín frá 1706 þar sem segi að Engja­nes „kann eigi að byggj­ast nema sá í Dranga­vík hafi það með“. Bendi það til þess að þar hafi verið „ve­sælt og land­lítið kot“. Það sé einnig stað­fest í fleiri gögn­um.

Landamerkjabréf Drangavíkur frá árinu 1890.

Um jörð­ina segi til dæmis í gögnum um úttektir kirkna og staða í Mýra­pró­fasts­dæmi árið 1707: „... Eynginesi ä Stróndum Sem Vm nockur är hefur verid i Eydi og Staf­holltz presti Ägöda­laus“. Í jarða­mati Stranda­sýslu frá 1804 segi svo að jörðin hafi verið í eyði frá 1740 og að þar þrí­fist engar skepn­ur.

Landa­merkja­bréfin svo­nefndu, sem eru meðal helstu gagna í mál­inu, hafi verið öruggar heim­ildir síns tíma, séu þing­lýstar heim­ildir fyrir eign­ar­rétti. Eftir skrán­ingu landa­merkja­bréf­anna á jörð­unum þremur árið 1890 hafi engir samn­ingar verið gerðir sem breyti merkj­un­um.

Eig­end­urnir tólf segja að fyrsti upp­dráttur þeirra merkja Dranga­víkur og Engja­ness sem stuðst sé við í skipu­lags­upp­dráttum Árnes­hrepps og hjá fram­kvæmda­að­ilum Hval­ár­virkj­unar hafi verið gerður árið 2002 í tengslum við svo­kallað Nytja­lands­verk­efni. Til­gangur þess hafi verið að safna upp­lýs­ingum um bújarðir og skrá þær í gagna­grunn. Grunn­inum hafi ekki verið ætlað að vera heim­ild um landa­merki. Við vinnslu verk­efn­is­ins hafi verið aflað heim­ilda hjá ábú­endum og eig­endum jarða en eng­inn eig­enda Dranga­víkur hafi verið spurð­ur.

Þeir bentu enn­fremur á að Engja­nes hefði nán­ast verið kot út frá land­náms­jörð­inni Dranga­vík, hún hafi verið „óbyggi­leg eyði­jörð í ómuna­tíð“. Því sé frá­leitt að ætla að eig­andi Dranga­víkur og/eða Eyvind­ar­fjarðar hafi látið þann sem fékk Engja­nes eiga land úr land­nám­inu upp á hálend­ið, miklu frekar að hann hafi úthlutað nýju jörð­inni hlíð­inni fyrir ofan strönd­ina eins og landa­merkja­bréfið beri með sér.

Drangaskörð séð frá jörðinni Drangavík
Rakel Valgeirsdóttir

Segja Þor­vald hafa komið á eftir Eyvindi

Sama fjöl­skyldan hefur átt jörð­ina Ófeigs­fjörð í um tvær ald­ir. For­svars­menn Vest­ur­verks, fyr­ir­tæk­is­ins sem áformað hefur Hval­ár­virkjun síð­ustu ár, keyptu hluta hennar fyrir nokkru. Þeir eru því meðal þeirra sem stefnt var í landa­merkja­mál­inu. Bæði eig­endur Ófeigs­fjarðar og eig­andi Engja­ness sömdu á sínum tíma við Vest­ur­verk um vatns­rétt­indi vegna virkj­un­ar­inn­ar.

Eig­endur Ófeigs­fjarðar taka undir kröfur ítalska bar­óns­ins. Þeir segja lík­legt að Eyvindur hafi numið land á undan Þor­valdi. Hefði Þor­valdur komið fyrr hefði hann vænt­an­lega kosið að hafa Eyvind­ará að landa­merkj­um. Land Dranga­víkur hafi lítið breyst allt frá land­náms­öld. Útlegg­ing eig­enda­hóps­ins á stærð land­náms Þor­valdar sam­ræm­ist ekki texta Land­námu og kenn­ingum fræði­manna sem rýnt hafi í það verk.

Ósk­hyggja og rang­túlkun

Engja­nes var um aldir í eigu kirkj­unnar í Staf­holti í Borg­ar­firði, að minnsta kosti frá árinu 1140. Árið 1958, er jörðin var komin í rík­i­s­eigu, var hún seld Guð­jóni Guð­munds­syni hrepp­stjóra Árnes­hrepps. Guð­jón arf­leiddi Ólaf Ing­ólfs­son að jörð­inni og hann seldi ítalska bar­ón­inum hana svo árið 2006.

Bar­ón­inn og eig­endur Ófeigs­fjarðar telja að mála­til­bún­aður meiri­hluta eig­enda Dranga­víkur ein­kenn­ist af „ósk­hyggju og rang­túlk­un“ eða „val­kvæðri túlkun á heim­ild­um“.

Benda þeir máli sínu m.a. til stuðn­ings á kort danska her­for­ingja­ráðs­ins en á þeim megi „glöggt sjá“ hvernig korta­gerð­ar­menn dragi upp vatna­svið Eyvind­ar­ár­inn­ar. Ekk­ert stöðu­vatn í lík­ingu við Efra- og Neðra-Ey­vind­ar­fjarð­ar­vatn sé hins vegar að finna á kort­un­um, vatna sem „hefðu vart farið fram­hjá mönnum hefðu þau á annað borð verið þar“. Sem sagt: Að vötnin sem Eyvind­ará rennur úr í dag hafi ekki mynd­ast fyrr en síð­ar. Það setji túlkun eig­enda­hóps Dranga­víkur á landa­merkja­bréf­unum frá árinu 1890 í annað ljós.

Mæl­inga­menn her­for­ingja­ráðs­ins hafi verið á ferð­inni á Ströndum sum­arið 1914. Stöðu­vötnin hafi lík­lega ekki farið að mynd­ast fyrr en minnk­aði í upp­taka­kvísl úr Dranga­jökli við hop hans. Myndun og nafn­gift stöðu­vatn­anna eigi sér því ekki stað fyrr en eftir árið 1914.

Ágrein­ingur um upp­tökin

Eig­enda­hóp­ur­inn sem höfð­aði málið við­ur­kenni að landa­merki Ófeigs­fjarðar og Engja­ness séu Eyvind­ar­fjarð­ará frá upp­tökum til ósa, en ágrein­ing­ur­inn snú­ist um hvar upp­tökin séu. „Ekki verði annað ráðið af gögnum máls­ins en að Eyvind­ar­fjarð­ará eigi upp­tök sín á vatna­skilum við Djúp og áður hafi meg­in­upp­taka­kvísl hennar runnið úr Dranga­jökli og geri jafn­vel enn.“

Ekk­ert geti rök­stutt það að við úrlausn máls­ins verði miðað við önnur landa­merki „en þau sem til þessa hafi verið talin gilda,“ segir í rökum eig­enda Engja­ness og Ófeigs­fjarð­ar. Ekki verði byggt á gagni sem stefn­endur hafi aflað „ein­hliða og án vit­undar eig­enda 25,5% hlutar í Dranga­vík sum­arið 2019 og gefi til kynna allt önnur landa­merki sem marg­faldri stærð jarð­ar­inn­ar“.

Þrjár systur

25,5 pró­sent eig­enda Dranga­víkur eru fjórir ein­stak­ling­ar, m.a. þrjár systur sem hlutu hluta jarð­ar­innar í föð­ur­arf og segj­ast í upp­vexti sínum hafa komið þangað á sumrin til að aðstoða við nýt­ingu rek­ans. Syst­urnar segj­ast alla tíð hafa vitað að Dranga­vík væri lít­il, aðeins víkin og landið upp af henni. Það hafi því komið flatt upp á þær er þær sáu fréttir í fjöl­miðlum um að sumir eig­endur jarð­ar­innar teldu sig eiga „víð­feðmi lands langt upp að jökli“. Þetta telja syst­urnar rangt. Máls­höfðun meiri­hluta eig­end­anna hafi verið í þeirra óþökk.

Með stefn­unni telja syst­urnar að vegið sé að heið­ar­leika þeirra og æru föð­ur, afa og frænda „sem aldrei hafi talið sig eiga þetta land og hafi sýnt það í orði og verki“.

Snúin nið­ur­staða

Sam­kvæmt lögum um með­ferð einka­mála eiga þeir óskipta aðild að máli sem saman bera óskipt rétt­indi eða skyldu, segir í upp­hafi rök­stuðn­ings dóm­ar­ans. Vísa beri máli frá dómi ef þeim sem bera óskipta skyldu er ekki öllum veittur kostur á að svara til sakar eða ef þeir sem eiga óskipt rétt­indi sækja ekki mál í sam­ein­ingu. Þetta laga­á­kvæði eigi við í mál­inu að því leyti að eig­endur fjórð­ungs hlutar Dranga­víkur taki ekki þátt í mál­sókn­inni.

Í lögum um með­ferð einka­mála er svo fyrir mælt að séu kröfur eða yfir­lýs­ingar þeirra sem eiga óskipta aðild ósam­rým­an­legar skuli telja aðil­ana alla bundna við þá kröfu eða yfir­lýs­ingu sem er gagn­að­ila hag­kvæmust. Í þessu til­felli er það eig­andi Engja­ness. Á þessu er þó und­an­tekn­ing ef sýnt þykir að krafa gagn­að­ila sé röng eða byggð á skorti á vit­neskju um máls­at­vik.

Í landa­merkja­mál­inu taka sam­eig­end­urnir fjórir „í einu og öllu“ undir kröfur eig­anda Engja­ness, segir dóm­ar­inn. „Eru kröfur þeirra sem eiga óskipta sam­að­ild því ósam­rým­an­leg­ar“ og ekki hægt að telja að minni­hluti eig­enda Dranga­víkur hafi skort vit­neskju um atvik máls­ins.

Eig­enda­hópur Dranga­víkur sem höfð­aði málið hafi því þurft að sýna fram á að landa­merkin sem stuðst er við á skipu­lags­upp­dráttum sveit­ar­fé­lags­ins og í gögnum fram­kvæmda­að­ila Hval­ár­virkj­unar séu sann­ar­lega röng.

Hvar endar fjalls­brún?

Ágrein­ings­laust er að landa­merki jarð­anna Engja­ness og Dranga­víkur liggja frá sjó eftir fjalls­brún Dranga­vík­ur­fjalls, en inn til lands­ins er veru­legur ágrein­ingur um landa­merk­in, bendir dóm­ar­inn á. Allir aðilar máls­ins hafi einnig verið sam­mála um að leggja bæri þing­lýst landa­merkja­bréf frá árinu 1890 til grund­vallar landa­merkj­um. En túlkun þeirra á lýs­ingum í bréf­unum var ólík.

Dóm­ar­inn segir landa­merkja­bréf Dranga­víkur um mörk gagn­vart Engja­nesi og landa­merkja­bréf um Engja­nes um mörk gagn­vart Dranga­vík séu þó ekki afger­andi um jarða­mörkin inn til lands­ins. „Hér er deilt um það hvar fjalls­brúnin endar og hvaða stað sé átt við í Eyvind­ar­fjarð­ará, sem ræður svo merkjum til sjávar milli Engja­ness og Ófeigs­fjarð­ar,“ segir í nið­ur­stöðu dóms­ins. Hvort það sé þá við upp­tök árinnar í kvíslum uppi á heið­inni eða við ána þar sem hún rennur í fossi niður gljúfur úr Eyvind­ar­fjarð­ar­vatni. Þann stað vill eig­enda­hópur Dranga­víkur miða við. Ítalski bar­ón­inn og eig­endur Ófeigs­fjarðar telja á hinn bóg­inn upp­tök árinnar vera ofan vatns­ins í tveimur kvísl­um.

Fossinn Drynjandi er um 70 metra hár og er einn þeirra fossa sem steypast fram af Ófeigsfjarðarheiði sem yrði fyrir áhrifum Hvalárvirkjunar.
Lovísa Ásbjörnsdóttir

Dóm­ar­inn telur kort her­for­ingja­ráðs­ins frá 1914 styrkja túlkun eig­enda Engjasels og Ófeigs­fjarðar á landa­merkja­bréfum jarð­anna. Fleiri gögn renna að mati dóm­ar­ans frek­ari stoðum undir það. „Að því marki sem stefn­endur vísa til sömu gagna hafa þeir að mati dóms­ins ekki fært sann­fær­andi rök fyrir túlkun sinni á þeim heim­ild­um.“

Svo seg­ir: „Að virtum aðstæðum á vett­vangi og að teknu til­liti til allra gagna máls­ins telur dóm­ur­inn að sú lýs­ing í óum­deildu landa­merkja­bréfi Engja­ness að landa­merki fylgi hæstu fjalls­brún sé fremur í sam­ræmi við það sem [eig­andi Engja­ness] og [eig­endur Ófeigs­fjarð­ar] halda fram.“

Dóm­ur­inn kemst því að þeirri nið­ur­stöðu að eig­enda­hópnum sem höfð­aði málið hafi ekki tek­ist að sýna fram á að kröfur eig­anda Engja­ness, sem sam­eig­endur þeirra að Dranga­vík tóku und­ir, séu rang­ar.

Og nið­ur­stað­an: Allir stefndu, eig­endur jarð­anna Engja­ness og Ófeigs­fjarð­ar, eru sýkn­aðir af kröfum eig­enda­hóps Dranga­víkur og við­ur­kennt er að landa­merkin séu líkt og þau birt­ast á skipu­lags­upp­dráttum sveit­ar­fé­lags­ins – þau sömu og virkj­un­ar­að­il­inn Vest­ur­verk dregur upp í áformum sínum um Hval­ár­virkj­un.

12,4 millj­ónir í máls­kostnað

Eig­enda­hóp­ur­inn sem höfð­aði málið þarf að greiða stefndu 12,4 millj­ónir í máls­kostnað sam­kvæmt nið­ur­stöðu dóms­ins. Felix Von Lon­go-Lieb­en­stein og eig­endum Ófeigs­fjarðar eiga þeir að greiða 8,4 millj­ón­ir, kon­unum fjórum sem eiga Dranga­vík með þeim 3 millj­ónir og íslenska rík­inu 1 millj­ón.

Hægt er að áfrýja dómnum til Lands­réttar innan fjög­urra vikna. Lög­maður meiri­hluta eig­enda Dranga­víkur sagði í gær að ákvörðun um hvort það yrði gert lægi enn ekki fyr­ir.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar