Megi sú hönd visna

Árneshreppur stritast enn við að lifa af, skrifar Finnbogi Hermannsson, en efast um að þjóðin sé að velta fyrir sér örlögum hans – ekki frekar en hún gerði þegar byggðin á Hornströndum lagðist af á síðustu öld.

Auglýsing

Greinin er byggð á erindinu Árneshreppur og Hornstrandir í vitund þjóðar sem höfundur flutti á fundi Landverndar og fleiri samtaka í öndverðum september.


Mitt afskammtaða uppeldi er að fjalla um Hornstrandir og Árneshrepp –  í vitund þjóðar.


Og þá er fyrsta spurningin, hvað er þjóðin?


Fræg stjórnmálakona sagði á fundi í Háskólabíói í hruninu: Þið eruð ekki þjóðin. Og blöskraði ýmsum.


Ég hef líklega verið fimm ára þegar ég fékk fyrst pata af Hornstrendingum. Í horninu hjá okkur á Njálsgötunni var afi og ekki amalegt að hafa afa í húsinu. Hann hét Finnbogi Finnbogason, hafði verið sjómaður allt sitt líf nema þegar hann var í Bretavinnunni sem gervismiður. Hann var fæddur árið 1881 og var lengst af skipstjóri á því kunna skipi Skaftfellingi. Afi okkar sem var mjög hlédrægur og kurteis maður var samt sagnamaður. Og hann sagði okkur bræðrum frá því þegar hann sá Hornstrending í fyrsta sinn.


Það var í verslun á Ísafirði og mikið að gera í búðinni. Þá glymur í manni einum:  „Afgreiddu mig elsk ég er fyrir Rit.“


Hann var augljóslega úr Aðalvík eða þaðan af norðar. Og hann fékk skjóta afgreiðslu af því að hann var fyrir Rit, degi tekið að halla og hann átti langa sjóferð fyrir höndum fyrir Rit.

Auglýsing


Svo gerist það fyrir 32 árum að ég hef Ritinn fyrir augunum á hverjum degi. Og þá á enginn fastur íbúi Aðalvíkur eða Hornstranda  leið fyrir Rit sem má bæði skrifa með einföldu ii eða ypsíloni. Riturinn sést nefnilega úr Hnífsdal þar sem ég bý sem ysti útvörður Ísafjarðardjúps að norðanverðu. Sé hann meira að segja út um gluggann hjá mér þar sem ég stritast við að sitja daglega við skriftir.


Nú er það svo að byggðirnar norðan Djúps voru löngum lokuð samfélög og þjóðin hafði kynni af fólkinu af afspurn. Og þá kom til kasta sagnamanna og sagnakvenna. Margar af þeim sögnum enduðu á prenti þegar tímar liðu.


„Þar með verður einum kafla í byggðasögu þessa lands lokið,“ stóð í grein Tímans um það þegar síðasta fólkið flutti frá Hornströndum árið 1962. Skjáskot: Tímarit.isEn óhætt er að segja að ákveðin vatnaskil verði með verkum Þórleifs Bjarnasonar frá Hælavík. Þórleifur var haldinn útþrá frá lífinu þarna fyrir norðan og hann komst til mennta, lauk prófi frá Kennaraskólanum og varð kennari. Síðar varð hann fræðslustjóri og þjóðkunnur maður. Það var fyrir áeggjan vinar hans Guðmundar G. Hagalín að Þórleifur tók til við að skrifa bækur um átthaga sína og lífið fyrir nordan (svo). Þá sá þjóðin sem vikið var að í upphafi að þarna var kominn mennskur maður norðan úr Sléttuhreppi og rúmlega það og hvergi frábrugðinn öðrum Íslendingum.


Hornstrendingabók byrjaði að koma út árið 1943 og birtist svo aftur aukin og endurbætt í þremur bindum árið 1976. Og þá með ljósmyndum eftir þá Finn Jónsson og Hjálmar Bárðarson. Má segja að Þórleifur Bjarnason hafi orðið ákveðið átorítet eða kennivald í málefnum Hornstranda svo ég noti nafngiftina í þeirri víðu skilgreiningu. Hornstrendingur var nefnilega í munni sumra hálfgert hnjóðsyrði sem þjóðin er búin að gleyma sem betur fer. Lítur frekar á Hornstrendinga sem hetjur í baráttu við björgin.


 Ekki þarf svo að skýra það út hér að kvenleggur Hælavíkur hefur gert garðinn frægan sem eru þær skáldkonurnar Fríða Sigurðardóttir og Jakobína Sigurðardóttir. Í fyrrahaust kom svo út bókin Jakobína, saga skálds og konu, eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur og hlaut verkið Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.


Hornstrandir og Grunnavíkurhreppur fóru náttúrlega í eyði, síðast Grunnavíkurhreppur þegar Grunnvíkingar tóku sig upp og fluttu í heilu lagi árið 1962, flestir til byggðanna við Ísafjarðardjúp.

Höfnin í Norðurfirði í Árneshreppi. Urðartindur skartar sínu fegursta.  Mynd: Rakel Valgeirsdóttir


Árneshreppur stritast enn við að lifa af. Fréttir þaðan oftast um rafmagnsleysi og lokun vegna snjóa. Þar er ekki haldið uppi vetrarsamgöngum eins og við aðrar byggðir í landinu. Einhver myndi halda því fram að slíkar byggðir væru dauðadæmdar. Stöðugum samgöngum er haldið uppi við Grímsey og náttúrlega Hrísey. Ferja siglir daglega eða oftar frá Stykkishólmi og tengir saman Flatey á Breiðafirði og aðrar eyjar sem í byggð eru, að minnsta kosti hluta árs. Og  endar á Brjánslæk á Barðaströnd með fólk og bíla.


Þótt eldri kynslóðin í Árneshreppi láti bjóða sér einangrun af hefð og löggrónum vana, þá sættir ungt fólk sig ekki við slíkan kost. Það er farið. Og þess vegna eru flestir íbúar í Árneshreppi ellilífeyrisþegar eða að nálgast ellilífeyrisaldur eins og við köllum þetta. Ættliðaskipti á jörðum eru lítt fyrirsjáanleg og heilsársbyggðin í hættu.


Þjóðin sér fyrir örvæntingarfulla baráttu gamalmenna að halda Árneshreppi í byggð með því að hleypa þangað virkjunarmönnum að sunnan sem kalla sig Vesturverk þegar á hólminn er komið. Eigandi þess er HS orka sem aftur er í eigu lífeyrissjóða og útlendra braskara.


Ljóst er að mikil umsvif verða í Árneshreppi ef virkjunarframkvæmdir fara af stað og það verður traffík og konkúrans í hreppnum. Þegar því er lokið ríkir þögnin ein utan túrbínur Hvalárvirkjunar sem snúast hljóðlega og mala eigendum sínum gull til að selja bitkoinliðinu, þessum alkemistum sem eru gullgerðarmenn nútímans og við dauðlegir menn fáum engan botn í.


Þannig er nú það.


Árneshreppur mun auðvitað fá einhver gjöld af virkjunarhúsum en þar starfar enginn vegna sjálfvirkni nútímans. Því getur sveitarfélagið búið íbúum sínum þægilegt ævikvöld, reist elliheimili og væntanlega hjúkrunarheimili sem er út af fyrir sig ágætt. Gæti vel heitið Hvalárgáfa samanber amtmannsstofuna Friðriksgáfu á Möðruvöllum í Hörgárdal sem var að hluta gjöf frá Friðriki fjórða Danakonungi sem gaf efnið í bygginguna. Friðriksgáfa brann svo sem önnur hús á Möðruvöllum.


Nú mundi einhver lesandi segja að ég væri kominn út fyrir efnið. Það er kannski alveg rétt. En svona sé ég þetta fyrir mér verði af þessari Hvalárvirkjun. Ég held satt að segja að þjóðin sem slík sé ekki mikið að velta fyrir sér framtíð Árneshrepps frekar en Sléttuhrepps eða Grunnavíkurhrepps forðum. Þetta hafi verið söguleg nauðsyn segja sósíalistar, kapítalistar hugsa með sér að það hafi ekkert verið að græða á þessum guðs voluðu byggðum. Ekki er lengur rekin stóriðja á Djúpuvík, síld og loðna eru keyrð landshluta á milli á hraðskreiðum stórskipum eða til Færeyja þar sem fæst fjórfalt fyrir loðnuna miðað við Ísland.

Húsin að Hesteyri. Þar er nú aðeins dvalið yfir sumarmánuðina. Mynd: Westfjords.is


 Til að hafa eitthvað upp úr Hvalárvirkjun verður að sameina  vatn þarna á heiðinni til að ná 55 megawöttum af rafmagni. Til þess þarf að vinna mikil hervirki á náttúru Árneshrepps sem ekki eru afturkræf. En það kostar ótrúlega marga milljarða að koma rafmagninu í samband við landsnetið suður við Breiðafjörð bæði í jörðu og lofti. Nýir forystumenn HS orku fóru líklega að reikna í vor og sáu að að þeir voru komnir út í fen sem þeir kæmust ekki aftur upp úr.     


Þegar ég skrifaði þennan pistil í vor var Hvalárvirkjun enn talin í undirbúningi og því varð ég að bæta og breyta. Virkjunin hefur verið sett á bið og verður varla hafist handa að nýju í nánustu framtíð. Árneshreppur heldur verðmæti sínu og er ekki að sinni leiksoppur og ginningarfífl gróðamanna.


Það hafa orðið áhrínsorð bóndans í kvikmynd Hjálmtýs Heiðdal, Gamla brýnið, að mætti sú hönd visna sem ætlaði sér að virkja í Ófeigsfirði. Og læt ég þar nótt sem nemur.   


Endurbætt og fært til dató á Degi íslenskrar náttúru 16. september 2020.                          


Höfundur er rithöfundur og fyrrverandi fréttamaður.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá undirritun lífskjarasamningsins í apríl árið 2019.
Forsendur brostnar og örlög lífskjarasamningsins ráðist 30. september
Forsendunefnd ASÍ og SA hefur komist að þeirri niðurstöðu að forsendur lífskjarasamningsins frá 2019 séu brostnar, hvað aðgerðir stjórnvalda varðar. Formaður VR segir að örlög samninganna muni ráðast á fundi samninganefnda ASÍ og SA 30. september.
Kjarninn 20. september 2021
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er engin töfralausn
Kjarninn 20. september 2021
Þorvarður Bergmann Kjartansson
Þegar sumir hafa vald yfir öðrum
Kjarninn 20. september 2021
Hildur Gunnarsdóttir
Húsnæðispólitík og arkitektúr
Kjarninn 20. september 2021
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins
Gæti kostað 50-60 milljarða að gera 350 þúsund króna laun skatt- og skerðingalaus
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Ingu Sæland um að færsla á persónuafslætti frá „þeim ríku“ til hinna efnaminni geti fjármagnað 350 þúsund króna skattfrjálsa framfærslu.
Kjarninn 20. september 2021
Segja mikilvægt að undirbúa innviði og regluverk fyrir græna orkuframleiðslu
Íslendingar ættu að nýta þau tækifæri sem felast í orkuskiptum hérlendis og undirbúa innviði og regluverk fyrir samkeppnishæfa framleiðslu á kolefnislausum orkugjöfum, að mati tveggja verkfræðinga hjá EFLU.
Kjarninn 20. september 2021
Jóhann Friðrik Friðriksson
Heilbrigðiskerfi ekki óheilbrigðiskerfi
Kjarninn 20. september 2021
Vikurnáman yrði austan við Hafursey á Mýrdalssandi.
Vörubílar myndu aka 120 ferðir á dag með Kötluvikur
„Þetta er ekkert smáræði og ég held að menn átti sig engan veginn á því hvað þetta er mikið umfang,“ segir Guðmundur Oddgeirsson, bæjarfulltrúi í Ölfusi, um fyrirhugaða vikurnámu á Mýrdalssandi og flutninga á efninu til Þorlákshafnar.
Kjarninn 20. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar