Bára Huld Beck

„Ég get ekki skrifað undir minn eigin dauðadóm“

Fyrir átta árum lagði Abdulrahman Aljouburi á flótta frá Mósúl í Írak. Undan sprengjuregni og vígamönnum ISIS. „Ég fæddist í stríði,“ segir hann, „slapp frá dauðanum. Það var kraftaverk.“ Eftir sextán mánaða dvöl á Íslandi stendur enn til að vísa honum úr landi líkt og tugum annarra. Á hverri stundu gæti verið bankað á hurðina. Og honum tilkynnt um brottflutning í lögreglufylgd. „Ég hef enn von. Ég verð að hafa hana. En mér finnst stundum eins og dauðinn elti mig.“

Ef við værum í Írak yrði þér boðið te,“ segir Abdulra­hman Aljou­buri um leið og hann hellir sjóð­andi vatni yfir Nes­kaffi-­duft í bolla. Bætir svo hlæj­andi við: „Þú yrðir ekki einu sinni spurð!“

Það eru rúm átta ár síðan hann lagði á flótta frá Írak, þá nítján ára gam­all. Síðan þá hefur hann verið á hrak­hól­um, farið frá einu landi til ann­ars í leit að því sem hann þráir mest: Öryggi og frið. „Ég fædd­ist í stríð­i,“ segir hann. Þær hörm­ungar sem hann sá og upp­lifði munu alltaf fylgja honum þótt hann reyni að dvelja ekki stöðugt við þær. Ein­beitir sér að því að halda áfram með líf­ið. Lífið sem hann hefur svo oft ótt­ast um, allt frá unga aldri. „Ég slapp frá dauð­an­um. Það var krafta­verk.“

Vinir hans kalla hann Abudi. Hann seg­ist í raun ekki kunna sér­stak­lega vel við það nafn sem honum var gefið við fæð­ingu. Ef hann gæti myndi hann breyta því en papp­ír­arnir sem hann þarf til að sanna hver hann er og segja til um stöðu hans í sam­fé­lagi manna gera honum það ómögu­legt eins og sakir standa.

Allir þessir papp­ír­ar. Sem veita honum ákveðin rétt­indi sem flótta­maður en tak­marka önn­ur. Hvar hann megi búa. Hvar hann megi vinna.

Abudi leggur rjúk­andi kaffið á borð í stof­unni í íbúð sem hann deilir í Reykja­vík ásamt öðrum sem eru í svip­aðri stöðu. Hún er snyrti­leg en getur seint talist heim­il­is­leg. Stólar og borð. Borð­bún­aður og nokkrar bæk­ur.

Veggirnir eru eins og ómál­aður strigi. Í hol­inu hangir þó skipu­lag yfir þrif næstu daga. Það er vart hægt að gera áætl­anir langt fram í tím­ann, hvorki varð­andi til­tektir né ann­að, enda geta íbú­arnir flestir búist við því að bankað verði á hurð­ina hvað úr hverju. Að fyrir utan standi lög­reglu­menn. Og að komið sé að brott­vís­un.

Upp­námið

„Ég hef haft fjóra her­berg­is­fé­laga síðan ég flutti inn í sept­em­ber,“ segir Abudi. Þeir koma víða að og frá ólíkum lönd­um. Eiga allir sína sögu. Í íbúð­inni er annað her­bergi sem tveir deila einnig með sér á hverjum tíma. Abudi er því stöðugt að heilsa nýju fólki.

Fyrir um tveimur mán­uðum fengu þeir flestir skila­boð um að nú færi að nálg­ast brott­vís­un. Mál þeirra væru komin á enda­stöð í kerf­inu. Við tæki flutn­ingur til Grikk­lands. Eða Ítal­íu. Aust­ur­rík­is. Þangað sem þeir hefðu áður fengið alþjóð­lega vernd og þangað sem íslensk stjórn­völd hafa ákveðið að senda þá aft­ur.

Þá var órói í íbúð­inni. Hræðsla. Gengið um gólf. Hringt í lög­fræð­inga. Reynt að fá svör við spurn­ingum er varða alla þeirra fram­tíð.

Er þetta virki­lega nið­ur­stað­an?

Abudi deilir íbúð með nokkrum öðrum karlmönnum sem hingað hafa leitað að alþjójðlegri vernd.
Bára Huld Beck

Abudi kom til Íslands í lok febr­úar í fyrra. Fyrir 500 dög­um. Sextán mán­uð­um. Hann hélt alltaf í þá von að fá hér vernd. Hún dofn­aði vissu­lega stundum er á leið en þegar hann var hér enn tólf mán­uðum eftir kom­una varð hann bjart­sýnn á ný. Hafði enda tengst fólki, unnið sjálf­boða­störf og lagt stund á íslensku­nám.

„Ég tala smá íslensku,“ segir hann – á íslensku. „Er enn að læra. Jájá­já­já.“

Íslend­ingum er mörgum tamt að segja mörg „já“ í sam­felldri runu. Þetta hefur ekki farið fram­hjá Abudi. Kannski heyrði hann þetta fyrst í íslensku­skól­anum sem hann sækir fjórum sinnum í viku. Eða í Rauða kross búð­inni í Mjódd þar sem hann vann sem sjálf­boða­liði í tæpt ár. Í því starfi kunni hann sér­stak­lega vel við sig. Og best þegar börn komu því þau ávörp­uðu hann alltaf strax á íslensku. Sáu engan mun á honum og öðrum starfs­mönn­um.

Vill hann ræða það sem gerð­ist í Írak og varð til þess að hann flúði?

Hann hik­ar. „Það var svo marg­t,“ segir hann svo og strýkur hend­inni í gegnum hrafn­svart hár­ið. „Ég fædd­ist og ólst upp í Mósúl. Það vita allir hvað gerð­ist í Mósúl.“

Fjöldagrafir og líkamsleifar á berangri hafa síðustu vikur og mánuði komið í ljós í Mósúl og nágrenni eftir orrustuna um borgina á árunum 2014-2016.
EPA

Hann fædd­ist snemma árs 1994. Saddam Hussein, sem hafði verið for­seti í ára­fjöld, hafði nokkrum árum fyrr ráð­ist inn í nágranna­ríkið Kúveit. Inn­rásinni var svarað af Banda­ríkja­mönnum og Persaflóa­stríðið hófst með árásum bæði í Írak og Kúveit. Við tók svo upp­reisn vopn­aðra sveita Kúr­da, með stuðn­ingi Banda­ríkj­anna, Breta og fleiri, gegn Hussein. Þeir blóð­ugu bar­dagar eru taldir hafa kostað um 100 þús­und manns­líf. Ógn af efna­vopnun írakska stjórn­ar­hers­ins vofði stöðugt yfir og við­skipta­þving­anir alþjóða sam­fé­lags­ins voru hert­ar.

Í kjöl­far hryðju­verka­árásanna á Tví­bura­t­urn­ana í New York tví­efld­ust banda­rísk stjórn­völd í þeirri við­leitni að steypa Saddam Hussein af stóli. Inn­rás Banda­ríkja­hers og banda­lags­þjóða hófst í nóv­em­ber 2002. Þessi inn­rás var allt að því í beinni útsend­ingu í sjón­varpi víða um heim. Færði heims­byggð­ina, þar með talda Íslend­inga, nær því sem var að ger­ast.

Abudi var þá átta ára.

Ungur drengur sem hefur verið á vergangi með fjölskyldu sinni frá orrustunni í Mósúl sýnir nýútgefið fæðingarvottorð sitt. Vottorðið veitir honum loks aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu í Írak. Mynd: EPA

Íraks­stríðið stóð til árs­ins 2011 eða þar til banda­rísku her­sveit­irnar yfir­gáfu land­ið. Tölur um mann­fall á þessum tæpa ára­tug eru á reiki en á bil­inu 150 þús­und til 1,2 millj­ónir Íraka féllu.

Abudi hélt upp á átján ára afmæli sitt nokkrum vikum eftir að Banda­ríkja­her hvarf á braut. Stöð­ug­leiki átti að hafa náðst en skærur milli upp­reisn­ar­hópa og stjórn­ar­her­manna héldu áfram. Þær mögn­uð­ust í kjöl­far arab­íska vors­ins og í upp­hafi stríðs­ins í nágranna­rík­inu Sýr­landi.

Mósúl.

Flestir Íslend­ingar kann­ast við nafn borg­ar­innar sem Abudi ólst upp í, Mósúl, vegna þess að þar brut­ust blóð­ugir bar­dagar út á milli stjórn­ar­hers­ins, skæru­liða­hópa og sveita hryðju­verka­sam­tak­anna Ríkis íslams (IS­IS) árið 2014. Bar­dagar sem end­uðu með því að ISIS náði að ræna völdum í borg­inni.

Allt breytt­ist til hins verra.

Þetta ófremd­ar­á­stand átti sér aðdrag­anda og Mósúl hafði verið víg­völlur stríð­andi fylk­inga með hléum í fleiri ár. ISIS hafði verið að gera sig gild­andi í norð­ur­hluta Íraks um skeið, náð yfir­ráðum yfir borgum og bæjum við landa­mærin að Tyrk­landi.

Haustið 2016 hófst orr­usta um að koma Mósúl aftur undir stjórn írakskra stjórn­valda. Hún stóð mán­uðum sam­an, allt fram á mitt sumar árið eft­ir. Þús­undir féllu. Heilu borg­ar­hlut­arnir voru lagðir í rúst. Fólk var dregið út úr húsa­rústum oft dögum eftir að sprengj­urnar féllu. Sumt enn á lífi. Flest dáið.

Íbúar urðu inn­lyksa í borg­inni, særð­ust í loft­árásum án þess að eiga mögu­leika á að kom­ast undir lækn­is­hend­ur. Þurftu að horfa upp á ást­vini sína deyja – af sárum sem undir öðrum kring­um­stæðum hefðu ekki þurft að vera ban­væn.

Á þessum tíma var Abudi far­inn. Flú­inn. „Ég á erfitt með að tala um það sem gekk á,“ segir hann lágt. Lítur út um glugg­ann. „Það voru hræði­legir hlut­ir.“

Áður en hann flúði seg­ist hann tvisvar hafa lent í fang­elsi. Þar varð hann fyrir ofbeldi. Í seinna skiptið var hann hand­tek­inn af víga­mönnum ISIS. Varð vitni að pynt­ing­um, sá fólk deyja í sprengju­árás­um. Missti vini og kunn­ingja. Var inni­lok­aður með skæru­liða á aðra hönd og víga­menn ISIS á hina.

Undan þessu flúði hann. Fyrst til Kúr­distan þar sem hann vann um tíma á veit­inga­húsi og gat safnað pen­ingum til að flýja til Tyrk­lands þar sem hann dvaldi í tvö ár. Árið 2017 hélt hann flótt­anum áfram og end­aði í flótta­manna­búðum á grísku eyj­unni Les­bos.

„Ég var hepp­inn að kom­ast frá Írak,“ segir hann. „Ef ég hefði ekki flúið hefði ég verið drep­inn í stríð­inu. Líf mitt hófst í stríði í Írak en end­aði í óvissu í Grikk­land­i.“

Abudi hefur verið á flótta í rúmlega átta ár. Hann hefur dvalið á Íslandi í sextán mánuði en má eiga von á því að vera vísað úr landi hvað úr hverju.
EPA

Abudi sótti um alþjóð­lega vernd í Grikk­landi. Er hann hafði dvalið í flótta­manna­búð­unum um hríð var honum sagt að fara til meg­in­lands­ins og fá papp­írana sína. Komið væri að næsta skrefi í því að fá vernd.

Hann hafð­ist við í hús­næði fyrir hæl­is­leit­endur á vegum stjórn­valda á tíma­bili en er hann fékk loks tíma­bundið dval­ar­leyfi missti hann allan þann stuðn­ing sem hann hafði haft sem hæl­is­leit­andi. Honum var vísað út úr íbúð­inni, hrör­legu hús­næði en hús­næði engu að síð­ur, og sviptur smá­vægi­legum bótum sem hann hafði fengið mán­að­ar­lega.

Alls­laus

Hann var á göt­unni. Pen­inga­laus og atvinnu­laus. Án skil­ríkja til að ferð­ast út fyrir Grikk­land líkt og hann hafði sótt um og átti von á. Á þeim urðu tveggja ára taf­ir.

Hann reyndi að finna vinnu. En það var ómögu­legt, segir hann, enda atvinnu­leysi mik­ið. „Grikk­land er vissu­lega Evr­ópu­land en það er ekki góður staður fyrir flótta­fólk.“

Hann var ítrekað áreittur af lög­regl­unni. Stöðv­aður marg­sinnis og beð­inn að sýna skil­ríki – gögn um að hann mætti dvelja í land­inu. Hann vissi aldrei hvað tæki við næsta dag eða dag­inn þar á eft­ir. Óvissan var algjör.

Hann flakk­aði milli borga og bæja. Svaf þar sem því var við­kom­ið. Í almenn­ings­görð­um. Úti undir berum himni. Upp­lýs­ingar um staði þar sem hægt var að halla höfði gengu á milli flótta­fólks­ins.

Hversu margar voru þessar næt­ur?

Hann dregur djúpt and­ann. Hristir haus­inn. „Marg­ar. Ég get ekki talið þær.“

Flóttamenn neyðast margir hverjir til að hafast við á götum borga Grikklands.

Abudi komst í sam­band við þýsku mann­úð­ar­sam­tökin IHA sem aðstoða flótta­fólk á Grikk­landi. Hann vann um hríð sem sjálf­boða­liði hjá þeim og einn dag­inn, er hann sá fram á nótt á göt­unni, hringdi hann í þau, nið­ur­brot­inn. „Þau spurðu mig hvað væri í gangi og ég sagði þeim: Ég er kom­inn á göt­una. Ég stóð á strætó­stoppi­stöð með bak­pok­ann minn. Þau sögðu mér að hafa ekki áhyggj­ur, að ég gæti verið hjá þeim þar til ég fengi ferða­skjölin mín.“

Þegar hann sótti um alþjóð­lega vernd á Grikk­landi seg­ist hann alls ekki hafa vitað hvað biði hans. Að hann yrði atvinnu­laus og hús­næð­is­laus. Á ver­gangi og í lífs­hættu.

Um leið og hann loks fékk ferða­skjöl­in, flótta­manna­vega­bréf, ákvað hann að yfir­gefa Grikk­land eftir að hafa dvalið þar í þrjú ár. Aðstæður þar höfðu ekk­ert breyst og hann taldi víst að þær myndu aldrei breyt­ast. Og hann ákvað að fara til Íslands.

En af hverju Íslands?

Hann hafði kynnst Írum á Grikk­landi og ræddi við þá um hvar hann gæti hafið nýtt líf. Ísland kom til tals. Írarnir höfðu sagt honum að þar væri nú heldur kalt fyrir mann sem alinn var upp í Írak. „En mér var alveg sama. Veðrið skiptir mig engu. Ég vil bara fá frið.“

Frans páfi heimsótti flóttamannabúðir á grísku eyjunni Lesbos í lok síðasta árs. Hann hvatti þjóðir heims til að búa betur að fólki á flótta.
EPA

Abudi hafði um skeið unnið sjálf­boða­liða­vinnu fyrir Alþjóða rauða kross­inn á Grikk­landi. Þar bauðst honum svo launað starf í mán­uð. Það dugði til að safna pen­ingum fyrir flug­miða. Hann fann ódýr­ustu flug­leið­ina og hún var í raun nokkuð kostu­leg: Munchen í Þýska­landi – Malta – Amster­dam – Kefla­vík.

Á áfanga­stað lenti hann loks í febr­úar árið 2021. Í miðjum heims­far­aldri. Hann gaf sig fram við lög­reglu og sótti um alþjóð­lega vernd. „Ég var kom­inn til Íslands og mér var létt.“

Abudi var til­bú­inn að leggja allt í söl­urnar til að vera á Íslandi. Hann skráði sig fljót­lega í íslensku­nám og hóf sjálf­boða­liða­starfið í Rauða kross­búð­inni. Lærði heima alla daga. Æfði sig.

En íslensk yfir­völd voru ekki á því að leyfa honum að búa hér. Þar sem hann væri með vernd í Grikk­landi ætti hann, lögum og reglum sam­kvæmt, að snúa þangað aft­ur. Sem fyrst. Það var nið­ur­staða Útlend­inga­stofn­un­ar. Það var nið­ur­staða kæru­nefndar útlend­inga­mála. „Ég var alltaf von­góður um að fá að vera á Ísland­i,“ segir hann. „Vegna alls sem ég hef gengið í gegn­um.“

Það sem hann hafði gengið í gegnum var hins vegar ekki nóg til þess að mál hans yrði tekið til svo­kall­aðrar efn­is­með­ferð­ar. Það þýðir að yfir­völd hér fara ekki yfir allt mál hans, frá­sagnir hans frá Írak. Ítar­lega yfir allar þær aðstæður sem hann hefur þurft að þola – bæði á flótt­anum og fyrir hann. Grikk­land sé vissu­lega ekki full­komið land fyrir flótta­fólk, atvinnu- og hús­næð­is­mark­að­ur­inn sé sann­ar­lega með þeim hætti sem Abudi lýsi. En að það sé engu að síður í huga yfir­valda öruggt ríki.

„Það er mat Útlend­inga­stofn­unar að ekki séu fyrir hendi sér­stak­lega sann­fær­andi mann­úð­ar­á­stæður sem mæla gegn end­ur­send­ingu í þessu máli,“ segir í nið­ur­stöðu Útlend­inga­stofn­unar í máli hans. „Telur stofn­unin að ekki hafi verið sýnt fram á að horfur umsækj­anda, að því er varðar aðbúnað á Grikk­landi eða heilsu­far, séu með þeim hætti að raun­veru­leg hætta geti talist á því að hann mæti erf­ið­leikum af því alvar­leika­stigi að falli undir 3. gr. [laga um útlend­inga]. Er það því mat stofn­un­ar­innar að ein­stak­lings­bundnar aðstæður í þessu máli séu ekki til staðar þannig að end­ur­send­ing til Grikk­lands verði talin eða verði jafnað til ómann­úð­legrar eða van­virð­andi með­ferð­ar.“

Lögreglumenn komu í íbúð Abudi í síðustu viku. Hann sagðist ekki geta skrifað undir pappírana sem þeir höfðu meðferðis.
Bára Huld Beck

Abudi var heima hjá sér í síð­ustu viku er það var bankað og inn komu tveir lög­reglu­menn. Þeir voru með skjal sem þeir vildu að hann skrif­aði und­ir. Það var komið að því að fram­kvæma brott­vís­un. „Ég var nývakn­að­ur. Sá þessa tvo lög­reglu­menn og hélt að eitt­hvað alvar­legt hefði ger­st,“ rifjar hann upp.

Hann sagð­ist vilja hafa sam­band við lög­fræð­ing. Og skrif­aði ekki und­ir. „Ég bað þá að senda mig ekki út í dauð­ann. Þeir sögð­ust vera að vinna vinn­una sína. En þetta snýst um líf mitt og ég get ekki skrifað undir minn eigin dauða­dóm. Það er erfitt fyrir þá sem ekki hafa upp­lifað þetta að skilja hvað bíður mín. Erfitt fyrir aðra að skilja að ég kem úr allt öðrum raun­veru­leika. Fyrir ein­hverjum er þetta fjar­lægt eins og kvik­mynd. En þetta er lífið mitt.“

Heim­sóknin hafði svo mikil áhrif á Abudi að eftir að lög­reglu­menn­irnir voru farnir mundi hann fyrst í stað ekki hvað þeir hefðu sagt. Hvað þeir voru að gera þarna inni á gólfi í íbúð­inni. Hann fyllt­ist ennþá meira óör­yggi. „Ég hef átt mjög erfitt líf. Og get búist við hverju sem er.“ Engu að síður var heim­sóknin nokk­urt áfall.

Brott­vís­unin

Yfir­völd segja hann í „ólög­legri dvöl“ á Íslandi. Að hann hafi neitað að fara. Jafn­vel þótt engar brott­vís­anir til Grikk­lands hafi verið frá því að nið­ur­staða í máli hans lá fyrir vegna heims­far­ald­urs COVID-19. Jafn­vel þótt hann hafi dvalið hér mikið lengur en í tólf mán­uði sem á að þýða að taka skuli mál hæl­is­leit­enda til efn­is­með­ferð­ar.

Til stóð að hefja fram­kvæmd á brott­vís­unum tæp­lega 200 flótta­manna í vor. Almenn­ingur reis upp, gagn­rýndi það harð­lega. Í hópnum væri fólk sem hefði dvalið hér lengi og því myndað tengsl við land­ið. Brott­vís­un­unum var frestað á meðan málið var rætt frekar, m.a. á Alþingi.

Abudi er brosmildur að eðlisfari. Hann segist hins vegar oft sorgmæddur, sofa illa og vera kvíðinn.
Bára Huld Beck

En nú stendur til að hefja aðgerðir að nýju. Engu virð­ist eiga að breyta að í sept­em­ber verður tekið fyrir mál í hér­aðs­dómi sem gæti orðið próf­mál fyrir allan þennan hóp. Þetta er mál Palest­ínu­manns sem líkt og svo margir hafði fengið vernd í Grikk­landi, sagði aðstæður þar óboð­legar og lífs­hættu­leg­ar. Engu að síður átti að senda hann þangað en vegna heims­far­ald­urs­ins frestað­ist brott­vísun mán­uðum sam­an.

Abudi seg­ist eiga erfitt með að skilja af hverju yfir­völd ætli ekki að bíða með brott­vís­anir þangað til nið­ur­staða fæst í það mál.

Það sem hann ótt­ist allra mest er að verða sendur frá Grikk­landi til Íraks. Hann telur það raun­veru­legan mögu­leika þar sem dval­ar­leyfi hans á Grikk­landi sé útrunn­ið. „Kannski verður mér vísað til Tyrk­lands. Og hvað tekur þar við?“ segir hann. „Írak.“

Svart­hol eða dauði

Hann lýsir því sem hann hefur upp­lifað eins og að fara úr svart­holi og út í dauð­ann. „Svart­hol. Dauði. Svart­hol. Dauði. Þannig var þetta. Ég hef alltaf hugsað að einn dag hlyti þetta að verða betra. Að ég muni öðl­ast frið og örygg­i.“

Úti er glaða­sól­skin. Það er fagur dagur í Reykja­vík. Sól­eyja­breiður teygja sig til him­ins í húsa­görð­um. Og blóm­strandi tré. Þetta er annað sum­arið hans Abudi á Íslandi. En hann seg­ist lít­inn mun sjá á sól­ar­dögum og öðr­um. Sumri eða vetri. Hugur hans er upp­fullur af svo mörgum alvar­legum hlut­um. Slæmum minn­ing­um. Minn­ingum sem halda fyrir honum vöku og valda honum kvíða.

„Ég reyni auð­vitað að vera bjart­sýnn,“ segir hann og bros­ir. „Ég hef enn von. Ég verð að hafa hana. En mér finnst stundum eins og dauð­inn elti mig.“

Á morgun gæti verið bank­að.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal